ESB kosningar eru andstæðar lýðræðinu

ESB  sinnum er gjarnt á að kalla eftir virku lýðræði með því að þjóðin fái að kjósa um ESB aðild. En er það svo að ESB kosningar séu samrýmanlegar lýðræðinu eða eru þær kannski andstæða þess.

Flest Evrópuríki hafa gengið inn á þá braut að hefja ESB kosningar. Engin dæmi eru um að þar hafi verið látið staðar numið eftir fyrstu kosningar þar sem kjósendur hafna ESB. Undantekningarlaust kallar slík niðurstaða á nýjar kosningar þar til fengin er niðurstaða sem er hinu ólýðræðislega ESB valdi að skapi. Hvort sem um er að ræða beina aðild eða einstök skref innan aðildar þá er alltaf um það að ræða að "jákvæð og rétt niðurstaða" kosninga er þegar vald hefur verið flutt frá þjóðríkinu til ESB.

Hugtakið lýðræði felur í sér að fólk hafi nokkuð um sín mál að segja og geti kosið af sér þá valdhafa sem hún treystir og kosið þá af sér ef það traust er ekki lengur til staðar. Með því að fólk kýs fulltrúa sína til löggjafarsamkomu er að nokkru tryggt að ekki séu sett á almenning þau lög og þær reglur sem almenningur er alvarlega ósáttur við. Í okkar lýðræðiskerfi eru þó margir þættir sem skekkja þessa mynd og sá stærstur að milli kjósenda og fulltrúa þeirra starfa stjórnmálaflokkar með alræðisvald yfir kjörnum fulltrúum. Því fyrirkomulagi geta kjósendur breytt ef þeir beita sér í þá veru.

En lýðræði er vitaskuld ekki mögulegt ef að almenningur hefur ekki tök á að koma að kosningu þeirra sem setja lög og semja lög. Með yfirfærslu löggjafarvaldsins til yfirþjóðlegra stofnana er í raun og veru bundinn endi á lýðræðið. Þegar við bætist fyrrnefnd regla um að þjóðir Evrópu eru látnar kjósa aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst er ljóst að ESB kosningar eru andstæða lýðræðisins.

Raunverulegir lýðræðissinnar hljóta að berjast gegn því að íslenska þjóðríkinu verði hent á evrópuhraðlestina.

(Birt í Mbl. 6. mars 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það ólýðræðislegt að þjóðin fái að kjósa um aðild að ESB eða einhverju öðru og hvað væri ólýðræðislegt við það að fella aðild í fyrstu kosningum en samþykkja eða fella aftur einhverjum árum síðar í næstu kosningum.  Er eitthvað ólýðræðislegt við það að þjóðin skipti um skoðun eða ekki, margt gæti valdið því.

Er það lýðræðislegt þegar einhver, til dæmis í L-lista ákveður það án kosninga að hann ætli að leiða L-listann sjálfur í einhverju kjördæminu.  Mér heyrðist þú tala þannig á kynningu L-lista. 

Snýst þetta ekki frekar um ólýðræðislega hugsun pólitíkusa sem margir hverjir óttast raunverulegt lýðræði en aðhyllast til dæmis ráðherra-og flokksræði.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 14:29

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Stattu þig Bjarni/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 9.3.2009 kl. 15:35

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Að kjósa aftur og aftur þar til lýðurinn hefur vit á að kjósa "rétt" hefur gerst oftar en einu sinni í Evrópuríkinu. Hér er t.d. frétt frá Írlandi á bresku bloggi frá því á laugardaginn.

Haraldur Hansson, 9.3.2009 kl. 15:49

4 identicon

Félagi Bjarni !

 " Heimtum aðildarviðræður"

 Aðildarviðræður um hvað ??

 Ekki einn - ekki tveir - heldur þrír framkvæmdastjórar ESB., hafa sagt í íslenska fjölmiðla, ef við sækjum um aðild - gildi EKKERT NEMA  LÖG ESB.

 Íslendingar geti ekki sett ESB nein skilyrði. Hreint og klárt.

 Samt berja Samfylkingarmenn höfðinu sífellt við steininn og æpa í fölskum kór - án þess að skammast sín.: " Við heimtum aðildarviðræður" !

 Þeir vita betur.

 Þetta gera þeir -( og kannski v-grænir einnig eftir kosningar - ) sem Rómverjar sögðu.: " Salvo pudore" - þ.e. " Án þess að skammast sín" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 17:11

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Samfylkingin fer ekki leynt með afstöðu sína til ESB aðildar.  Því miður (fyrir fylkinguna) getur hún ekki þröngvað aðildinni upp á þjóðina án þjóðaratkvæðargreiðslu, svipað og gert var með EES samninginn. 

Því vill Samfylkingin panta aðildarviðræður hjá ESB apparatinu þannig að framhaldi af þeim verði ESB samningurinn lagður í dóm íslenskra kjósenda - í trausti þess að enginn nenni að lesa smáa letrið. 

Ég ráðlegg bara öllum (þegar þar að kemur) sem hvorki geta né nenna að lesa samninginn í fyrstu umferð að kjósa NEI -  það má treysta því að þið fáið að kjósa um málið aftur - og aftur...

Kolbrún Hilmars, 9.3.2009 kl. 17:52

6 identicon

Skv. könnunum verður næsta þing að meirihluta skipað mönnum og flokkum sem nýlega hafa sett þjóðina á hausin án þess að blygðast sín hið minnsta.

Þurfi ég að sætta mig við það þá vil ég heldur selja Ísland í hendur erlendu valdi, EBE, hvers þing varla er kosið af fólki sem er á valdi sömu eðlisávísunar og loðnutorfa.

Glúmur (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 18:38

7 identicon

Ég er alveg sammála Páli hér að ofan.

Það er merkikleg að þú, Bjarni, skuli kalla það ólýðræðislegt að þjóðin fái að segja sinn hug og kjósa um Evrópuaðild.

Eru að meina að ef þjóðin hafni aðild einu sinni eigi hún ekki að fá að segja hug sinn aftur.

Með öðrum orðum, þú segir að fólk sé fífl og hafi ekki" vit " á því að hafa skoðanir og tjá þær.

Jóhann Kjartansson (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband