Framsóknarmenn ekki í vegi fyrir Helguvíkurálveri

Það er merkilegur tvískinnungur í málflutningi þeirra Sjálfstæðismanna sem hvetja í öðru orðinu til samstöðu um uppbyggingu Helguvíkurálvers og búa sér svo til ímyndaða óvini í öðrum flokkum. Staðreyndir málsins eru þær að Framsóknarflokkurinn hefur ekki lagst gegn uppbyggingu álvers í Helguvík og mun ekki gera. Verkefni Sjálfstæðismanna og einkanlega þeirra sem sitja við ríkisstjórnarborðið er að ná samstöðu um málið við Samfylkingu og skapa þær aðstæður í þjóðarbúskapnum að fært sé að ráðast í verkefnið. helguvik

Í stað þess að sinna því verkefni hefur aðstoðarmaður fjármálaráðherra varið tíma sínum í að gera varnaðarorð undirritaðs, Helgu Sigrúnar Harðardóttur og formanns okkar Guðna Ágústssonar tortryggileg. Slíkur málflutningur er Suðurnesjunum örugglega ekki til framdráttar hvað sem líður hagsmunum Sjálfstæðisflokksins.

Varað við þenslu

Við Framsóknarmenn höfum frá valdatöku ríkisstjórnarinnar varað við þeim lausatökum og bruðli sem er í ríkisfjármálum þar sem ríkisútgjöld hafa vaxið meira milli ára en sést hefur frá því á verðbólguárunum. Sömuleiðis er hlutfall ríkisins af vergri þjóðarframleiðslu orðið meira en verið hefur um langt árabil. Ríkisstjórninni verður vitaskuld ekki kennt um þá alþjóðalegu kreppu sem nú er á hlutabréfamörkuðum. En stjórnleysið hefur gert okkur erfiðara fyrir að mæta hinum efnahagslega óstöðugleika og spennt upp bæði vexti og verðbólgu.

Frumskilyrði þess að hægt sé að ráðast í stóriðjuframkvæmdir í landinu og það jafnvel tvær í senn er styrk og ábyrg efnahagsstjórn. Henni er ekki til að dreifa og má þar vitna til ítrekaðra varnaðarorða Seðlabanka Íslands sem þó telst nú engin Framsóknarstofnun. Í umtöluðu útvarpsviðtali við formann Framsóknarflokksins benti Guðni Ágústsson formaður flokksins á þetta og að höfuðverkefni ríkisstjórnarinnar væri að ná niður verðbólgunni. Fyrr væri varla ráðlegt að taka skóflustungu að Helguvíkurálveri.

Verkefni stjórnarflokkanna

Reyndar þarf ríkisstjórnin að gera fleira til að af álversuppbyggingu geti orðið og það vita forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ sem kjósa að nota álversmálið til flokkspólitískra ýfinga á sama tíma og þeir tala um nauðsyn samstöðunnar! Umhverfisráðherra hefur nú á borði sínu að setja nýtt umhverfismat allra mannvirkja sem tengjast Helguvík í gang. Slík ákvörðun getur tafið álversuppbygginguna verulega.

Þá hafa afleikir í málefnum Hitaveitu Suðurnesja orðið til þess að skapa óeiningu meðal sveitarfélaga á svæðinu án þess að hér sé farið djúpt í þann mikla farsa. Stofnun Suðurlinda með skilyrðum um að orka á austanverðum Reykjanesskaga verði ekki flutt vestur fyrir Strandarheiði er ekki líkleg til liðka fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Þar hafa forsvarsmenn Reykjanesbæjar mikið og þarft verk að vinna í að ná mönnum saman að nýju.

Í þriðja lagi þarf ríkisstjórnin að móta stefnu varðandi losunarkvóta sem eru frumforsendur þess að hér sé hægt að nýta áfram okkar umhverfisvænu orkulindir.

Engir af þeim þröskuldum sem hér hafa verið nefndir eru á ábyrgð Framsóknarflokksins en flokkurinn hefur aftur á móti stutt þetta verkefni eins og önnur sem tengjast atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Nægir þar að vísa til ágætrar greinar Eysteins Jónssonar bæjarfulltrúa flokksins á vef Víkurfrétta í síðustu viku.

Samstaða fyrir öllu

Þrátt fyrir orðahnippingar hygg ég að við Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi og aðstoðarráðherra séum sammála um fleira en það sem í sundur skilur. Ég er líkt og hann sannfærður um að línulögn eftir Reykjanesskaga getur ekki orðið raunverulegur þröskuldur framkvæmda þegar til lengdar lætur.

Og ég er líka sammála því að ef hér horfir í alvarlega kreppu á vinnumarkaði getur álversuppbygging í Helguvík verið mikilvægt skref. Ég er aftur á móti ekki svo svartsýnn að vera sannfærður um að sú kreppa sé komin og vara við því að við höldum áfram að hafa atvinnulíf á Suðvesturhorninu yfirspennt með tugþúsunda innflutningi starfsfólks á ári hverju. Það eru vissulega váboðar á íslenskum hlutafjár- og bankamarkaði en við vitum líka af miklum kröftum í samfélaginu og ennþá er ástand þannig að íslenskur vinnumarkaður er langt því frá að vera í jafnvægi. Það þekkjum við sem erum í atvinnurekstri hér á suðvesturhorninu.

Eins og staðan er í dag er mikilvægt að við gefum Norðurálsmönnum vinnufrið til að halda sínu starfi áfram samhliða því að ríkisstjórnarflokkarnir einhenti sér að samstöðu um það hvaða stefnu þeir ætla að taka gagnvart Helguvíkurálveri. Grjótkast í átt að okkur Framsóknarmönnum er ekki bara þarflaust heldur skaðlegt verkefninu.

(Mynd af vef Reykjanesbæjar sem sýnir fyrirhugað álver. Áður birt á www.vf.is)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allir? Líka Valgerður og Birkir Jón?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 18:23

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Gott innlegg hér Bjarni. Helguvík á ekki á nokkurn hátt að koma í
veg fyrir Húsavík. Og nú hrannast hvert óveðursskýið upp á fætur
öðru. Nú síðast loðnustopp. Þannig að það er veruleg niðursveifla
í gangi , og held fáir geri sér grein fyrir hversu alvarleg hún er ef
ekki fer að rofa til á bankamarkaðinum.
Og nú er það einmitt álframleiðslan og stórvöxtur hennar á þessu
ári sem bjargar því sem bjargað verður í útflutningstekjum. Þökk
sé Framsóknarflokknum. Hvernig halda menn að ástandið væri í
dag ef ekki væri þessi mikla áframleiðsla? Sem allt bendir til að
skapi meiri gjaldeyrir í ár en fiskútflutningur. Já hvernig væri
ástandið ef afturhaldsliðið í Vinstri-grænir hefðu ráðið för?
Og nú Bjarni er að bjarga áframhaldandi svokölluðu íslenzka
ákvæðinu um losunarheimildir sem Samfylkingin ætlar að reyna að
koma í veg fyrir. Enn eeinn afturhaldsflokkurinn.. 

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 22.2.2008 kl. 21:01

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Veit ekki hvort álversuppbyggingin getur skrifast með kostum sínum og göllum á Framsóknarflokkinn. Þær stoðir sem koma í veg fyrir stóra dífu í þjóðarbúinu má rekja til Alþýðuflokksins, eins illa og mér var nú við þann flokk á sínum tíma, sveitamanninum. Það eru tveir Jónar frá Ísafirði sem voru þar frumkvöðlar. Annarsvegar Jón Sigurðsson sem setti álversmálin á skrið og Jón Baldvin sem innleiddi EES, sem er grundvöllur útrásar sem er að tryggja streymi inn í þjóðarbúið.

Nú verður ekki mikið lengra haldið með uppbyggingu álvera. Orkuveitan og Landsvirkjun hafa bæði lýst yfir áhuga á að nýta orkuna til annarra verkefna en álvera. Setja egg í fleiri körfur. Í raun hefur stóriðjustefnan eins og hún var rekin af Framsókn leitt af sér mikla þenslu og ójafnvægi. Þar sem að alltaf hefur þurft að ver tilbú in með nýjan plástur. Nú viljið þið lofa plástrum suður og norður.

Tel að það þurfi að setja einn svona skyndiplástur í viðbót því hagkerfið er ekki búiða að ná jafnvægi eftir þenslustefnuna. Annars gæti niðursveiflan orðið of stór. Það er hinsvegar af ýmsum ástæðum ekki pláss fyrir nema eitt álver á næstu árum og það finnst mér, líka af ýmsum ástæðum, eigi að rísa á Bakka við Húsavík.

Gunnlaugur B Ólafsson, 22.2.2008 kl. 22:36

4 identicon

Hversu margir teljast vera í Framsóknarflokknum,er eitthvað að marka þann örflokk?           Bjarni fín bókabúð hjá þér á Selfossi,fann bók sem ég hef verið að leita að árum saman.(í sumar).

jensen (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 23:17

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein Bjarni!!!!/við verðum að gera eitthvað þarna á báðum stöðum Helguvik og Bakka,þetta tekur langan tíma ,og það vel/eins og málum er núna komið tel eg þetta nauðsyn til framtíðar/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.2.2008 kl. 00:43

6 Smámynd: Guðrún

Vildi bara kvitta fyrir mig frændi.....hlakka til að sjá þig á ættarmóti í sumar *hug and kisses* inga frænka (dóttir Öddu Hjalta)

Guðrún, 23.2.2008 kl. 02:56

7 identicon

Hvað hefur breyst á 3 vikum frá því í krepputalinu á Alþingi?

Ef þjóðhagsspá (endurskoðuð 15. jan) er skoðuð má sjá ráðgert að samdráttur verði nokkuð hraður í þjóðarframleiðslu. Þá má einnig búast við auknu atvinnuleysi, þótt einhver breyting á atvinnustigi geti raunar sýnt meira jafnvægi í hagkerfinu. Það sem nú þarf, ekki síst í kjölfar kjarasamninga og "útspili" ríkisstjórnarinnar í tengslum viði þá, er aukið innstreymi fjármagns sem leiddi af sér jákvæð hagvaxtaráhrif og auknar tekjur ríkissjóðs til að mæta útgjöldunum sem fyrirséð eru. Það er lengra í álver á Bakka en svo að það skapi þessi áhrif. Álver í Helguvík er góður kostur í þessu sambandi, þar sem svokölluð þensluáhrif eru vægari, fyrir þær sakir að innviðir eru að mestu til staðar, þe. ekki þarf að byggja upp húsnæði fyrir starfsmenn, hafnaraðstaða er að mestu tilbúin og orkan handan við hornið. Það er ekki bæði hægt að kalla eftir áframhaldandi velmegun, og í hinu orðinu mótmæla aðgerðunum. Þetta eru engir skyndiplástrar, heldur styrkari stoðir. Sjáum td. aukninguna í álútflutningi á síðasta ári. Halda menn virkilega að þetta styrki ekki efnahag Íslendinga?

sigm. (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 10:54

8 Smámynd: Þórir Kjartansson

Menn virðast alltaf bara einblína á brúttótekjurnar af álútflutningnum. Gleyma því að í atvinnurekstri eru alltaf mikil útgjöld á móti tekjum. Aldrei hef ég séð hver muni vera nettó hagnaðurinn af álvæðingunni.  Er mönnum kannski ekkert umhugað um að þær tölur sjáist?  Við skulum t.d. líta á það að mörg hundruð störf hafa tapast í  öðrum útflutnings og samkeppnisgreinum, sem illa hafa þolað þensluna, sterka gengið og okurvextina, sem af stóriðjustefnunnu hefur leitt. (Ásamt og með einkavæðingu bankanna)  Ekki það að ég sé alfarið á móti virkjunum og stóriðju en allt er best í hófi og hraðinn á þessu hefur verið nánast stjórnlaus undanfarin ár og þess vegna er þessi  þenslublaðra að springa í dag með hinum verstu afleiðingum.

Þórir Kjartansson, 23.2.2008 kl. 11:23

9 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ég hitti mann áðan Bjarni sem hefur kosið Framsóknarflokkinn í allan þann tíma sem hann hefur haft kosningarétt, í 52 ár.Hann býr í Reykjanesbæ.Hann sagðist ekki kjósa þann flokk að óbreyttu.Hann talaði fyrir hönd flestra suðurnesjamanna,sem telja að þið Guðni hafið komið aftan að suðurnesjamönnum , sem ég tel rétt.Hugsunar háttur ykkar fjósamanna á bökkum Ölfusár er einfaldlega allur annar en okkar suðurnesjamanna sem viljum stefna fram en ekki afturábak.Og ekkert stopp.Nú eruð þið Guðni búnir að henda þessu slagorði framsóknarmanna í flórinn og haldið að hægt sé að lifa að hætti sturlunga.Á suðurnesjum mun búa hátt í helmingur atkvæðisbærra manna í suðurkjördæmi í næstu kosningum.Ef þið farið ekki að átta ykkur, sem mér sýnist ekki von um þá býð ég ekki í framtíð ykkar hér í næstu kosningum.Þið megið minnka hrokann í garð suðurnesjamanna.Ef þið gerið það ekki þá munum við suðurnesjamenn hjálpa ykkur við það næst þegar þið farið í framboð.

Sigurgeir Jónsson, 23.2.2008 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband