Talnaleikir ESB - sinna og draumaríkið

Fréttablaðið birti fyrir nokkrum dögum tölur sem sýna að 68% þjóðarinnar vill að þjóðin hefji UNDIRBÚNING aðildarviðræðna ESB. Í raun hefur spurningin aldrei verið sett fram með svo óljósum hætti en alloft hefur þjóðin verið spurð að því hvort beinlínis eigi að hefja aðildarviðræður og 2002 vildi 91% landsmanna hefja slíkar viðræður en í sömu könnun reyndust ekki nema 52% hlynnt aðild.

IMG_1830

Undirbúningur aðildarviðræðna er mest fólginn í að reka niður verðbólgu og vaxtaokur og sjálfur myndi ég fagna því ef stjórnvöld sneru sér að slíkum verkefnum og get því tilheyrt nefndum 68%. En ég vil ekki inn í ESB.

ESB-fylgið miklu minna en 2002

Gott yfirlit yfir kannanir um ESB - aðild er að finna á heimasíðu Samtaka iðnaðarins. Af þeim má lesa að frá árinu 2003 hefur fylgi við það að hefja viðræður sveiflast frá 69% niður í 55% en í sömu könnunum hefur fylgi við aðild sveiflast frá 52% niður í 36%.

Uppsláttur í Fréttablaðinu frá í febrúar um að 55% fylgi við aðildarviðræður sé met eða fullyrðingar nú um að fylgi við ESB aðild sé nú í hámarki stenst ekki skoðun þegar farið er yfir þær kannanir sem gerðar hafa verið fyrir Samtök iðnaðarins.

Vitaskuld getur staðan í þessum málum breyst mjög hratt í þeirri efnahagslægð sem nú ríður yfir. En þá aðeins sem tímabundin óánægja með slæma hagstjórn. Það er samt

Það er samt athyglisvert að í þeirri orrahríð ESB - áróðurs sem gengið hefur yfir undanfarnar vikur fer svo að eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur aðild á stefnuskrá sinni stórtapar fylgi.

Patentlausnir hugsjónamanna

Umræðan um ESB einkennist um margt af samskonar draumsýnum og einkenndu enn fylgismenn sósíalismans fyrir hálfri öld síðan. Því er til dæmis haldið fram í sama bláeyga sakleysinu að matarverð og vextir muni lækka um tugi prósenta ef við göngum í ESB. Af því bara.

Því er líka haldið fram að ESB muni styrkja íslenska landsbyggðarmenn og leggja hér hraðbrautir í afdali. Víst er mikið styrkjakerfi í ESB en þeir eru vitaskuld handa hinum fátæku og ef við ætlum að keppa við Tyrki og Slava verðum við fyrst að verða almennilega fátækir. Það eru líka til allskonar sértækir styrkir til skrýtifólks og frumbyggja en ætlum við að fara í að skilgreina Húnvetninga sem sérstakt þjóðarbrot!

Svipuð er sú mýta að efnahagsvandinn hverfi ef við tökum upp evru. Spyrjum Íra, Ítali og Spánverja sem allir óska sér þess nú að hafa eigin mynt til að geta mætt kreppunni og forðað þannig atvinnumissi og gjaldþrotum.

(Birt í aðeins styttri útgáfu í Fréttablaðinu fyrr í vikunni. Myndin sem hér fylgir kemur efninu aftur á móti ekkert við en hún er af Agli föðurbetrung sem er hér að borða graut hjá ástkærri eldri vinkonu sinni í Teheran en strákurinn er nú kominn til Sýrlands og nú styttist í að hans hálfsársreisa taki enda.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Spyrjum Íra, Ítali og Spánverja sem allir óska sér þess nú að hafa eigin mynt til að geta mætt kreppunni og forðað þannig atvinnumissi og gjaldþrotum. "

Vá hvað þú er klár Bjarni að vera búinn að gera könnun á ÖLLUM Írum, Ítölum og Spánverjum um þessi mál.  Ef þú átt að vera svaraverður í þínum skrifum þá þarftu líka að reyna að vera málefnalegur. 

Gunnar (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 09:02

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Sjáðu nú til nafni.

Mjög er mannlegt, að vilja fara leið sem er sögð þægilegri og átakaminni, hér má ekki álasa örvæntingarfullum brauðtriturum, sem horfa uppá hækkanir á nánast öllu, hvaða nafni sem nefnist og ofan í kaupið, vaxtahækkunum og bólgnun á höfuðstæolum allra skuldbindinga.

Hitt er jafnljóst, að lygavaðallinn í Evrusinnum nær ekki nokkurri átt og fjölmiðlungarnir virðast alsendis ófærir að inna eftir RAUNTÖLUM um hagfelldi umfram það sem almennt er og hefur verið um heim allann síðustu árin.

Ekki inna þeir að heldur eftir tölum um rekstrarkosnað og samþykkta reikninga og reikningsskil hinna aðskiljanlegu appírata Evrópusambandsins.

Því er okkur ætlað að fara inn í þetta nýja Kalmarsamband, gersamlega óafvitandi um þær skuldbindingar og skyldur sem aðild leggur okkur á herðar.  ÞAð er ekki varfærinn fjölskyldufaðir, sem ekki gengur úr skugga um, hvernig í potta er búið í nýjum slóðum, sem hann hyggur sig og sitt fólk.

Kratar vilja þangað inn, þar sem þeir sjá í hyllingum, stóla og kontóra, hvar þeir sjá sjálfa sig sitja í og horfa yfir blómabeð Brussels, borandi í nefið.

Vonandi eru til menn, sem heimta tölur og beinharðann raunveruleika, ÁÐUR en farið er í viðræður við þetta lið, sem látið hefur sér duga, að öngvir skili endurskoðuðum reikningum svo árum skiptir og að ekki viti nokkur maður með vissu, hvernig fjármunum er varið, sem þangað eru greiddir.

MiðbæjarÍhaldið

Bjarni Kjartansson, 16.5.2008 kl. 10:33

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að lesa færsluna en hef ekkert að segja.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.5.2008 kl. 22:15

4 identicon

Jæja jæja, þú ert mikill kall Bjarni minn.

Auðvitað vill sauðsvartur almúginn athuga hvort grasið sé í raun grænna hinum megin við hafið. Það sér það hver heilvita maður að matvörur eru í raun ódýrari í esb löndum en hérna á klakanum. Margir segja að matarverð hafi hækkað í útlöndum, t.d í Danmörku, en flestir gleyma að taka það með í reininginn að matarkarfann þar var reiknuð í íslenskum krónum og menn ættu að muna að það var einmitt sú króna sem hrapaði. Ekki sú danska. Afhverju ekki? Jú, hún er hengd í Evruna sem er aldeilis að gera það gott gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Þetta ættu menn að sjá svart á hvítu. Þetta er ekki flókið. Ég er mjög hlyntur því að við rannsökum hvernig samninga við getum fengið og hvort kostirnir séu fleiri en gallarnir.

Bændur væla um að þegar erlent kjöt komi á markaðinn, þá séu dagar þeirra taldir. Það er ekkert nýtt að bændur væli. En þeir hafa greinilega ekki gert sér grein fyrir því að innganga í ESB er ekki bara leið til að flytja INN vörur, heldur líka ÚT. Ef þeir myndu nú aðeins taka sig á, harka af sér og þerra tárin, þá ættu þeir að sjá að þeir eru með 100x betri vöru en það sem verður flutt inn og ef að stjórnmálamenn landsins verða ekki búnir að gera alla að öreigum, þá held ég að landinn kaupi frekar gott íslenskt lamba-, svína- eða nautakjöt, frekar en ólseigar erlendu steikurnar. Verðið víkur jú oft fyrir bragðlaukunum.

Kvótakóngar óttast ESB líka. Þeir verða að gefa af kvóta sínum ef að inngöngu verður. Það er ekki langt í það að það skipti engu máli. Við erum að verða búin að þurrausa sjóinn af öllum fiski, málið er bara að við þurfum að fara að horfast í augu við það.  

 Svo til þeirra sem tala um að við höfum barist of lengi fyrir sjálfstæði til að tapa því. Hefur einhver þjóð sem gengið hefur í ESB tapað sjálfstæði sínu? Ef að allir okkar pólítíkusar eru eins og þeir sem sitið hafa á þingi síðustu 30 ár, er okkur þá ekki bestur hagur í að láta aðra stjórna okkur? Í hvaða landi (fyrir utan 3. heims ríki) hafa dæmdir afbrotamenn getað komist aftur á þing? Í hvaða löndum eru seðlabankastjórar valdir eftir stjórnmálaflokkum en ekki hæfileikum?

Diesel (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 22:48

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Aðildarviðræður og það ferli allt mun aðsjálfsögðu þýða að ná þarf niður verðbólgu.

En þú segist andvígur inngöngu í Evrópusambandið, án þess að vita hvað úr hugsanlegum aðildarviðræðum kemur. Er það ekki þvermóðska?

„ef við ætlum að keppa við Tyrki og Slava"

For you information: Hvorki Tyrkir né [Júgó]slavar eru í Evrópusambandinu.

„Svipuð er sú mýta að efnahagsvandinn hverfi ef við tökum upp evru. Spyrjum Íra, Ítali og Spánverja"

Meintirðu ekki Litháen? Lönd þar sem verðlag var lágt, en hækkaði við upptöku evrunnar? Hvernig heldurðu að það verði hér, í þessu landi lágs verðlags...NOT.

Brjánn Guðjónsson, 17.5.2008 kl. 10:24

6 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein Bjarni,við höfum ekkert erindi þarna i ESB /við berjumst saman um það/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 17.5.2008 kl. 15:08

7 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll Bjarni, góður pistill. Hér eru ástæður þess að mér hugnast ekki ESB: 

1. Hömlur á verslunarfrelsi. Hér er ein lítil saga um þetta. Ég er áhugamaður um fjarskipti með talstöðvum og mig langaði í fyrra að kaupa CB- talstöð í Bandaríkjunum og flytja inn. Mér var tjáð af starfsmanni Póst- og símamálastofnunar að það væri óheimilt að flytja inn talstöðvar nema þær hefðu CE merkingu. Nýjar CB talstöðvar framleiddar fyrir Bandaríkjamarkað eru vel nothæfar hérlendis og eru í fáu ef nokkru frábrugðnar sömu vöru sem framleidd er fyrir ESB nema að þær eru ekki með CE merkinu. Flestar eru þessar stöðvar t.d. með 4 Watta sendistyrk. Stöðvarnar var samt hægt að fá á mun hagstæðara verði í Bandarikjunum síðasta ár. Starfsmaðurinn tjáði mér að ef ég flytti inn svona stöð sem ekki væri með CE merkingu þá yrði hún gerð upptæk í tollinum! Kurteist en afdráttarlaust svar. Ég segi nei takk! Ekkert staðlað ESB helsi fyrir mig. Verslunarfrelsi er dýrmætt frelsi og uppspretta hagsældar og það ætti ekki að taka hugsunarlaust af fólki.

2. Mismunun gagnvart skyldfólki og ættingjum búsettum utan ESB. Konan mín er frá Filippseyjum og hana langaði til að útvega frænku sinni sem þar er búsett vinnu hérlendis því það vantaði starfsfólk á vinnustað hennar. Farið var í langt umsóknarferli og ítrekað auglýst og óskað eftir fólki hérlendis sem ekkert fannst. Eftir næstum árs þóf við kerfið kom loksins afdráttarlaust svar: Ákveðin synjun og vinnustaðnum bent á að snúa sér til Evrópskrar vinnumiðlunar til að afla sér starfsfólks.

3. Breytt sjálfsmynd þjóðarinnar. Ef fólk gengst inn á reglur af þessu tagi sem hér er nefnt að framan og finnur til vanmáttar síns gagnvart því að þeim sé breytt þá lamast bæði frelsishugsunin og sú hugsun að í þessu landi búi frjálsborin þjóð sem einhverju fái breytt með eigin ákvörðunum.  Ef vitringar, sérfræðingar og stjórnlyndir forræðishyggjumenn úti í löndum fá að fara sínu fram hérlendis hvað sem hver tautar og raular hérlendis (eins og til dæmis hvíldartímákvæði vörubílstjóra) þá er erfitt að ætla annað en þessi frelsissjálfsmynd skaðist.

Sjá: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/542555/

Ragnar Geir Brynjólfsson, 17.5.2008 kl. 18:54

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ragnar. Heitir ekki stofnunin Póst og fjarskiptastofnun? Varstu að gera þetta fyrir tíu árum?

1) Það er eðlilegt að krefjast CE vottunar á CB stöðvum. Hafi framleiðandi græjunnar metnað til að láta hana standast evrópskar kröfur um standbylgju og yfirtíðnir, lætur hann CE vota hana. Þú hefur líklega keypt græju frá framleiðanda sem annað hvort hefur ekki metnað til þess eða veit ekki að heimurinn er stærri en Bandaríkin (ansi margir kanar þannig).

2) Íslensk innflytjendalöggjöf. Hefur ekkert með ESB að gera. Lagast kannski við inngöngu.

Brjánn Guðjónsson, 17.5.2008 kl. 19:58

9 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Brjánn: Nei þetta var í fyrra. Póst og - eitthvað stofnun var það. Ég keypti ekki græjuna vegna svaranna sem ég fékk. Það er töluverður markaður í Bandaríkjunum sem er lokaður fyrir okkur vegna reglna um CE vottun. Sömu merkin eru vissulega til sölu í Evrópulöndunum og tækin eru þau sömu en verðið var ekki það sama og þar er í sambandi við það sem frelsið getur komið sér vel.

Íslensk innflytjendalöggjöf!? - nei aldeilis ekki. Þetta eru nýjar reglur og örugglega gerðar til aðlögunar okkar að ESB.  Það veit ég af eigin raun því þetta var ekki svona 1995 og 1996 þegar bræður konunnar minnar komu hingað til lands. Þá voru að vísu strangar reglur en alveg gegnsæjar og þá höfðu Evrópubúar ekki allan forgang fram yfir þá sem hingað vildu og gátu komið.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 17.5.2008 kl. 22:07

10 identicon

Ragnar, ég er á sama máli og Brjánn.

1) við erum ekki í ESB en samt er þetta svona. Hvað breytist? Ekki neitt. Ég vinn hjá eina trésmíðafyrirtæki landsins sem er að vinna í því að fá CE vottun. CE vottun er fyrst og fremst gæðastimpill um að ákveðin var uppfylli reglur lands þess sem kaupir vöruna. CE er staðall sem vörumerki eiga að uppfylla. Kannski er þessi CBS talstöð ódýrari í USA en hér, en er það ekki bara vegna þess að fyrirtækið sem framleiðir hana getur ekki ábyrgst gæði hennar? Við megum ekki nota öryggishjálma, öryggisskó, öryggisgleraugu né nokkuð annað sem ekki er CE merkt. Sem betur fer, því annars vissi maður aldrei hverslags drasl maður væri að verja líf sitt með.

2) Við erum ekki í ESB, hvað hefur þetta með það að gera? Ég þekki fólk í Danmörku (Danmörk er í ESB) sem í fyrra var að fá ættingja sína frá Thailandi í heimsókn. Það var lítið mál sagði maðurinn danski sem á thailenska konu.

3) Þetta verður ekki eins mikið vandamál og þú heldur.  Margar þjóðir innan ESB hafa fengið undanþágur vegna ýmissa ákvæða ESB og hví ættum við að vera einhver undantekning? (Fyrir utan það að stjórnmálamenn lands vors eru flestir ónytjungar sem skara eingöngu eld að eigin köku og kannski væri best aðÍSland lyti stjórn annara.) Engin þjóð sem gengið hefur í ESB hefur glatað sjálfstæði sínu, hvorki að hluta til né að öllu leyti. ESB er fyrst og fremst samningur um að auka viðskipti á milli landa innan samningsins. Hættið þessari helvítis þröngsýni.

Diesel (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 22:09

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er mér "næstum" :) óskiljanlegt afhverju Íslendingar yfir höfuð eru að gæla við að máta gömlu föt nýja keisarans í Evrópu þ.e. ESB. Ég er núna búinn að búa og reka fyrirtæki í ESB í 23 ár.

En ég býst við að þetta sé eins og með svo magt annað - að það vilja jú allir prófa af eigin raun hvernig pillan smakkast. Ég vildi óska að ég gæti sent ykkur þá pillu sem ég er búinn að totta á hérna síðustu 23 árin. Vildi óska að ég gæti leyft ykkur að smakka án þess að þurfa að renna henni niður.

En stóra vandamálið er jú að þar er jú ekki hægt að láta sér nægja að smakka. Um leið og pillan er komin í magann er ekki hægt að kasta henni upp aftur. Það er sem sagt engin smökkun-only möguleg. Allur rétturinn verður af fara niður og það er ekki hægt að æla honum upp ef manni verður flökurt. Engin þjóð sem ég þekki myndi fá eins mikla magapínu af ESB-pillunni eins og Íslendingar.

Letrið er varla þornað á sjálfstæðisyfirlýsingu Íslenska Lýðveldisins. Þið mynduð deyja og veðra geld miðað við það fyrirmyndar þjóðfélag sem þið búið við núna.

Tal íslendinga um hátt verðlag á hinu og þessu takmarkast oft við einhverjar ákveðnar matartegundir eða ákveðnar vörur. Þessi umræða er alveg nákvæmlega sú sama og fer fram í löndunum INNAN efnahagsbandalgsins. Allir vilja jú greiða sama matarverð og Rúmenar og Búlgarar greiða fyrir mat sinn - en - einginn vill þó vera á sömu launum og Rúmenar og Búlgarar. Enginn!

Staðreyndin er sú að allir vesturlandabúar hafa aldrei í sögu mannskyns verið eins fljótir að vinna fyrir mat sínum eins og núna. Þetta gildir einnig um verð á bensíni. Það hefur aðeins komið fyrir einu sinni áður á síðastliðnum ca. fjórum áratugum (og það var á ákveðnum tímapúnkti á áttunda áratugnum) að vesturlandabúar hafa verið fljótari að vinna fyrir einum lítra af bensíni. En olíuverð mun koma niður aftur, og það innan skamms. Ekki trúa dómsdagspredikurum í þessum efnum. Verið fegin að þið þurfið ekki að kynda húsin ykkar með olíu eða búa til rafurmagn með kolum. Verið einnig fegin að orkuverð sé ekki skattlagt á hrottalegann hátt.

En á meðan hagvöxtur síðustu 10 ára, og jafnvel enn lengur, hefur verðið lágur hér í efnahagsbandalaginu, þá hefur hagvöxtur á Íslandi verið svakalegur - eða - 45% á móti 22%.

Þið lifið eins og blóm í eggi en kvartið samt. Engin þjóð hefur eins gott atvinnuástand og þið. Þjóðartekjur á mann eru einna mestar á Íslandi og framfarir og nýsköpun er svakaleg miðað við allar þjóðir í ESB.

Ég veit að gengi íslensku krónunnar hefur skoppað þó nokkuð undanfarið. En það hafa ýmsir aðrir gjaldmiðlar einnig gert. Munið vinsamlegast, að þegar evran var sjósett hér þá féll hún strax mikið gangvart dollar. Þá sögðu menn hér að evran bæri "ónýtur" gjaldmiðill, sem var náttúrlega hlægilegt að halda fram. En núna steinþegja þessir menn, því núna er evran svo há gagnvart dollar að útflutningur frá ESB til BNA á undir högg að sækja. Evar er einungis gjaldmiðill eins og aðrir gjaldmiðlar, hún mun fara upp og niður.

Gjaldmiðlar munu alltaf sveiflast innbyrðis því þeir byggja jú á breytilegum stærðum. Það mikilvægasta er þó að hafa eingin gjaldmiðil og eigin peningastjórntæki og eign seðlabanka og sem byggir á STERKU efnahagslífi. Allt annað er einungis þokusnakk.

Íslenskt efnahagslíf hefur þróast svo hratt undanfarið að Seðlabanki Íslands hefur ekki getað fylgt alveg þeirri öru þróun í átt til alþjóðavæðingar hagkerfisins sem hefur átt sér stað undanfarin þrjú ár. Harðinn og krafturinn hefur verið svo mikill á Íslandi. En núna er einmitt verið að ráða bót á þessu. Seðlabankinn er að koma sér upp gjaldmiðilsstjórntækjum sem flestir seðlabankar í opnum hagkerfum hafa haf um áraraðir. En það er fyrst á undanförnum fáum árum að Seðlabankinn hefur haft brýna þörf á þessum stjórntækjum því hagkerfi Íslands var þá ekki nærri eins alþjóðavætt og það er að verða núna. Hérna á ég við þá currency swap (FX Swap), eða gjaldmiðaskiptasamninga sem eru í vinnslu. Sviss notar svona samninga mjög mikið.

Þið búið því við öfundverða stöðu kæru Íslendingar, sem er:

- jákvæð vandamál hagvaxtar

- nýsköpunar

- og hratt vaxandi nýjar atvinnugreinar

- í hagkerfi sem er að hnattvæðast

Það væri hreint út sagt skelfilegt fyrir ykkur að ganga í ESB. Athugið að ESB er alltaf að verða fátækara og fátækara miðað við Bandaríkin. ESB er núna með þá þjóðartekjur á mann sem Bandaríkjamenn nutu árið 1985 - og fer þetta bil vaxandi, og ekki minnkandi!

Frelsið er stærsta eign ykkar. Gætið þess vel og vandlega eins og djásn væri.

Gunnar Rögnvaldsson, 18.5.2008 kl. 03:59

12 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þessi pistill er skemmtilegur Bjarni, og pistillinn um regluverkið líka. Það vantar ekki. Það fer hinsvegar dálítið í taugarnar á mér að þú stimplir þá sem vilja inn í ESB bláeyga sakleysingja og bjána. Slíkt fólk raðar sér að líkum nokkuð jafnt í báðar fylkingar. Það er jafn kjánalegt að halda því fram að ESB sé Bjarmaland og að halda því fram án nokkurra haldbærra skýringa að þar sé vont að vera, líkt og forsætisráðherrann leyfir sér að fullyrða á milli þess sem hann segir að ekki sé tímabært að ræða málin.

Það þarf að koma umræðunni upp úr þessu lágkúrulega fari. Þú hefur aðstöðu til að gera það.

Ég held að mér vaxi báknið í Brussel jafn mikið í augum og þér Bjarni, en ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að við hefðum átt að vera búin að sækja um aðild. Þá sætum við í það minnsta ekki uppi með gjaldmiðil sem er jafn ónýtur og samningsstaða okkar er um þessar mundir.

Svo er það spurning hvort við séum, vegna afturhalds framsóknar- og sjálfstæðisflokks, komin í þá stöðu að of seint sé að stökkva um borð. Það þarf að skoða það vandlega. Það er ekki fýsilegt að ganga að samningaborðinu með stuttbuxurnar niðrum sig og kavíarklessur á belgnum. Finnar gerðu það reyndar á sínum tíma, og þeim vegnar held ég nokkuð vel.

Heimir Eyvindarson, 19.5.2008 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband