Jákvæðni í stjórnarandstöðunni...

Það er vertíð hjá okkur stjórnarandstöðuþingmönnum næstu dagana, vertíð í nöldri og málþófi. Fyrir þinginu liggja ótal mál sem stjórnin vill koma í gegn og sum þeirra svo afleit að við hljótum að gera allt sem við getum til að tefja framgang þeirra. Mikilvægast í mínum huga er að tefja framgang þess að hingað verði flutt inn hrátt ket en ég tel líka að framhaldsskóla- og háskólafrumvörpin megi bíða.

En það er mikilvægt að fara inn í tímabil eins og þetta fullur jákvæðni gagnvart viðfagnsefninu og ekki síður gagnvart stjórninni. Ég ákvað þessvegna að lista hér upp 10 ástæður fyrir því að vera reglulega ánægður þessa dagana...

- Þrátt fyrir sleifarlag og máttleysi eru samningar Seðlabankans við Skandinavísku Seðlabankans vísir að því sem gera þarf. Mjór er mikill vísir segir einhversstaðar og guð láti hér gott á vita! Ef ekkert meira gerist er það alvarlegt mál en vonandi er það ekki svo.

- Ákvörðunin um að hætta við Bitruvirkjun er fagnaðarefni. Ég hef lengi haft þá skoðun og skrifað um að í raun og veru sé það mikil öfugþróun í umhverfismálum að fara frá vatnsaflsvirkjunum til gufuaflsvirkjana. Sem unnandi Hellisheiði og Hengilsvæðinu hefi ég grátið (bara í huganum, strákar gráta ekki!!) þar margar hveraholurnar gular og fjólubláar sem horfið hafa undir steinsteypuklumpa. Djúpborun mun vonandi gera það mögulegt innan fárra ára að nýta þessa auðlind án teljandi eyðileggingar en virkjun á Ölkelduhálsi væri algerlega ólíðandi...

- Áframhaldandi hvalveiðar eru fagnaðarefni og algerlega ljóst af 5 ára reynslu að þær hafa engin teljandi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu eða markaði. Þurfum bara að auka þessar veiðar umtalsvert og raunar er það siðferðislega baráttumál í heimi þar sem matur er af skornum skammti.

- Og talandi um mat þá er andstaðan við hráa ketið vaxandi og munar þar verulega um innlegg dr. Margrétar Guðnadóttur. Þar fer kona sem full ástæða er til að taka mark á.

- Íslendingar eru að taka við Palestínskum flóttamönnum og greinilegt að það er harla óvinsæll minnihlutahópur sem talar gegn svo góðu og sjálfsögðu framtaki.

- Úps ég er bara komin með 5 atriði en þetta er nú allt nokkuð veigamikið. Hin fimm geta verið að það er vor og styttist í gönguferð um Lónsöræfi þar sem við Gulli Ólafs ætlum að rífast um Evrópusambandið allan tímann enda nennir því varla nokkur annar og svo er Íranfarinn minn að koma heim 30. maí, mótorhjólið að komast í lag og konan mín gerir ekki annað en að taka við pöntunum um tónverk en unglingurinn á heimilinu blómstrar í poppinu.

Jú og það ellefta - það er óvanalega mikið í Vötnunum, þ.e. Fóelluvötnunum ofan við Lögbergsbrekkuna og neðan við Litlu Kaffistofuna. Það ku vita á gott sumar ef það er mikið í Vötnunum rétt eins og það veit á harðan vetur ef það er mikið af fífunni og hver man ekki alla fífuna í haust er leið...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir

Viðar Jónsson (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 23:16

2 identicon

Fyrir fáum árum voru gufuaflsvirkjanir talin mjög jákvæður og

umhverfisvænn kostur sem allir rómuðu, nú allt einu eru vatsaflsvirkjanir að koma inn, undarleg stefnubreyting á ekki lengri tíma. Nú átti aldrei þessu vant að nýta orkuna í heimabyggð. Þetta hefði flogið í gegn ef nýta hefði átt orkuna á höfuðborgarsvæðinu.

Viðar Jónsson (IP-tala skráð) 21.5.2008 kl. 23:23

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Að ganga um Lónsöræfi er snilld, og ég býst ekki við því að þið komið til með að rífast mikið á ferð ykkar þar sem nóg verður til að tala um í því sem fyrir augu ber á því svæði..

Góða ferð

Eiður Ragnarsson, 22.5.2008 kl. 14:25

4 Smámynd: Dunni

Er sammála síðasta ræðumanni.  Lónsöræfin eru snilld. En vöðlavíkin er meiri snilld.

Margrét Guðnadóttir er er snillingur. Það er líka tónlistamaðurinn, Guðni, sonur hennar. Baranbarnið hennar Margrétar, Hildur dóttir Guðna, er líka snillingur á tónlistarsviðinu og einstaklega skemmtileg stúlka enda upp alin í Öldutúnsskóla.

Annars var ég dálítið ánægður eftir á þegar íslenskir tollarar, á vellinum, hirtu af mér hráa kjötið sem ég ætlaði að gefa pabba gamla í jólagjöf í hitteðfyrra.   Þeir unnu vinnuna sína og voru þjóðinni til sóma. Kurteisir og flottir og ég skildi hvað klukkan sló.

EN það sem ég skil ekki enn er af hverju verið er að selja allskonar pylsur og kjötvörur á flugvöllum um alla álfuna ef maður getur valdið hættu með að flytja varninginn til annara landa. 

Dunni, 22.5.2008 kl. 22:17

5 identicon

Aldrei þessu vant er ég næstum því sammála þér. Það er skandall að eyðileggja Ölkelduháls og hvalveiðar eru fagnaðarefni ef þær koma í veg fyrir að íslenska ríkið lendi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Um framhaldsskólafrumvarpið sjá http://atlih.blogg.is/2008-05-23/peningaplokk-i-framhaldsskolum/  Þrátt fyrir að þetta frumvarp sé e.t.v. ekki alfullkomið væri alger vitleysa að fresta því lengur og samþykkja það. Það þarf að byrja strax að laga námskrár framhaldsskólanna og frestun á gildistöku nýrra laga hefur ekkert gott í för með sér en tefur fyrir umbótum sem eru löngu tímabærar.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 22:38

6 identicon

Einhvernvegin sýnist mér bændur gefa skít í okkur (sjá fyrrverandi MBF) og afhverju ættum við þá að vernda þá. Ódýrt hrátt kjöt,ostar og annað gumelaði frá evrópu mun ég versla ef það fæst hér hjá honum Jóhannesi á horninu.

Baldur (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 23:29

7 Smámynd: Hannes Friðriksson

Já Bjarni stundum þarf maður að lista það upp sem er jákvætt, þetta neikvæða vill yfirskyggja oft á tíðum. En það er sennilega ekkert sem getur yfirskyggt ferð í Lónsöræfin. Og þar hugsar maður ekki um neitt nema náttúruna. Geymdu Evrópumálin. Góða ferð.

Hannes Friðriksson , 24.5.2008 kl. 09:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband