Munurinn á rógburði og umræðu um spillingu

Það er ekkert ömurlegra en rógburður og gildir jafnt í stjórnmálum sem öðrum sviðum mannlífsins. Í dag gekk félagi minn Björgvin G. Sigurðsson fram og lýsti sig saklausan af ásökunum sem hann varð fyrir í Silfri Egils og víðar. Gott hjá honum og til eftirbreytni.

Hinu er ég alls ekki sammála hjá viðskiptaráðherranum fyrrverandi að stjórnmál megi ekki snúast um gerðir og heiðarleika einstaklinga sem bjóða sig fram. Á því og rógburði er mikill munur.

Ég held einmitt að stjórnmál snúist um traust og það er misbrestur á öllu trausti í samfélaginu í dag. Við höfum á liðnum mánuðum horft ofan í meira hyldýpi spillingar og gripdeilda en nokkurn óraði. Það hafa komið fram rökstuddar ásakanir að stjórnmálamenn eigi hér hlut að máli. Það er algerlega óþolandi að þjóðin gangi til kosninga án þess að þeir stjórnmálamenn sem hér eiga hlut að máli geri hreint fyrir sínum dyrum.

Stjórnmálamenn sem geta líkt og Björgvin sagt, ég á ekkert og hef aldrei þegið neitt, ættu ekki að þurfa að kvíða neinu. En stórefnaðir stjórnmálamenn sem hafa verið virkir þátttakendur í viðskiptalífinu verða vitaskuld að gera grein fyrir sinni aðkomu. Annað er ófært.

Við höfum þegar fyrir okkur yfirlýsingar stjórnmálamanna sem hafa sagt fullum fetum að þeir ætli að gera hreint fyrir sínum dyrum, að þeir vilji að allt sé uppi á borðinu o.s.frv. en ekki gert neitt til að færa hlutina upp á borðið.

Ég hefi gagnrýnt nágranna minn Björgvin G. Sigurðsson fyrir að hafa ekki gert að fullu upp samband síns flokks við stærstu viðskiptablokk landsins, Baug sáluga. Þau tengsl komu fram þegar forstjóri þeirrar keðju taldi sig geta lesið skammir yfir sitjandi viðskiptaráðherra og ég endurtek hér að ég tel enn að Björgvin G. Sigurðsson eigi að gera skilmerkilega grein fyrir þessum tengslum. Og þetta þarf að verða áður en gengið er til kosninga. Þessi tengsl komu líka fram í umræðu um fjölmiðlafrumvarpið og í frægri Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar. Það er löngu tímabært að Samfylkingin geri hreint fyrir sínum dyrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Vitaskuld snúast stjórnmál ekki um neitt annað en traust - þess vegna er nú staðan eins og hún er á Íslandi í dag. Ekki hægt að treysta nokkrum kjafti sem kemst í ræðustól á alþingi.

Björgvin, líkt og þú, skoraði stig þegar hann sagði af sér fyrir ekki margt löngu án þess að ég ætli á nokkurn hátt að bera aðdraganda þeirra afsagna saman að öðru leyti. Ég hef hins vegar ekki á neinn hátt gleymt hlut samfylkingarinnar í hruninu fremur en hlut sjálfstæðisflokks og framsóknar!

Burtséð frá því þá velti ég því stundum fyrir á dimmum kvöldum þegar rignir, líkt og nú, hvernig það hvarflar að því fólki sem var við stjórn þegar fjármálakerfi Íslands hrundi, að bjóða sig fram aftur! Ég skil jafnvel enn síður hvernig öðru fólki dettur í hug að kjósa yfir sig sama ósómann!

Kveðja yfir í þitt hús.

Hrönn Sigurðardóttir, 18.3.2009 kl. 21:31

2 identicon

Alveg sama hvað sannast.

Við ætlum að kjósa enn og aftur það sama. Hugtakið pólitísk ábyrgð er ekki til hjá okkur.  Flokkurinn minn x 4

Glúmur (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 21:34

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Góður pistill Bjarni.

"Ef maður vill stela í þjóðfélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst að hafa tekið þátt í að setja lögin sjálfur" (Organistinn í Atomstöðinni e. Laxness).

Guðmundur St Ragnarsson, 18.3.2009 kl. 21:58

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það ætti ekki að vera erfitt fyrir Björgvin að sverja af sér eignatengsl eða fjármálagjörninga. Þetta eru mál sem fyrr eða síðar koma upp á yfirborðið og fyrnast ekki. Til þess eru bókhalds- og endurskoðunarskrifstofur.

Hitt er annað, að tengsl Samfylkingar, Ingibjargar Sólrúnar, Björgvins etc. verða ekki afgreidd með einfaldri yfirlýsingu.  Þau mál eru ofin í of flókinn vef. Afsögn Björgvins daginn fyrir stjórnarslit heldur ekki vatni. Hafi Björgvin ekki verið meðvitaður um hvað gekk á í flokknum á þeim tíma er mér til efs að hann hafi átt rétt á bæjarleyfi.

Afsögnin var ekkert annað en pólitísk brella, sett fram til að kasta ryki í augu auðtrúa. Sætti menn sig við slíkan loddaraleik eiga þeir ekkert betra skilið en dusilmenni á borð við Björgvin.

Ragnhildur Kolka, 18.3.2009 kl. 23:25

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Hitt er annað, að tengsl Samfylkingar, Ingibjargar Sólrúnar, Björgvins etc. verða ekki afgreidd með einfaldri yfirlýsingu.  Þau mál eru ofin í of flókinn vef.

Það væri gaman að vita hvaða heimildir Ragnhildur hefur fyrir svona fullyrðingum?

Og eins afhverju að Bjarni talur það sönnun fyrir einhverju tengslum að:

......... Þau tengsl komu fram þegar forstjóri þeirrar keðju taldi sig geta lesið skammir yfir sitjandi viðskiptaráðherra og ég endurtek hér að ég tel enn að Björgvin G. Sigurðsson eigi að gera skilmerkilega grein fyrir þessum tengslum

Má þá ekki alveg finna tengsl núna milli L listans og Bændasamtakana sem eru sterkefnuð og hafa í L listanum menn sem tala þeirra máli gegn ESB.

Ef það að einhver Baugsmaður skammaði Björgvin þýðir að Samfylkingin sé í tengslum við Baug þá er hægt að búa til allskonar samsæriskenningar. En andstaða Samfylkingar við fjölmiðlalögin og svo þetta segir ekki neitt. Samfylkingin var ekki ein á móti þeim. M.a. var 70% af þjóðinni sama sinnis á þeim tíma. Það var vegna þess að þessum lögum var sýnilega beint gegn ákveðnum fjölmiðlum sem að ákveðnum manni var illa við.

Ef að þessi lög hefðu verið samþykkt hefði Arnþrúður Karls ekki mátt eiga Útvarp Sögu. Engin hefði getað gefið út dagblað, tímarit án þess að fá aðra með sér í það því enginn mátti eiga meira en 20% í fjölmiðlum. Sennilega hefði engin getað átt fréttasíðu á netinu án þess að fá aðra fjárfesta með sér í það.

Því væri æskilegt að þegar fólk er að koma með svona fullyrðingar að það gæti sannað þær. Annars eru þær bara aðför að mönnum eins og Björgvin

Magnús Helgi Björgvinsson, 19.3.2009 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband