Eldskírn í Ölfusi

Frá fundinum

Það var svo sannarlega eldskírn sem undirritaður fékk á fundi í Þorlákshöfn í kvöld þar sem umræðan beindist að margfrægum Suðurstrandarvegi. Vegi þessum hefur verið lofað af stjórnmálamönnum látlaust frá því fyrir 1990 og svikinn oftar en nokkurt annað kosningaloforð. Þetta er að vonum ergilegt og þó svo að stundum sé gantast með það að stjórnmálamenn gefi kosningaloforð til að svíkja þau er slíkt hegðun í reynd óafsakanleg og óþolandi. Ég var í upphafi fundar spurður að því og með svolitlu þjósti hversu oft ég ætlaði mér að lofa vegi þessum. Ég svaraði því til að það myndi ég aldrei gera.

Síðan gerði ég það sem ég veit að er óvinsælt í Þorlákshöfn. Ég talaði gegn framkvæmdinni eins og hún liggur nú fyrir en mælti þess í stað með því að vegur þessi yrði lagður þegar í stað - en með mun minni tilkostnaði en áætlað er í dag. Ef ná mætti sátt við íbúa Þorlákshafnar og Grindavíkur um slíka tilhögun tryði ég því að um leið mætti semja um að ráðist yrði í verkið án tafar. Til þessa hefur Suðurstandarvegi verið frestað aftur og aftur í skiptum fyrir næstum því hvað sem er.

Það er fljótsagt að fundargestir voru næsta samdóma í að hafna þessari tillögu og töldu raunar öll rök mæla með því að strax yrði efnt það loforð sem gefið hefur verið um liðlega milljarðs framkvæmd við tvíbreiðan veg milli Grindavíkur og Þorlákshafnar. Ég get skilið að fólk vilji að stjórnmálamenn efni þau loforð sem að þeir gefa. Það á við um Héðinsfjarðargöng og það á við hér. Engu að síður óttast ég að þessari dýru útgáfu af Suðurstrandarvegi verði frestað enn og aftur um ókomin ár, meðal annars vegna þeirrar nauðsynjar sem nú er á stórframkvæmdum við Suðurlandsveg. Síðar vegna annarra brýnna verkefna!

Á þessum fundi fann ég betur en nokkru sinni hversu auðvelt það væri að vera loforðapólitíkus. Ég gat tekið strax undir með fyrsta ræðumanni og sagt að ég myndi gera allt sem í mínu valdi stæði til að Suðurstandarvegur verði að veruleika. Slíkt loforð vigtar auðvitað ekki því að stjórnmálamaður sem ætlar sér að svara hverri einustu tillögu þannig á ekki mikið vægi eftir fyrir hverja og eina þegar til stykkisins kemur. Það er því lofað upp í ermi slíkra stjórnmálamanna og um leið lofað freklega ofan í vasa skattgreiðenda. Loforðapólitík af þessu tagi er afar hættuleg og Suðurstrandarvegurinn er gott dæmi um þetta.

Fundarmenn í Þorlákshöfn voru því algerlega óviðbúnir að fram komi frambjóðandi til Alþingis sem ekki er tilbúinn til að lofa. Fram til þessa hefur það varla staðið í nokkrum manni að lofa þessum vegi sem þó er ókominn enn. Eftir nokkrar umræður fannst mér þó að ég ynni á með þessum málflutningi en ég skal fúslega játa að andrúmsloftið var þykkt og þungt framan af fundi og það var tekist á. Svona eins og fundir eiga að vera!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Nei, nei... Bjarni er fínn í Framsókn. Bjarni...haltu áfram, vertu sannur eins og alltaf!

Sveinn Hjörtur , 4.1.2007 kl. 23:09

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Þú fórst nú eiginlega á hálli ís þegar þú fórst að tala um EES samninginn!  Annars var fundurinn skemmtilegur og leitun að frambjóðanda sem gefur boltann jafn vel upp og þú á þessum fundi. Á hundrað manna fundi hefði þetta orðið feykileg ærsl og spenna. Því miður þá eru Selfyssingar daufir fundarmenn en þar verður mesta fjölmennið....

Baldur Kristjánsson, 4.1.2007 kl. 23:53

3 identicon

Hefur engum dottið í hug að gera þennan veg í einkaframkvæmd og rukka veggjald.  Þessi vegur er kjörinn til þess.  Mig klæjar í lófana að reikna út hvort það sé mögulegt.

Jón Þorvaldur Heiðarsson

Jón Þorvaldur Heiðarsson (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband