Staldrað við á Þjórsárbökkum

(Á morgun ætla Flóamenn að afhenda Landsvirkjun undirskriftalista vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár. Eftirfarandi grein mín birtist í 24 stundum um helgina. ) 

Um helmingur kosningabærra manna í Flóahreppi hafa nú skrifað undir áskorun til sveitarstjórnar um að taka Urriðafossvirkjun ekki inn á aðalskipulag sitt. Mjög skiptar skoðanir eru um málið og ljóst að margir hinna eru harðir talsmenn virkjunar og austan ár er fylgið við virkjanir mjög almennt.

Engu að síður kallar hin mikla andstaða sem er við virkjanaáformin á að Landsvirkjun og sveitarstjórn staldri við. Við núverandi aðstæður er erfitt að benda á nauðsyn þess að flýta þessum framkvæmdum en mikilvægt er að ekki sé ráðist í þær í blóra við mikinn fjölda íbúa á svæðinu. Á meðan getur Landsvirkjun lokið við sína Búðarhálsvirkjun sem er hálfköruð og ekki arðbær í því fari.

Margar leiðir færar

Hálft annað ár er nú síðan undirritaður hélt fjölmennan útifund við Urriðafoss til að vekja athygli á máli þessu. Ekki til að gera þar afgerandi kröfu um að hætt yrði við allt saman. Á fundinum sem sóttur var af miklum fjölda Árnesinga var mikill samhugur um að ekki skyldi flanað að verkinu. Náttúran ætti hér að njóta vafans og gæta yrði þess við virkjanaframkvæmdirnar að skemma sem allra minnst.

Þá hefur verið breið samstaða um það hér austanfjalls að þessi síðasti virkjanakostur Þjórsár verði ekki notaður til að knýja stóriðjur í öðrum landsfjórðungum.

Sjálfur hef ég allt frá því umhverfismat virkjananna rann hljóðalaust í gegn haft þá skoðun að erfitt verði að stöðva allar virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár. Sú skoðun mín er óbreytt. En það breytir ekki hinu að við getum gert þær kröfur til Landsvirkjunar að hún setjist að samningaborði heimamanna um minni framkvæmdir en til stóðu, minni umhverfisspjöll og þá einkanlega að horfið verði frá lónstæðum í árfarveginum.

Það eru ekki síst háir varnargarðar og lón í farveginum sem munu breyta til muna ásýnd landsins. Að undanförnu hafa komið fram alvarlegar efasemdir fagmanna um að lón af fyrirhugaðri stærðargráðu séu ráðleg á því sprungu- og jarðskjálftasvæði sem hér um ræðir.

Það er ekki síst Hagalón Hvammsvirkjunar sem er mörgum okkar Árnesinga þyrnir í augum. Þar hverfa undir vatn afar fallegar klettamyndir og hólmar í Þjórsá við innkeyrsluna í Þjórsárdal. Þá þarf frekari úttektir og rök fyrir því að óhætt sé vegna byggðar í Flóa að mynda lón neðst á Skeiðunum fyrir Urriðafossvirkjun.

Efndir Samfylkingar

Í nýafstaðinni kosningabaráttu héldu fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna mjög fram þeim sjónarmiðum að sjálfsagt og vandræðalaust væri að slá allar framkvæmdir í neðri hluta Þjórsár af. Samfylkingin situr nú að valdastólum með þennan málaflokk í gegnum iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti. En þjóðin er löngu hætt að gera ráð fyrir efndum á kosningaloforðum úr þeirri átt. Þannig fór lítið fyrir stóryrðum flokksins í Helguvíkurmáli og hróp einstakra þingmanna um að fyrri stjórnir hafi fylgt stóriðjustefnu eru hjáróma.

Takist ráðherrum Samfylkingarinnar að slá allar virkjanir í neðri hluta Þjórsár af mun ég hrósa þeim og fagna því með mörgum fleiri héraðsbúum. Torséð er þó hvaða leiðir eru til þess færar. Hitt er enginn vafi að ráðherrar Samfylkingar hafa það í hendi sér að milda til muna umhverfisspjöll virkjana á þessu svæði og geta þar leitt saman að samningaborði umhverfissinna og hina virkjanaglöðu. Notað þar samráðsstjórnmálin til annars en loforða.

Hér hefur verið drepið á virkjanaandstæðinga í Flóahreppi sem telja um helming kosningabærra manna þar. Mikil andstaða er einnig við virkjanirnar í efri byggðum og þá einkanlega í heimasveit viðskiptaráðherra. Allur sá hópur bíður þess að fagurgala Samfylkingarráðherra fylgi efndir. Sá tími er kominn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hvaða skoðun hefurðu á þessu máli, Bjarni? Og hvaða skoðun hefurðu á frumvarpinu um breytingu á Skipulagslögum? Og hvaða skoðun hefurðu á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdaraðilinn sér um umhverfismatið og dæmir svo í eigin máli?

Mér þætti mjög vænt um að fá að vita skoðun þína á þessum málum án þess að þurfa að grafa upp þingræður. Ef þú lest pistlana á blogginu mínu færðu talsverðan fróðleik um þessi mál, en ég býst nú við að þú þekkir þau allvel sem þingmaður viðkomandi kjördæmis.

Bestu kveðjur,

Lára Hanna Einarsdóttir, 5.5.2008 kl. 12:49

2 identicon

Af því maður er óþreytandi að bæta málfar fólks í Suðurkjördæmi þá að gefnu tilefni: „Um helmingur kosningabærra manna í Flóahreppi hafa nú skrifað undir áskorun...“ Og ætti að vera: „Um helmingur... hefur etc.“ Aldrei hefði Jónasi frá Hriflu skotist svona og þaðan af síður Gísla í Holti. Sic transit gloria mundi.

Tobbi (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 18:21

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð og þörf skrif Bjarni/Við mótmælum allir/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 6.5.2008 kl. 15:46

4 identicon

Sæll félagi.

Nefni þig auðvitað félaga vegna blaðamennskunnar, en ekki útaf pólitíkinni. Samt er ég grunsamlega oft sammála þér um margt og hvet þig eindregið til að standa vaktina í umhverfismálunum þó þú kunnir stundum að fá storminn í fangið!

kv.

hágé. 

Helgi Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband