Ríkið lækki matar- og bensínverð strax

Framsóknarflokkurinn lagði í síðustu viku fram heildstæðar tillögur um efnahagsaðgerðir sem miða m.a. að 3-5% verðhjöðnun með beinum aðgerðum ríkissjóðs samhliða því sem hrint verði í framkvæmd þjóðarsátt þar sem allir leggjast á eitt um að hrinda af þjóðinni verðbólguógninni.

Á sama tíma tilkynnti forsætisráðherra í fjórtánda sinn að stjórnarflokkarnir væru að tala saman og myndu standa vaktina. Eftir sameiginlegan fund fjárlaga- og efnahagsnefnda Alþingis tilkynnti fulltrúi stjórnarmeirihlutans að Ingibjörg Sólrún velti efnahagsvandanum fyrir sér í félagi við Geir H. Haarde.

Vandamálið er tviþætt. Annarsvegar ein dýpsta og alvarlegasta efnahagskreppa sem Ísland hefur staðið frammi fyrir og hinsvegar ein ráðlausasta ríkisstjórn sem setið hefur á lýðveldistímanum. Saman myndar þetta afar óhollan kokteil. Kreppuboðar hafa nú verið öllum ljósir frá síðastliðnu sumri en ennþá hefur ríkisstjórnin ekkert gert.

Ef ekki er gripið skjótt til aðgerða getur snjóbolti óðaverðbólgu oltið af stað á næstu vikum og þá verður mun dýrara að kveða þann draug niður.

Ríkissjóð gegn verðbólgunni

Ríkissjóður er ekki sjálfstæður lögaðili í eigu Sjálfstæðisflokksins eða sitjandi ríkisstjórnar. Kannski heldur það einhver en það er þá misskilningur. Það rétta er að ríkissjóður er sameign íslensku þjóðarinnar. Þegar svo er komið að efnahagsleg kreppa, óðaverðbólga og mögulegt hrun vegna skuldasöfnunar vofir yfir er algerlega óviðunandi að yfirvöld geri það eitt að metast við þegnana um það að þau hafi nú staðið sig betur en hinir skuldsettu. Ríkið hefur tekið aðra hverja krónu af veltufé landsmanna í sinn vasa og ekki skapað verðmæti með öðrum hætti. Þó landsmenn hafi margir bruðlað hefur ríkið samt gengið á undan í flottræfilshætti og bruðli á liðnum árum.

Og það er fólkið sem skapar verðmætin ekki stjórnmálamenn eða ríkið. Meðal heimila og fyrirtækja er skuldsetning nú sligandi og því er jafnvel haldið fram að bankarisar landsmanna riði til falls. Hér er ekki mælt með að innistæðu ríkissjóðs sé deilt út til þeirra sem mesta óráðssíu hafa stundað. En það er full ástæða til að létta skattheimtu á almenning. Einkum ef það má verða til að bæta hina efnahagslegu stöðu þjóðarbúsins.

Bensín og olíulítrar kosta nú um 150 krónur en þar af fer um helmingur þess fjár beint í ríkissjóð í formi vörugjalda og virðisaukaskatts. Framsóknarmenn hafa lagt til að helmingur af vörugjaldi sé felldur niður sem þýðir þá liðlega 20 króna verðlækkun á líter. Eftir sem áður færi um 40% af verðinu beint í ríkissjóð en verðhjöðnunaráhrif væru veruleg. Reiknað tekjutap ríkissjóðs vegna þessa getur numið 6 - 8 milljörðum króna.

Þá hefur Framsóknarflokkurinn lagt til að samhliða þjóðarsátt þar sem allir taka höndum saman um að sporna við verðhækkunum að ríkið leggi þar fram niðurfellingu á matarskatti sem er aðgerð sem getur numið liðlega 3% í neysluverðsvísitölu. Kostnaður er rétt um 6 milljarðar en um leið er hægt að gera þá kröfu til verslunarinnar að hún leggi ekki minna til verðhjöðnunar og hækki þar af leiðandi ekki verð vegna þeirrar gengisfellingar sem orðið hefur að undanförnu.

Verðbólga og okurvextir eru ekki ráðið

Seðlabankinn hefur einn tekið sér vald til að stjórna efnahagskerfi landsmanna og raunar hrifsað til sín meiri völd í stjórn landsins en dæmi eru um í sögu þeirrar stofnunar. Það er fljótsagt að peningastefna bankans hefur ekki virkað sem skyldi og raunar verið farin sú óheillaleið um mörg misseri að halda genginu í hæstu hæðum með hávaxtastefnu. Þetta hefur haft í för með sér langvarandi útsölu og niðurgreiðslu á innfluttum varningi sem kostuð er af atvinnulífinu. Um leið vex viðskiptahalli og bruðl.

Nú þegar svo ber við að ekki tekst lengur að handstýra genginu með þessum hætti dregur að vonum úr neyslu enda einnig þurrð á alþjóðlegum lánamörkuðum. Þá ber svo við að menn hreykja sér af að stefna Seðlabankans virki og því sé rétt að okra enn meira á vöxtum samhliða því að ná neyslunni niður með verðbólgu. Handfylli bankamanna og hagfræðinga hafa nú af flokkshollustunni einni lýst yfir stuðningi við þessa stefnu sem alþjóðleg greiningarfyrirtæki klóra sér í hausnum yfir.

Ráð væri þvert á móti að snúa þegar af hávaxtastefnunni en styrkja bankann verulega með lántökum ríkissjóðs líkt og forsætisráðherra boðaði á aðalfundi bankans. Meinið er að það er ekki nóg að boða slíka lántöku, hér er löngu orðið tímabært að orðum fylgi athafnir.

Í tillögum okkar Framsóknarmanna sem eru settar saman í samráði við hinna færustu sérfræðinga er gerð ítarlegri grein fyrir því hvernig við teljum að megi með þjóðarsátt og samverkandi aðgerðum forða íslensku þjóðarbúi frá verðbólgubáli, atvinnuleysi og bankahruni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það má láta sig dreyma Bjarni.

Viðleitni er annars góðra gjalda verð.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.4.2008 kl. 11:01

2 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Bjarni þú hefur verið einn öflugasti málsvari íslenskrar Landbúnaðarframleiðslu

Nú skal galopna allt

Við fáum ekki málefnalegri mann til að verja okkur

Endilega láttu heyra í þér á opinberum vetfangi 

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 8.4.2008 kl. 11:35

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta var áhugaverð lesning.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.4.2008 kl. 12:53

4 Smámynd: Einar Freyr Magnússon

Mjög áhugaverð lesning. Gaman að sjá að fulltrúar okkar framsóknarmanna slá ekki slöku við! 

Einar Freyr Magnússon, 8.4.2008 kl. 14:51

5 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Góður pistill hjá þér Bjarni.

Ég hef áhyggjur af efnahagsmálunum eins og allir aðrir. Það er ákaflega mikilvægt að sérstaklega sé hugað að þeim sem verst fara út úr þessu ástandi, þeas þeim sem minnst hafa á milli handanna.

En ég bíð einnig spennt eftir viðbrögðum þingheims um málefni Tíbet og mannréttindabrota í Kína.

Bestu kveðjur frá Danaveldi.

Kristbjörg Þórisdóttir, 8.4.2008 kl. 15:32

6 identicon

 Sæll   Bjarni.       Að halda Íslandi sem hreinustu af dýrasjúkdómum í framtíðinni er margra banka virði. Það eru miklir óhappamenn sem ætla að opna landið fyrir innfluttningi á hráu kjöti og bjóða með hættunni heim,að með því geti borist dýrasjúkdómar. 

Í dag var frá því sagt að tveir menn hafi dáið úr kúariðu sjúkdómi á Spáni.       Kveðja Gíssur.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 19:05

7 Smámynd: Kristján Pétursson

Góð grein hjá þér Bjarni.Áður en ríkissjóður fer að styðja við bankana ætti að krefja þá um hvernig hundruð miljóna hagnaður þeirra var til og hvernig honum var ráðstafað á undanförnum árum.Sumir halda því fram,að raunverulegur hagnaður þeirra grundvallist m.a.  á samskiptum við svonefnd skúffufyrirtæki og uppfærðum innistæðlausum verðbréfum.

Ég leyfi mér að vona,að þú verðir næsti form.Framsóknarfl.Þú ert málefnalegur með góðan þekkingargrunn.

Kristján Pétursson, 8.4.2008 kl. 21:48

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það kanski skrýtið að Sjálfstæðiskall eins og Halli gamli þurfi að hæla Framsóknarmanni ,svona sma´grín!!!,"en sama hvaðan gott kemur segir mátækið"!!!!Bjarni hefði ekki getað orða þetta betur sjálfur/Geir Haarde er ekki okkur að skapi núna virðist heillum horfin og gerir bara ekkert,nema huga að erlendum bandalögum!!!/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 8.4.2008 kl. 23:28

9 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Það eitt er ljóst að hver dagur sem líður í aðgerðaleysi sitjandi stjórnvalda gagnvart almenningi í landinu er þeim hinum sömu dýrkeyptur.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 9.4.2008 kl. 02:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband