Krossfesting, steinakast og galdrabrennur

Bbenedikt_gudmundsson.jpgenedikt Guðmundsson skrifar. Grein þessi var send Fréttablaðinu til birtingar en ekki birt:

Umræðan

Umræðan í þjóðfélaginu síðustu daga hefur verið harðorð. Allir hafa þörf fyrir að tjá sig og létta á sér sem vissulega er ofurskiljanlegt. Verra er þegar menn espa hvern annan upp í ofsóknum sem ganga svo langt að sumir hverjir vilja að dómstóll götunnar fái að ráða og virðist mér sem farið sé að safna eldivið í brennur. Eitt virðast allir þó sammála um að ófarir síðustu vikna eru alls ekki þeim sjálfum að kenna og fáir virðast horfa í eigin barm.

 

Krossfesting

Fátt er fyrir mér óskiljanlegra en mótmæli gegn Davíð Oddsyni. Ekki það að hann sé fullkomin frekar en við hin en að mótmæla honum minnir mig einna helst á krossfestingu forðum daga. Davíð Oddson á heiður skilið fyrir að hafa leitt þessa þjóð frá höftum til frelsis, frá fátækt til alsnækta. Hvort frelsið hafi verið misnotað af okkur sem það fengum  má væntanlega lengi deila um. En að ætla að krossfesta mann fyrir það að leiða okkur til frelsis þó svo að við höfum ekki kunnað að fara með það er vægast sagt lágkúrulegt og þeim sem það gera seint til álitsauka. Sjálfur reyndi hann ítrekað að vara okkur við því að illa gæti farið og við værum að fara fram úr okkur en sá hljómur var kæfður niður með látlausum og ómaklegum árásum sem ekki hafa farið fram hjá neinum hugsandi manni hér á landi. Davíð Oddson á sem betur fer mjög breiðan hóp stuðningsmanna um allt land sem kunna að meta hann sem einn almerkasta mann sem þessi þjóð hefur alið. Þó þessi hópur sé ekki sá sem hæst hefur eða greiðasta aðgang hefur haft til að stýra fjölmiðlaumræðunni síðustu misseri þá er þetta stór og góður kjarni íslensku þjóðarinnar.

 

 

Steinakast

Að sama skapi er mér með öllu óskyljanleg gagnrýni sú sem beint hefur verið að forseta Íslands Herra Ólafi Ragnari Grímssyni. Ólafur Ragnar hefur vissulega líkt og við hin gert mistök en að álasa honum fyrir það eitt að opna dyr fyrirtækja, einstaklinga og hugmynda frá Íslandi inn á alþjóðlegan vettvang nær út fyrir alla heilbrigða skynsemi. Að gera forsetann ábyrgan fyrir því hvernig menn gengu um dyrnar sem opnaðar voru er jafn fjarstæðukennt og að kenna Davíð um það hvernig við fórum með frelsið. Ólafur Ragnar á heiður skilið fyrir það brautargengi og þá ómældu aðstoð sem hann hefur veitt íslenskum fyrirtækjum og hugmyndum á alþjóðavettvangi síðust ár og aldrei hefur verið meiri þörf en einmitt nú að njóta starfskrafta hans á þessum vettvangi.

 

Galdrabrennur

Útrásarmenn hafa verið og munu verða þjóð sem Íslandi nauðsynlegir hér eftir sem hingað til. Að stimpla þá alla sem glæpamenn og brenna án dóms og laga segir okkur að mannskepnan hefur í reynd lítið breyst þegar óttinn er annars vegar og enn þá er leitað að galdramönnum til að brenna, væntanlega í von um að óförunum muni þar með linna. Staðreyndin er sú að hér eftir sem hingað til ættum við að forðast hleypidóma og láta dómstólum landsins það eftir að dæma hvort farið var að leikreglum eða ekki. Ef svo hefur verið er fásinna að ætla að gera eignir saklausra manna upptækar heldur hljótum við að leita leiða til að draga úr líkunum á því að samskonar mistök geti átt sér stað. En að draga okkur niður á það plan að brenna menn án dóms og laga er skref í þá átt að draga okkur til baka inn í moldarkofana, hrein fjarstæða.

 

Líta í eigin barm

Staðreyndin er kannski sú að flest hver eigum við einhverja sök á máli og mörg vorum við komin aðeins fram úr okkur og búin að missa samband við jörð. Ein lítil staðreynd er sú að við Íslendingar höfum einfaldlega upp til hópa ekki verið nothæfir í vinnu síðast liðin ár. Alveg sama hvað við komust upp með að gera lítið, allt var of mikið. Alveg sama hvað við fengum mikið, allt var of lítið. Ekkert var nógu gott og engin takmörk voru hvað við áttum að geta haft það gott. Vitanlega á þetta alls ekki við um alla en við sem þetta á við um höfum gott að því að líta í eigin barm í stað þess að kenna sífellt öðrum um þessar ófarir. Aðalatriðið er að horfa aðeins inn á við, læra af mistökum og reyna eins fljótt og unnt er að keyra af stað á nýjan leik, bera höfuðið hátt því við erum jú Íslendingar, sjálfstæð og kraftmikil þjóð með gífurlega auðugt land og vannýtt tækifæri allt í kringum okkur. Þessi reynsla kennir okkur vonandi að meta betur það sem höfum og taka slaginn áfram með hæfilegri útrás því vissulega veitir okkar litli markaður okkar kraftmiklu þjóð ekki mjög mikið svigrúm einn og sér.

 

Tækifærin

Tækifærin í dag liggja fyrst og fremst í sjálfstæði þjóðarinnar, utan ESB með sveiganlegt hagkerfi og hugsandi stjórnarmenn við völdin sem treysta sér til að stjórna og viðhalda sjálfstæði landsins og byggja upp stöðugleika á nýjan leik. Að sjálfsögðu ber okkur að halda okkar eigin gjaldmiðli og finna heppilega leið til þess að svo megi vera. Í þessu tvennu liggja okkar tækifæri til framtíðar litið. Sem sjálfstæð þjóð höfum við mikla möguleika og sveigjanleika sem á sér ekki hliðastæðu í veröldinni. Auk þess eru náttúruauðlindir okkar með þeim bestu í heiminum. Víkingablóðið er ríkt í okkur, vinnusemi og harka  býr í genunum og við höfum alla burði til að vera leiðandi þjóð í heiminum, miðstöð viðskipta milli heimsálfa og leiðandi í umhverfis- og orkumálum þrátt fyrir þetta áfall. Augu alheimsins beinast að okkur núna og vert er að sýna umheiminum hversu hratt við rísum og þar með styrk okkar og orku. Í framahaldi getum við beint kröftum okkar að því að aðstoða Færeyinga og Grænlendinga í sjálfstæðisbaráttu sinni og saman munu þessar þjóðir eiga ríkt tilkall til lands- og hafsvæðis á norðurhveli jarðar og þeim auðlindum sem þar liggja. Ef við hins vegar gefumst upp og leggjumst á hnén fyrir Evrópusambandinu mun frelsisbarátta Færeyinga líklega einnig heyra sögunni til sem væri miður. Ábyrgð okkar er því mjög mikil og nær ekki eingöngu til Íslendinga.

 

Skammsýnin

Skammsýnin segir okkur hins vegar að stökkva um borð í stórt skip, í þeirri von að það sé svo stórt að það geti hreinlega ekki sokkið og láta aðra um að stýra ferðinni fyrir okkur. Að yfirgefa okkar litla fley og gefast upp nú þegar á móti blæs. Þetta ósökkvandi skip er í þessu tilfelli Evrópusambandið en öll vitum við af biturri reynslu að ekkert skip er svo stórt að það geti ekki sokkið og betra er fyrir fámenna þjóð að halda litlu skipi á floti en að dragast niður með stóru sökkvandi skipi. Staðreyndin er nefnilega sú að ESB á í hinu mesta basli en sökum stærðarinnar tekur það lengri tíma fyrir Evrópu að sökkva og haldi menn að ástandið geti ekki verið verra en það er í dag hjá okkur þá er staðreyndin því miður sú að lengi getur vont versnað. Kraftur Íslendinga og dugnaður mun ekki duga til að halda Evrópu á floti en með sjálfstæði höfum við alla burði til þess að vera hér eftir sem hingað til ein ríkasta þjóð í heimi, leiðandi á hinum ýmsu sviðum og bera höfuðið hátt.

 

Greinarhöfundur er Íslendingur og er stoltur af því.

 

Benedikt G. Guðmundsson


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband