Leifsstöð, löggæslan og landamærin - já og súrálsskál Þórunnar!

Á undanförnum misserum hefur náðst einstæður og mikilvægur árangur í fíkniefnaleit á komufarþegum í Leifsstöð. Embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli hefur líka náð mjög góðum tökum á rekstri embættisins á mörgum sviðum ef marka má skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þrátt fyrir þetta allt og þrátt fyrir mikla fjölgun bæði íbúa á Suðurnesjum og aukna umferð um Leifsstöð ber nú svo við að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum er gert að skera niður um liðlega 200 milljónir króna.

Embætti þetta hefur alla löggæslu á Suðurnesjum á hendi, alla tollskoðun í Leifsstöð, landamæraeftirlit og öryggisþjónustu í Leifsstöð.

Stórhættulegt ástand

Ef ekkert verður að gert getur það þýtt:

  • - að bið í hliðum bæði inn í landið og út úr því lengist um fleiri klukkutíma
  • - að brottafararfarþegar sem ætla út klukkan 8 að morgni þurfi að mæta um klukkan þrjú að nóttu í Leifsstöð.
  • - að lögreglubílarnir sem eiga að vera 6 á götum Suðurnesja verði aðeins tveir í notkun vegna manneklu. Gárungar syðra tala um að þróa þurfi upp fjarstýringu í lögreglubílana.
  • - að þjónusta við hraðflutningafyrirtæki sem nýlega hafa komið sér fyrir á gamla hersvæðinu flytji aftur til Reykjavíkur vegna þess að embættið syðra geti hreinlega ekki þjónustað þau sómasamlega.
  • - að ólöglegur innflutningur á tollskyldum varningi getur aukist svo nemi milljarða veltu og hefur áhrif bæði á verslun í landinu og hag ríkissjóðs.
  • - að aukin hætta verði á innflutningi dýrasjúkdóma.

Og þetta eru mjúku hliðar málsins. Þær hörðu og grafalvarlegu snúa að bættri vinnuaðstöðu alþjóðlegra glæpahringa:

  • - að stórfelld aukning á innflutningur getur orðið á fíkniefnum inn í landið bæði með fólki og almennum sendingum.
  • - að hættan á að stóraukin hætta er á að eftirlýstir glæpamenn og menn með langan sakaferil fari óáreittir inn í landið.

Það mætti halda hér áfram og minna á hryðjuverkaógnina og margskonar aðra vá. Aðalatriðið er þó að dómsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti komi strax að lausn málsins. Fundur sem haldinn var um málið síðastliðinn mánudag gaf því miður ekki fyrirheit um lausn þess heldur voru skilaboð hans frekar í þá átt að skorið skyldi niður.

Þegar lögreglan á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli voru sameinuð í eitt voru gefin fyrirheit um að heimamenn fengju löggæslu eflda. Staðreyndin er að löggæslumönnum á svæðinu hefur fækkað stórlega þrátt fyrir aukin umsvif.

Á fjölmennum fundi í Duushúsi í vikunni bundu menn vonir við að dómsmálaráðherra muni leysa aðsteðjandi vandamál á Suðurnesjum. Undirritaður vakti athygli á vandanum á Alþingi í vikunni og fékk þar þau svör frá samgönguráðherra sem hefur með Leifsstöð að gera að hann væri bjartsýnn á lausn málsins. Það sem blasir við er samt að vandamálið hefur verið uppi í ráðuneytunum um margra mánaða skeið en nú eru aðeins nokkrar vikur til stefnu. Tími orðagjálfurs er liðinn.

Súrálsins nú sýpur skál

Í orðagjálfri er nóg að umhverfisráðherra sendir heimamönnum tóninn vegna framkvæmda við Helguvíkurálver og telur sig greinilega geta verið í senn í stjórn og stjórnarandstöðu.

Göngukonur af Suðurnesjum segja mér að á miðri Strandarheiði standi nú beinakerling og út úr nára hennar hvalbein mikið. Gæti verið af nýhafinni hvalveiði og er á beinið krotað:thorunn_sveinbjarnard

Týnd er æra, töpuð sál
tignarstorð skal blóta
súrálsins nú sýpur skál
Sveinbjörnsdóttir Tóta.

Vísan er heldur torræðari og fráleitt eins vel gerð og sú sem hér er stæld*) og fjallaði um breyskan sýslumann sem gerði dæmdri hórkonu barn. Það var stórpólitík og sáluhjálparmál þess tíma - nú eru það álver. Til orðskýringar skal þess getið að tignarstorð merkir hér um það bil það sama og fagra Ísland en algengt var að fornkonungar færðu fórnir á blótum, oft til árgæsku og valda.

 

________________________

Upphaflega var vísan svona:

*) Týnd er æra, töpuð sál,

tunglið veður í skýjum.

Sunnefunnar sýpur skál

sýslumaður Wíum.

(Höfundur talinn Sveinn lögmaður Sölvason sem deyði 1782)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já það er nefnilega málið að það er ekki nóg að plástra í sárið sem þessar 200 milljónir eru. Sem fyrrum starfsmaður embættisins og með ættingja og vini starfandi þar fylgist maður vel með þessu. En eins og lögreglumaðurinn frá Grindavík sagði að þá þyrfti venjuleg lögregluvakt að vera helst 12-14 menn.

En vonandi sjá menn þetta og við íbúar svæðisins vonum að þingmenn og ráðherrar kippi þessu mjög svo mikilvæga máli í liðinn sem fyrst.

Sigurbjörn Arnar Jónsson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 21:01

2 Smámynd: Hundshausinn

Sæll,
kæri Bjarni.
Málið í heild er bara ekki svona einfalt, hvorki er varðar löggæslumál né umhverfismál. Stundum þarf að staldra við - og hugsa - til lengri tíma litið. Þú hefur ekki verið allt of duglegur við þá iðju. Ert of bundinn við fortíðina; þjóðsögurnar, álagasögurnar og vangaveltur fólks um það sem var.
Þingstörfin snúast hins vegar um framtíðina, en hvorki um fortíð né  nútíð. Þú snúast um framsýni. Það sem virðist er oftast varhugavert. Framtíðin mælist ekki bara í áratugum heldur öldum. Ákvarðanir um verðmæti náttúrunnar í dag á t.d. eftir að margfaldast á næstu áratugum - og öldum. Skammtímavirkjanir til að þjóna skammtímahagsmunum gætu því, ef ekki er að gætt og gaumgæft, mistakist - svo um munar...
Virða þarf þau orð umhverfisráðherra að fara þurfi með gát - og taka þurfi tillit til allra þátta fyrirliggjandi umhverfisáhrifa - ekki bara þeirra er lúta að beinum framkvæmdarleyfum tilfallandi stundar...

Hundshausinn, 17.3.2008 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband