Gott er að geta mótmælt

Ágætu hátíðargestir

Til hamingju með 90 ára afmæli fullveldisins og ég vil byrja þessa samkomu með því að þakka ykkur öllum fyrir að koma. Það er mikilvægt að við hugum að fullveldi voru. Við eigum mikið undir að geta haldið upp á aldarafmæli fullveldisins að 10 árum liðnum. Það er ekki sjálfgefið við þá umræðu sem nú ber hæst um samruna Evrópuríkja í eitt stórt ríkjabandalag. Margir hér á landi vilja að Ísland taki þátt í þeim samruna en það er ekki samrýmanlegt því fullveldi sem þjóðin okkar barðist fyrir lungann af 19. öldinni og fagnaði endanlega fyrir réttum 90 árum síðan. Í reynd markar 1. desember 1918 miklu mun meiri þáttaskil í sögu vorri en 17. júní 1944 þó svo að við höfum kosið að gera meiri og almennari hátíðisdag úr þeim síðarnefnda enda þar á ferðinni afmælisdagur okkar stærstu sjálfstæðishetju, Jóns Sigurðssonar frá Hrafnseyri við Arnarfjörð. Og víst ber 17. júní upp á betri tíma til útihátíðar en 1. desember.

Við lifum nú mikla umbrotatíma og í viku hverri berast okkur fréttir af þúsundum manna sem koma saman og krefjast aðgerða stjórnvalda og jafnvel afsagna þeirra sem með völd fara. Það er vel.

Það er vel segi ég - ekki af neinni þórðargleði yfir því að menn þurfi að segja af sér - enda kannski ekki við hæfi að sá sem hér talar hlakki yfir slíku. Og ég fagna þessu ekki heldur vegna þess að ég tilheyri stjórnarandstöðu þessa lands og telji þessvegna að boða eigi til kosninga nú á aðventunni. Það er umdeilanlegt, mjög umdeilanlegt.

Það sem er gott við mótmælin í dag  er að á Íslandi geta mótmælendur gert hróp að stjórnvöldum. Og haft áhrif á landsstjórnina. Grundvöllur þess er vitaskuld að landsstjórnin sé í landinu. Að við búum í frjálsu og fullvalda lýðræðisríki. Á 19. öld voru líka í landinu mótmælendur en áttu á þeim tíma harla erfitt með að beina mótmælum sínum í rétta átt. Gerðu þess í stað pereat að prestum og skólamönnum, seinast amtmanni norður í landi. Allt fór það framhjá þeim sem raunverulega höfðu völdin og pólitísk barátta þess tíma fór nær öll fram suður í Kaupmannahöfn. Á dönsku en ekki íslensku.

Líkt yrði komið okkar fullveldi ef svo óheppilega færi að Ísland gengist á næstu árum Evrópusambandinu á hönd. Við aldarminningu fullveldisins 1918 væri hér þjóð sem hefði 5 af 750 þingmönnum Evrópuþingsins og þrjú af liðlega hundrað atkvæðum í ráðherraráðinu. Það yrði til lítils fyrir íslenska mótmælendur að gera hróp að þessum 8 atkvæðum suður í Evrópu og hróp okkar að fulltrúum annarra þjóða yrðu heiminum áminning um að einu sinni ætluðu hinir meintu íslensku víkingar að sigra heiminn með hrokann og yfirganginn að vopni. Gagnvart valdinu í Brussel væri á ferðinni órói meðal örfárra íbúa í eyríki sem telur langt innan við prómill af heildarfjölda íbúa.

Það ku reyndar tíðkast í henni Evrópu að afsagðir og afhrópaðir stjórnmálamenn lögþinganna í heimalöndunum setjast gjarnan að góðum embættum í Brussel og hafa þar mun meiri völd en þeir höfðu nokkru sinni með sinni þjóð. Lýðræðislegt aðhald, virkni hins almenna borgara og aðkoma almennings að stjórnsýslu Evrópusambandsins er nær engin og fjarlægðin þar í millum er heldur vaxandi. Og í þeirri mynd yrðum við fjarlæg jaðarbyggð.

Verði þungamiðja löggjafarvalds og útgáfu reglugerða fyrir landið færð út fyrir landsteinana hljóta mótmæli á Austurvelli að fá á sig annan svip,- og verða jafnvel hjákátleg. Það má vissulega gagnrýna þann þátt í fullveldisafsali sem varð með EES samningi en við bætum ekki úr þeim ágöllum með því að ganga lengra á sömu braut og allt tal um raunveruleg áhrif Íslands á stjórnun mála í stórríkinu eru draumórar einhverskonar stórmennsku sem helst minna á útrásarvíkinga liðinna missera.

Um hitt má deila hvort vel hafi tekist til við landsstjórnina undanfarin misseri og ár en grundvöllur þess að þær deilur, sú lýðræðislega umræða, sem nú fer fram á íslenskri tungu, sé merkingabær og hafi tilgang er vitaskuld fyrst og síðast að við gætum að fullveldi landsins.

Með þeim orðum segi ég fullveldishátíð okkar 1. desember 2008 setta.

(Setningarávarp á 90 ára afmæli fullveldis í Salnum í Kópavogi sem haldið var af Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband