Í minningu Ingu í Kjarnholtum

(Í dýrðlegu veðri og í fegurstu sveit landsins var Inga  vinkona mín borin til grafar í gær - að viðstöddu fjölmenni. Og þó að jarðarfarir eigi ekki að vera skemmtisamkomur þá var öll samkoman ánægjuleg og hlý. Skemmtileg fyrir það hvað allt það góða Kjarnholtafólk er eðlilegt og skemmtilegt. Minningu Ingu var sómi að því öllu. Sama dag birti ég minningagrein um Ingu í Mogganum en varð að stytta hana lítillega en hér birtist sama grein í fullri lengd.)inga_kjarnholtum

- Aldrei gleymi ég því þegar þú komst með blámanninn til mín Bjarni.

Þannig hófst samtal milli okkar Ingu í Kjarnholtum fyrir nokkrum árum og var svo sem ekki fólginn í orðavalinu neinn áfellisdómur yfir hörundslit manna. Frekar góðlátlegar skammir á undirritaðan að hafa látið heiminum rigna svo óforvarendis upp á heiðarlegt sveitafólk. Því þó heimsókn afríkumanns að afskekktum íslenskum sveitabæ teljist til hvunndagsatburða í dag þá var það ekki svo fyrir 25 árum. En verandi í hlutverki gestgjafa með jafnaldra frá Nígeríu var ómissandi að heimsækja bændahöfðingja sveitarinnar. Og undrun Ingu vinkonu minnar þegar hún opnaði fyrir okkur þennan vetrardag var mikil og samt síst meiri en margra annarra sem hittu Tona vin minn fyrir þessa daga. En hún var óspör að rifja þetta upp, brosti að löngu liðnum heimaóttaskap okkar Íslendinga og saman gátum við hlegið að minningunni.

Kannski hafði ég hér náð að borga fyrir mig því það var hjá Ingu sem ég fyrst sá þau dýr eigin augum sem mér þótti bæði óviðeigandi og óviðfelldin í þessari rammíslensku sveit. Fannst og finnst kannski enn. Svínin í Kjarnholtum voru furðudýr og ég var hræddur við þau. Leið svipað og Ingu áratug síðar þegar ég kom með blámanninn. Og skyldi þó enginn líkja saman húsdýrum þeim og vini mínum frá Nígeríu. Nema hvað hvorutveggja var einhvern veginn á skjön við Kjarnholtin sem sagt var að Diðrikarnir hafi skipt á fyrir Laugarásinn í fyrndinni og fundist kaupin góð.

Kjarhholt-main

Í Kjarnholtum. Staðurinn hefur alltaf verkað á mig sem endimörk veraldar, svo fjarri þjóðvegi og einn í viðerni eystri tungunnar. Heimreiðin heilir tveir kílómetrar. Verkaði þannig á mig og ég held jafnvel á Ingu vinkonu mína líka. Stundum.

Ég kom þar fyrst stubbur og naut gestrisni þeirra góðu hjóna sem bæði eru nú horfin okkur. Gísla Einarssonar þá sæðingamanns og síðar oddvita Biskupstungna um áratugi og konu hans Ingibjargar Jónsdóttur. Gísli var þjóðþekktur bændahöfðingi og valmenni. Innfæddur Tungnamaður og í gamla Kjarnholtahúsinu bjuggu þrjár kynslóðir undir sama þaki. Hér var gott að vera og Gylfi vinur minn njósnaði um hvor var að elda betra, mamma hans eða amma.

Inga var Húnvetningur, frá Skárastöðum í Miðfirði og gat oft séð Tungurnar með augum aðkomumannsins. Var samt meiri Tungnamaður en við flest og trygg sinni sveit. Bjó þar ekkja síðasta áratug ævi sinnar í íbúð sem hún og Gísli höfðu komið sér upp í Reykholti. Þar í hverfinu var vinnustaður bóndans í áratugi í umsvifamiklum stjórnunarstörfum. Í hans tíð breyttist rekstur Biskupstungnahrepps úr því að vera erilsamt stúss meðfram búskap yfir í að vera stjórnsýslustofnun með kostum þess og göllum. Það var enginn betur fallinn til að leiða það starf en Kjarnholtabóndinn. Hann var félagsmálagarpur, sveitamaður, söngmaður og sagnamaður.

Og vitaskuld ekkert af þessu án þess að eiga sér traustan lífsförunaut sem var Inga í Kjarnholtum. Hélt áfram að vera Kjarnholtakonan þó að hún væri á pappírunum löngu flutt þaðan. Kannski alltaf tilheyrandi þeim stað sem hafði verið í senn erilsamt oddvitaheimili og líka heimili baldinna krakka og vina þeirra. Þeim Ingu og Gísla varð fjögurra barna auðið og þau börn fóru ekki með veggjum. Það var skemmtan að komast í heyskap með Kjarnholtabræðrum og síðar urðu þar fræg útimót í túninu hjá Ingu. Vornætur var trallað þar og enginn undanskilinn. Á slíkum stundum gat húsfreyjan tekið hraustlega í með okkur Tungnakrökkunum.

Seinni árin bar fundum okkar Ingu saman á mannamótum í Tungunum og ekki við annað komandi en að ég heilsaði henni með kossi. Gagnkvæmt. Við rifjuðum upp liðna óþekkt og vissum bæði að tíminn kemur ekki til baka nema í minningunni. Og kannski hinumegin. Hver veit nema Inga sé þar nú að hlusta á Gísla sinn syngja upp Megasarmelódíur.

Kjarnholtasystkinum og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ingibjargar Jónsdóttur í Kjarnholtum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.5.2008 kl. 18:42

2 identicon

Kærar þakkir Bjarni, fyrir  falleg og skemmtileg skrif um hana mömmu. Hún hefði hlegið eins og ég gerði þegar þú rifjaðir upp söguna um blámanninn.

Eins þakka ég hlýjuna og vinskap þinn til okkar í Kjarnholtum alla tíð.

Með kærri kveðju

Jenný

Jenný Gísladóttir (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 00:08

3 identicon

fFjallahringurinn er fallegur þarna uppí Tungum. Hafði oft séð Ingu, en var ekki málkunnug henni. En systir mín var það, enda búin að búa í Tungunum síðan 1955, Blessuð sé minnig hennar.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 11:09

4 identicon

Blessuð sé minning Ingibjargar

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband