Tungnamaður skrifar um Eyjamenn

Að vera eða vera ekki - Eyjamaður. Það er spurning dagsins!
Eitthvað þessu líkt gæti hljómað í farsa um umræðuna sem nú á sér stað og vinkona mín Eygló Harðardóttir hratt af stað. Í nýlegum pistli benti hún á að Eyjamenn hefðu verið mun færri í prófkjöri Samfylkingarinnar en af er látið og færði um margt góð rök fyrir máli sínu.

En umræðan varð mér, Tungnatittinum á Selfossi, nokkuð umhugsunarefni. Ég er nefnilega með þeim ósköpum að geta aldrei litið á mig sem annað en Biskupstungnamann og eru þó áratugir síðan ég hleypti þar heimdraganum. Átti reyndar til skamms tíma foreldra þar efra. En það er einmitt þessi skilgreining okkar á eigin sjálfi sem er svolítið skemmtileg og litar mannlífið. Flestir skilgreina sjálfa sig útfrá æskustöðvunum og halda  fast í þá skilgreiningu ævina út. Hafa fyrir vikið meiri áhuga á því sem gerist í gömlum dal fyrir norðan eða vestan heldur en atburðum í eigin heimaranni.


Og við skulum aldrei láta okkur detta í hug að taka þessa skilgreiningar af hvort öðru enda í henni fólginn mikill kraftur og liðsemd við byggðarlög úti á landi. Þegar rætt er um samgöngubætur til Vestmannaeyja eða göng undir Reynisfjall og Lónsheiði munar miklu um burt flutta menn frá þessum byggðum. Ekki bara áhrifamenn í stjórnkerfinu heldur ekki síður hina sem tala málinu í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni, svo dæmi sé tekið.


En á þessu eru samt tvær hliðar og ég fékk sjálfur í eitt sinn að heyra það frá gamalli vinkonu í Tungunum. Þá stóð fyrir dyrum að sameina Tungurnar Laugadal í því sem síðar varð Bláskógabyggð og ég var nærri eins hrifinn og þeir sem nú byggja Tungurnar. En var fljótlega bent á að hafa mig hægan,- svo lengi sem ég hefði þá svikið mína heimasveit og sofið hjá henni "Árborgu" í neðra.
Og vissulega getur það verið þreytandi fyrir íbúa byggðarlags að hafa utan þess löngu burt flutta menn sem telja sig seint og snemma í stakk búna til að tala máli sinnar gömlu sveitar á opinberum vettvangi. Hér gildir öðru fremur meðalhófsreglan að við megum aldrei ganga of langt í því að eigna okkur æskustöðvarnar sem við höfum löngu yfirgefið. Stjórnun þeirra og umboð úti í frá verður auðvitað að vera í höndum þeirra sem þar búa,- sem sumir eiga svo kannski æskustöðvar einhversstaðar allt annarsstaðar.


Það er eftir "Árborguskammirnar" sem ég fór aðeins að venja mig við að segjast vera Selfyssingur og hef reynt að gera það síðan. En skjöplast samt oft og svara þá galvaskur að ég sé úr Tungunum eins og ég hafi aldrei farið þaðan!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband