Það var snemmsumars 1987 að nokkrir bændasynir á mölinni komu sér saman um að stofna til blaðaútgáfu fyrir bændur landsins. Við ákváðum að kalla blað þetta Bændablaðið og félagið bakvið það Bændasyni hf. Blað þetta kom út í tæplega 8 ár og skapaði þegar best var 2 - 3 störf á ritstjórn sem fyrst var til húsa á Skúlagötu í Reykjavík en flutti síðar austur að bænum Einarshöfn á Eyrarbakka. Síðasta árið sem Bændablaðið starfaði undir okkar merkjum var það gefið út á Tannstöðum í Hrútafirði.
Hluthafar í Bændasonum ehf urðu þegar flest var á fjórða hundraðinu dreifðir um allt land en strax á fyrsta starfsári var gert átak til að fá áskrifendur í hóp hluthafa. Þannig fékk fyrirtækið lítilsháttar stofnfé til rekstrarins.
Forsaga á Bóndanum
Undirritaður var upphafsmaður að þessu framtaki og áhugann á að stofna blað um landbúnað mátti rekja til starfa minna fyrir Anders Hansen blaðaútgefanda hjá fyrirtækinu Fjölni. Þar gegndi ég ritstjórastarfi á Bóndanum sem var tímarit, upphaflega stofnað af Gunnari Bjarnasyni. Vorið 1987 sameinaðist fyrirtækið Fjölnir blaðaútgáfu Magnúsar Hreggviðssonar og í framhaldi af því var mjög óljóst um áframhald á útgáfu Bóndans og sömuleiðis störf mín hjá því fyrirtæki.
Bóndinn var heldur ekki nema að litlu leyti blað að mínu skapi og rekstrargrundvöllur hans var afar veikur. Hann keppti við tímaritið Frey en skildi sig ekki nema að litlu leyti frá því blaði. Bæði ritin voru í tímaritsformi. Sem ritstjóri Bóndans hafði ég kynnst því að erlendis voru gefin út bændablöð í dagblaðabroti og að minnsta kosti eitt hinna Skandinavísku hét einfaldlega Böndebladet. Þar var fyrirmyndin komin og þangað sóttum við um leið pólitíska og faglega leiðsögn. Dagblaðabrotsblöðin Skandinavísku voru ekki bara ferskari og fréttatengdari en bændablöðin hér heima, Freyr og Bóndinn. Þau voru líka baráttumálgögn fyrir málstað bænda og landsbyggðar. Og það var þar sem við vildum vera.
Við segi ég því mig skorti algerlega kjark til að stofna blað einn míns liðs. Ég hafði þegar hér var komið unnið við blaðamennsku í fimm eða sex ár. Fyrst sem ritstjóri Stúdentablaðsins, síðan á Tímanum og NT, Helgapóstinum, Heimsmynd og loks Bóndanum. Fór hér sömu leið og margir kollega minna í blaðamannastétt. Starfið var einfaldlega svo skemmtilegt að metorð í Háskólanum gufuðu upp og ennþá hefi ég ekki lokið við BA prófið sem ég byrjaði að efna í árið 1981.
Sveitafólkið á mölinni!
Óbrigðult og aldagamalt ráð við kjarkleysi er að tala við vini sína. Hér leitaði ég til æskuvinar míns Gylfa Gíslasonar frá Kjarnholtum og Hrólfs Ölvissonar frá Þjórsártúni sem ég kynntist í félagsmálavafstri á menntaskólaárum. Traustir menn báðir og einstaklega ráðagóðir.
Fljótlega bættust í hópinn þeir Jón Daníelsson frá Tannstöðum í Hrútafirði, Gunnar Bender ritstjóri Sportveiðiblaðsins og Arna Rúnarsdóttir sem starfaði við ljósmyndun á blaðinu fyrsta árið.
Fljótlega bættist í þennan vaska hóp margt ágætra manna og má þar nefna Einar Benediktsson bónda í Hjarðarhaga í Eyjafirði, Önnu Björku Sigurðardóttur frá Efra Lóni í Sauðaneshreppi og Ólaf Hannibalsson sem þá hafði nýlega brugðið búi í Selárdal við Arnarfjörð.
Fastir starfsmenn voru þó lengstum aðeins tveir, ég og Jón Daníelsson blaðamaður. Kynni okkar hófust raunar á Tímanum nokkrum árum fyrr og Jón var á þessum árum starfandi á Alþýðublaðinu. Jón hafði þá sem nú sem nú víða sambönd. Fyrir hans hjálp fékk fyrirtækið skrifstofuhúsnæði að Skúlagötu 32 í Reykjavík leigt á mjög sanngjörnu verði.
Baráttan fyrir byggðunum
Í leiðara fyrsta Bændablaðsins var sett fram sú stefna að blaðið vildi koma á framfæri sjónarmiðum landsbyggðarmanna. Barátta byggðastefnunnar og byggðanna umhverfis landið var mjög í brennidepli á þessum árum og Bændablaðið lét sig þá baráttu miklu varða. Í leiðaraskrifum og öðru ritstjórnarefni tók blaðið óhikað afstöðu með bændum hvort sem var í stríði við neytendasamtökin eða ríka veiðiréttarhafa við Haffjarðará, svo dæmi séu tekin frá fyrsta starfsári blaðsins.
Við sem að útgáfunni stóðum fundum fyrir miklum meðbyr og segja má að reksturinn hafi gengið vonum framar fyrstu árin. Blaðið var selt í áskrift og kostaði hvert blað tæplega 100 krónur í áskrift. Vaxandi umræða um byggðastefnu skapaði blaðinu aukinn markað utan sveitanna og strax á öðru starfsári færðum við út kvíarnar með því að gefa út systurblað Bændablaðsins, Landsbyggðina. Blöð þessi voru seld í sameiginlegri áskrift og nú var útgáfan orðin hálfsmánaðarleg.
Jafnhliða þessu gaf fyrirtækið reglulega út aukablöð sem dreift var á alla sveitabæi og aflaði með þeirri útgáfu verulegra tekna með auglýsingasölu. Auglýsingamarkaður var til muna gróskumeiri þessi fyrstu ár heldur en varð fáum árum síðar. Sjö meðal stjór fyrirtæki stóðu á þessum árum að innflutningi dráttarvéla og komu að öll sem viðskiptavinir Bændablaðsins.
1990 flutti starfssemi Bændablaðsins austur á Eyrarbakka en undirritaður flutti þangað austur árinu á undan. Segja má að þar með hafi ræst gamall draumur um að komast út úr borginni og baráttumál blaðsins jafnfram orðið að veruleika. Blaðið hafði þá marg oft sett fram þá kröfu að ríki og bændasamtök gengju fram í því að dreifa störfum sínum um landið fremur að þeim væri öllum komið fyrir í Reykjavík. Hér gekk blaðið á undan með góðu fordæmi og þrátt fyrir að rafræn samskipti væru ekki komin á þá stig sem síðar varð blessaðist vel að reka blaðaútgáfuna eystra.
Auglýsingasala var þó enn unnin að hluta til í Reykjavík enda oft snúningasamt í borginni eftir auglýsingafilmum og fyrirtækjamerkjum sem fengnar voru hjá auglýsingastofum og samkeppnisaðilum í blaðaútgáfu. Í þá daga voru svokallaðir reprómasterar notaðir til að fjölfalda merki fyrirtækja og filmur voru keyrðar út í negatívum sem urðu fjórar þá sjaldan eitthvað var prentað í fullum lit. Fjórlitaprentun var sjaldgæfur munaður og á Bændablaðinu var algengara að prenta út svokallaðan spotlit og tvo þegar mikið var haft við.
Blað á faraldsfæti
Árið 1993 fór nokkuð að halla undan fæti í rekstri blaðsins og kom margt til. Eitt var örugglega að ákveðið nýjabrum sem fylgdi útgáfunni var nú ekki lengur fyrir hendi og við það fóru áskriftatekjur að innheimtast verr en áður. Þetta var fyrir þann tíma að smáskuldir væru settar til innheimtufyrirtækja enda óskemmtileg leið. Bændablaðið fór mun persónulegri og skemmtilegri leið að vandamálinu sem var að aka á sveitabæi og rukka menn um óinnheimt áskriftagjöld. Sjálfur stundaði ég slíkar ferðir nokkra vetrardaga um Norðurland 1992 og hafði þá yfirleitt mánaðarlaun upp úr degi hverjum. Að auki mjög skemmtilega og fróðlega daga þar sem kaffi var drukkið með skemmtilegu fólki frá morgni og langt fram á kvöld! En áskrifendum fór heldur fækkandi á þessum árum og hélst þar í hendur við fækkun í sveitum. Útgáfa Landsbyggðarinnar gekk verr en ráð var fyrir gert og var blaðið sameinað Bændablaðinu árið 1990.
Í árslok 1993 ákvað undirritaður að hætta útgáfu blaðsins. Jón Daníelsson fyrrum starfsmaður blaðsins var þá fyrir nokkru fluttur norður á föðurleifð sína í Hrútafirði og fékkst þar við þýðingar og bókaskrif. Titlaði sig blekbónda á Tannstöðum í Hrútafirði. Jón yfirtók nú reksturinn og rak blaðið á eigin nafni í eitt ár norður í Hrútafirði. Hann náði að vekja að nýju þann neista sem fylgdi blaðaútgáfunni fyrstu árin. Engu að síður var rekstrargrunnurinn veikur og miklu munaði að verulegur samdráttur var á þessum árum í allri vélasölu og fyrirtæki í þeim geira til muna færri heldur en var 1987. Í árslok 1994 samdi Jón um sölu á blaðinu til Bændasamtakanna og lauk þar skemmtilegum kafla í lífi okkar beggja og um leið í sögu blaðaútgáfu í landinu.
Þó svo að hér sé getið um rekstrarerfiðleika er rétt að geta þess að fyrirtækið Bændasynir gat allan sinn starfstíma staðið í fullum skilum við lánadrottna sína og Bændablaðið slapp algerlega hjá því að stunda það kennitöluflakk sem því miður var og er enn algengt í fjölmiðlarekstri.
Mörgum árum eftir að útgáfu okkar var hætt og Bændablaðið komið í hendur Bændasamtakanna gerðu skattayfirvöld athugasemdir við hlutafélagið Bændasyni hf og áætluðu á það háa skatta. Þar sem félag þetta var í mjög dreifðri eigu og hafði þá fyrir mörgumárum lokið hlutverki sínu var það eftirlátið hinu opinbera að kalla kennitölu þessa til sín frekar en að leggja í kostnaðarsama vinnu við gerð ársreikninga utan um það sem ekki var.
Stoltir bændasynir
Bændablað bændasona hf var ekki blað sem starfaði undir verndarvæng Bændasamtakanna. Samstarfið við starfsfólk Bændahallarinnar við Hagatorg var alltaf gott en blaðið átti það til að taka gagnrýna afstöðu og vera byltingakenndara í viðhorfum heldur en átti við inni á Búnaðarþingum og fundum Stéttarsambands bænda. Það var því eðlilegt og okkur að skapi að hið nýja Bændablað bændasamtakanna keypti aðeins af okkur heiti blaðsins en byrjaði sjálft að telja árganga frá sínu fyrsta blaði árið 1995.
Bændablaðið hið nýja minnir samt um margt á gamla Bændablaðið og tekur því fram á mörgum sviðum. Bæði eru blöðin í dagblaðabroti og leggja mesta áherslu á ferskleika í fréttaflutningi eins og form þessarar útgáfu kallar á.
En þó svo að ég telji mig ekki beint stofnanda þess Bændablaðs sem nú kemur út er væntumþykja mín gagnvart því fölskvalaus og líkust því sem verður þegar maður fylgist með kærum frænda komast áfram. Og ekki laust við að velgengni hins nýja Bændablað varpi ljóma yfir kærar minningar okkar sem stofnuðum sællar minningar hlutafélagið Bændasynir hf og erum ennþá dáldið montnir af því ævintýri.
(Ritað fyrir Bændablaðið 9. mars 2009 og birt í því blaði í tilefni af 300. tölublaði.)
Bjarni Harðarson
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | 13.3.2009 | 20:35 (breytt kl. 20:49) | Facebook