Í söknuði eftir Kirkjulækjar-Jóni

(Minningargrein um Jón Ólafsson 1955-2008) 

…reyr, stör sem rósir væna
rreiknar hann jafnfánýtt.
(Allt eins og blómstrið eina eftir síra Hallgrím, niðurlag þriðja vers þar sem sagt er frá hinum slynga sláttumanni.)

Jón á Kirkjulæk var reyr sterkur og rós væn en samt fallinn langt um aldur fram. Að honum er eftirsjá í héraði og mikill mannskaði. Líf okkar sem eftir sitjum litlausara að hafa hann ekki með okkur.jon_og_fjolskylda

Kirkjulækjarbóndinn var allt í senn, athafnamaður, listamaður og lífskúnstner af besta tagi. Hraðkvæður og öllum fremri þegar kom að hinni fornu kvæðamannaíþrótt. Gat þar kveðið bæði ljúflega og ekki síður á slíkri útopnu og hljómstyrk að til fádæma heyrði. Í list sinni færði þessi afkomandi Bólu – Hjálmars okkur langt aftur í aldir. Það sem var okkur framandi og í besta falli kunnugt af bók eða æfðri dagskrá í sjónvarpi var Jóni sjálfsögð veröld frá blautu barnsbeini. Í fjölskyldu Maríu móður hans hafði þráðurinn aldrei slitnað og þess sáust merki. Þau mæðgin sem oft komu fram saman stóðu hér föstum fótum í íslenskri menningu án nokkurrar tilgerðar. Kveðskapur þeirra Maríu og Jóns myndaði þannig eðlilegt framhald þess að vel mannsaldri fyrr hafði María farið ung stúlka með föður sínum, Jóni Lárussyni og skemmt með rímnastemmum í Reykjavík og víðar.

Þegar leið á kvöld átti Jón til að lauma hendinni í vasa eftir svartri stílabók sem hann sjálfur nefndi því óvirðulega nafni, klámskinnu. En þrátt fyrir nafnið geymdi bók þessi marga góðgripi skáldsins á Kirkjulæk, óborganlega bragi um kímileg atvik, smellnar tækifærisvísur og auðvitað á köflum vísur sem best var að bíða með fram í myrkur. En jafnvel í kersknis- og afmorskveðskap skein í gegn gæska skáldsins og jákvæðni öðru fremur.

Jón á Kirkjulæk var fjarri því einhamur og líklega sá vina minna sem sómt hefði sér jafn vel á hvaða öld sem er Íslandssögunnar. Nútímalegur en samt afbragð torfhleðslumaður og smiður. Hraustmenni, sagnamaður og náttúrubarn. Einstakt ljúfmenni en gat verið fastur fyrir. Athafnamaður sem ekki spurði alltaf að verkalaunum en mat fremur verkið og gildi þess. Kaffihús hans og Ingu, Kaffi Langbrók ber þessu vitni og ekki síður Meyjarhofið sem vitnar um síkvikan áhuga á íslenskri menningu og endurreisn menningararfsins.

Það er trautt að lýsa minningum og laglausum manni varla fært að lýsa stemmusöng Jóns á Kirkjulæk. Hann var þeim ógleymanlegur sem heyrðu. Fyrir hinum sem hvorugt þekktu, manninn eða stemmukveðskap hans standa verkin í túni Kirkjulækjar sem og mannvænleg börn listamannsins. Um leið og ég votta þeim og Ingu mína dýpstu samúð þakka ég samfylgdina og það ríkidæmi sem er í minningunni um góðan dreng og félaga.

(Birt í Mbl. á útfarardag sl. föstudag. Myndin er frá Sigurði Boga Sævarssyni af Jóni og fjölskyldu.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Kvitt,mjög svo vel orðuð minning um mætan mann sem fell frá um aldur fram/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 7.7.2008 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband