Um verndun og mannvonsku I

"Þegar ég var barn hugsaði ég eins og barn."
Þessi fleygu orð komu mér í hug þegar ég las nú um mánaðamótin grein Þórunnar Valdimarsdóttur rithöfundar þar sem hún fjallar um hvalveiðar, náttúruvernd og mannvonsku. Var satt að segja nokkuð brugðið því Þórunn er einn sá rithöfundur núlifandi sem ég hef hvað mest dálæti á. Veit líka að hún misvirðir ekki við mig skoðanaskiptin.

En ég semsagt var mjög fastur fyrir með sjálfum mér í bernsku minni að drepa aldrei nokkurt dýr og vinna að því að heimurinn yrði þannig að engin dýr yrðu drepin. Menn gætu étið grænmeti. Þessi móður rann þó mikið til af mér um 10 ára aldurinn þegar ég fyrst kom nálægt því verki að sjóða beðin í gróðurhúsum föður míns uppi í Biskupstungum. Þá hugsaði ég af meðaumkun til allra smávinanna ofan í moldinni sem myrt væru með svo hryllilegum hætti. En morð af þessu tagi voru nauðsynleg svo rækta mætti blóm, tómata, gúrkur og annað góðgæti gróðurhúsanna. Mörg líf fara þar fyrir hverja magafylli. Aðferðirnar til að dauðhreinsa mold fyrir ræktun eru sumstaðar aðrar en var í minni bernsku, en alltaf næsta hryllilegar fyrir þá sem í henni lifa.


En þó svo að þessi barnalega afstaða mín til lífsins hafi breyst í einu vettvangi er ég alltaf eins í þeirri afstöðu að telja mig í senn dýravin og náttúruvin. Á ennþá afskaplega erfitt með þræða maðk á öngul eða snúa fugl úr hálsliði en hef samt gert hvorutveggja.


Þórunn Valdimarsdóttir telur eins og vel flestir hvalavinir að hvalafriðun sé "tákn betri heims" og gengur raunar svo langt að nefna saman hvaladráp við morð á börnum. Ég er henni algerlega ósammála en ég fagna því að einhver hreyfi við umræðu um dýravernd á opinberum vettvangi.
Það er í raun og veru algerlega útilokað að maðurinn geti storkað náttúrunni með þeim hætti sem ég ætlaði mér fram að 10 ára aldri. Það er að lifa án þess að drepa. Mannúðar og dýraverndarsjónarmið okkar verða því að snúa að hinu að allt sé þetta gert án óþarfa grimmdar og með sem minnstum sársauka fyrir dýrin. Þar getum við ekki leyft okkur að flokka dýr í góð og vond, vitur og heimsk, þróuð eða vanþróuð. Dýravinir sem átt hafa nagdýr, slöngur, skjaldbökur og fiska að vinum vita fullvel að þau líf taka út þjáningar ekki síður en til dæmis kettir og hvalir sem kannski njóta hvað mestrar virðingar í dýraríkinu nú um stundir. Eða dettur einhverjum í hug að það sé minni synd drepa heimskan mann en vitran, svo dæmi sé tekið. Við getum heldur ekki skýlt okkur bakvið sálarleysi dýra nú á 21. öldinni þegar trúin á tilvist mannssálarinnar er mjög á flökti.


Í þessum efnum er hvalafriðun ekki til marks um betri heim heldur firrtari og að því skapi verri. Ef einhver dráp á dýrum eru sómasamleg þá er það að drepa þau í sínu náttúrulega umhverfi. Við eigum auðvitað að gera þá kröfu á hvalveiðimenn að þeir noti eins mannúðlegar aðferðir við hvalveiðar og unnt er. En svokallaðir hvalavinir um heim allan sitja á kjúklingastöðum og graðga í sig hænum sem kvaldar hafa verið allt frá því þær komu úr eggi. Verksmiðjulandbúnaður, bæði hér á landi og erlendis, hefur fyrir löngu brotið allar þær góðu reglur sem landbúnaðarsamfélögin gerðu sér um mannúðlega meðferð búpenings. Þar eigum við dýravinir verk að vinna og ef okkur er alvara að vilja komast í gegnum lífið með sem fæst líf á samviskunni ættum við aldrei annað að éta en hvali og síst tómata!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband