Hugsjónir Framsóknar

Mannvitsbrekkur úr krataliðinu hafa á undanförnum árum haldið fast fram þeirri fullyrðingu að Framsóknarflokkurinn eigi sér engar hugsjónir aðrar en völdin. Ekkert er fjær sanni.


Framsóknarflokkurinn er í raun og veru eini íslenski hugsjónaflokkurinn. Beggja vegna við hann eru flokkar sem hafa tekið til láns misjafnlega ólánlegar og ósannfærandi útlendar hugsjónir sem mér er oft og einatt til efs að nokkur fullvita maður hafi minnstu sannfæringu fyrir. Gildi þá einu hvort um er að ræða hina óheftu markaðshyggju hægri manna, vargagang Samfylkingarkrata eða ójarðneska grænfriðungan hjá Steingrími J. Innan allra þessara flokka er ástand svo þannig að forystumenn glíma við það seint og snemma að halda í skefjum hálfvitlausum öfgamönnum.

Hugsjónir framsóknarflokksins eru þessu öllu ótengdar og raunar óháðar til dæmis hægri og vinstri hólfaskiptingum. Af því leiðir að afstaða flokksmanna til atriða eins og þess hversu langt eigi að ganga í félagslegri samhjálp eða markaðshyggju getur verið svolítið mismunandi. Sömuleiðis vitum við vel að innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um vatnsaflsvirkjanir og hvalveiðar.
En límið sem heldur flokki þessum saman er þjóðleg umbótahyggja fyrir allt landið, sáttahyggja milli landsbyggðar og höfuðborgar, landbúnaðar og launafólks. Þessu fylgir sú sannfæring að Ísland eigi að vera þjóðríki með byggð í öllum landshlutum, ekki borgríki við Faxaflóann einan. Og það jafnt þó að það kosti okkur eitthvað að viðhalda byggðinni í landinu, menningu landsins og atvinnuvegum. Markaðshyggjumenn og tæknikratar eru oft og einatt samdóma í því að þessi stefna sé vitleysa og hafa margreiknað að það borgi sig að leggja bæði landbúnað og landsbyggðina niður. Með sömu reiknikúnstum mætti finna út að Íslendingar hljóti að vera fátækastir allra þjóða, svo mjög sem óhagkvæmt er að vera í stóru köldu landi. Það skemmtilega er að bæði raunveruleikinn og framsóknarflokkurinn hafa fyrir löngu gefið reiknikúnstum þessum langt nef. Við vitum að fé til jöfnunar á aðstöðu landshluta og atvinnuvega skilar sér margfalt til baka, hvað sem reiknikúnstum líður.


Framsóknarhugsjónin er líka ættjarðarást blandin hæfilegu íhaldi í það gamla. Ég skrifaði einhverntíma að pólitík Hriflu Jónasar hafi hálft í hvoru einkennst af því að vilja snúa við hjóli tímans. Og það er rétt enda ekkert til að skammast sín fyrir. Ég held að hver sá sem ekki hefur í sér nokkurn vilja til að fikta þannig í tímahjólinu hljóti að vera fullur sjálfsfyrirlitningar. Það sem á útlendum málum er kallað nostalgía einkennir aðeins fólk sem elskar lífið, bæði það liðna og það ókomna. Og sýnir þessa ást með því að vilja öðru hvoru teygja sig til baka, rifja upp það gamla og góða úr fortíðinni og njóta þess. Með því er ekki sagt að við eigum að loka augunum fyrir því að margt var aflaga í þessari fortíð rétt eins og nútíðinni. En harðlífi þess sem ekkert vill af sínum uppruna vita og helst ekki smæla framan í heiminum, það harðlífi getum við eftirlátið krötum og nýfrjálshyggju þessa heims.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni og velkominn á bloggið.

Já hugsjónaflokkurinn segir þú, maður verður óhjákvæmilega hugsi og á án efa eftir að velta þessu nokkuð fyrir sér.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.1.2007 kl. 01:37

2 identicon

Gott að þú ert farinn að blogga, kominn tími til!

Kveðja,

Ágústa Rúnarsdóttir, Selfyssingur

Ágústa Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 13:53

3 Smámynd: GK

Bjarna á þing!

GK, 3.1.2007 kl. 15:43

4 Smámynd: halkatla

"Framsóknarhugsjónin er líka ættjarðarást blandin hæfilegu íhaldi í það gamla. Ég skrifaði einhverntíma að pólitík Hriflu Jónasar hafi hálft í hvoru einkennst af því að vilja snúa við hjóli tímans. Og það er rétt enda ekkert til að skammast sín fyrir."

framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið jafn töff og mikið in, einsog í þessum hérna orðum! Þetta er hörku boðskapur. Áfram Bjarni

halkatla, 5.1.2007 kl. 15:09

5 identicon

Altaf gaman að heyra í þér Bjarni, en kommmmmon mar Framsókn! Hugsjónir? Þær eru þá í formalínglasi ef þær eru enn varðveittar, þ.e. aðrar en einkavinavæðing og einkahagsmunapot sem menn stunda í skjóli pólitískra flokka og þá ekki hvað síst innan framsóknarflokksins amk. er það svo í þeirri tíð sem fólk á okkar aldri man.

En vonandi gegnur þér vel kv Íbbi

Ívar Arason (IP-tala skráð) 5.1.2007 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband