Frábær Iðnó-fundur og vísitalan burt

Það eru eiginlega afglöp í bloggi að vera ekki búinn að blogga neitt um Iðnófundinn sem var í fyrrakvöld. Við mættum þar nokkrir þingmenn enda beðnir um það af fundarboðendum, fulltrúar allra flokka voru á staðnum. Var reyndar hálfundrandi að sjá bara einn frá Samfylkingunni og það varaþingmann en hann er samt einn þeirra bestu manna, sómadrengurinn Mörður Árnason.  Blöð hafa talað um það að púað hafi verið á okkur pólitíkusana og fólk aðallega verið reitt...

Þetta er dæmigerður hálfsannleikur og því aðallega lygi. En auðvitað er fólk reitt, við erum það öll. Annað væri til marks um einhverskonar geðleysi sem ég vona að sé ekki yfir okkar þjóð. En sú reiði í Iðnó beindist ekki minna að fjölmiðlum heldur en stjórnmálamönnum og mest þó að útrásarvíkingunum okkar. Við stjórnmálamennirnir sem töluðum fengum allir að tala út og þegar reynt var að yfirgnæfa okkur með púi voru fleiri sem báðu um hljóð í salinn. Þannig sá ég þetta.

Og fundurinn var þrátt fyrir reiðina mjög málefnalegur. Það er út af fyrir sig mjög merkilegt við þessar aðstæður og ef það var einhver niðurstaða þá fannst mér hún speglast í orðum tímavarðarins sem beindi því til fundargesta að nota hina miklu orku sem er í samfélaginu til uppbyggingar en ekki niðurrifs.

Svo voru mjög merkileg innlegg eins og sá kafli í ræðu Lilju Mósesdóttur hagfræðings að nú væri lag að aftengja vísitölubindingu húsnæðislána þegar ríkið hefur þau öll í sinni hendi. Ég hef lengi verið baráttumaður þess að við endurskoðum vísitöluna og þótti einkar gott að finna hér liðsmann í þeirri baráttu sem er í hópi hagfræðinga.

Vilhjálmur Bjarnason talaði gegn þessari hugmynd og vísaði til hagsmuna lífeyrissjóðanna. Ég er ekki fjarri því að það megi koma til móts við þetta með framlagi úr ríkissjóði ef á einhverjum tímabilum færi svo illa að vextir yrðu neikvæðir vegna þess að verðbólga færi fram úr því sem vænst væri...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: persóna

"Alþingismaður, bóksali, blaðamaður á Selfossi, fjögurra barna faðir, Tungnamaður, óforbetranlegur fornaldardýrkandi og mótorhjólafrík, þjóðfræðinemi, umhverfissinni fram í fingurgóma, sveitamaður og kjaftaskur,- já og framsóknarmaður af gamla skólanum."

Ertu ofvirkur?

persóna, 29.10.2008 kl. 13:37

2 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég er sammála um að fundurinn hafi verið góður og í raun eini ljósi punkturinn sem ég hef séð í langan tíma í þjóðmálunum. Þarna var málefnalegt og hófstillt fólk í fararbroddi og gaf öðrum möguleika á að vera með á lýðræðislegum grunni. Vona að þarna vaxi upp fjöldahreyfing sem geti veitt forustu um þann veg sem halda skal í framtíð lands og þjóðar.

Héðinn Björnsson, 29.10.2008 kl. 14:18

3 identicon

Hvaða flokki geta kjósendur treyst í dag þegar ALLIR stjórnmálaflokkarnir hafa brugðist illilega undanförnum árum.

Sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur bera höfuð og herðar yfir það klúður sem hefur orðið. Þessir flokkar sköpuðu þær leikreglur sem leikið var eftir án þess að sinna nokkru eftirliti.  Fyrir hverjar kosningar bentu þessir flokkar á gríðarlegan hagvöxt og lágt atvinnuleysi sem var keyrt áfram á ódýru lánsfé. Skjaldborg var slegin í kringum auðmenn og bilið milli ríkra og fátækra jókst.

Þegar framsóknarmenn og sjálfstæðimenn tjá sig um þessar mundir finnst mér ótrúlegt að þeir skuli ekki skammast sín og hafa vit á því að þegja. Það er þessum flokkum og þeim sem að þeim standa að kenna þetta ástand sem nú ríkir. Þeir ættu að hafa vit á því að þegja og vera ekki að gagnrýna þá sem eru að reyna moka skítinn eftir stjórnartíð þessara flokka.

Hvað myndu nýjar kosningar bjóða uppá? Annað rugl tímabil B og D lista? Annað aðgerðarlaust tímabil S & D lista?  Afturhaldsstjórn VG & ???? hver getur unnið með þeim?

Nú á þjóðin rétt á að marka stefnu til framtíðar. Stjórnmálaflokkarnir hafa brugðist. ESB leysir e.t.v. ekki málin í núinu en það er nauðsynlegt að hafa langtímamarkið. Því er það stæðsta hagsmunamál þjóðarinnar að fá að kjósa um aðildarviðræður um ESB. Stjórnmálamenn hafa ekki viljað taka þetta upp og ekki treyst þjóðinni fyrir framtíð landsins,,,sú ákvörðun hefur verið dýru verði keypt fyrir komandi kynslóðir. Það er sárt að hugsa til þess að börnin manns eiga eftir að gjalda fyrir klúður í efnahagsstjórn B&D lista og kaupæði nokkurra "útblátursvíkinga".  

EE (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband