Alþýðuflokkurinn endurborinn

Sómakonan Margrét Frímannsdóttir hélt veglega útgáfuhátíð æviminninga sinna í Hólmarastarhúsinu á Stokkseyri um síðustu helgina. Um leið var samkoman nokkurskonar kveðjuathöfn þessarar mætu þingkonu sem lætur af þingmennsku á vori komandi. Þau starfslok marka tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Með brotthvarfi þeirra Margrétar Frímannsdóttur og Jóhanns Ársælssonar eru síðustu Alþýðubandalagsþingmennirnir horfnir úr Samfylkingunni. Þar með má segja að íslenska flokkakerfið hafi náð sér af þeim hringlanda sem nafnbreytingar á vinstri vængnum ollu fyrir 8 árum. Stofnun Samfylkingarinnar var heiðarleg tilraun til að sameina alla vinstri menn í einn flokk en mistókst líkt og fyrri tilraunir sem gerðar voru með stofnun Sósíalistaflokksins á sínum tíma og síðan Alþýðubandalagsins árið 1968. Torræð og skrýtin ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á þessari sömu helgi tók af öll tvímæli í þessum efnum. Ingibjörg lofar þar að Samfylkingin muni láta af ábyrgðarlausri vinstri stefnu og verður vart um villst að hér er hægri kratastefna gamla Alþýðuflokksins afturgengin.Um leið skapast svigrúm fyrir Vinstri græna til að sameina undir einn hatt þau öfl sem áður tilheyrðu Alþýðubandalaginu. Margt af þeim var aldrei fyllilega stjórntækt og sama virðist því miður ætla að verða uppi á teningnum í flokki Steingríms J. En aftur að Alþýðuflokknum sem nú heitir Samfylking.Eins og marga rekur minni til var flokkur þessi ekki bara minnstur allra flokka í atkvæðamagni heldur einatt líka heldur smár í sniðum og hugsun. Gaf út minnsta blaðið og stóð fyrir hægri kratastefnu sem einhvern veginn sló aldrei í takt við alþýðu þessa lands.Hörð Evrópuhyggja einkennir flokk þennan í fortíð og nútíð og á liðnum vetri hafa gægst fram fleiri angar þeirrar stefnu sem sterkust var í Alþýðuflokki Jóns Baldvins. Líkt og hjá Jóni er afstaðan til landbúnaðarins nú harðari og óvægnari en áður þannig að þar á Samfylkingin helst samleið með frjálshyggjudrengjum Sjálfsstæðisflokksins. Í byggðamálum stendur flokkurinn fyrir skeytingaleysi af svipaðri gerð og fyrrnefndri drengir. Það er auðvitað alltaf erfitt að bera saman afstöðu tveggja flokka til málefna þegar áratugur skilur að í tíma. En það blasir samt við að viðhorf Samfylkingarinnar í landbúnaðar- og byggðamálum eru mjög fjarlæg því sem gamla Alþýðubandalagið hefði nokkru sinni leitt hugann að.

Út yfir tekur svo þegar stærsta byggðaaðgerð sögunnar, bygging Fjarðaráls, er nú fordæmd. Þar seilist flokkurinn reyndar svo langt að fordæma eigin gjörðir en slíkan tvískinnung muna miðaldra menn vel úr sögu Alþýðuflokksins gamla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband