Skilaboðum svarað!

Það eru ekki fleiri skilaboð!

Vissi ekki að það gæti nokkurn tíma orðið jafn langþráð að heyra vélræna rödd segja eins fáfengilega setningu. En eftir að hafa nú haft símanúmerið 1411 á eyranu klukkustundum saman þá var þetta eins og frelsandi rödd. Ekki þar fyrir að skilaboðin sem mér bárust með þessum hætti voru skemmtileg og uppörvandi. Rétt eins og tölvupóstarnir og allar aðrar kveðjur.

Semsagt takk og fyrirgefið að ég næ ekki að svara nema broti.

Vil svo koma einu á framfæri. Það sem ég gerði og varð ástæða afsagnar minnar var ekki rétt, ekki réttlætanlegt og sjálfum mér ekki sæmandi. Þrátt fyrir langar útskýringar fjölmargra ykkar á því andstæðri skoðun hefur ekkert haggað þessari sannfæringu minni. Ég var því strax nokkuð ákveðinn i að segja af mér og skrifaði afsögnina aðfaranótt þriðjudagsins. Beið hinsvegar með að birta hana vegna tilmæla þar um, meðal annars frá forystumönnum í flokknum. Á endanum tók ég þessa ákvörðun síðan einn.

Í þessari upphaflegu afsögn lét ég fylgja útskýringu á því hvernig þetta gat gerst. Við nánari umhugsun og að ráðum míns góða vinar, Guðna Ágústssonar, sleppti ég því að birta þetta í sjálfu afsagnarbréfinu og held að það hafi verið rétt. Ég ætla samt að birta þennan kafla hér, sem svar við spurningum fjölmargra:

"Varðandi bréfaskriftir þær sem eru ástæða þessa vil ég aðeins segja þetta.

Eftir snöggan yfirlestur á bréfi þeirra Gunnars Oddssonar og Sigtryggs Björnssonar flaug mér um stund í hug að þetta ætti erindi við alþjóð. Ég ákvað því að senda það á aðstoðarmann með skilaboðum sem flestum eru kunn. Til þess að létta aðstoðarmanni mínum verkið ákvað ég að láta netföng fjölmiðla fylgja í sendingunni sem laus texti í skjalinu. Til þess að kalla þau fram notaði ég svokallað cc hólf netbréfsins. Mér láðist svo að strika netföngin þar út aftur og tók raunar ekki eftir þeim mistökum mínum.

Þegar ég örfáum mínútum seinna hringdi í aðstoðarmann minn Ármann Inga Sigurðsson til þess að tjá honum þá skoðun mína að þetta væri nú dómgreindarlaust af mér og við skyldum nú hætta við þessa sendingu vakti hann fyrstur manna athygli mína á því hvaða mistök höfðu hér átt sér stað.

Skaðinn var þá þegar skeður og þarf ekki fleiri orð um það að hafa."

Ps: Get ekki líst því hvað það er góð tilfinning að fara nú í lopavesti áður en ég fer í vinnuna hérna hinu megin við götuna - í stað þess að setja á mig bindi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásta

Bjarni minn, ekki skil ég í sfsögn þinni því í bréfinu sem þú sendir er mikinn sannæaika að finna og það væri nær að Valgerður segði af sér. Ég tæki ofan fyrir þér ef ég ætti hatt!

Ásta, 12.11.2008 kl. 15:25

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta var mikill feill hjá þér Bjarni, þú áttir að halda því ótrauður fram að þetta bréf ætti erindi við alþjóð, sem það á, og aldrei að viðurkenna annað en þú hafir valið skilvirkustu leiðina til að koma því á framfæri.  En með því að segja af þér ertu búin að gera innihald bréfsins að algjöru aukaatriði.

Þú ert maður af meiru með því að segja af þér víst að samviskan sagði svo, en Framsóknarflokkurinn vissulega fátækari.

Magnús Sigurðsson, 12.11.2008 kl. 17:19

3 identicon

Það slæma við uppsögnina þína var það að missa þig af þingi,jafnskemmtilegur og þú getur verið,en jafnframt það góða við þetta var það að það skuli þó leynast sæmilega heiðarlegur maður sem kunni að skammast sín.

Bestu kveðjur.

Gaflarinn.net (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 17:43

4 Smámynd: Soll-ann

Bjarni þú ert minn maður, er reyndar ekki sátt við að þú sagðir af þér því þú varst einn af fáum sem varst þarna af heillindum.

Vonandi kemurðu sterkur til baka.

Soll-ann, 12.11.2008 kl. 18:12

5 identicon

Auðkýfingar eru’ í vörn
eða fara huldir
ófædd mega barnabörn
borga þeirra skuldir.

GlG (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 18:56

6 identicon

Til hamingju Bjarni að vera laus úr ormagryfjunni. Ég er þó á því eins og fleiri að ýmsir aðrir hefðu átt að segja af sér frekar en þú. T.d. títt nefnd Valgerður. Innihald bréfsins eru bara staðreyndir. Þetta mál og önnur sem eru í gangi í dag minna á ástandið í fjölskyldu alkóhólista. Sá sem vogar sér að segja upphátt frá því sem að er, er samstundis tekinn að lífi, útskúfaður, jafnvel þó að ástandið sé öllum ljóst. Þá er betra að eiga enga fjölskyldu en þurfa að leita samþykkist í þannig félagsskap. Áfram Bjarni!

ps. ég hef aldrei skilið hvað þú ert að gera í framsóknarflokknum.

Lipurtá (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 19:06

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

blessaður vertu, þú verður mættur aftur áður en við vitum af. ég hef sjaldan verið skoðanabróðir þinn, en þú ert skeleggur og leggur fram rök fyrir skoðunum þínum, þótt ég fallist ekki alltaf á þau. við þurfum fulltrúa allra skoðana á þingið. líka fulltrúa þverhausa landsins

komdu fagnandi sem fyrst.

Brjánn Guðjónsson, 12.11.2008 kl. 20:16

8 Smámynd: ragnar bergsson

Þetta var slæmt Bjarni minn ef 63 þingmenn hefðu sagt af sér ættir þú að ver no. 63.  Þú býður þig aftur fram baráttukveðjur.

ragnar bergsson, 12.11.2008 kl. 20:18

9 identicon

jæja, eru þá allir framsóknarmennirnir búnir að lýsa sinni skoðun !

sola (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 20:27

10 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mundi ekki kalla mig framsóknarmann!!!!,alls ekki, en samvinnumann kannski/en við þurfum að fara að breyta þessu og kjósa menn en ekki flokka ,þetta flokkaveldi er gengið sér til húðar/en bestu kveðjur til þin og þinnar fjölskyldu Bjarni og megi þer ganga allt i hagin/bóksalan einnig/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.11.2008 kl. 21:15

11 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Já, það er athyglisverð hugmynd að kjósa einstaklinga inn á þing. Við værum með kjördæmi af stærðinni 1-3 manns hvert og kjósandi verður að merkja við persónur.

Auðvitað þurfa þessar persónur að hafa með sér samtök til að ná málum fram, en með þessu þá væri prófkjörið framkvæmt í kjörklefanum. Innan allra flokka eru góðir kostir og slæmir. Sumir njóta trausts langt út fyrir sinn flokk, en aðrir þingmenn ættu að vera löngu farnir og væru það ef þeir væru ekki nógu dyggilega varðir af flokknum sínum.

Einar Sigurbergur Arason, 13.11.2008 kl. 02:48

12 identicon

Heill og sæll Bjarni.

Já það er slæmt að hafa misst þig af þingi. En ég veit þú kemur fljótt aftur.

Þú verður að afskrifa þennan Framsóknarflokk, þetta er bara maðkétinn fúaspíta eftir að þú fórst frá borði.

Nú þurfum við að stofna alvöru stjórnmálasamtök til að verja landið okkar áföllum og til að landið okkar verði ekki veðsett eða selt þessu BANDALAGI ANDSKOTANS ESB.

Þessi nýju stjórnmálasamtök sem þú ert hér með settur yfir eiga eiga að verja frelsi og fullveldi þjóðarinnar.

Góðar stundir.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 09:58

13 identicon

Þú ert líka fínn í lopavesti :)

linda (IP-tala skráð) 15.11.2008 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband