Bjarni segir sig úr Framsókn en útilokar ekki nýtt framboð

(Frétt Sunnlenska fréttablaðsins 7. janúar 2009) 

„Árið í ár verður baráttuár fyrir varðveislu fullveldisins og upprætingu á þeirri spillingu sem einkennt hefur íslenska stjórnsýslu síðustu misserin. Ég mun taka þátt í þeirri baráttu og er langt því frá hættur afskiptum af stjórnmálum þó svo að ég sitji ekki lengur á Alþingi," sagði Bjarni Harðarson fyrrverandi alþingismaður í samtali við Sunnlenska. Bjarni sendi stuðningsmönnum sínum jólakveðju fyrir nokkrum vikum þar sem segir m.a.: „Hefjum nýtt ár með nýrri baráttu!„ Aðspurður hvort að hann sé með þessu að boða framboð til Alþingis að nýju sagði Bjarni:

„Ég útiloka ekkert í þeim efnum. En ég mun ekki fara fram fyrir Framsóknarflokkinn aftur og hef sagt mig úr þeim flokki enda tel ég að þær ógöngur sem við höfum ratað í megi að hluta til rekja til þess úrelta flokkakerfis sem við búum við. Eftir brotthvarf Guðna Ágústssonar og með þeirri ESB stefnu sem nú er ráðandi í Framsókn á ég heldur ekki samleið með þeim flokki. Aðalatriðið er þó að það er flokkakerfinu að kenna hversu máttlaus stofnun Alþingi er og ég tel fulla þörf á að menn utan flokka komist til áhrifa á Alþingi. Til þess þurfa að koma fram listar sem skipaðir eru heiðarlegu fólki sem ekki er múlbundið af flokkakerfinu."

En er undirbúningur að slíku framboði hafinn?

„Það er of mikið sagt að undirbúningur sé hafinn en við höfum rætt saman svolítill hópur karla og kvenna sem höfum áhuga á að bjóða fram slíkan valkost. Límið í þeim hópi er sú afstaða okkar að Ísland eigi ekki að ganga í ESB og að brjóta þurfi á bak aftur hið sterka flokksvald sem er ráðandi í dag. Ef til þess kemur að kosið verður á árinu getur vel farið svo að við bjóðum fram en það er of snemmt að fullyrða nokkuð um það að sinni."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband