Einangrunarsinnar og ESB aðild

Fyrir ári síðan bar mikið á þeim rökum íslenskra bankamanna að ef landið væri hluti af ESB og myntbandalagi Evrópuþjóða væri öryggi íslensku bankanna með öðrum hætti. Nú þegar bankakreppan ríður yfir er ljóst að sú vernd sem menn töldu vera af Evrópska seðlabankanum er ekki fyrir hendi. Hvert ríki innan ESB reynir nú að bjarga sínu og samstaða þar er þverrandi.

Aðild Íslands að EMU hefði þannig einungis komið inn falskri öryggiskennd ríkisvalds og banka og þar með stefnt þjóðarbúinu í enn meiri voða en þó er orðinn í dag. Í annan stað er öllum ljóst nú að það er ekki síst fyrir tilvist EES samningsins sem fáeinum íslenskum fjárglæframönnum hefur tekist að koma orðspori okkar og hagkerfi í verri stöðu en nokkurn óraði fyrir. Þeir hefðu haft sömu og jafnvel enn háskalegri stöðu innan ESB.

Einangrun eða ESB

Meðal talsmanna aukins Evrópusamruna er oft og einatt teflt fram að þeir sem tala gegn slíku séu einangrunarsinnar. Þessi rök voru mjög notuð í umræðunni um EES samninginn sem keyrður var í gegn af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins sáluga árið 1993. Framsóknarflokkurinn varaði þá við þeim samningi og taldi hann ganga gegn fullveldi þjóðarinnar. Í dag er því enn haldið fram að þeir séu einangrunarsinnar sem ekki vilja leiða þjóðina í Evrópusambandsaðild.

Hér eru mikil fornaldarsjónarmið á ferðinni því allt frá lokum miðalda hafa Evrópubúar vitað að álfa þeirra er harla lítill hluti af heimsbyggðinni. Nú við byrjun nýrrar aldar vita hagfræðingar og upplýstir stjórnmálamenn enn fremur að Evrópa er sá hluti heimsbyggðar þar sem hvað minnstir vaxtamöguleikar eru í verslun og viðskiptum. Viðbrögð gömlu heimsveldanna í Evrópu við þessari þróun er að einangra álfuna og byggja utan um hana tollamúra en opna fyrir aukin viðskipti milli ríkja innan álfunnar. Í reynd er þetta einangrunarstefna sem ekki er til farsældar fallin.

Bankakreppan nú er líkleg til að laska verulega þann samruna sem orðið hefur milli Evrópuríkja og því er jafnvel spáð að evran eigi erfitt uppdráttar á næstu árum. Ekki vil ég þó óska henni annars en góðs. En það er stór hætta á að kreppan nú leiði líkt og fyrri kreppur til aukinnar einangrunarstefnu allra iðnríkja og þar er fetað inn á slóð sem gömlu Evrópuveldin þekkja vel. Við Íslendingar eigum að vara okkur á slíkum viðbrögðum.

Heilbrigð milliríkjaviðskipti

Vitaskuld eru bankagjaldþrotin áfellisdómur yfir landamæralausum útrásarvíkingum.  Við eigum því að endurskoða margt sem fylgt hefur hina svokallaða fjórfrelsi EES samningsins, einkanlega þar sem bönkum er gefinn laus taumur. En við eigum jafnframt að halda áfram að slaka hér á tollum og auka fríverslun okkar við sem flesta heimshluta. Hugmyndir um alþjóðlega fjármála- og viðskiptamiðstöð á Íslandi milli austurs og vesturs gátu átt meira erindi til okkar en nokkru sinni. En ekkert slíkt getum við þróað innan vébanda ESB. Þessvegna eru það öfugmæli hin mestu þegar ESB sinnar halda því fram að þeir séu hinir frjálslyndir alþjóðasinnar.

Ef vel á að fara verðum við Íslendingar að gæta þess eftirleiðis að innleiða ekki á færibandi lagasetningu ESB án þess að kanna til hlítar hvaða afleiðingar það hefur fyrir þjóðarbúið. Icesave-reikningarnir færa okkur heim sanninn um að ef gáum ekki að okkur mun enginn annar tryggja að lagaumhverfið samrýmist íslenskum hagsmunum.

Lúalegt kosningabragð

Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um þá kröfu að þjóðin fái að kjósa um mögulega ESB aðild. Á sínum tíma gerðu Framsóknarmenn og fleiri gagnrýnendur EES samnings kröfu um kosningar um þann samning en hlutu ekki til þess stuðning. Sumir af þeim sömu og nú tala fyrir kosningum um aðild beittu sér þá með öðrum hætti.

Komi til þess að þjóðin gangi að kjörborði um stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu er full ástæða til að um leið fái hún að segja álit sitt á bæði Schengen samstarfi og EES samningnum. Svisslendingar sem þó hafa verið undir meiri þrýstingi en við að ganga inn i ESB náðu tvíhliða samningi við Brussel. Þar með eru þeir lausir undan að taka við lagafrumvörpum frá nágrönnum sínum. Með tvíhliða samningi gætu Íslendingar einnig komið sér út úr Shengen samstarfinu en með því mætti uppræta hér skipulagðar erlendar glæpaklíkur sem hreiðra um sig á Íslandi í skjóli fjórfrelsisins.

Vinsældakosning lýðveldis

Bankakreppan og mikill efnahagslegur samdráttur kann að auka tímabundið fylgi við ESB aðild og ef ekki er gætt sanngirni gætu Íslendingar lent undir Brusselvaldinu á sömu forsendum og Svíar. Þar í landi var andstaða við aðild almenn allt þar til landið lenti í gjaldþrotum banka. Þá skapaðist tímabundin vantrú á sænskt sjálfstæði og það lag gátu aðildarsinnar notað sér. Síðan þá hefur andstaðan við aðild aftur vaxið en leiðin út úr ESB er harla vandrötuð.

Það væri fráleitt og næsta lúalegt að ætla Íslendingum að kjósa um aðild á næstu misserum þegar landið allt er í sárum eftir fjárhagslega kreppu. Slík kosning er öðru fremur vinsældarkosning lýðveldisins. Mikilvægt er að bíða uns fárviðri bankakreppunnar hefur riðið yfir Evrópu og eðlilegt ástand skapast. Margt bendir til að sú holskefla verði gömlu álfunni ekki síður erfið en Ísland er nú til muna fyrr til að lenda í þeim stormi.

Ef til vill mun okkar vakra og lítt vinsæla mynt og sveigjanlega kerfi einnig valda því að við verðum fyrri til að vinna okkur út úr kreppunni en þau lönd sem læst eru í þunglamalegar skrifræðiskrumlur Brusselvaldsins.

(Birt lítillega stytt í Fréttablaðinu 23. okt. 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Bjarni.

Ég held ég hafi aldrei lesið jafn mikið af rangfærslum í einni gein.

Kynntu þér málin áður en þú fullyrðir um hluti sem þú þekkir ekki. Það er ábyrgðarhluti að fullyrða hluti sem eru rangir og draga af þessum röngu fullyrðingum enn verri ályktanir.

Eftir lestur þessarar greinar segi ég bara, "Guð hjálpi Framsóknarflokknum".

Friðrik Hansen Guðmundsson, 24.10.2008 kl. 22:03

2 identicon

Það er einkennilegt að lesa þennan pistil.  Ég er einn þeirra sem hef rekið fyrirtæki í nokkrum löndum EB og á Íslandi, ég bara skil ekki hvað þú ert eiginlega að tala um, er þinn fróðleikur af netinu?

Mér sýnist sem þinn pistill sé skrifaður á grundvelli mjög þröngs sjóndeildarhrings sem nær tæpast fram yfir garðinn þinn og þú gerir þér amk. ltila grein fyrir því gríðarlega vanda sem fyrirtæki og almenningur eru að glíma við, ef þú heldur að það sé hægt að hinkra og bíða.  

Það gilda hér á landi fyrir okkar fólk, starfsmenn og fyrirtæki, nákvæmlega sömu rök og hafa gilt fyrir almenning og fyrirtæki í löndum í kring um okkur, Danmörku, Svíþjóð...  Við erum hluti af heild, viðskiptalegri og menningarlegri.  Var þetta fólk svo vitlaust að það sá ekki þessi djúpu sannindi þín, eða kann að vera að þú sért bara ekki að sjá stóru myndina.

Það myndi ýmsum þykja sem þekkingu hafa á, að hugmyndir eins og þær einangrunarhugmyndir sem þú ert klárlega málsvari fyrir, fari halloka í dag þegar nánast allt sem þið hafið haldið fram er að fótum komið.  Hvað er krónan núna, alþingi er valdalaus afgreiðslustofnun, lagasetning í besta falli slitrótt, eftilitstofnanir í rúst, Seðlabankinn og aðrar stofnanir með aflóga pólitíkusa.  Hvað í ósköpunum er það sem við eigum að halda í, fleirri ákvarðanir ykkar?  er ekki alli í lagi með ykkur?

Lög og reglur EB eru á grunni meðalhófs og það er í nánast alla staði einfaldara að reka fyrirtæki þar, hvað þá þegar horft er til reglna og laga.  Þar er neytendalöggjöf ágæt, gjaldmiðill í lagi og sjálfstæði þjóða t.d. mun meira en er hjá okkur í dag.

Hvaða sjálfstæði eruð þið eiginlega að tala um, sjálfstæði fátæktar?  Auðvitað er að slitna traust milli okkar landsmanna og ykkar pólitíkusanna, þetta vitið þið sjálfast manna best. 

Traust fyrirtækja og pólitíkusanna er löngu farið.  Þannig er nærtækt að benda á tilmæli SA, VI, SI og fl, sem ekkert mark er tekið á vegna þess að hugsuðirnir á þingi eru svo djúpur að þeir bara vita allt betur.  

Þú afsakar þú ég skjóti á þig föstum skotum, verkefni þessa dagana eru þannig að það er þungt í mörgum.  Ef til vill er það þannig að það séu fyrst og fremst þið stjórmálamenn sem  þurfið þið að fara að taka ykkur á og hugsa ykkar gang, verkið sem þið eruð að skila er ekki sérlega merkilegt.

Má ég þá biðja um EB

eval (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 22:12

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér fyrir þennan pistl Bjarni.

Þessi einangrunarsöngur ESB-sinna er einmitt hjákátlegur og gersamlega öfugsnúinn. Að ganga í ESB er það sama og tryggja sig gegn velmegun (hedging against prosperity) því eins og þú bendir á þá er vöxturinn ekki hér og hefur ekki verið hér síðustu marga áratugina.

Þessutan er ESB að breytast í elliheimili. Einkaneysla í Þýskalandi hefur aukist um 0,00% frá árinu 2000 og Þjóðverjar hafa varla fengið launahækkun í 20 ár og draga laun allra á evrusvæði niður með sér.

Suður Evrópa er nánast á hausnum og Austur Evrópa er að staðna enda er atvinnuþáttaka þar nánast engin því þar er ekkert ungt fólk og engar barnsfæðingar.

Það verða kosningar í Þýskalandi á næsta ári og þar mun sennilega eiga sér stað heimsmet því 50% kjósenda verða þar orðnir sextugir. Hægt er að ímynda sér hvað verður kosið um.

Ég hef rekið fyrirtæki í ESB siðan 1989. Ég mun aldrei gleyma því hvernig það var að sitja í 1.2% verðbólgu með 12% stýrivexti og 10-12% atvinnuleysi árum saman.

Atvinnuleysi í ESB er núna í sögulegu lágmarki en er samt 7,5% og fer hratt hækkandi. En eitt helsta aðalsmerki ESB er hátt atvinnuleysi, 8-10%, áratugum saman og nánast enginn hagvöxtur.

Bankarekstur:

Fjármála og bankageirinn mun hörfa 30-40 ár aftur í tímann um allan heim og sérstaklega í ESB. Millibankamarkaður mun hverfa eins og við þekkjum hann í dag. Fjármögnun verður eins og hún var fyrir átatugum síðan.

Í ESB munu aðeins sterkustu og best fjármögnuðu stofnanir lifa af. Hvernig mun ESB takast á við þetta? Munu það eiga sér von?

Bankar í ESB eru núna að reyna að komast í gegnum lausafjárkreppu dagsins í dag, og það með hjálp ríkisábyrgða og með fjármagni frá ríkisstjórnum.

Þegar þessi akút kreppa mun verða yfirstaðin þá mun þurfa að fjármagna bankana uppá nýtt því það verða settar miklu strangari kröfum um hærra eiginfé bankanna - það mun flestum þeirra reynast erfitt og því munu þeir deyja eða verða sameinaðir öðrum bönkum. Svo munu ríkisstjórnir ESB þurfa að fara út í stórkostlega skuldabréfaútgáfu og er hún nú þegar orðin mjög erfið fyrir mörg ríki í ESB. Það er alls óvíst að myntbandalagið muni þola þennan jarðskjálfta.

Mestu erfiðleikarnir munu koma í ljós á næstu árum þar sem meðalatvinnuleysi í ESB mun hækka upp í 12-15% og því í 15-25% innan sumra ríkja ESB. Þá verður ekki gott að hafa Ísland galopið með Shengen samningnum. Það verður hreint skelfilegt.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 24.10.2008 kl. 22:54

4 identicon

Blessaður,

Það er ljóst að ef menn vilja bara vel við sitt una þá getur hver bær tekið upp sinn gjaldmiðil.  En Það er sennilega ekki góð hugmynd.

Þú verður að gera þér grein fyrir að 300.000 manns er eins og smá bær í þýskalandi.  Þetta er allt of smátt fyrir ríki sem er vel tengt.  En ef menn eru til í að sitja einir út í sínu horni, FLOTT.

 Nonni

Jón (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 23:06

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

ESB er ekki gjaldmiðill. Það er ríki í smíðum.

Gunnar Rögnvaldsson, 24.10.2008 kl. 23:13

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Gunnar

Þessi talnafræði þín og neikvæði tónn gagnvart ESB breyta samt ekki þeirri staðreynd að lönd ESB eru ekki með gjaldþrota bankakerfi eins og við. Lönd ESB standa í dag ekki á barmi gjaldþrots og verða að bjarga sér frá þjóðargjaldþroti með því að gerast kennitölusvindlarar eins og við. það birtist frétt í dag vegna vandamál Dana með dönsku krónuna, fyrirsögn fréttarinnar var eitthvað á þessa leið: Seðlabanki Evrópu mun verja dönsku krónuna fram í rauðan dauðan. Og trúðu mér, þegar Evrópubúar tala um "rauðan dauðann" þá meina þeir rauðan dauðan.

Þú eins og allir aðrir verða að fara að "freisa" það að okkar "sjálfstæðisstefna" með okkar sjálfstæða gjaldeyrir og okkar sjálfstæðu fjármála- og eftirlitsstofnanir beið sitt endanlega gjalþrot í dag/gær þegar Geir Haarde beygði sig undir Alþjóðlega gjaldeyrissjóðinn og afsalaði valdi sínu sem forsætisráðherra yfir ríkisfjármálunum í hendur sjóðsins. Þeir stjórna í dag, ekki Geir.

Við stöndum hér, gjaldþrota þjóð, með ríkisstjórn sem hefur framselt vald sitt til Alþjóðlega geldeyrissjóðsins. Með öðrum orðum Ísland er gjaldþrota og búið er að skipa Skiptastjórann. Við almenningur verðum að vona hið besta. Fjöldi fólks er að undirbúa för af landi brott.

Ef við horfum hlutlægt yfir sviðið þá eru tveir kostir í boði. Í vestri eru BNA. Samfélag sem gengur út á misskiptingu eftir efnahag. Þar gengur allt út á peninga og peningar skipa einstaklingunum í stéttir. Misskiptingin er svo mikil og hatrið milli þjóðfélagshópanna að efnameiri hluti samfélagsins telur sig verður að ganga um vopnaður. Fellibylurinn Katrín sem gekk yfir Louisiana fyrir nokkru sýndi okkar úr hverju þetta samfélag er. Um leið og lögreglan gat ekki með vopnavaldi haldið upp lögum og reglum réðst fátækasta fólk samfélagsins inn í ríkari hluta borgarinnar, rændi þar, nauðgaði og drap. Þeir skutu á björgunarþyrlurnar til að flæma þær frá ríkustu hverfum borgarinnar meðan þeir athöfnuðu sig. 

Græðgin ein ræður ríkjum í vestri. Þar vill engin búa sem er fatlaður eða þjáist að erfiðum sjúkdómi. Þegar þeir sem þar ráða vilja loksins átak í að byggja yfir fátæklingana sem fylla öll tjaldsvæði landsins búandi í tjöldum og hjólhýsum þá leysa þeir það með því að hjólhýsafólkið kaupir hús eða íbúðir og skrifar undir skuldabréf sem það getur ekki staðið við. Þessi skuldabréf selja síðan helstu fjármálastofnanir landsins út um allan heim. BNA ætlaðist til að umheimurinn borgaði húsnæðið yfir hjólhýsafólkið þeirra. það er ljóst að það voru samantekið ráð að hvorki yfirvöld né hjólhýsafólkið ætlaði að borga. Yfirvöld ætluðu ekki að búa til eitthvað félagslegt kerfi til að byggja yfir þessa fátæklinga sína eins og allar aðrar þjóðir heims hafa gert. Nei, ekki BNA. Þeir fundu eins og alltaf aðferð til að láta umheiminn borga. Þeim sást því miður ekki fyrir afleiðingarnar, fjármálakreppu sem breiðst hefur um allan heim sem m.a. hefur valdið því að BNA er komin í dag með öll fasteignalán landsins í fangið og stærsta félagslega "Íbúalánasjóð" sem búin hefur verið til.

Í austri eru hins vegar margar þjóðir sem tala mörgum tungum. í Evrópu er uppspretta vestrænnar menningar. Í vestri búa þjóðirnar sem gáfu okkur lýðræðið, færðu okkur fullveldið og hafa leyft okkar að vera sjálfstæð þjóð frá 1944. í Evrópu hefur verið barist í 7.000 ár. þar búa sjálfstæðar þjóðir sem hafa varið sjálfstæði sitt og tilveru með kjafti og klóm í 7.000 ár. Haldi einhver að það eigi að vera lognmolla á fundum þar sem þessar þjóðir ráða ráðum sínum þá er það misskilningur. Það mun aldrei verða. Sem betur fer.

Evrópa byggir á allt öðrum grunni er BNA. Þar er félagslegt réttlæti í hávegum haft. Evrópskir hægrimenn og jafnaðarmenn hafa mótað þetta samfélag í yfir þrjú hundruð ár. þar er vagga okkar lýðræðis og okkar fullveldis. Með inngöngu í ESB og upptöku evru munum við styrkja fullveldi og sjálfstæði Íslands. Með inngöngu í ESB getum við verið áfram sjálfstæð þjóð hér yst í norður Atlantshafinu. Sjálfstæð þjóð sem mun þá verða metin sem jafningi meðal annarra sjálfstæðra þjóða Evrópu. Blóm meðal blóm í þeirri fjölbreyttu flóru blóma sem byggja og hafa byggt Evrópu í þessi mörg þúsund ár.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.10.2008 kl. 01:03

7 identicon

Í gær bárust þær fréttir að Evrópski seðlabankinn myndi verja dönsku krónuna með kjafti og klóm til að koma í veg fyrir að hún sveiflist meira en 2,25% miðað við evru. Orð þín um samstöðuleysi innan ESB er ótímabær grafardans innblásinn af óskhyggju. Mín tilfinning er sú að mikið samráð eigi sér stað innan ESB, en þar er líka tekið tillit til nálægðarreglunnar. Hvert ríki þekkir best til sinn fjármálageira og er best í stakk búið til að takast á við brýnan aðsteðjandi vanda. ESB, með sína sérþekkingu – sem þú kallar skrifræði - mun nú fylgja á eftir með endurskoðun regluverks um fjármálastarfsemi, sem hefur raunar verið í farvatninu, t.d. varðandi eftirlit.  Við skulum sjá hvort ESB kemur ekki niður á jörðina á báðum fótum . Kannski verður ástæða til að auka samstarf, ekki draga úr því.  EES samningurinn hefur almennt fært okkur miklu betra samfélag bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Starfsumgerð samfélagsins er allt önnur. Úreltum lagaboðum forræðishyggju og hafta hefur almennt verið kastað á róða og hvort sem þér líkar það betur eða verr þá eru þær að miklu leiti byggðar á bestu framkvæmd innan aðildarríkjanna  sem þó teljast flest eða öll til ríkja sem leggja ríka áherslu á félagsleg sjónarmið.  Eru þetta ekki skilyrði sem hæfa stefnu frjálslynds félagshyggjuflokks? Allt tal um falska öryggiskennd er skrítið – það er eins og þú treystir ekki íslendingum til að fara með sjálfsforræði á eigin málum og taka skynsamlegar ákvarðanir.  Þú hefur lagt mikið uppúr því að það sé aðrir kostir í stöðunni en samstarf við önnur Evrópuríki. Bent til Kína í því sambandi og að Evrópa sé svo lítil. Það er nú samt þannig að Evrópa og sérstaklega Norðurlöndin standa okkur næst í sögu og menningu, hugsanlega ásamt íbúum Manitóba. Að lýsa því sem fornaldarsjónarmiðum að starfa með þessum vinaþjóðum okkar er fráleitt. Þú nefnir heldur ekki að langstærstur hluti okkar utanríkisviðskipta er við Evrópu – gamlir og tryggir markaðir sem gefa vel af sér. Umhverfissinninn í þér hlýtur að taka undir að það sé ólíkt betra að flytja fiskinn til Evrópu frekar heldur en hinu megin á hnöttinn. Þér verður einnig tíðrætt um tollmúrana hjá Evrópusambandinu. Hvaða tollmúra þá? Tollar á iðnaðarvörum eru almennt mjög lágir í ESB. Ertu þá að tala um tolla á landbúnaðarafurðum? Ertu að gefa í skyn að Ísland eigi að fella niður tolla á landbúnaðarafurðum í fríverslunarsamningum sínum við önnur ríki nú mitt í umræðunni um fæðuöryggi? Allt að einu hef ég meiri áhuga á að kaupa íslenskar og evrópskar afurðir í framtíðinni þar sem ég veit að gæði eru fyrirrúmi.  Samstarf við Evrópuþjóðir er sannarlega ekki einangrunarstefna hvorki til langs tíma eða skamms og við því má svo bæta að Evrópusambandið horfir líka út á við. Þú hefur talað um að við ættum að segja upp EES-samningnum. Er það ekki einangrunarstefna? Ég læt hér staðar numið. Hræðsla þín við þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður að ESB og sýnilegt vantraust þitt til kjósenda er annað mál. Það er gott við höfum fólk eins og þig til að hugsa fyrir okkur.       

Ingólfur Friðriksson (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 11:18

8 identicon

Ég biðst velvirðingar á því að greinarskil hafa skolast til.

Ingólfur Friðriksson (IP-tala skráð) 25.10.2008 kl. 11:19

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Friðrik

Þessi raunveruleikafirrta mynd þín af Evrópu minnir mig á þá tíma þegar ég sem smá polli sat úti í horni í jólaboðum og skoðaði glansmyndatímaritið frá USSR þarna í gamla daga þegar svo margir þekktu ekki sannleikann um USSR. Mig minnir að ritið hafi heitið Sovét eða USSR. Þar var máluð svipuð mynd af raunveruleikanum eins og þú ert að mála hér af þeim raunveruleka sem er hér í Evrópu. Allt er gott og simmafónían spilar í öllum hornum ESB.

Vinsamlegast athugaðu að ESB er ekki gjaldmiðill. Nei, Evrópusambandið er lyf. Þetta lyf á að hindra að Frakkar og Þjóðverjar éti hvorn annan. ESB er ekki gjaldmiðill. Það er orðið að ríki í smíðum, og alveg án þess að nokkur hafi beðið um það.

Evrópa hefur útungað heilum tveim heimsstyrjöldum á innan við 100 árum

Evrópa hefur útungað versta morðræðisríki mannkynssögunnar. Sovétríkjunum

Verstu grimmdarverk mannkynsins voru framin í Evrópu: helförin.

En það er alveg rétt hjá þér, að þrátt fyrir þetta koma margir góðir hlutir frá Evrópu. En það er því miður ekki hægt að éta glansmyndatímarit ein og sér. Það þarf atvinnu og peninga til þess að halda lífi í Evrópu. Þetta eru grafalvarlegir hlutir og það er ekki hægt að skauta framhjá þeim, þó svo að sú níunda sé sett á fóninn sökum þess að bankastjórar þriggja banka á Íslandi hafi komið fyrirtækjum sínum á hausinn.

Hvað koma Bandaríkin þessu máli við. Ætlar þú núna að fara að ganga í þau? Hvernig væri að hætta þessu voli og væli og standa í eigin fætur aftur. Það hefur alltaf reynst Íslandi best.

Kæru Íslendingar: verið einungis fegnir að þessir bankar eru farnir á hausinn. Þeir voru veikir og áttu allt ekki skilið að lifa. Þeim var stjórnað illa. En þeir voru ekki reknir illa. Alveg ágætis bankar en stefnumörkun þeirra var GÖLLUÐ! Þessvegna er þeir steindauðir núna og sem betur fer því þeir munu því ekki ná að kyrkja Íslenskt efnahagslíf næstu árin. Svona mun fara fyrir flestum bönkum í ESB á næsta ári því þá er komið að skuldadögum hér.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 25.10.2008 kl. 14:39

10 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Var ekki Evrópu bankinn að hjálpa Dönsku bönkunum við að halda gengi dönskukrónunni á þeim stað sem hún er miðað við evruna það sá ég einhverstaðar. 

Það sjálfsagt ekki allt gott við Eu en ég held að við hefðum aldrei komist svona langt í vitleysunni þar inni.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 26.10.2008 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband