Fjórbreiður Hellisheiðarvegur

Ríkisstjórnin tók nú á haustdögum ákvörðun um að bjóða út tvöföldun Suðurlandsvegar milli Lögbergsbrekku og Litlu Kaffistofunnar. Fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis hefur fagnað ákvörðuninni og segir hana mikil tímamót.

Í umræðu um vegagerð þessa hefur margoft komið fram að í engu öðru landi væri talið að umferðarþungi á Suðurlandsvegi kallaði á fjórbreiðan veg. Á þenslutímanum gagnaðist Vegagerð og hinum hófstilltari mönnum í þjóðfélagsumræðunni lítið að benda á slík rök enda var andinn þá sá að allt skyldi einfaldlega vera stærst og flottast á Íslandi. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú sýnir hvað hófstillingin á enn langt í land í íslenskri þjóðarsál.

Nú kann einhver að spyrja hvort það sé ekki í öllu falli gott að ráðist sé í sem glæsilegasta framkvæmd þar sem öruggt má telja að breiðari vegir skapi meira öryggi. Sjálfur bý ég austanfjalls og fer leið þessa oft í viku hverri og ætti því að fagna.

Staðreyndin er samt sú að ofuráherslan á fjórbreiðan veg mun tefja um ófyrirsjáanlega framtíð að viðundandi vegbætur verði gerðar á allri leiðinni milli Selfoss og Reykjavíkur. Með því sem nú er lagt í hinn stutta spotta um Fóelluvötnin mætti frekar laga stóran hluta ef ekki allan fjallveginn milli Kamba og Lögbergs. Þá væri ekki annað eftir í næsta útboð en þríbreiður Ölfusvegur.

Sérfræðingar Vegagerðarinnar hafa lengi bent á að þríbreiður vegur á þessari leið er samkvæmt öllum alþjóðlegum stöðlum algerlega fullnægjandi lausn og kostnaðarmunur er ekki tvöfaldur eins og halda mætti við fyrstu sýn heldur nær því að vera tífaldur. Þar munar mestu hvað kostnaður við mislæg gatnamót fjórbreiðra vega er miklu meiri en gerð venjulegra gatnamóta og hringtorga sem duga fullvel á þríbreiðum vegi.

Ísland glímir nú við alvarlega fjármálakreppu og ljóst er að rekstur ríkissjóðs næstu árin verður afar þungur. Allt bendir því til að framkvæmd eins og þessari verði lengi ýtt útaf borðinu, frestað um eitt ár í senn. Flestir munu telja það skynsamlegra en að ráðast í viðamikinn niðurskurð á heilbrigðiskerfi og félagsþjónustu. Leið þjóðarinnar út úr kreppunni liggur í gegnum ráðdeild og sparnað.

Baráttan fyrir fjórbreiðum vegi milli Selfoss og Reykjavíkur sýnir að stjórnmálamenn okkar eiga langt í land með að tileinka sér nýja tíma.

Hófstilling í þessu máli gæti skilað landsmönnum fullnægjandi umferðaröryggi á mun skemmri tíma en nú er stefnt að.

(Birt í Mbl. 12. des. 2009)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband