Þar ku steinsteypa...

Hlustaði um daginn á giska athyglisvert viðtal við ekkjufrú Yoko Ono sem hrifist hefur mjög af Íslandi og hinni ósnortnu náttúru landsins. Taldi það nú eitthvað annað en hennar þéttbýla Japan sem allt væri komið undir blokkir, steinsteypu og asfalt. Eitthvað þótti fréttamanninum aðdáun listakonunnar fara yfir strikið og skaut því þessvegna að í næstu spurningu að á Íslandi væri nú líka steinsteypa eða hvort hún hefði ekki heyrt af stíflunni fyrir austan?

Nei Yoko Ono hafði ekki heyrt af neinni stíflu fyrir austan en treysti Íslendingum vel til að standa þar vel að verki.


Þetta broslega samtal sem vafalaust hefur átt sér stað í miðbæ Reykjavíkur er næsta dæmigert fyrir þá sefjun og endaleysu sem Kárahnjúkaumræðan hefur leitt þjóðina. Blaðamaður sem trauðla fer austur fyrir Elliðaár leitar í hugskoti sínu að því hvort að það sé nú ekki einhver hluti okkar fagra lands sem líkist þéttbýlinu í Japan. Jú, vitaskuld, Austurland og Kárahnjúkar. Ekki nokkra ferkílómetra asfalt við Faxaflóann, ekki blokkirnar í Breiðholti enda allt það hluti af náttúrulegu umhverfi borgarbarnsins. Það ónáttúrulega í þessu landi er að íbúar annarra landshluta skuli voga sér að nota það land sem guð gaf þeim.


Sneypulegast að japanskættaða listakonan skyldi ekki hafa áhuga á þessum helgispjöllum. En þegar að er gáð er Kárahnjúkastíflan ógurlega kannski eitt mikilsverðasta framtak þjóðarinnar til verndunar á náttúru landsins. Nokkuð sem bæði við Yoko og aðrir Framsóknarmenn í heiminum teljum mikilvægt.


Gegndarlaus sóun nútímamannsins og tilhneiging hans til myndunar borgríkja er það tvennt sem mest ógnar jörðinni og möguleikum hennar til að ala sín börn til framtíðar. Fólksflótta úr dreifðum byggðum fylgir augljóslega sú sóun og borgríkið Ísland er ekki sú framtíðarsýn sem æskilegust er fyrir umhverfi og náttúru landsins. Landið þarf á vissulega á öflugri höfuðborg að halda en höfuðstaður sem er það fyrst og fremst yfir sjálfum sér slær holum tón. Land sem þjóðin ekki vill byggja eða nýta verður skamma stund það land sem hún elskar.


Vissulega er eftirsjá í því landi sem nú hverfur um sinn undir vatn undir norðurjaðri Vatnajökuls. En það hefur ekki tapast. Ekki horfið eða farið neitt. Við getum hvenær sem er endurheimt með því að tæma lónin aftur. Reyndar er oftast talað um lón þessi þannig að ætla mætti að þau væru full af ætandi eiturefnum og sýrum en ekkert er fjær sanni. Jökulvatnið íslenska mun ekki hér fremur en endranær eyðileggja náttúrumyndanir í stórum stíl. Raunar er mest af því landi sem nú lendir undir vatni gömul lónstæði frá náttúrunnar hendi. Orkunni sem framleidd er með Kárahnjúkastíflunni er heldur ekki stolið frá náttúrunni með líkum hætti og þegar jarðefnum er dælt eða mokað úr jörðu. Þar er notuð orka sem móðir jörð sér sjálf um að endurnýja. Og verði menn duglegir að nota leiðir sem þessar í orkuöflun eru minni líkur en ella á að ósonlagið þynnist til muna.


Einu raunverulegu umhverfisverndarrökin á móti blessaðri Kárahnjúkastíflunni liggja í því að þar með sé stöðvað flæði jarðefna til sjávar og það muni hafa áhrif á fiskistofna. Um það veit þó enginn en sjálfsagt er að náttúruvísindamenn kanni þetta efamál til hlítar. En það gefur ekki tilefni til stöðvunar framkvæmda enda ættum við þá með sömu rökum að stöðva allt landgræðslustarf í landinu svo mjög sem það hamlar vindi í að bera jarðefni á haf út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband