Viðhalda verður byggð í Eyjum



Ég var að tala um hugsjónir. Eitthvað sem er löngu úrelt að tala um í samfélagi efnishyggju og hagvaxtar. Tilfellið er að hin blinda trú á hagvöxtin virðist stundum sjálfri sér nóg. Menningarlegt fóður er þá sótt í frjóar og fyndnar auglýsingar. Pólitískar lausnir eru þær sem hagfræðingar og reiknimeistarar á hverjum tíma telja réttar og ágóðabestar.

Þið verðið að fyrirgefa en mér væmir við þessari veröld. Og það kemur mér ánægjulega á óvart hversu vel mér tekst að fá fólk til að hlusta þegar ég tala fyrir hugsjónum Framsóknarflokksins sem andstæðu þessarar vitfirringar. Stundum verður manni á að halda að hinn truntulegi nútími hafi gleypt alla með húð og hári. Skyni borið fólk veit að bakvið blint trúarofstæki leynist feigð hvers samfélags og skiptir þá engu hvort guðinn er himneskur eða jarðnesk peningatrú.

En talandi um hugsjónir þá fékk ég mjög athyglisverða spurningu á fundi um daginn – reyndar fengið þær margar enda fátt gert nema vera á fundum – það var í umræðu um hugsjónir að spurt var hvað væri við þessar hugsjónir að gera í samfélagi allsnægta og velmegunar. Eru hér einhver þau verkefni sem skipta máli! Tökum dæmi:

Milli Markarfljóts í Rangárþingi og Hornafjarðarfljóts á Mýrum eru um 300 kílómetra leið og þar búa innan við 1500 manns. Öll sú byggð hangir í raun og veru á bláþræði. Í Vestmannaeyjum hefur íbúum fækkað um fimmtung á örfáum árum og eru nú að skríða niður fyrir 4000 íbúa markið. Þessi fækkun Eyjamanna er viðvarandi vandamál líkt og á svæðinu milli Markarfljóts og Hornafjarðarfljóts.

Lík þessu er staðan víða um land. Engu má muna að almenn þjónusta eins og verslun, heilsugæsla, skólahald, sjúkraflutningar, eldvarnir o.fl. o.fl. hrynji endanlega og við taki stórfelldir búferlaflutningar líkir þeim sem urðu þegar Jökulfirðir lögðust af. Vöxtur í ferðaþjónustu á svæðinu dugar engan vegin til að hamla á móti þessari þróun.

Stjórnvöld í landinu hafa lagt sitt á vogarskálar þessarar þróunar með því flytja stofnanir og störf frá þessum stöðum í nafni hagræðingar. Nú síðast sjálfstæði lögregluembætta en þar áður heilsugæslustöðvar, fjarskiptastörf, prestsembætti, vegagerðarskrifstofur og fleira og fleira. Ríkisvald sem þenur sig út á Faxaflóasvæðinu með hraða Parkisonslögmálið hefur vitaskuld ekkert leyfi til að beita köldum hagræðingarrökum til að draga embætti og umsvif frá hnignandi byggðum.

Tapist þessi svæði þannig að Vestmannaeyjar verði aðeins sumarland nokkurra farfugla og eyða verða í byggðinni frá Höfn að Hvolsvelli er mikið farið og nágrannabyggðir veikjast um leið. Þegar svæði er einu sinni farið í eyði eru möguleikarnir á að það byggist aftur sáralitlir. Þar með daprast möguleikar okkar hinna til að njóta þessa landssvæðis sem sumarhúsaeigendur eða ferðamenn. Möguleikar samfélagsins að njóta þeirra efnahagslegu ávinninga sem þessi stóri hluti landsins býr yfir skerðast líka til muna. Þá er ótalin sú eignaupptaka sem Vestmannaeyingar og Skaftfellingar búa við vegna þess að eiginfjárstaða þeirra margra er þegar að engu gerð. Möguleikar alþýðufólks í hnignandi byggðalögum eru allt aðrir en möguleikar hinna sem búa á þenslusvæðum.

Það kostar vissulega að viðhalda byggðalínunni þar sem hún stendur sem hallast. En til lengri tíma litið er það kostnaður sem við munum fá margfaldlega til baka. Ég hef áður lýst þeirri sannfæringu minni að við getum auðveldlega falið reiknimeisturum okkar að reikna út að þjóðin sé betur komin á einum stað, stórri borg við Sundin. En blindir reiknimeistarar skila ekki hagvexti heldur fátækt. Veraldlegt ríkidæmi okkar Íslendinga er vegna þess andlega ríkidæmis sem það gefur þessari þjóð að viðhalda byggð hringinn í kringum landið. Það er ríkidæmi þess sem getur verið stoltur af þessu stóra og fallega landi.

Það verður lítið úr því stolti ef við eigum þar fátt annað en eyðibyggðir og eignarlausar eftirlegukindur á landsbyggðinni. Hugsjónafólk Framsóknarflokksins á hér stór verkefni framundan.

Höfundur er bóksali á Selfossi og sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi 20. janúar næstkomandi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðjón R. Friðjónsson

Sæll Bjarni

Ég verð að mótmæla þessum orðum þínum:

Stjórnvöld í landinu hafa lagt sitt á vogarskálar þessarar þróunar með því flytja stofnanir og störf frá þessum stöðum í nafni hagræðingar. Nú síðast sjálfstæði lögregluembætta en þar áður heilsugæslustöðvar, fjarskiptastörf, prestsembætti, vegagerðarskrifstofur og fleira og fleira. Ríkisvald sem þenur sig út á Faxaflóasvæðinu með hraða Parkisonslögmálið hefur vitaskuld ekkert leyfi til að beita köldum hagræðingarrökum til að draga embætti og umsvif frá hnignandi byggðum.

Eins og ég bent meðframbjóðanda þínum Eygló Harðardóttur á þá var dómsmálaráðherra að flytja verkefni frá ráðuneytinu til embætta sýslumanna. Frá Reykjavík út á land!

Dóms- og kirkjumálaráðherra færir verkefni frá ráðuneyti til sýslumanna

Til Suðurkjördæmis eru þessi verkefni að fara frá Reykjavík:

  • Ákveðið hefur verið, að sýslumaðurinn á Hvolsvelli annist veitingu happdrættisleyfa.
  • Ákveðið hefur verð, að sýslumaðurinn í Vík sjái um útgáfu Lögbirtingarblaðsins og annist jafnframt veitingu leyfa fyrir rekstur útfararþjónustu.

Hvernig væri að menn fögnuðu því sem vel er gert? Kannski þykir  ekki nógu fínt að hrósa mönnum í öðrum flokkum.

Friðjón R. Friðjónsson, 12.1.2007 kl. 01:26

2 Smámynd: Sigurður Svan Halldórsson

Sæll Bjarni

Frá því þú gafst kost á þér í Suðurlandskjördæmi hef ég fylgst með þér og þínum athöfnum. Mér finnst þú frábær. Sannarlega Framsókn endurborin. Ekki þessi innihaldslausa, yfirborðskennda og spillta Framsókn sem þeir félagar Björn Ingi Hrafnsson og Óskar Bergsson spila í Reykjavík. Megir þú og þínar hugsjónir dafna og fá fylgi.

Sigurður Svan Halldórsson, 12.1.2007 kl. 01:54

3 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Er dálítið "skotin" í svona frambjóðanda hjá Framsókn eins og þér þótt Guðni sé mér efst í huga þegar horft er til Suðurlands.

Sammála að þeir eru dálítið spilltir Björn Ingi og Óskar Bergsson. Eru út úr öllum kortum við skjósendur sína í Framsókn því miður fyrir hana.

Gangi þér vel í prófkjörinu. Með kveðju.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 12.1.2007 kl. 14:26

4 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Er dálítið "skotin" í svona frambjóðanda hjá Framsókn eins og þér þótt Guðni sé mér efst í huga þegar horft er til Suðurlands.

Sammála að þeir eru dálítið spilltir Björn Ingi og Óskar Bergsson. Eru út úr öllum kortum við skjósendur sína í Framsókn því miður fyrir hana.

Gangi þér vel í prófkjörinu. Með kveðju.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 12.1.2007 kl. 14:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband