Magnús, Eyjólfur og ég

Framsóknarflokkurinn státar ekki bara af því að vera elsti stjórnmálaflokkur landsins, níræður á næstu dögum. Hann er líka sá hallærislegasti.


Einhverjum kann að bregða í brún við svo opinskáa játningu frá manni sem nýlega hefur boðist til að sitja á Alþingi fyrir þennan sama flokk og halda nú ég sé hættur við. Hafi snúið við blaðinu á kjördæmisþingi framsóknar um helgina. En hallærisháttur minn stendur dýpri rótum en svo að aftur verði snúið.

Ég held aftur á móti að það sé mjög mikilvægt að Framsóknarmenn viðurkenni að þeir eru svolítið hallærislegir. Svoldið púkó, sveitó og upp til hópa nokkurskonar landsbyggðarnördar. Breytir þá engu hversu oft sjálfur Guðjón bakvið tjöldin og allir hinir fara í litgreiningu og ný föt. Þið fyrirgefið mér bersöglina.


En einhversstaðar í 101 eða 109 handan við heiðina er lítill hópur tískulöggu landsins sem gætir þess vandlega að fara aldrei upp fyrir Norðlingaholt og það er þessi hópur sem ákveður öðru fremur hver er hallærislegur. Ekki með því að sýna okkur hvernig eigi að vera flottur enda er það mjög flókið. Eiginlega miklu frekar með ótal birtingamyndum hins íslenska afdalamanns.


Íslenskur kvikmyndaiðnaður, skemmtanaiðnaður, sjónvarpsauglýsingagerð o.fl. í afþreyingu okkar dregur upp sömu myndina aftur og aftur af okkur framsóknarmönnum. Hún er einna skýrust í líki þeirra vina minna Magnúsar og Eyjólfs í Spaugstofunni. Þeir eru holdgervingar þessarar 1000 ára framsóknarmennsku íslensku þjóðarinnar. Tafsandi, klaufalegir og vitaskuld svolítið ýktir í sínum spéspegli.


Ég fæ stundum þessa tilfinningu, bæði þegar ég heyri þá uppstríluðustu við kvikmyndavélarnar fyrir sunnan tala við Guðna eða Ísólf og ekkert síður þegar ég mæti þeim sömu sjálfur, - að nú eru þessir teinóttu drengir að tala við þá Magnús og Eyjólf. Og það er gott að leyfa þeim það. Ef við tökum það frá þeim verða þeir pirraðir þessir menn, eins og þeir urðu svo oft framan við selskinnsjakkann hans Halldórs.


Þetta er auðvitað alveg bilað ástand. Hluti af firringu þessa pínulitla hluta þjóðarinnar sem einangrast hefur í malbiksafdal fyrir sunnan. Ég hef hlustað á Framsóknarmenn kveina undan þessu einelti jafnhliða því baksast í litgreiningum og ímyndarpælingum. En allt verður það forgefins. Við verðum þá í ofanálag brjóstumkennanlegir og leiðinlegir. Við munum engu breyta frekar en Þingeyingur sem hreykir sér upp á hól og þrætir fyrir að vera montinn.


Miklu, miklu nær er að hafa gaman af öllu saman og vera þess minnugir að það eru ekki bara við framsóknarmenn sem eru svolítið hallærislegir. Töffararnir eru aldrei mikið meira en 1% þjóðarinnar og í ofanálag leiðinlegir. Leyfum álitsgjöfunum að brosa í kampinn nýsnyrtum,- þjóðin er fólk eins og ég, Magnús og Eyjólfur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband