Nokkur orð til Bjarna Harðarsonar

Sigurður Grétar Guðmundsson skrifar bréf til Bjarna Harðarsonar

Sigurður Grétar Guðmundsson


ÞÚ ÆTLAR hvorki meira né minna en að ráðast fram á hinn pólitíska vettvang aftur án þess að hafa nokkurn flokk á bak við þig, enda eru þeir algerlega samviskulausir eins og þú sagðir í grein þinni í Morgunblaðinu 26. febr. sl. Síðan ertu reyndar búinn að fá tvær greinar birtar í Morgunblaðinu án þess að ég hafi fengið þar inni með mitt andsvar, það á bæ er ekki greinilega gerður munur á Jóni og séra Jóni.

En hvað um krossfara eins og þig, þurfa þeir ekki að hafa samvisku, þurfa þeir ekki að vera heiðarlegir í málflutningi?

Þú nefnir réttilega að það voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sem stóðu fyrir hinni hrikalega misheppnuðu einkavæðingu bankanna en síðan seilist þú í alþekkta yfirhöfn sem kona nokkur nefnd Gróa á, sú Gróa á lögheimili á bænum Leiti. Þú bætir því við að þriðji flokkurinn, sem stóð að einkavæðingu bankanna, sé Samfylkingin og segir orðrétt „Þar fengu Sjálstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og aðilar þeim tengdir, hvor sinn banka og aðilar tengdir Samfylkingu þann þriðja í gegnum FBA sem rann inn í Glitni“, tilvitnun lýkur.

Þegar þú læddir þessu inn í mál þitt að Samfylkingin hefði komið að einkavæðingu bankanna vissirðu vel að þú fórst með rangt mál, en eins og allir sem temja sér óvandaðan málflutning er tilgangurinn augljós. Læða inn í texta ósönnum fullyrðingum sem gætu síast inn í þá sem ekki vita betur hugsandi um að það gæti komið þér vel í væntanlegri krossferð þinni.

Nú ætla ég að spyrja þig að nokkru Bjarni Harðarson.

Vissirðu ekkert um þátt Framsóknarflokksins í einkavæðingu bankanna þegar þú fórst í framboð fyrir hann í síðustu Alþingiskosningum og settist á Alþingi fyrir nefndan flokk?

Hélstu að Ólafur Ólafsson væri fátækur bóndi í Borgarfirði?

Hélstu að Finnur Ingólfsson væri þjóðsaga og hefði aldrei fæðst?

Þú baukaðir ýmislegt í þinni stuttu ævi sem þingmaður. Þú brýndir kuta einn til að reka í bakið á flokkssystur þinni, en varst svo óheppinn að brýnið rakst í rangan takka á tölvunni og þar með rauk þingmennskan. Nú kemur þú fram eins og fulltrúi gömlu Siðvæðingarinnar sem tröllreið húsum hérlendis fyrir hálfri öld. Þú ert svo sannarlega ekki lengi að að kasta öllum þínum syndum aftur fyrir þig.

Þú hefur lýst þeim ósköpum sem yfir okkur Íslendinga muni ganga ef við göngum í Evrópusambandið. En fyrst þú ert svo framsýnn að sjá það allt fyrir, viltu þá gera eitt fyrir mig. Sýndu mér og öðrum landsmönnum þann framtíðaheim sem bíður okkar ef við göngum ekki í ES og höldum þar með íslensku krónunni sem gjaldmiðli. Hvaða líf og lífskjör ert þú og þínir skoðanabræður að bjóða afkomendum okkar?

Höfundur er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi

(Birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2009)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband