Óskabörnin skjögrandi með grjót í maganum
27.7.2008 | 00:48
Í þýsku ævintýri segir frá úlfi sem sofnar sæll eftir vel heppnaða máltíð en verður fyrir því að veiðimaður skiptir út mannaketinu fyrir grjót. Bjargar um leið heimasætu sögunnar og ömmu hennar. Þegar rándýrið vaknar eru yfir því þyngsli. Það skjögrar að næsta brunni eftir svaladrykk en hrapar þar ofan í og sekkur til botns. Er úlfur sá þar með úr sögunni og engum harmdauði.
Öðru máli gegnir um íslensk fyrirtæki sem hafa líkt og úlfurinn verið skorin upp á undanförnum árum, ekki einu sinni heldur oft. Að því hefur staðið fámenn stétt nýríkra auðmanna sem með hjálp banka og annarra fjármálafyrirtækja hafa þar tekið sjóðina, eigið fé fyrirtækjanna, út úr þeim en sett skuldir í staðin. Skuldir þessar eru fyrirtækjunum þungar, þau skjögra nú um og einhver munu hrapa til dauðs líkt og úlfurinn í Rauðhettusögunni.
En ólíku er hér saman að jafna. Úlfurinn er í sögunni með illa fengna matarfylli. Íslensku fyrirtækin hafa aftur á móti fyllt sig með sjóðum í margra áratuga ólgusjó viðskiptalífsins. Lagt til þess svita þjóðarinnar og sjóðir þessir voru með vissum hætti eign þjóðarinnar allrar. Sætir eðlilega nokkurri furðu hvernig hervirki sem þetta getur átt sér stað í dagsbirtu í íslensku efnahagslífi.
Löglegt en siðlaust
Fórnarlömb þessara aðgerða hinna meintu auðmanna voru við upphaf leiks verðmetin út frá vexti og viðgangi á síðustu öld. Með miklu og góðu framboði af lánsfé á alþjóðlegum mörkuðum var vöskum og duglegum fjármálamönnum lánað fé til kaupa á viðkomandi fyrirtæki. Í þenslu undanfarinna ára óx fyrirtækið að verðmæti og innan fárra ára var fyrirtækið sem keypt var fyrir 90% lánsfé allt í einu talið hafa verulegt eiginfjárhlutfall. Þá var leikurinn endurtekinn. Aftur var útvegað lánsfé, nú fyrir allri kaupupphæðinni og enn öðrum félagi selt fyrirtækið eða öll hlutabréf gamla félagsins. Andvirðið notað til áframhaldandi hlutafjárkaupa og nú kom útrásin til sögunnar.
Peningar flæddu úr landi og við galopna lánamöguleika gat sá sem átti milljarð fjárfest fyrir 10 milljarða á alþjóðlegum mörkuðum. Eftir stóð gamla fyrirtækið sem gat verið flugfélag, niðurlagsverksmiðja, flutningafyrirtæki eða verslun en nú með gríðarlega skuldastöðu sem þó taldist í ársreikningum viðundandi. Allt vegna þess að verðmæti sama fyrirtækis hafði verið fært jafnt og þétt upp á við á mörkuðum sem stjórnað var af fámennum hópi í fámennu landi.
Við leik þennan réði mestu hið síðastnefnda. Fámennið og samtrygging á markaði milli fáeinna útvalinna auðmanna sem jafnframt voru stórir hluthafar í bönkum landsmanna. Með innbyrðis viðskiptum milli manna sem áttu margskonar sameiginlega hagsmuni tókst að mæla upp verðmæti einstakra hlutabréfa langt umfram það sem raunhæft getur talist. Þannig var við upphaf leiks miðað við að fyrirtækin borguðu sig upp á 5 árum en í sumum tilvikum komið upp í 40 ár þegar dansinn stóð sem hæst. Í einu tilviki voru hlutabréfakaup skuldsett fyrir fjörtíuföldu nafnverði í félagi sem nú er selt á genginu sex. Veðin bakvið þau hlutabréfalán eru í dag harla rýr.
Óskabörn á brauðfótum
Fyrirtæki sem fyrir áratug var skuldlítið metið á 10 milljarða skuldar nú 20 milljarða og er í ársreikningum metið á 25 milljarða. Vandamálið er að nú þegar syrtir að fer gamla matið að vera nær lagi en það nýja. Fyrirtækið sem við fyrri dýfur í íslensku efnahagslífi stóð af sér brotsjói með sterkri eiginfjárstöðu berst nú í bökkum. Ekki þarf lengi að lesa viðskiptablöð á árinu 2008 til að sjá að mörg af óskabörnum hins íslenska atvinnulífs eru nú í þessum flokki. Þessi óskabörn voru brjóstvörn okkar í fyrri efnahagsþrengingum en eru það ekki lengur.
Einhverjir munu halda því fram að umræddir athafnamenn hafi haft fullt frelsi til að gera það sem gert var. Þar er samt ástæða til að staldra við. Umrædd fyrirtæki nutu virðingar meðal þjóðarinnar sem traustar stoðir efnahagslífsins. Sum þeirra höfðu orðið til með almennum samskotum í formi hlutafjár eða stofnfjárframlaga.
Mörg þessara félaga voru um skeið á almennum markaði og einstaklingar sem hvergi komu nærri ráðagerðum um að taka eigið fé út úr fyrirtækjunum töpuðu þannig sparifé við kaldrifjað brask fárra manna.
Þegar við bætist svo það samspil sem hér var leikið milli hinna stóru hluthafa, banka og fjármálastofnana fer réttur hákarlanna að verða vafasamur bæði í lögfræðilegu og siðferðislegu tilliti. Allt þetta samspil kallar raunar á rannsókn og yfirferð mála þar sem allt er dregið undan steini.
Séreignarréttur í atvinnulífi gefur engum rétt til að hundsa almennar reglur siðgæðis og viðskipta. Atvinnulíf landsmanna mun allt súpa seiðið af þeim glannaskap og græðgi sem einkennt hefur hlutafjárbrask fámennrar klíku fjáraflamanna. Þannig hafa fáir menn vegið að þeirri sameign sem atvinnulíf og hagkerfið er þjóðinni allri. Þeir aðilar sem koma nú heim í heiðardalinn eftir að hafa tapað milljörðum eru fæstir borgunarmenn fyrir því tapi. Það er þjóðin öll sem borgar hér brúsann, beint með keðjuverkan viðskiptalífsins. Óbeint með versnandi skuldatryggingaálagi ríkis og viðskiptalífs í landinu.
Afsökun ytri skilyrða
Nú er auðvitað hægt að halda því fram að ef ekki hefði komið til alþjóðleg fjármálakreppa í heiminum þá hefðu hlutir aldrei farið jafn illa og nú horfir í íslensku viðskiptalífi. En það er fráleitt að ætla hinum nýríku viðskiptajöfrum þann barnaskap að þenslan héldi áfram til eilífðarnóns. Lögmál hins kapítalíska hagkerfis eru einmitt bylgjuhreyfingar upp og niður.
Og þó svo að vitaskuld sé hægt að benda á lítilsháttar hagstjórnarmistök undanfarinna ára koma þau siðleysi viðskiptalífsins harla lítið við. Ef einhversstaðar er hægt að skella skuldinni á stjórnvöld þá er það helst í vaxtastefnu Seðlabankans og því að eftirlit með fjármálastofnunum í landinu hefur verið takmarkað. Þar hljóta stjórnvöld að draga nokkra lærdóma.
Hinir nýríku munu fæstir draga af málum mikla lærdóma enda leikur þeirra gerður í fullkominni meðvitund. Með því að hola fyrirtækin að innan og setja níðþungar skuldir inn í stað eiginfjár hafa einstakir menn hagnast ótæpilega og eiga margir sitt á þurru landi erlendra reikninga. Aðrir hafa náð að tapa í gambli erlendra hlutafjárviðskipta,- en þeir töpuðu þar peningum sem fengnir voru fyrirhafnarlítið og án persónulegra skuldbindinga.
Endurmat frjálshyggjunnar
Vandamál þau sem hér eru rakin einskorðast ekki við Ísland þó ljóst sé að í fáum hagkerfum vestrænum hafi verið jafn langt gengið eins og hér á landi. Hér er til dæmis mikill munur á Íslandi og hinum EES löndunum tveimur, Noregi og Lichtenstein. Ofurskuldsetning er vandamál víða í ESB og einnig í Bandarísku viðskiptalífi.
Hér að framan er nefnt að ástandið kalli á virkara fjármálaeftirlit, rannsókn á því sem gerst hefur og síðast en ekki síst endurskoðun á vaxtastefnu Seðlabanka Íslands sem hefur beinlínis stuðlað að útrásinni með áralöngu ofurgengi íslensku krónunnar.
En hin alþjóðlega fjármálakreppa er líka skipbrot þeirrar óheftu frjálshyggju sem riðið hefur húsum um allan heim um langt árabil. Hópur breskra hagfræðinga boðar nú endurmat í anda New Deal stefnu Roosevelts. Það er mikilvægt að við Íslendingar fylgjumst vel með þeirri umræðu og hætt verði að horfa til patentlausna í hagkerfinu, hvort sem það er Friedman, Greenpeace eða ESB hillingar sem hinir trúgjörnu vilja veifa.
(Birt í Morgunblaðinu föstudaginn 25. júlí 2008)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð grein Bjarni,með þeim betri!!!!!/Kveðja Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 27.7.2008 kl. 00:57
Raunsönn lýsing á því ástandi sem hér hefur ríkt undanfarin misseri og allir meðalgreindir menn vissu hvernig myndi enda. ---- Nema þeir sem réðu ferðinni. Þeir hafa ásamt stórgróðasnillingunum setið í sínum fílabeinsturnum, með kíkinn fyrir blinda auganu.
Þórir Kjartansson, 27.7.2008 kl. 08:46
Ætlarðu nú alveg að ganga fram af þeim Halldóri, Finni, Olafi Ólafs. Valgerði, Birni Inga, Árna og Páli Magg, að mörgum ónefndum en ógleymdum burðarstoðum Framsóknar eins og t.d Þórólfi á Króknum?
Hvað hét hann nú aftur þessi þýski banki sem var kjölfestufjárfestirinn í kaupunum á Búnaðarbankanum; kemur hann ekki núna og bjargar bankanum sínum á Íslandi?
Ég held að þið Guðni þurfið að fá dýralækni til starfa ao fara í ærlegt hundahreinsunarátak. Losa ykkur við spákaupmennskuliðið í flokknum og gera hann að því baráttutæki landsbyggðar sem hann áður var.
Fyrst þurfið þið þó að skilja áhrif kvótakerfisins og spillinguna í Hafró.
Árni Gunnarsson, 27.7.2008 kl. 12:15
Ja hverjir skyldu nú hafa verið í stjórn og skapað þessar aðstæður, man það einhver? Þeir sem fengu bankana okkar á ekki silfur fati heldur GULL fati voru að sjálfsögðu að taka þá til að græða peninga, dagskipunin til starfsmannanna var sú að græða hver sem aðferðin væri, en það eru þeir sem skópu aðstæðurnar þeir eru þjóðfélagsmeinið, þetta eru þeir sömu oð skóku aðstæður til að menn gætu tekið óhóflega fjármuni út úr landbúnaði og sjávarútvegi með kvótabraski, og ekki bara það heldur dásömuðu verkin sín þó flestir meðaljónar sæu að á endanum yrði fólkið í landinu að borga vitleysuna. Man einhver hverjir voru við stjórnvölinn sl. 10-12 ár?
Kv.
Magnús
Magnús (IP-tala skráð) 27.7.2008 kl. 16:40
Magnaður texti!
Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 27.7.2008 kl. 23:41
Tek undir með þér Birgir. Enda er Bjarni Harðarson frábær penni og þar að auki góður stjórnmálamaður. Það hefur kannski óþarflega oft hent mig að setja ofan í við hann vegna þagnarinnar um stöðu Framsóknarflokksins í undirbúningi þessa eins mesta fjármálaklúðurs Íslandssögunnar sem stafar mestan part af hóflausri græðgi spilltra pólitíkusa í þeim tveim flokkum sem ákváðu að skipta á milli sín helst öllum eigum þjóðarinnar.
Ég vildi sjá sem flesta alþingismenn líka Bjarna Harðarsyni enda gamall framsóknarmaður sem flokkurinn yfirgaf af heimsku sinni.
Árni Gunnarsson, 28.7.2008 kl. 00:22
Árni hann heitir ,,Afhausari" á íslensku hí hí, nafn við hæfi.
Svo getum við haldið áfram, SÍS-fyrirtækin nánast öll eru nú í skjóðum fárra ofurríkra manna, sem véla um framtíð þeirra að vild. Brotið er á öllum reglum um framgang rétt settra funda ,,eigenda" ,,félagsmanna".
Hef heyrt, að kennitala eignarhaldsfélags Bifreiða og Landbúanaðrvéla og Ingvars Helga, sé gamla kennitala JÖTUNS, sem er ekkert annað en gamalt fyrirtæki SÍS-ara. Svo furðulegt sem það er, er maðurinn á bakvið allt þar, Geir Magnússon, fyrrum Samvinubankastjóri og yfirsetukona, ásamt og með Sverri Hermanns yfir SÍS. hér forðum.
Og hver heldur þú að sé ,,eigandi",--í það minnsta formaður stjórna, fyrirtækjanna? Jú Kristinn Geirsson, sem falleraði Goða hér í eina tíð, og fl fyrirtæki.
Nú kvað hann standa í að reka mann og annan í niðurskurðaferli Glitnis og kveður svo rammt að, dugnaði hans í þeim efnum, að stjórnarmen biðja hann endurskoða hlutina, þar sem hann lagði fram ítarlega tillögu ---eftir fárra vikna veru í starfi hjá Glitni,--um að reka skyldi svo og svo marga frá Glitni.
Nei það eru flest ljótustu kýli og undir heiðvirðislegs rekstrar stórfyrirtækja í ranni einmitt Framsóknar og þeirra sem bundist hafa böndum við þá líkt og nú virðist með ýmsa götustráka í ísl þjóðlífi.
Vonandi kemur það út úr okkar hremmingum núna, að gerð verði bót Braga á þessu og allt rannsakað ofaní kjölinn og þeir sem þarna hafa farið um of, verði teknir og hreinsaðir gaumgæfilega af ,,góssi sínu öllu" eins og það hét í dómum fyrri tíma.
Þjófsnautar geta svosem farið sömu leið.
Legg til að VALUR VALSSON og RAGNAR ÖNUNDARSON verði fengnir til, að skoða bankahluta útrásarinnar og hvernig staðið var við útboðsskilyrðin við sölu þeirra.
Miðbæjaríhaldið
Telur að aristokratið gamla íslenska, hefði EKKI gert svona lagað.
Bjarni Kjartansson, 28.7.2008 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.