Bannaðar skoðanir og baráttan fyrir sjálfstæði

Barátta lítillar eyþjóðar fyrir sjálfstæði sínu tekur á sig ýmsar myndir. Nú síðast þá að engum dyrum má nú loka gagnvart ESB sinnum, hvorki í umræðu né pólitísku starfi. Og ESB sinnarnir ætla sér svo sannarlega inn um allar glufur sem þeir komast.

Fulltrúar fjórflokksins býsnast nú mjög yfir því að það sé orðin til pólitísk hreyfing þeirra sem vilja standa utan ESB og að ESB sinnum skuli ekki hleypt  að starfi L - lista fullveldissinna. Þannig réðist áhrifamaður VG að hreyfingunni í nýlegum sjónvarpsþætti og sakaði hana um að vera afar ófrjálsa fyrst liðsmenn væru sammála í þessu máli.

Hugarheimur þeirra sem vilja afhenda útlendingum sjálfstæði landsins er utan þess sem ég fæ skilið. En ég hefi fyrir löngu áttað mig á vinnubrögðum þessa hóps. Hún miðar öll að því að gera hófsama sjálfstæðissinna tortryggilega og læða sér svo inn í allar stjórnmálahreyfingar, smáar sem stórar. Þannig sjáum við nú ESB sinna spretta upp í starfi Vinstri grænna og nýlega gekk einn af ESB sinnum Samfylkingarinnar til liðs við Frjálslynda flokkinn. Í prófkjörum Framsóknarflokksins takast fyrst og fremst á sannfærðir ESB sinnar, hálfvolgir ESB sinnar og hópur kleifhuga sem telur að það eigi ekki að ganga í ESB en samt að sækja um aðild.

Kleifhugaeinkennið er einnig ríkjandi í Sjálfstæðisflokki. Þar á þjóðfrelsið sér formælendur fáa og ekki hægt annað en að dáðst að Pétri Blöndal alþingismanni sem stendur þar þá vakt að minna flokksbræður sína á heiti flokksins.

 Hættulegasti áróður ESB sinna fyrir komandi kosningar er að ESB inngangan sé mál sem engu skipti nú enda ekki á dagskrá. Það er alveg ljóst að mál þetta verður meira á dagskrá eftir kosningar en nokkru sinni enda verður Samfylkingin í lykilstöðu við stjórnarmyndun. Nú munu allir flokkar koma knékrjúpandi fyrir kratamaddömmunni og biðja hana að taka sig upp í stjórnarsængina.

Landsmenn sáu glöggt í vetur hvernig mikill meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokks var tilbúinn til að leggja í ESB viðræður til að halda stjórnarsamstarfinu við Samfylkingu og þess þá heldur verða þeir tilbúnir eftir kosningar.

Í Framsóknarflokki verður sem nú Höskuldur einn í þröskuldi ESB væðingar og hjá VG stefna nú vígreifir ESB sinnar á þing. Frjálslyndi flokkurinn hefur lengi látið kúgast af þeirri bábylju að allir flokkar verði að leyfa ESB sinnum að vera innanborðs.

L - listi fullveldissinna verður eini valkostur þeirra sem vilja ljá lýðveldinu og sjálfstæðinu óskoraðan stuðning sinn.

(Birt í Fréttablaðinu 26. mars 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur ekki verið mikil umræða um jákvæðar hliðar sveigjanlegs gengis eins og íslensku krónunnar. Menn tala bara um að krónan sé handónýt og evran sé það tæki sem öllu bjargi. En gengisfall íslensku krónunnar hefur styrkt útflutningsfyrirtækin sem geta þá kannski bætt við sig starfsfólki. Og ef að íslendingar eru að tapa á falli íslensku krónunnar þá hljóta þeir að hafa verið að græða þegar gengið var óeðlilega hátt!.

ólafur jóhannsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 17:26

2 identicon

Hvernig stendur á því að svo virðist vera að VG sé ykkar helsti andstæðingur?

Er það vegna þess að þið eruð komin í samkeppni um atkvæði sem VG hugsanlega fengi í næstu kosningum?

Væri ekki nær fyrir ykkur og VG sem hafnið aðild að ESB að ná til þeirra sem eru í vafa og sannfæra þá um hvers konar stofnun þetta er?

Það er mikilvægara málstaðnum en að saka VG um að vera hlynntir ESB aðild og tæpast ræða málið út frá öðru.

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 19:06

3 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Jón. VG sigla undir fölsku flaggi  í Evrópumálum. Hafa GALOPNAÐ á
aðildarviðræður eftir kosningar og þar með umsókn að ESB.  Þetta
liggur skýrt fyrir nú eftir landsfundinn.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 26.3.2009 kl. 20:45

4 identicon

Guðmundur.

Þar sem ég var á þessum landsfundi staðhæfi ég að þið farið með helberar lygar. 

Minnist þess ekki að hafa séð þig eða aðra þarna. 

Nær væri að þið sneruð ykkur að þeim sem eru ekki vissir og reynduð að snúa á sveif með þeim sem eru andvígir ESB í staðinn fyrir að atast í VG þar sem VG og ykkar stefna í ESB málinu fer saman. 

Þetta er farið að verða pínlegt hvernig þið látið.  

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 21:02

5 identicon

" Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins"

Bls. 11 í ályktun fundarins sem finna má á www.vg.is

Þarf að misskilja þetta eitthvað ?

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 21:07

6 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Þvílíkur og annar eins pistill, jafn rotinn og fáránlegan hef ég aldrei ég séð hann áður. Skammastu þín Bjarni fyrir ala á hatri í garð samborgara þinna. 

Þú talar um að ESB sinnar séu að "smeygja sér inn", notfæra sér "glufur" inn í flokka, Frjálslyndi flokkurinn hafi látið kúgast vegna þess að þeir leyfa ESB sinnum að vera innanborðs(enda þótt ég hafi ekki orðið var við þá) og fleira engu líkara en þú sért að tala um krabbamein. Rauði þráðurinn í þessum pistli er að þeir sem eru ESB sinnar geta ekki elskað landið sitt. 

Þvílíkur sauður ertu Bjarni og það er til háborinnar skammar að fæðingarhálfviti eins og þú hafir nokkurn tímann komist inn á Alþingi.  Aðra eins örvæntingu hef ég aldrei séð eins og þessa til að koma glötuðum flokki áfram í pólitík, þó ekki nema langleiðina upp í eitt þingsæti. Vera má að ef íslendingar gangi einhvern tímann í ESB að þér muni takast að safna að þér þínum líkum, einfeldningum, ómenntuðum sveitamönnum og rasistum. Til eru dæmi um þannig flokksskammir í stórum Evrópuríkjum en ég leyfi mér að óska þér alls hins illsta í pólitík og vonandi færðu aldrei uprreisnar von þaðan sem þú ert nú.

Jón Gunnar Bjarkan, 27.3.2009 kl. 05:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband