Um verndun og mannvonsku II


"Við erum hluti af heiminum"
Setningin hér að ofan er heiti greinar Þórunnar Valdimarsdóttur þar sem hún skrifar um dýravernd, náttúruvernd og mannvonsku. Ég hef í fyrri pistli fjallað aðeins um hvalveiðihlutann í umfjöllun Þórunnar. En hún kemur að fleiru í stuttri og vel skrifaðri grein sem mig langar til að velta áfram.
Undir þessari fyrirsögn víkur Þórunn lítillega að umdeildu lóni þar sem heitir í Kárahnjúkum. Nokkur hluti þjóðarinnar hefur það fyrir satt að verri framkvæmd hafi ekki verið unnin gagnvart náttúruvernd í landinu. Í reynd eru þetta hrein öfugmæli.


Við erum nefnilega hluti af heiminum, eins og Þórunn greinilega veit. Það þýðir að okkar skylda í þessum heimi er að leggja okkar að mörkum til þess að draga úr mengun og varanlegum skemmdum á lífríki jarðarinnar. Af vatnsaflsvirkjunum stafar engin mengun, engin teljandi röskun á lífríki og ekkert við þær er ekki afturkræft. Kárahnjúkalónið er einfaldlega uppistöðulón uppi við stærsta jökul Evrópu sem hefur þúsund sinnum í sinni sögu búið til slík lón sjálfur, landinu að skaðlausu. Lónið er meira að segja í gömlu náttúrulegu lónstæði. Í lóni þessu eru engar eiturgufur, engin bráðdrepandi efni. Það er rétt að taka þetta fram því nokkur hluti landsmanna virðist hafa bitið eitthvað allt annað í sig. Og þeir vöskustu reisa svo álsúlur tjalda sinna á öræfunum þar við og drekka öl úr sínum áldósum þar innfrá um leið og þeir mótmæla því hástöfum að álver sé byggt í austfirskum firði. Vilja það kannski frekar í landi þar sem orkan kemur frá kolum eða kjarnorku. Eða reyna með Tuborgdósina í hendi að telja okkur trú um að allt ál sé óþarft.


Auðvitað gæti maðurinn notað eitthvað annað en ál í tjaldsúlur, flugvélar og öldósir en þetta annað kostar líka verksmiðjur sem yrðu engu minni eða vinsælli. Með nýtingu endurnýjanlegra orkulinda á Íslandi leggjum við fram okkar mikilvægasta skerf til umhverfisverndar í heiminum.


Með byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði komum við í veg fyrir að heill landsfjórðungur dragist upp og verði að eyðibyggðum líkt og Jökulfirðirnir vestra. Það getur vel verið að einhversstaðar á kaffihúsum syðra sé til fólk sem helst vill sjá landið austan Elliðaáa allt sem eina stóra rómantíska eyðibyggð. Rétt eins og það hafa verið til í sögum geðvondir sveitamenn sem óskuðu Reykjavík norður og niður. En hvorugur hópurinn er mjög gæfulegur.


Eitt stærsta viðfangsefni umhverfisverndarinnar er að draga úr hömlulausri sóun og ofneyslu hinna vestrænu samfélaga og þar eigum við Íslendingar nóg verkefni. Það að leggja heilar byggðir í auðn af hégómaskap er hluti af svo gegndarlausri sóun að engu tali tekur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband