Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Í landi fækkandi framsóknarmanna!

Í landi fækkandi framsóknarmanna fer að verða mikilvægara fyrir þá sem eftir eru að kjósa rétt.
Ég hef í gamni og alvöru haldið því fram að höfuð átakalínur íslenskra stjórnmála liggi milli framsóknarmanna annarsvegar og krata hins vegar. Og alltaf sannfærist ég meira og meira um réttmæti þeirrar kenningar.

Framsóknarmenn voru lengst af 20. öldinni fjölmennir í öllum stjórnmálaflokkunum fjórum en þó fæstir í Alþýðuflokki. Það góða og blessunarríka sem stafað hefur frá íhaldi þessa lands er mildum landsföðurlegum framsóknarmönnum þar innan dyra að þakka. Það sama má segja um Alþýðubandalagið sáluga sem hýsti reyndar Möðruvallahreyfinguna alla en gegnumgrænni framsóknarhreyfing var kannski aldrei til í þessu landi.


Það sem einkennir þessa gamalgrónu framsóknarstefnu er þjóðleg sáttahyggja, mildi og velvild. Velvild gagnvart landsbyggð þessa lands, atvinnuvegum þess, menningu landsins og sögu. Mildi gagnvart erfiðum breytingum sem ákveðnar landshlutar og heilar stéttir standa frammi fyrir og hægt er að milda verulega með pólitískum stjórnvaldsaðgerðum. Þjóðleg sáttahyggja þegar kemur að því að meta og samræma ólík viðhorf,  viðhorf gamla tímans og hins nýja, viðhorf hins þjóðlega og alþjóðlega, viðhorf kynslóða og viðhorf ólíkra menningarheima þjóðarinnar.


Allt er þetta öndvert því skeytingaleysi sem einkennir tæknikrata á öllum tímum og í öllum löndum. Því miskunnarleysi sem fylgir bókstafstrúarmanni hvort sem lögmál hans er markaðsbúskapurinn eða reglugerðarbókstafur.


Þegar að er gáð er oft giska stutt milli öfgamanna hvort sem þeir koma úr hægri skúmaskotum Sjálfstæðisflokksins, frekjusellum Samfylkingarinnar eða blindingsliði Vinstri grænna. Allir eru þessir hópar til í að etja þjóðinni í illindi og átök um jafnt matarverð, virkjanapólitík og hina félagslegu samhjálp.


En hvað þá með "framsóknarmennina" í þessum flokkum, eru þeir engir eftir, kann einhver að spyrja. Úr því ég held því fram að þeir hafi verið þar, hljóta þeir þá ekki að vera þar enn. Víst er það svo. En vegur þeirra er miklu mun minni en var fyrir nokkrum árum. Gömlu bændahöfðingjarnir mega sín lítils í Sjálfstæðisflokki og hjá vinstri flokkunum ber nú meira á geltandi frekjutón, ættaður ýmist frá greenpeace eða gamla Alþýðublaðinu. Sáttatónninn er þar löngu týndur.


Eftir því sem hinn raunverulegi Framsóknarflokkur minnkar minnka líka áhrif hans inn í aðra flokka. Verst er þó að Framsóknarflokkinn hefur á undanhaldi undanfarinna ára skort þá reisn að halda gildum flokksins fram af einurð og festu. Halda fram hugsjónum Framsóknarflokksins, sem ég vonast til að geta gert betur grein fyrir í næstu greinum.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband