Treystum við bankaflokkunum?

Ófarir Íslendinga í efnahagsmálum eiga sér margslungnar rætur en tvennt stendur þar upp úr. Annarsvegar samþykkt EES samningsins sem ákveðin var á tveggja manna fundi. Hinsvegar einkavæðing ríkisbankanna sem lyktaði með því að aðilar tengdir Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu fengu hver sinn bankann.

Sá sem hér ritar starfaði um hríð í einum þessara bankaflokka. Af þeirri reynslu og atburðum síðustu missera er það sannfæring mín að hið sterka flokksvald stjórnmálanna og samtenging flokka og viðskiptalífs er sú meinsemd sem brýnast er að uppræta í íslenskum stjórnmálum. Gömlu flokkarnir munu ekki gera það sjálfir.

Allt frá bankahruninu hefur þeirri kröfu vaxið ásmegin að sótt sé að eignum auðmanna í skattaparadísum og þeir krafðir svara um ráðslag sitt. Í fyrstu heyrðist sú krafa einkanlega frá róttæklingum og mótmælendum en nú jafnt frá hægri og vinstri.

Á móti standa bankaflokkarnir og þar verður að viðurkennast að minn gamli flokkur, Framsóknarflokkurinn, hefur skipað sér í forystu fyrir auðmannaklíkurnar að verjast allri ásókn með vísan í hugsanleg mannréttindi. Við myndun síðustu ríkisstjórnar setti Framsóknarflokkurinn samstarfsflokkunum stólinn fyrir dyrnar þegar Vinstri grænir töluðu um kyrrsetningu eigna og átti þar fulltingi Samfylkingar.

Það er vitaskuld fráleitt að hér verði almennum mannréttindum og eignarrétti vikið til hliðar en þegar upp koma ítrekað grunsemdir um ólögleg undanskot fjármuna er fráleitt annað en að yfirvöld kalli á hina svokölluðu útrásarvíkinga til skýrslutöku. Slíkt brýtur engin réttindi þeirra manna utan þau forréttindi sem þeir telja sig þá hafa keypt hjá gömlu stjórnmálaflokkunum.

Spurningin sem kjósendur hljóta að spyrja sig í komandi kosningum er hvort að þeir treysti gömlu flokksvélunum til að stýra landinu eins og ekkert sé eftir skipbrot liðins vetrar. Mörgum er tíðrætt um að hér sé um að ræða skipbrot frjálshyggjunnar og má rétt vera. Sönnu nær er þó að skipbrot þetta er skipbrot þess kerfis að landinu sé stýrt af litlum og lokuðum flokksvélum.

(Birt í Mbl. 13. mars 09)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Félagi Bjarni !

 "Framsóknarflokkurinn .. í forystu fyrir auðmannaklíkurnar" !

 Varstu örugglega með " fulle fem" þegar þú gerðist þingmaður Framsóknarflokksins ?? !!

 Blessaður nafngreindu fyrirmyndarríkið sem L-listinn vill líkjast ?

 Hvar á jarðríki er slíkt ??

 Þessi pistill þinn í Morgunblaðinu ber vott um skelfilegt sjálfhól.

 Eða sem Rómverjar sögðu.: " Blandae mendacia linguac" - þ.e. " SJÁLFHÓL " !! 

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 21:46

2 identicon

Bjarni !

Það er orðið of seint fyrir þig að búa til nýtt deilumál !!!

Þú eyðilagðir gott tækifæri til að búa til nýtt afl til áhrifa !

Það var of skammur tími til að búa til marga flokka !

Þið áttuð bara að fara með öðrum andspyrnufólki !

 Því miður verður þín minnst  þannig !

JR (IP-tala skráð) 13.3.2009 kl. 21:49

3 identicon

félagi Bjarni hvar í helvíti er þessi "send"takki

zappa (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 01:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband