Um verndun og mannvonsku III


"...látum illskuna blómstra þar sem hún gerir engum mein í gerviheimi afþreyingarinnar."


Ég hef í tveimur undanfarandi greinum undir sama heiti gert að umfjöllunarefni grein Þórunnar Valdimarsdóttur um dýravernd og fleira. Ástæða þess að grein hennar verður fyrir valinu er að þar túlkar einn af færustu og bestu rithöfundum okkar lands sjónarmið sem hafa komið fram í skrifum fjölmargra á undanförnum misserum. Ég hef hér á undan fjallað aðeins um hvalveiðar og Kárahnjúka en langar að fjalla almennt um firringuna í þessum síðasta pistli.


Ég er algerlega ósammála því að maðurinn megi gera sér að leik að rækta með sér öfuguggahátt og illmennsku inni í tilbúnum gerviheimi. Slík iðja er ekki útrás á einhverju sem við erum þá laus við á eftir heldur miklu frekar fallin til að gera okkur móttækileg fyrir álíka hegðun í raunheimi.


Veiðiþörf mannsins er ekki útrás fyrir illmennsku eða kvalalosta heldur eðlileg og nauðsynleg tenging við náttúruna. Veiðimaður sem ber virðingu fyrir bráðinni kvelur hana ekki að óþörfu og lætur sér annt um dýrin með sama hætti og bóndi sem hengir læri af vænum og kærum sauð upp í reyk. Ég geri mér grein fyrir að þetta hljómar mótsagnakennt fyrir þeim sem aldrei hefur reynt og svo er um mikinn meirihluta Íslendinga í dag. Þeir hafa firrst uppruna sinn.


Það er svo hluti af þessari firringu frá upprunanum að sumir fá útrás fyrir kvalalosta og stjórnlausa drápsfýsn við veiðar. Og í sumum landbúnaði sjáum við því miður dæmi um firringu frá eðlilegri meðferð búsmala sem við dýravinir þurfum vitaskuld að láta til okkar taka.


Karl gamli Marx skrifaði nokkuð um firringu iðnsamfélagsins og margt af því sem þar er sagt mætti oftar koma til umræðu. Með firringu vinnunnar og samfélagsins er maðurinn slitin úr því náttúrulega sköpunarferli og framleiðsluferli sem honum er eiginlegt. Til þess að lifa þessa firringu af hafa menn ýmsar leiðir og ein er fólgin í sköpunarmætti skáldsins. Önnur í fæðuöflun veiðimannsins. En ekki held ég að Marx hafi órað fyrir því að skáldin ættu eftir að nota þessa útrás sína til fjandskapast út í veiðiþörf okkar sem ekki getum ort. En Marx skjöplaðist líka oft!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband