Leiðréttingarkreppa íhaldsins

Hin alþjóðlega fjármálakreppa sem nú ríður yfir er skipbrot óðagots og græðgisvæðingar, jafnt hér á Íslandi sem annarsstaðar á Vesturlöndum. Á Íslandi bætist hins vegar við sá sérstaki og mikli vandi sem mistök í hagstjórn, einkum í stjórn peningmála, hafa skapað. Nú ríður á að skynsemin verði á ný látin ráða og upp tekin raunsæ miðjustefna að stjórnun efnahagsmála, en kreddum og oftrú á ófullkomna markaði kastað fyrir róða.

Atvinnuleysisstefnan

Sjálfstæðisflokkurinn, sá flokkur sem státað hefur sig af því að hafa leitt hefur efnahagsstjórn landsins undanfarinn einn og hálfan áratug,  stendur nú uppi ráðvana í sundurlyndi milli ríkisstjórnararms og Seðlabankaarms. Samfylking staulast hér með í gleði þess sem komist hefur að kjötkötlum og stöðuveitingum og sinnir fáu öðru enda flest það ofvaxið hans skilningi. Úrræðaleysið er svo algjört, að vera kann að vinstri stjórn hefði verið betur í stakk búin til að takast á við efnahagsvandann - svo mótsagnakennt sem það kann þó að hljóma.

Ráðleysið við efnahagsstjórnina er nefnilega ekki bara af ósamkomulagi stjórnarliða innbyrðis og stjórnar við Seðlabanka. Það er eins og forsætisráðherra hefur sjálfur sagt, aðgerð að gera ekki neitt. Eftirláta hinum frjálsa markaði að bítast í timburmönnunum. Koma engum til aðstoðar og miklast af því. Með því móti munu hinir veikustu þola verst og hinir sterkari rísa tvíefldir upp að slag loknum. Gjaldþrot, atvinnuleysi og óðaverðbólga verða þá einkenni næstu ára.

Veik mynt og veikari Seðlabanki

Meðal Sjálfstæðismanna er mjög talað á þeim nótum nú að ekki megi ríkið aðstoða bankana sem hafi verið einkavæddir og eigi sjálfir að bjargast af eigin rammleik. Bakvið þá kenningu er þó meiri Þórðargleði en réttlætistilfinning. Það er vissulega rétt að fráleitt er að ríkið gefi bönkunum fé en það er engu að síður skylda ríkisins að sjá til þess að rekstrarumhverfi  bankanna sé viðunandi. Veikur Seðlabanki og veik mynt eru ekki hluti af eðlilegum aðstæðum. Einn möguleikinn er leið Ragnars Önundarsonar um uppskiptingu bankanna í innlenda og erlenda starfssemi. Vænlegra væri þó að bjóða bönkunum til samstarfs um eflingu gjaldeyrisvaraforðans sem þeir greiða þá fyrir um leið og í álnir komast.

Það er reyndar raunalegt að heyra menn nú tala um útrásina sem óráðsíu eina svo mjög sem allir utan sósíalista luku á hana lofsorði fyrir nokkrum misserum. Enda hefur hún skilað í ríkissjóð hærri skatttekjum en nemur öllum afgangi ríkissjóðs. Afgangi sem ráðherrum Sjálfstæðisflokks hættir til að tala um eins og þeir hafi sjálfir aflað fjárins með eigin verkum.

Sjálfstæðisflokkinn frá

Í ráðleysi Seðlabanka og um leið Sjálfstæðisflokksins nú blandast heift sterkra afla í flokksforystunni gagnvart nýríkum athafnamönnum sem rutt hafa hinum eldri peningum úr vegi. Það er ekki fráleitt að í brjóstum þessara manna bærist sá draumur um að kreppan nú megi skila athafnalífinu aftur í hendur hinna réttbornu.

Þjóðin á aftur á móti meira undir að  tekið verði á þessari efnahagskreppu af skynsemi og án fordóma. Valdabrölt og valdappgjör þeirra sem lifa í fortíðinni er ekki leiðin til þess.  Þeir aðilar sem ekki ráða við vandann eiga auðvitrað að segja sig frá verkunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Heill og sæll félagi!

Af sama meiði - en muna lesendur þínir:

Hvað er sameiginlegt við efnahagslægðina 1992 og 2008?

Hallur Magnússon, 21.4.2008 kl. 13:13

2 Smámynd: Gylfi Norðdahl

Eins og talað frá mína hjarta. Þetta er sennilega í fyrsta skipti sem ég finna vota fyrir þeirri þörf að taka ofan fyrir framsóknarmanni

Gylfi Norðdahl, 21.4.2008 kl. 15:14

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Kreppa???

Kalliði þetta kreppu?

Ég er nú ekki gamall og hef ekki upplifað neitt annað (svo ég muni) en góðærið og ég veit að þetta er ekki kreppa fyrir fimm aur.

Kreppa er þegar þú þarft að selja bílinn (í flestum tilfellum allavega annan þeirra þar sem flestar fjölskyldur hafa tvo eða fleyri bíla) til að geta haldið þaki yfir höfðinu.

Kreppa er þegar þú hættir að kaupa ferðir til útlanda (20.000 miðar voru að seljast).

Það er enginn kreppa í dag. Það er bara kreppu tal og einhver ímyndur kreppa í höfðinu á bölsýnismönnum. 

Fannar frá Rifi, 22.4.2008 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband