Af þjóðskáldinu, þjóðernisrómantík, Gvendi eilífa og auði Íslendinga
3.1.2008 | 18:32
Ritað við tveggja alda afmæli Jónasar Hallgrímssonar
Það eru 300 milljón konur Kína en það er ekki nóg að sjá, maður verður að fá Þessi einstaka speki er höfð eftir árneskum lífskúnstner og sérvitringi, Guðmundi heitnum eilífa sem margir miðaldra og eldri menn hér austanfjalls muna eftir. Guðmundur gekk einn sinn æviveg og hefur á köflum þótt það súrt eins og ofanrituð ummæli benda til þó máske hafi þetta nú verið það líf sem hentaði honum mætavel.
En því er ég að byrja umfjöllun um þjóðskáldið Jónas á tilvitnun í einn okkar minnstu bræðra úr Flóanum að hér er betur en oft færður í orð sú greining að ekki er nóg að koma auga á vandann og lausn hans, það þarf galdurinn til að koma þessu tvennu saman. Vandanum og lausninni. Í nútímanum eru skrifaðar um þetta vandamál langar skýrslur sem þó segja minna en Gvendi eilífa tókst að segja í hálfri setningu.
Gvendur eilífi
Fæddur í þróunarlandi
Jónas Hallgrímsson var fæddur í vanþróuðu fátæku landi þar sem þegnarnir vissu sig versta og lúsugasta allra heimsbyggjara og tæpast með mönnum taldir. Þegar Hollenskum ævintýramönnum þóknaðist að herleiða þá til þrældóms suður í Alsír töldu sumir sig hólpna og happadrengi svo mjög að þeir afþökkuðu að vera leystir úr prísundinni. Þegar hjólbörur komu fyrst til landsins báru menn þær millum sín og það leið öld ár frá fæðingu Jónasar til þess að íslenskir bændur væru almennt farnir að skilja nytsemi hjólsins.
Afar Jónasar og ömmur höfðu fyrir satt að þeir töluðu danska tungu, afbakaða að vísu en danska samt og á þeirra tíð veltu menntamenn landsins því fyrir sér að taka upp ritmál dana til þess að víkka hér sjóndeildarhring þjóðar sem hafði hvort sem er ekki efni á að prenta upplýsingarit sinnar aldar og vissi engan sérstakan tilgang með því annan en óhagræðið að tala nesjamál það sem hér var. Talsmenn tvítyngis og þess undirlægjusamasta í alþjóðavæðingu mættu margt sækja í smiðju 17. og 18. aldar Íslendinga þó í þá tíð hafi meira verið horft til dönsku en ensku sem samt engu skiptir. En Jónas var ekki þar.
Raunar er ekkert auðvelt að skilja það land sem Jónas Hallgrímsson yfirgaf 1832 og kom raunar ekki aftur til nema sem gestur og sendimaður danskra embættismanna í sumarferðum eftir það. Það var ekki bara að land þetta væri harla ólíkt Danmörku í náttúrufari og veðráttu. Það var algerlega framandi og frumstæður menningarheimur og væri flestum okkar nútíma Íslendingum óskiljanlegt land. Land þar sem erlendir ferðamenn treystu sér illa til að gista í hýbýlum manna og relluðu gjarnan um að fá frekar að sofa í köldum kirkjuhúsum sökum óþrifnaðar, ólofts og meindýra í hinu rómaða baðstofulífi. Og þjóðin sem bjó við þessar aðstæður vissi vel upp á sig eymdina og skömmina. Jónas best.
Hirðingjarnir mínir í Barbaríinu.
Með bændum í Barbaríinu
Fyrir nokkrum árum var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast fátækum sauðfjárbændum í Barbaríinu, nánar tiltekið í Atlasfjöllunum í Marokkó og held að þar hafi ég komist næst því að skilja 18. aldar Íslendinga. Þar blandaðist saman sem undarlegum hætti stolt yfir að vera berbi og fjallabóndi en um leið sannfæring fyrir því að verra gæti hlutskiptið eiginlega ekki orðið. Landið var hrjóstrugt og vont, lífið hart og miskunnarlaust og svo óendanlega fjarlægt sápuveröld alheimsins sem fólk þetta hafði séð glimt af í gegnum sjónvarpsskjái eyðimerkurkaupstaðanna. Ekkert sjónvarp í sveitinni.
Meðan ég staldraði við í hýbýlum þessa fólks var húsfreyjan að gera slátur með harla líkum hætti og við gerum hér heima en hreinlætisstigið á eyðimerkursandinum nær því sem var á dögum Jónasar en nú. Þjóðarstolt þessa fátæka fólks virtist mér sært svo djúpu og blæðandi sári að ekkert fengið þeir um bætt. Ég ætla ekki að hætta mér djúpt ofan í pælingar um samtímann en vitaskuld er það í þessum andstæðum sem upp spretta öfgahreyfingar eins og Al-Kaída og liðsmenn hins heilaga stríðs. Við fengum Jónas.
Spegillinn og þjóðhyggjan
Sálfræðingar og aðrir nútímalegir þerapistar sem fá það verkefni að púsla saman brotinni sjálfsmynd einstaklinga nota oft til þess undarlegar aðferðir. Ein af þeim vinsælli er að fá fólk til þess að brosa í spegil og segja við sjálft sig, þú ert fallegur, þú er æði eða aðra álíka rökleysu. Nú er mikill minnihluti fólks til muna fallegur og bros lagar stundum minna en ekkert. Á ekki hvað síst við um það við um vandamálafólkið sem lendir hjá þerapistunum, eða hvað?
Það má velta því fyrir sér hvort ekki væri nær að fólk þetta hefði upp á vegg hjá sér mynd af Jóni Travolta eða fagureygri kryddpíu og brosti til hennar. En sálarnir eru vissir í sinni sök að það myndi ekki virka, hinn tannlausi, gráhærði og geiflaði á að brosa framan í eigið smetti. Það er þeirra galdur - lukkast með suma en aðrir halda áfram að horfa á fyrirmyndina Travolta og lagast aldrei.
Galdur Jónasar var sá sami og það var galdur sem lukkaðist öfugt við það sem gerst hefur í góðri helft þeirra ríkja sem voru álíka vanþróuð fyrir hálfri annarri öld síðan. Víðast hvar hefur Travolta aðferðin verið notuð, aðferð fyrirmyndanna og eftirbreytninnar í stað aðferðar sjálfstyrkingar og uppbyggingar.
Öfugt við þá sem stundum leggja leið sína til hjálpar berbunum í Atlasfjöllum og koma eins og marsbúar af kontórum í Evrópu þá var Jónas hluti af íslenskri alþýðu, hold af hennar holdi, blóð af hennar blóði og gat talað innanfrá. Hann gat verið þessi spegill sem hinum utanaðkomandi aldrei tekst að vera.
Hinir ódælu og jafnvel óvinsælu Fjölnismenn.
Drykkfelldur fabúlusmiður
Sauðdrukkinn úti í hrauni lá Hallgrímsson Jónas og hraut eins sögunarverksmiðja í Brasilíu, yrkir 20. aldar skáldið Megas um skáldbróður sinn en í raun og veru var það ekki kennderíið sem þjóðinni blöskraði á 19. öld, ekki ef eitthvað er að marka skýrslur Harboes og æviskrár Páls Eggerts sem gefa báðir í skyn að alkóhólismi hafi verið útbreiddur meðal allra sem höfðu efni á að vera alkar. Að ekki sé nú verið að gera viðkvæmum sálum þá skráveifu að vitna í aldarfarslýsingar Friðriks Eggerts prests á Ballará þar sem fyrirmenni verða sér reglulega til skammar á fylleríum. Og Jónas var þar.
Það sem konunghollum og menntuðum, sigldum Íslendingum blöskraði að vonum var sú endemis fabúla rómantíkeranna að hér væri allt fegurst og best, fortíðin glæst, fjöllin listaverk og smjör af hverju strái. Menntaðir Íslendingar þess tíma vissu að þetta var skröksaga og skildu ekki tilganginn með slíku skröki. En Jónas vissi það og enginn skyldi ætla að hans náttúrudýrkun og málvöndunarpólitík hafi verið meiningarlaust hjal eða skrök án tilgangs.
Ísland farsælda frón og hagsælda hrímhvíta móðir... hagsælda hvað. Hvaða hagsæld er í landi þar sem ekki einu sinni hægt að rækta korn og eimyrja Skaftárelda nýbúin að leggja stór landsvæði í auðn. Vorum við ekki rétt að tala um að best væri að flytja þjóðina á jósku heiðarnar...
Teikning úr safni Eggerts Ólafssonar.
...enga langar útum heim að blína!
Jónas var reyndar ekki fyrstur,- en hann var samt fremstur. Hann átti sér sporgöngumann, (auðvitað átti hér að standa "forgöngumann", leiðr.5.1.´08) undanfara eins og frægur ræðumaður suður í Palestínu árum fyrr. Sporgöngumaður Jónasar var raunar langt á undan sinni samtíð og átti það sameiginlegt með Jónasi að deyja ungur. Þetta var rómantíkerinn Eggert Ólafsson sem kom heim frá námi í Kaupmannahöfn með slíkja glýju í augum gagnvart landinu að mér er til efs að nokkur hafi þar komist með tærnar í hans skófar. Það er ekki bara sumarið sem er gott á Íslandi...
Veturinn þó vari lengi,
við hann semur öllu mengi;
kulda gefur iðjan engin
undir skemmtun lesarans;
útum sveitir Ísalands
vakan líður, volgt er engi,
viður lauga kvína;
enga langar útum heim að blína.
Það er með öðrum orðum svo gott að vera á Íslandi að það getur engan þaðan langað til útlanda og þeim sem vinnur verður ekki kalt í vetrarfreranum. Það eru þá til heitar laugar. Mest og mögnuðust er þó matarást Eggerts á landinu sem fjöldi kvæða hans fjallar um frægast þar kvæði sem hefst á vísuorðunum:
Ef þú étur ekki smér,
eða það sem matur er,
dugur allur drepst úr þér,
danskur íslendingur.
Fyrir okkur er þessi vísa ekkert merkileg sem lifum nú löngu eftir að danahatur er farið og búið og tilheyrir einhverri óskilgreindri fortíð eins og sumt í þeirri þjóðrembu sem hér kemur fram. En á tímum Eggerts Ólafssonar tilheyrði þetta tvennt, þjóðremban og danahatrið ekki fortíð og ekki heldur nútíð heldur einhverri alveg óskilgreindri framtíð og þessvegna er öll hugsun Eggerts Ólafssonar, öll hans framsýni stórmerkileg og miklu merkilegri en skáldskaparhæfileikar hans sem þó eru í ágætu meðallagi íslenskra þjóðskálda.
Nú má auðvitað velta því fyrir sér hvað sé svona merkilegt við þjóðernisrómantík eða gott við danahatur á Íslandi á 18. öld. En hvorutveggja var einmitt angi af þeirri aðferð sem sálfræðingarnir nota í þerapíum 21. aldarinnar að telja fólki með góðu eða illu í trú um eigið ágæti. Spegilstæknin. Matarást Eggerts á landinu var vitaskuld áróðurstæki þess tíma þegar þjóðin svalt hálfu hungri og sá að vonum fyrir sér að til væri betri veröld með öðrum þjóðum og þeirra mat. Eggert hélt nú ekki:
En sætindum annarra ríkja
aldrei skal við þetta líkja
eigurnar þau af oss svíkja
orsök gerast heilsubanns...
Góðmenni með ranga skoðun
Vitaskuld var Eggert ekki bara fornlegur þjóðernissinni heldur um leið heimsborgari eins og líka Jónas. En það átti fyrir þessum framsýna manni að kemba hærurnar. Eggert Ólafsson drukknaði í Breiðafirði árið 1868 og varð því ekki sá andlegi leiðtogi sem þjóðin þurfti. Í staðin féll sú forysta í hendur manni sem sá veröldina allt öðrum augum, upplýsingaleiðtoganum og alþjóðasinnanum Magnúsi Stephensyni sem leiddi yfir þjóðina margar nytsamlegar hugmyndir vísinda og framfara sinnar aldar og var óþreytandi lærimeistari, bókaútgefandi og áróðursmaður. En með ranga skoðun.
Það eru heimildir fyrir því að Magnús Stephensen hafi velt því fyrir sér að gefa út eitthvað af miðaldabókmenntun Íslendinga en komst að því að bókmenntir þessar væru hvorki gáfulegar né uppbyggilegar. Hann heyrst seint og snemma lofa allt hið útlenska og menntaða en skynjar ekki annað í umhverfi sínu en hrjóstrið og menntunarleysið. Hann er með öðrum orðum lærimeistarinn sem segir þjóðinni að brosa framan í fyrirmyndina, ekki í spegilinn. Magnús hafði skömm á fornaldardýrkun og þjóðræknishugsun og dó árið 1833, rétt áður að Fjölnir byrjaði að koma út. Þá skilningsvana á þann samtíma sem var að hellast yfir.
En til þess að öllu sé til skila haldið sem sanngjarnast er að þá var Magnúsi vitaskuld margt vel gefið. Hann var vísast góðmenni, allavega mildur í refsingum, talsmaður hrossaketsæta og átti í dómstörfum sínum í eilífu stríði við rómantíkerinn Bjarna Thorarensen sem var refsiglaður og uppskrúfaður gagnvart almúganum. En það er aukaatriði þessa máls - nema bara til að koma því á framfæri að hin pólitíska mynd er langt því frá að vera svarthvít mynd af hinum réttsýna og hinum rangstæða,- þannig er hugmyndasagan aldrei sem betur fer.
Magnús Stephensen.
Dýrmæt uppskrift að velmegun
Nú mætti ætla að þeir Jónas og Eggert og aðrir talsmenn þjóðernisrómantíkur hefðu notað hólið eitt til þess að upphefja íslenska þjóð og það er næsta einföld uppskrift. Við skulum hafa það hugfast að ef einhver gæti skrifað uppskrift þessara manna niður þá mætti með henni bjarga öllum þriðja heiminum frá vesöld. Það sem hér gerðist var ekkert minna en það að skelfilega fákæn, fátæk, fámenn og raunverulega fáfengileg eyþjóð stökk úr því að vera öftust og vanþróuðust allra þjóða yfir í það að vera fremst í efnum, menntun, velsæld og hverju sem nafni þarf að nefna. Með Jónasi.
En uppskrift þessara manna var ekkert einföld, ekki frekar en vel heppnað uppeldi og einkenndist jöfnum höndum af blóðugum skömmum og upphöfnu hrósi, mikilli tilfinningasemi og oftar en ekki harla litlu raunsæi. Eða hvaða skoðun stenst það að Íslendingar 18. aldar hafi ekkert til útlanda að sækja, þurfi nú ekki á það að blína!
Megas síns tíma!
Skammirnar fylgdu þessum tveimur boðberum þjóðfrelsisins eins og skugginn. Eggert yrkir um íslenska bændur og kallar þá sudda drunga daufa anda" en Jónas lýkur kvæði sínu um Ísland farsælda frón á orðunum:
Ó þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir
Svona er feðranna frægð, fallin í gleymsku og dá.
Fátækt og hungur, áður
hlutskipti okkar
Íslendinga en nú aðeins
þekkt af erlendum fréttamyndum!
Skammirnar voru raunar oft svo yfirgengilegar að yfirstéttin móðgaðist og tók upp þykkjuna fyrir almúgann. Fjölnir varð frámunalega óvinsæll og stundum alveg með réttu því þeim mönnum sem gáfu hann út var ekkert heilagt. Vógu jafnt vini sem óvini þegar sá gállinn var á þeim, réðust á rímurnar og bændurna, vinnuhjúin og flakkarana, fátæka og ríka, lærða og leika. Þóttust allt mega og lágu svo fullir sjálfir suður í heimsborginni. Settu sér í yfirlæti það markmið að tala svo skildist, tala skýrt eða með orðum Fjölnis:
Ennfremur verða menn að varast að taka mjög dauft til orða...
Jónas og hans félagar vissu að tungumjúkir eiga það til að ná langt í augnablikinu en orð þeirra gleymast fljótt. Ekkert var fjær skáldum þessum en að tala upp í eyrun á fólki og stundum var eins og tilgangur þeirra hafi þvert á móti verið að vekja hneykslan og reiði svo þjóðin mætti vakna. Hafa uppi ólíkindaraus og fyndni sem engan veginn var líklegt að þjóðin var tilbúin að meðtaka. Þetta hafa stórskáld iðkað á öllum tímum og enginn betur í nútímanum en fyrrnefndur Megas. Það er Jónas en ekki Megas sem yrkir, líklega norður í Jökulfjörðum:
Megas.
Þegar þú kemur þar í sveit,
sem þrímennt er á dauðri geit,
og tíkargörn er taumbandið
og tófuvömb er áreiðið,
og öllu er snúið öfugt þó
aftur og fram í hundamó,
svo reiðlagið á ringli fer
og rófan horfir móti þér, -
veittu þeim draugi blundarbið,
bölvaðu ei né skyrptu við,
en signdu þig og setztu inn
sunnan og fram í jökulinn,
lúttu þar að, sem loginn er,
og láttu bráðna utan af þér,
og seinna, þegar sólin skín,
sendu geisla með boð til mín.
Svona gat Jónas verið.
Tómas Sæmundsson.
Mun áorka undir grænni torfu!
Af samtímaheimildum er ljóst að oft voru menn meira forviða en reiðir gapuxum Fjölnis og vitaskuld fór það svo að skáldið Jónas sá aldrei raunverulegan árangur verka sinna og þá ekki Eggert. Það er einhversstaðar sagt að þeir deyi ungir sem guðirnir elska og getur vel verið rétt. Íslensk þjóð var enn sami trantaralýðurinn árið 1845 þegar Jónas kvaddi þennan heim fótbrotinn og vonsvikinn. En ljóð hans lifðu og gátu af sér önnur ljóð, önnur skáld sem fetuðu í fótspor hans og héldu áfram að predika náttúrufegurðina, þjóðræknina, fornaldarfrægðina og skammirnar. Það hefur á Jónasi sannast sem hann sjálfur skrifar um vin sinn Tómas Sæmundsson látinn:
Það er óséð hvurju hann hefur áorkað og mun áorka Íslandi til viðreistar þótt hann sé nú undir grænni torfu...
Jónas gerir hér réttilega ráð fyrir að áhrif Tómasar og Fjölnis nái út yfir gröf og dauða Fjölnismanna og hefur þar rétt fyrir sér. Líklega hafa fá tímarit íslensk átt jafn erfitt uppdráttar á útgáfutíma sínum og ekkert haft samt jafn afdrifarík áhrif á menningu og sögu þjóðarinnar. Og það er von að þeir sem unnu með aðferðum þeirra Fjölnismanna hafi oft verið vonsviknir og særðir. Þeirra eigin stríðlyndi skall til baka í þeirra andlit. Slíkt er öllum tímum hlutskipti brimbrjóta samtímans.
Á stórum skammti af Jónasi
Jónas hafði uppi lof um fortíðina og skammir á samtíðina þegar hann yrkir Gunnarshólma í heimsókn hér austanfjalls. Áratugum síðar kemur ungur og gopalegur guðfræðingur í fyrsta sinn austur fyrir fjall og finnst nóg um fátæktina enda yrkir hann staddur í Þykkvabænum:
Þar sem akrar engi prýddu
velta nú vötn og valda auðnum
Þar sem kynstórir kappar léku
sofa nú hrossætur á hundaþúfum.
Og skáldið sem seinna varð hefðarklerkur í Odda bætir því við í óbundnu máli að Þykkbæingar samtímans séu klofstuttir, kiðfættir, ferstrendir og fjólubláir.
Ef við sjáum þetta án samhengis sögunnar er auðvitað hægt að spyrja í fánahætti á hverju maðurinn sé að láta svona en við vitum betur. Við vitum að hans vímugjafi er Jónas og sá andi sem hann gefur skáldum langt
fram á 20. öld og aftur á þeirri 21.
Matthías er á stórum, mjög stórum skammti af Jónasi.
Matthías Jochumsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2008 kl. 21:40 | Facebook
Athugasemdir
Gleðilegt ár Hreppamaður og takk fyrir marga góða spretti á liðnu ári. þakka líka þennan skemmtilega pistil,-en
þú segir að Eggert Ólafsson hafi verið "sporgöngumaður" Jónasar!
Hvað sagði nú aftur Árni Mathiesen um mismælin?
Árni Gunnarsson, 4.1.2008 kl. 16:07
Gleðilegt ár Tungnamaður og Laugvetningur! Þú ert flottur í þjóðfræðinni, en nú vil ég fara að fá hnitmiðuð innlegg um erindi Framsóknar við nútíð og framtíð. Gletni, húmor og rök geta oft myndað skemmtilega blöndu hjá þér í pistlum.
Gunnlaugur B Ólafsson, 5.1.2008 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.