Mega stjórnmálamenn vera geðveikir?

(Var beðinn um að skrifa pistil í blað Geðhjálpar um ofanritað - birtist þar í síðustu viku.) 

Spurningin hér að ofan er vitaskuld rökleysa því við spyrjum aldrei að því hvort við megum fá sjúkdóm. Við fáum þá bara. Fyrir þeim sem les ævisögur stjórnmálamanna, hvort sem er innlendra eða erlendra, miðalda eða nýaldar, leynist ekki að margir þeir færustu meðal leiðtoga hafa náð að nýta sér allskonar sambland af því sem við alla jafna teljum til veikleika og galla. Ofvirkni, einhverfu, maníu að ógleymdri ofsalegri frekju sem er af sumum talin nauðsynleg öllum góðum leiðtogum. 

Það á nefnilega við um marga þá „sjúkdóma“ sem herja á okkar andlega líf að þar liggur oft í senn styrkleiki mannsins og veikleiki. Þannig er með hópa einnig og þjóðir. Hin íslenska þjóðarsál er tæpast sú heilbrigðasta í heimi en kannski ein sú skemmtilegasta. Við höfum tamið okkur að fara í hagrænum efnum með boðaföllum og á stundum rassaköstum um vísitölurnar. Því fylgja líkt og í lífinu sjálfu óskaplegt fjör og skelfilegur harmur.  

Við getum auðvitað lamið okkur niður fyrir þetta og gerum raunar reglulega. Berum okkur þá gjarnan saman við ólíkt jafnlyndari og stöðugri samfélög og teljum allt betra þar. Þegar að er gáð hefur okkur samt vegnað flestum betur í baráttunni um brauðið og líkt er oft farið þeim sem glímir við og veit af annmörkum sínum. Sá er vís til á súldarlegum dögum að telja allt sitt verra en annarra en á sér líka stærri og meiri hamingju suma aðra. Galdurinn er að njóta hinna góðu en umbera þá gráu. Og þá er eiginlega komið aftur að spurningunni um geðheilbrigðið og stundum held ég að þetta sé eintómur misskilningur að hægt sé að flokka okkur mennina í heilbrigða og geðveika. Þetta er miklu meira spurning um dagamun og ef það er heilbrigði eiga hann sem minnstan þá megi guð forða okkur sem lengst frá þeirri skúffu.

Heilbrigt samfélag er að þekkja og geta tekist á við sveiflur þær sem yfir það ganga og meðan það er líf og vöxtur þá verða einnig sveiflur. En víst þurfum við að þekkja hvenær þær verða of krappar. Sama á við sálartetrið. Það þarf líka á sínum sveiflum að halda. Til lengdar er ekkert eins leiðinlegt og geðleysi nema ef vera kynnu langvarandi veðurleysur.

En nú skal ég loks aðeins tala um stjórnmálamennina í þessu samhengi því þeir eru mér hugþekkir og nálægir og víst tilheyri ég þeirri stétt sjálfur. Það er einfaldlega þannig að stjórnmálamenn eiga að vera allt í senn heilbrigðir og viðkvæmir því engir nema tilfinningaverur eiga að hafa mannaforráð. En fyrst og síðast verða stjórnmálamenn að vera hreinskilnir, opnir og sannsöglir.  

Þó svo að í eina tíð hafi verið rætt um geðsveiflur, alkóhólisma og þungsinni í skúmaskotum með hvíslingum þá á sá tími að vera löngu liðinn. Stjórnmálamenn eiga þar að ganga á undan með góðu fordæmi. Þeir hafa vitaskuld líkt og allir aðrir allt leyfi til að vernda eigið einkalíf og velja sjálfir hverju úr eigin högum þeir vilja segja frá. Aðalatriðið er að þeir gefi samfélaginu aldrei þau skilaboð að það sé bannað eða skammarlegt að leita sér sjálfsagðrar aðstoðar eða hafi með almennt manngildi að gera að láta um sig spyrjast veikindi af einu tagi eða öðru!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Munum bara ad gedveiki má lækna, en heimska er ólæknandi! Átti ekki Jónas frá Hriflu thessi ord?

Gulli litli, 16.4.2008 kl. 01:47

2 identicon

Vissulega getur Jónas frá Hriflu hafa átt þessi orð, því að hann var djúpvitur maður. Hann var svo vitur og framsýnn, að sumir töldu hann snarklikkaðan ! Ég er sammála Bjarna Harðarsyni, að flestir okkar bestu stjórnmálamanna hafa verið að minnsta kosti létt geggaðir og er það vel! Það er fullt af fólki á Alþingi, sem á ekkert erindi þangað inn, vegna þess að það er svo hundleiðinlegt, að hið hálfa væri nóg ! Margir þessarra manna hafa þann leiða vana að tala of lengi og slíkt er slæmt fyrir hið háa Alþingi. Ég hefi oft hreinlega gefist upp á að fylgjast með umræðum þar, út af þessu leiðindafólki. Auðvitað eru þessi fyrirbrigði úr öllum stjórmálaflokkum, og margir af þeim, sem ég er á öndverðum meiði við, eru með allra skemmtilegustu persónuleikum, sem maður sér og heyrir á skjánum. Svo mörg voru þau orð.

Með kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 07:32

3 identicon

Ég sé mig knúna til að benda á að ekki þótti öllum þetta merkilegur pistill sem þú klambraðir saman handa Geðhjálp. Sjá http://harpa.blogg.is/2008-04-06

Harpa - ævilöng mágkona þín (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 11:34

4 identicon

Hlýtur að vera. Hvert er normið fyrir heilbrigði á geði? Erum við ekki öll pínutrufluð hvert á sinn hátt?

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 12:09

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Svíarnir fóru ávallt að sofa um kl. 22:00. Mér þótti það geðveikt. Þeir álitu mig undarlegan næturhrafn. Þetta er allt afstætt.

Júlíus Valsson, 16.4.2008 kl. 12:29

6 identicon

Þeir eru flest allir geðveikir þannig að spurningin er kannski: Mega þeir vera heilbrigðir ;)
http://doctore.blog.is/blog/doctore/entry/508056/

DoctorE (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 14:20

7 Smámynd: haraldurhar

   Það er erfið skilgreining að kveða uppúr hvenær maður er geggjaður eða ógeggaður.  Held þó megi fullyrða það að margir stjórnmálamenn okkar hafi verið það sem má kalla köflóttir.  Jónas frá Hriflu, álít ég einn mesta stjórnmálamann, er við höfum átt, og er með ólíkindum hversu miklu hann kom í verk á skömmum valdatíma sínu, og hversu kjarkaður hann var, og hef ég þar í sérstaklega huga baráttu hans við ríkjandi embættisættir og forréttindahópa er hann sagði stríð á hendur.  Það hef ég aldrei fengið útsírt hversvegna Eysteinn sveik hann,  og ekki síst í ljósi þess að Jónas hafði ´komið honum í ráðherraembætti kornungum. Mér hefur aldrei komið til hugar að Jónas hafi ekki verið töluvert geggjaður, en til þess að afreka það sem hann kom í verk, hlítur það að vera forsenda þess.  Hvað má segja um mannin sem lét skipta út rúðunni í ráðhúsinu?   Er það alveg normal?

haraldurhar, 17.4.2008 kl. 00:20

8 Smámynd: Dunni

SPurningin er jú undarleg og eiginlega heismkuleg rökleysa.  Maður spyr ekki svona.

Kjell Magne Bondevik, fyrrum forsætisráðherra Noregs, bað engan um að gefa sér geðveiki.  Hann fékk tegund af sjúkdómnum fyrir allmörgum árum og svokom sá tími að hann varð að taka sér frí frá frosætisráðherrastólnum og stjast í annan stól á sjúkrastofu.

Kjell Magne er mjög gott dæmi um hvernig áberandi stjónmálamaður tókst á við sjúkdóm sinn, fyrir opnum tjöldum og sigraðist á þessum óvætti eins og hægt er. 

Hann nýtur aðdáunar fyrir hvernig hann tók mótlætinu. Bæði samherjar í Krf og andstæðingar lofuðu frosætisráðherra sinn fyrir framgönguna.  Það er nokkuð sem borgarfulltrúar í Reykjavík gætu lært eitthvað af.

GÞÖ 

Dunni, 17.4.2008 kl. 06:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband