Fjórelleft varð frúin mín

Ég bloggaði ekkert í gær enda lifði ég í þeim munaði að halda upp á afmælið hennar Elínar minnar sem varð fjórelleft og hefur eytt hálfum þeim tíma með einum og sama kallhólkinum þó að hann sé nú ekki sá fallegasti og líka úrillur á köflum en hún er aftur á móti að sjá ekki degi eldri en 27 ára og ég veit ekki nema einn ljóð á ráði þessarar spúsu en það er þegar henni dettur í hug að fara í megurðir því vitaskuld flokkast það undir alvarlegt eignatjón hjá mér ef það er minna af henni og veit svosem ekki hvort nokkur viðlagasjóður eða viðhaldssjóður bætir slíkt tjón enda ókunnugur þessháttar brasi og hefi svosem ekki þurft að kvarta því alltaf stranda þessar tilraunir hennar á því  hún hefur svosem ekki af neinu að taka og stundum grunar mig að hún sé raunverulega að tala utan af því að það sé ég sem megi renna tólg en til þess er ég bæði of sjálfselskur, heimskur og latur en enginn skyldi þó halda að það sé þessari leti að kenna að konunni blessaðri er ekki betur í skinn komið því yfirleitt reyni ég að elda ofan í hana saðsama og feitisríkan kveldskatt og síðast í gær fékk hún konfekt í rúmið sem er auðvitað ekki á hverjum degi en afþví að hún átti ammili þá var við hæfi að kakóklessurnar væru handgerðar og dáldill fótur í þeim en mestu munaði nú um að það var Matthías kallinn Moggaritstjóri sem barg fyrir mér afmælinu og hafi hann þar heila þökk fyrir en svo mikið dálæti hefur kona þessi á skáldi því að ef hann ekki væri mér eldri gæti ég aldrei sofnað væran dúr og nú gerði hann þessari konu þann heiður að skrifa til hennar kveðju í gamla bók og fól mér svo að kyssa hana sem ég svikalaust geri og ætla að gera þar til hún verður áttelleft hvoru megin sem ég verð nú daginn þann...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

til hamingju með frúnna :)

Óskar Þorkelsson, 23.4.2009 kl. 09:29

2 identicon

Þetta er sennilega lengsta setning í heimi.

Baldur G. (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 09:53

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Skemmtilega skrifuð grein. Til hamingju með afmæli konu þinnar sem hljómar þrautagóð :-) Njótið sumarsins

Haraldur Baldursson, 23.4.2009 kl. 10:28

4 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Til Hamingju með afmæli konu yðar --- samt á ég erfitt með að trúa því að þér séuð úrillur maður .
Og Gleðilegt sumar

Halldór Sigurðsson, 23.4.2009 kl. 10:38

5 identicon

Þegar Jack Kerouac skilaði fyrsta handriti af On the Road, þá var það líka án greinamerkja. Er það hann sem veitir þér innblástur hér? 

Sveinn Birkir Björnsson (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 10:54

6 identicon

Til hamingju, Elín.

Ógleymanlegt þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir afmælislagið fyrir þig þennan dag um árið - Í C DÚR!

Glúmur (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 11:41

7 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ég tek undir með þeim hinum; til hamingju með frúna.

Ragnhildur Kolka, 23.4.2009 kl. 12:21

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni til hamingju með eiginikonununa /Gleðilegt sumar til ykkar allra/Bloggvinur Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.4.2009 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband