Af hverju er 20% hugmyndin svo slæm

Fjármálahrunið hefur valdið okkur öllum miklum búsifjum. Lán hafa hækkað, vöruverð sömuleiðis, laun dregist saman, yfirvinna minna og sömuleiðis aðrir tekjumöguleikar. Að því ógleymdu að fjölmargir hafa tapað stórfelldum eignum sínum í peningamarkaðs- og hlutafélagasjóðum og svo mætti áfram telja.

Það var kallað að tala upp í eyrun á fólki þegar einhver reynir að lofa því sem fólk vill helst heyra. Almenningur sem séð hefur bæði verðtryggð lán og myntkörfulán sín hækka óheyrilega er ósáttur við þá eignaskerðingu og vitaskuld er mikill meirihluti fullveðja landsmanna í þeim hópi. Af hverju ekki að lofa þeim að taka hækkunina bara til baka og skuldsetja ríkissjóð fyrir því,- hann er hvort eð er orðinn að botnlausum skuldapytti.

En hvar er réttlætið mætti þá spyrja. Gagnvart til dæmis þeim sem ekkert skulda. Ég hef sjálfur horft í þessu efni á dæmi af kunningja mínum sem vinnur á lægstu launum og hefur enn ekki lagt í að kaupa sér íbúð. Hann geymdi fé sitt að hluta til í peningamarkaðssjóði og tapaði heilmiklu þar en nú eiga jafningjar hans að fá fé frá ríkissjóði. Að vísu ekki sömu upphæð allir, heldur fær sá sem keypti sér 10 milljóna íbúð 2 milljónir og sá sem keypti sér 200 milljóna höll 40 milljónir.

Þannig tekst vel stæðum forstjóra í Garðabæ að fá úr ríkissjóði með einu pennastriki hærri upphæð heldur en tekst að kría út handa mikið fötluðum manni alla hans lífstíð.

Látum okkur ekki detta í hug að það sé hægt að lækka skuld um milljón án þess að það kosti milljón. Sú hugsun að ríkissjóður bæti öllum búsifjar af kreppunni er mjög hættuleg og ávísun á að við hin gráðugu aldamótabörn ætlum að henda skuldaböggum á bök barna okkar, barnabarna og þessvegna þeirra barna líka, allt til næstu aldamóta!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Ég er reyndar hrifinn af 20% niðurfellinguni þótt ég fái ekkert. Ég á hinsvegar eftir að kaupa mér hús og mun því hagnast á yfirvofandi verðlækkun. Flestir þeirra sem tekið hafa lán fyrir íbúðakaupum taka lánin vegna þess að þeir hafa ekki átt fyrir því sem þeir keyptu.

Skellurinn er því verstur á þeim sem skulda mest. Flöt niðurfelling er því einföld og hraðvirk leið. Tilgangurinn er að bjarga stórum hluta skuldara frá gjaldþroti. Greiðsluaðlögun, og vaxtabætur eru bara lenginging á hengingarólini þannig að þær leiðir stækka bara vandann. 20% leiðin mun hinsvegar mikna vandan sem er rétta leiðin út úr óstandinu.

Offari, 22.3.2009 kl. 13:07

2 identicon

það er talað um að ríkissjóður tapi og börnin okkar beri skaðan ef um þessa niðurfellingu verður að ræða, segjum að svo sé, er þá öll þessi hækkun lána okkar að koma börnum okkar til gróða í framtíðinni?? það er mér til efs að sé svo.

Hverjar eru innistæður landans? Með yfirtöku bankanna var verið að tala um að bjarga verðmætum, þá væntanlega er þar átt við með inneignum í sjóðum og bókum, og þá inneignum sem voru umfram það sem bankaábyrgðin hefði átt að vera ef þetta hefði verið látið rúlla. Því fólki er búið að bjarga, á þá ekki að láta það ganga til baka?

Er þá ekki hægt að gera kaup kaups í því sambandi, við tökum þessi 20 % af þeim sem áttu innistæður, sem ekki var eðlilegt að bjarga miðað við þessa stöðu ríkissjóð sem ekki getur komið til móts við þá sem skulda húsnæðislánin sín.

Eða bara einfalda þetta, ef fella á niður 20 % skulda þá komi á móti eignanám á því sem er umfram bankatrygginu upp á 20 %.

Í þessu sambandi er ég að tala um og eingöngu um hið venjulega heimili en ekki glæsivillur uppá tugi eða hundruði milljóna, þeir verða bara að fara á hausinn enda þvíllikt bruðl í gangi. Við verðum að skilgreina vísitöluheimilið út frá vísitölufjölskydunni.

Við verðum að muna að vísitalaln hefur verið reiknuð út frá algjörlega röngum forsendum síðustu 14 mánuði og ef þeim grunni hefði verið breytt, þ.e hvað telst vera í neyslu að þá væru lánin okkar ekki búin að hækka svona og verðbæturnar á lánin okkar því ekki hækkað þau svona mikið.

(IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 16:17

3 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Bjarni þú ert að misskilja eitthvað;   við verðum að virða jafnræðiðið  - alla leið - og sérstaklega að virða jafnræði fjármagnseigenda og lántakenda . . .  og leiðrétta fyrir því ójafnræði sem úreltur grunnur vísitölumælingarinnar skapar - - í gegn um hrunið

  • félagi þinn sem átti peninga á peningamarkaðsreikningi fékk líka prýðilegan stuðning - með atfylgi ríkisstjórnarinnar - þegar ríflega 200 milljörðum var ráðstafað til að kaupa ónýt skuldabréf peningamarkaðssjóðanna . . . .  og ekki var þá spurt hvort menn "þyrftu á því að halda að fjármunir þeirra væru tryggðir" eða hvort þeir væru ríkir að fátækir. (eðlilega ekki fyrst farin var þessi leið)
  • Vísitalan hefur hlaðið ríflega 20% á höfuðstól krónulánanna í gegn um hrunið og vegna hrunsins.  Þannig er verðtryggingin að flytja peninga frá lántakendum til fjármagnseigenda á "öfugum forsendum" þar sem hrunið skapar ekki þenslu og verðbólgu - heldur verður til mæliskekkja.  Það er vegna þess að við hönnuðum ekki verðtryggingarverkfærið til að fara með okkur í gegn um "kreppuleiðréttingu" á verðmæti fjármuna og fjármunatengdra verðmæta.
  • Það er misskilningur að "ríkissjóður" - sé sérstaklega skuldfærður með niðurfærslu - eða leiðréttingu á vísitölu-yfirskoti - heldur er verið að færa þennan hluta tjóns lántakenda úr persónulegum fjárhag fjölskyldnanna og yfir á fjármálastofnanir og "kröfuhafa" . .  á fyrsta stigi.   Efnahagur þessarra kröfuhafa og fjármálafyrirtækja lækkar sem þessu nemur, en skuldbindingarnar sem færðar verða niður eru á gjalddaga á næstu 20-40 árum . . .
  • Þeir sem lítið skulda eða ekkert skulda munu hagnast beint á aðgerðinni með því að þeim er forðað frá því að eignir þeirra hrynji í verði langt niður fyrir jafvægisverðlag fasteigna  - og að byggingamarkaður sé úr sögunni um langan tíma.  Um leið eru góðar líkur á að komist verði hjá því að greiðslufall verði í kerfinu og gjaldþrot hjá Íbúðalánasjóði og bönkunum . . .
  • Þegar niðurfelling skulda - eða niðurfærsla - á sér stað kemur sú fjáhæð til skattalegrar meðferðar.  Forstjórinn í Garðabæ (er þér í nöp við Garðbæinga?) fær því ekki neitt "gefins" ef ákveðið er að skattleggja niðurfærslu hjá þeim sem eiga meira en 25-50 milljónir nettó í eignum . .  og nota 70-90% skattþrep . . . .  með því verður til tekjustofn hjá ríkissjóði á móti því sem þú kallar gefins eitthvað . . . .
  • Ef þær 9000 fjölskyldur sem skulda st. á eigin kennitölu 22 milljarða eru eignalega sterkar - þá mundi það gefa á bilinu 15-19 milljarða í tekjur hjá ríkissjóði .  sem er ríflega sú fjárhæð sem duga mundi Íbúðalánasjóði til að mæta niðurfærslu og líklegum afskriftum lána í 2-3 ár.   (Bankafallið hefur þegar tekið 11-15 milljarða frá Íbúðalánasjóði - sem verður að bæta . . . .  auk þess).

Vandamálið lýsir sér í því að þegar eignir eru komnar með veðhlutfall yfir 80-90% er útilokað fyrir fólk að selja eignir sína - - þó sýnt sé að tekjufallið sé varanlegt . . og menn vilji ekki reyna að sitja í eign sem er þeim ofviða . . . Greiðsluaðlögun sem hleður síhækkandi eftirstöðvum á höfuðstól lánanna - og lengir lánstímann gerir það að verkum að hið óhjákvæmilega gjaldþrot verður ennþá stærra - - þó því verði frestað með lækkaðri afborgun í 2-5 ár.

Verði ekki gripið til almennrar niðurfærslu er algerlega fyrirséð að verð fasteigna lækkar um þessi 50% sem Sðelabankinn og AGS eru að spá sé miðað við tímabilið frá jan 2008 til árloka 2010.   Við þau tímamót verða minnsta kosti 50 þúsund fjölskyldur komnar í neikvæða eiginfjárstöðu - með yfirveðsettar íbúðir - og of þunga greiðslubyrði.       

Þeir sem skulda mest þurfa líka að fá niðurfærslu á verðtryggðu lánunum  - til að lækka veðmörk eignanna - - en ef þeir eru sjálfir moldríkir þá er auðvitað sjálfsagt að taka niðurfærsluna að mestu til baka í formi skattlagningar . .

Mér þykir alveg með ólíkindum að verða vitni að því að þú skulir skipa þér í varnarsveit fyrir fjármagnseigendur  - sem sjá fram á verulega ávöxtun eða hafa væntingar um óraunsæja ávöxtun - vegna gallaðrar viðmiðunar í vísitölumælingunni . . .

Vinur minn bendir á að Jón í A hann bíður eftir því að skulduga liðið hans Jóns í B borgi honum ávöxtunina á íbúðabréfin hans sem vísitalan gefur honum væntingar um . . . .   en Jón í B missti vinnuna og konan hans líka . . . .  og getur því ekki staðið við sitt.    Ekki vegna þess að J'on í B hafi tekið neina sérstaka áhættu - heldur gert sínar áætlanir allar miðað við tekjugrunn fjölskyldunnar og aðrar horfur.   Þau höfðu mjög háar tekjur - - en sjá nú fram á mjög lágar tekjur . . . .

Markaðslegu áhrifin af niðurfærsluleiðinni skila ávinningi til allra . . . og gefa langflestum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli kost á að selja sig frá vandræðum . .

Gott innlegg í rökræðu um málið er að finna á www.heimilin.is og á blogginu hans Bensa og víðar . . . http://blogg.visir.is/bensi

Benedikt Sigurðarson, 22.3.2009 kl. 21:24

4 identicon

Sæll Bjarni

Ég er hissa á þessum pistli þínum. Þú kýst að misskilja eða hefur ekki lesið tillögur Framsóknar um 20%.

Það er ekki verið að tala um það að ríkissjóður borgi. Þvert á móti því minni sem nýju bankarnir eru; því minna af eigin fé þarf að koma úr ríkissjóði. Þetta er mjög einfalt, ætlum við að skila eitthvað af þeim afslætti sem nýju bankarnir fá af eignum gömlu bankanna til skuldaranna; þ.e. heimila í landinu?

Kær kveðja

Eysteinn Jónsson

Eysteinn Jónsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband