Morgunblaðið 7. nóv.2008: Kjartan Jóhannsson Rétt eða rangt

ÞAÐ VAR hrollvekjandi að fá fréttir af því að stjórn eins af bönkunum hér á landi hefði tekið ákvörðun um það skömmu fyrir fall bankans að afskrifa skuldir yfirmanna og helstu stjórnenda bankans vegna hlutabréfakaupa. Í forundran spurði maður sig hvernig má þetta vera og hvernig má þetta gerast. Nú hljóta viðkomandi stjórnendur að stíga fram, afsaka gjörðir sínar og draga þær til baka, hugsaði ég, því að svona lagað gera menn auðvitað ekki. En viti menn, næsti kapítuli felst í því að verkalýðsleiðtogi úr stjórn bankans kemur fram í sjónvarpi, iðrunarlaust, og mælir bót framgöngu sinni í samþykkt skuldaafskriftarinnar. Hann hafi talið sig vera að bjarga bankanum með því að hygla yfirstéttinni en reyndar skilja almenning, þar á meðal fólk úr eigin stéttarfélagi, eftir í áhættunni. Og þessir almennu hluthafar innan sem utan stéttarfélags verkalýðsleiðtogans hafa svo fengið að blæða. Það snertir ekki snillingana í stjórn bankans.

Ekki bætti svo úr skák að aðrir tilkvaddir til að fjalla um málið, tveir alþingismenn, annar stjórnarþingmaður og hinn úr stjórnarandstöðu, reyndust þokukenndir í umfjöllun sinni. Vöfruðu þeir ýmist um í tæknilegu rausi eða lagaflækjum um hvað kynni að vera lagalega leyfilegt. Málið er einfalt. Þetta er spurningin um rétt og rangt. Enginn maður með heilbrigða skynsemi og óbrenglaða réttlætiskennd tekur ákvörðun af því tagi sem hér var tekin. Enginn – og allra síst verkalýðsleiðtogi – á að láta sér detta í hug að firra sérhagsmunahóp áhættu en láta hinn óbreytta um að mæta tapi. Þjóðkjörnir leiðtogar, alþingismenn, verða að sjá aðalatriðin. Þeir þurfa að kunna skil á réttu og röngu og segja sína skoðun á því afdráttarlaust. Þjóðin sér þetta, fólkið í landinu sér þetta og veit hvað er rétt og hvað er rangt. Það er réttmæt krafa fólksins í landinu, að yfirgæslumenn sparnaðar þess, bankastjórnendurnir, leiðtogar þess í launþegahreyfingu og síðast en ekki síst stýrimenn þjóðarskútunnar á Alþingi kunni skil á réttu og röngu og breyti samkvæmt því. Skuldaafskrift toppanna á að ógilda, afsökun væri vel þegin og þingmennirnir ættu að taka sig á. Menn verða að kunna skil á réttu og röngu.

Höfundur er fyrrverandi sendiherra


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband