Meintum Alþýðubandalagsþingmanni svarað

Það er vont hlutskipti að standa upp frá ströngu og erfiðu verki og finna að það er forgefins unnið. Þannig er þó líðan margra íslenskra sósíalista sem mann fram af manni hafa unnið að sameiningu allra svokallaðra vinstri flokka landsins en standa ævinlega í sömu sporum.

einar_mar_allaballiMér varð það á í grein hér í Blaðinu að benda á það sem hverju mannsbarni er raunar ljóst að Samfylkingin er að verða alveg eins og gamli Alþýðuflokkurinn meðan Vinstri grænir gegna með prýði uppreistarhlutverki Alþýðubandalags og þar áður Sósíalistaflokks Íslands. Einar Már Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar á bágt með að kyngja þessum veruleika og gerir tilraun til að svara greinarkorni mínu í síðustu viku en ferst það heldur óhönduglega. Þingmaðurinn gerir byrjar grein sína á að mæra sagnagleði mína sem ég sé ekki alveg að komi þessu máli við en þakka hólið. Hann hnýtur svo um þá setningu mína sem er raunar hálfgert aukaatriði þessa máls að síðustu Alþýðubandalagsþingmennirnir eru nú á förum úr þingflokki Samfylkingarinnar. Einar hendir hér það sama og margt barnið í lestrarprófum í gamla daga að lesa fullhratt og orðið Alþýðubandalagsþingmaður skreppur saman í Alþýðubandalagsmaður og hann rifjar síðan upp að margir af núverandi þingmönnum Samfylkingar hafi verið í Alþýðubandalaginu. Sleppir reyndar í þeirri upptalningu Össuri sem þó var háttsettastur allra núverandi Samfylkingarþingmanna í Alþýðubandalaginu en gekk reyndar yfir í Alþýðuflokkinn áður en nafninu var breytt! Það að einhverjir núverandi þingmenn hafi á æskuárum tyllt fæti í Alþýðubandalaginu eins og til dæmis Hjálmar vinur minn Árnason gerði líka, breytir engu í veraldarsögunni. Við ritun greinarinnar var mér reyndar fullkunnugt um að Einar Már var um skeið varaþingmaður Alþýðubandalagsins en ég hef einfaldlega ekki litið svo að varaþingmenn tilheyri þingflokki með sama hætti og alþingismenn.Í umræddri grein um Samfylkinguna vakti ég fyrst og fremst athygli á að Samfylkingin hefur smám saman fært sig yfir á margt það versta sem gamli Alþýðuflokkurinn stóð fyrir og Alþýðubandabandalagið barðist enda hatrammlega gegn. Þetta á við um þá stefnu fráí vor að vilja rústa íslenskum landbúnaði með einu pennastriki. Í Evrópumálum er flokkurinn löngu orðinn jafn kaþólskur og harðasta liðið í kringum Jón Baldvin Hannibalsson á sínum tíma. Flokkur þessi stendur fyrir grímulausri borgríkisstefnu þar sem engin áhersla er lengur lögð á viðgang landsbyggðarinnar. Stefnan er köld raunhyggja reiknistokksins og helsta mótvægi innan flokks við þessa stefnu er sem fyrr heiðurskonan Jóhanna Sigurðardóttir. Það hefur einfaldlega ekkert breyst.

Ég vakti athygli á að nýleg ræða Ingibjargar Sólrúnar væri staðfesting á þessari hægri sinnuðu stefnu flokksins. Þar er á mannamáli boðað að Samfylkingin eigi nú að láta af öllum óstjórntækum Alþýðubandalagsstælum en verða ábyrg og hægri sinnuð eins  gamli Alþýðuflokkurinn var. Um þennan hluta greinar minnar vill fyrrverandi Alþýðubandalagsvaraþingmaður auðvitað ekkert tala!

(Birt í Blaðinu í Reykjavík 18. des.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband