Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Sveinn í Bræðratungu og vikan sem var...
16.3.2007 | 12:55
Vikan hefur verið góð ef frá eru talin þau sorglegu tíðindi á miðvikudagsmorgni að Sveinn Skúlason bóndi í Bræðratungu hefði kvatt þá um nóttina. Tengdapabbi hringdi í Elínu og sagði henni frá láti bróður síns. Ég var í þeim töluðu orðum að leggja lokahönd á að senda Sunnlenska í prentun en í því var stutt viðtal við Svein sem Sigurður Sigmundsson hafði tekið. Sveinn hefur verið við hestaheilsu og var að taka fé í hús eftir riðuhreinsun. Andlát hans bar því brátt að þó karlinn hafi verið á áttugasta aldursári. Ég kippti viðtalinu út á síðustu stundu, þó með hálfum huga því það var gott og líflegt. En vitaskuld ekki viðeigandi.
Það mikil eftirsjá í Sveini í Bræðratungu. Hann var hafsjór að fróðleik og fyrir mér íslenskastur alls sem íslenskt er. Stóð traustum fótum í sögunni og þeirri menningu sem hann var fæddur inn í. Tengsl hans við þessa menningu og landið byggði ekki bara á hans eigin ævi heldur var honum sem opin bók og hluti af sjálfsvitundinni öll saga síns fólks. Jonsena, Thorarensena og Austfirskra búhölda. Og samt laus við að miklast af þessum uppruna sínum. Ég læt hér fylgja með mynd af Sveini sem tekin var í fermingarveislu Gunnlaugs, yngsta stráksins hér á Sólbakka síðastliðið vor, ljósmyndari er held ég Egill sonur minn.
En að öðru leyti hefur vikan semsagt verið góð og það fylgdi því vellíðan að sækja gamla rauð á verkstæðið hjá Péturssonum áðan. Það lýsir kannski ákveðinni perversjón en samband mitt við þennan ameríska húsbíl er líkast ástarsambandi. Við möluðum saman út Austurveginn í bláum reyk og mátti ekki milli sjá hvor var hamingjusamari. Kannski líka hluti af nægjusemi hinna gráu hára.
Sunnlenska er nú í mikilli endurreisn eftir krísu sem óneitanlega skapaðist við burtför Kristjáns J. Kristjánssonar. Héldum öflugan ritstjórnarfund í gærkvöldi og á næstu dögum verður tilkynnt um framtíðar ritstjóra og fleira skemmtilegt.
Vér landlausir og þjóðlendufarsinn
15.3.2007 | 13:15
Þjóðlendulög voru samþykkt árið 1998 og síðan þá hefur samfélagið kostað til hundruðum milljóna í flókin og erfið réttarhöld um eignarhald á landi á Íslandi. Einsdæmi mun vera í vestrænu lýðræðisríki að gengið sé með þessum hætti skipulega fram í þjóðnýtingu og véfengingu eignarréttar.
Ófarnaður rangsælis um landið
Í ferlinu hefur ríkinu tekist að vinna til sín að nýju lönd sem það hafði áður selt bændum og sveitarfélögum. Landeigendur hafa í réttarkerfinu verið sett skör lægra en almennir sakamenn þar sem sönnunarbyrðin hefur að jöfnu verið lögð á þá eins og ríki en í refsirétti er venja að sönnunarbyrði fyrir sekt sé alfarið ákæruvaldsins.
Þingmenn allra flokka hafa lýst því yfir að þeir telji framkvæmd laganna ekki í nokkru samræmi við það sem þeir bjuggust og alls ekki ásættanlega. Engu að síður hefur verið haldið áfram. Ófarnaður þessi hefur farið rangsælis um landið og eina breytingin sem verður við hvert nýtt svæði er aukin óbilgirni, aukin harka og óskiljanlegri niðurstöður. Þá hafa fjárveitingar til málefnisins farið hækkandi ár frá ári og ekki óvarlegt að ætla að allur kostnaður samfélagsins vegna þessa slagi nú í heilan milljarð en upphaflega var gert ráð fyrir nokkrum milljónum á ári hverju.
Í ljósi alls þessa er undarlegt að lög þessi skuli ekki hafa verið tekin til endurskoðunar og alger forgangskrafa að það verði gert sem allra fyrst. Fjármálaráðherra hefur í nokkru viðurkennt vandann og boðað mildari aðgerðir innan núverandi lagaramma. Í þeim tillögum er þó ekkert sem að haldi getur komið.
Stjórnvöld sem egna til ófriðar
Þeir menn eru til sem halda að flan þetta sé til hagsbóta fyrir okkur meirihluta landsmanna sem ekkert land eigum. Ekkert er fjær sanni.
Vér landlausir verðum það jafnt sem áður þó svo að ríkið skelli hrammi síns eignarhalds yfir. Fólk sem gengur með grillur um að ríkiseign sé eign þjóðarinnar hefur að líkindum lesið yfir sig af Maó Tsetung eða öðrum óhroða pólitískra bókmennta.
Það er aftur á móti okkur öllum borgurum þessa lands, bæði landeigendum og landlausum, áhyggjuefni þegar ríkisvaldið virðir ekki ágreiningslaust eignarhald manna á þinglýstum eignum. Í sumum tilvikum eignir sem sama ríki eða forveri þess í Kaupmannahöfn seldi íslenskri alþýðu.
Það skilur raunar milli þeirra landa þar sem ríkir hagvöxtur og velsæld og hinna þar sem það gerir það ekki að mannréttindi eru þar yfirleitt í góðu fari. Grundvallaratriði þessara mannréttinda og kannski það mikilvægasta fyrir viðgang hagkerfisins er virðing fyrir eignarrétti og vilji stjórnvalda til að halda frið við þegna sína.
Það er vissulega svo um allt eignarhald og yfirleitt öll réttindi manna að þau má draga í efa. Sjálfur lúri ég miklu af margskonar lausafé sem ég get engan veginn fært sönnur á að ég eigi með réttu. Sama gildir til dæmis um lóðaréttindi í þéttbýliskjörnum landsins, þau eru mörg harla óviss. Forverum okkar á þessum lóðum var bent á að byggja hér eða þar og fengu að stika út skika af ekki mikilli nákvæmni. Ef menn vilja þá gætu þeir fyrirskipað öllum lóðareigendum að láta reyna á sín í milli með blóðugum málaferlum og leiðindum hvar hin rétta lína er. En það hefði engan tilgang.
Líkt er með þjóðlendurnar. Úrskurður sem kveðinn er upp í dag um eignarhald á einstökum fjallatindum hefur engan tilgang fyrir framtíðina. Áfram er nytjaréttur óljós og margskiptur og líklegt að ef til þess kæmi að eitthvað þyrfti nytja á íslenskum eyðisandi þá gæfist bæði bónda og ríki rök til þess að höfða mál að nýju miðað við nýjar forsendur. Og það er mikilvægt hlutverk dómstóla að skera úr um vafamál þegar ágreiningur rís. En það er jafn fráleitt að etja dómstólum í þarflausan málaþvætting.
Það fylgir svo hraða þessara mála og mikilli yfirferð að mjög víða í úrskurðum Óbyggðanefndar gætir misskilnings í örnefnanotkun, flaustri í landlýsingum og misskilningi í lestri fornra heimilda að það eitt mun vafalaust duga til að dómstólar barna okkar munu líta á þjóðlendumálið allt sem farsa en ekki hluta af marktækum gögnum.
Hagsmunir okkar landlausra
Fyrir utan að eiga lóð á Selfossi er ég einn hinna landlausu Íslendinga. Og við erum í miklum meirihluta þó að það færist vissulega í vöxt að ríkir þéttbýlisbúar kaupi sér jarðir. Og við landlausir eigum svo sannarlega hagsmuni gagnvart landinu sem skerpa þarf á.
Í dag er staðan sú að fjölmargir landeigendur leyfa sér að loka fyrir umferð almennings um lönd sín. Gamlar þjóðleiðir eru eyðilagðar, klofa þarf yfir rafmagnsgirðingar til að ganga á þekkta fjallatoppa og árbakkar eru eyðilagðir með óbrúðum framræsluskurðum. Merkir sögustaðir eru afgirtir og eina merking þeirra er nöturlegt skilti þar sem á stendur: Allur aðgangur bannaður. Svo kuldalegar kveðjur til útivistarfólks og ferðalanga eru alls ekki algild regla en alltof algengar. Þetta sést á löndum bæði heimamanna og burtfluttra, nýríkra jarðeigenda og þetta sést meira að segja í löndum sem eru í eigu ríkisins og stofnana þess.
Þeim milljarði sem eytt er í þjóðlendumálin hefði mikið betur verið varið í að skýra og skilgreina þau hagsmunamál sem hér eru nefnd. Þá vantar enn gríðarlega mikið á að fyrir liggi skilgreiningar á því hvaða slóðar í óræktarlandi á Íslandi eru heimilir vélknúnum ökutækjum og hverjir þeirra eru það ekki. Meðan mokað er hundruðum milljóna í þjóðlendumál fást örfáir þúsund kallar til þess að koma upp stígum og bæta aðgengi á vinsælum stöðum. Svo mætti lengi telja hin raunverulegu hagsmunamál okkar landleysingjanna.
Staldrað við!
Því er þráfaldlega haldið fram í þjóðlenduumræðu að ekki sé hægt að stöðva málið þar sem með því yrði ekki gætt jafnræðis gagnvart öllum landsmönnum. Með sömu rökum mætti rökstyðja að í raun og veru megi aldrei breyta lögum. Og ef nú fjármálaráðherra væri alvara með það að breyta allt í einu vinnulagi við þjóðlendur þannig að mildilegar sé farið að Húnvetningum en Árnesingum er fyrst um að ræða jafnræðisbrot þar sem lögin væru þau sömu en framkvæmdin ólík.
"Það er ekki hægt að snúa við í miðri á," sagði einn talsmanna þjóðlendumálsins við mig um daginn en vitaskuld eru þjóðlendumálið fúafen en ekki á og algengt með menn sem lenda í slíkum pyttum að þeir snúi til sama lands.
Jafnvel þó fallist sé á þau sjónarmið að skilgreina þurfi fyrir framtíðina hvaða lönd tilheyra ríki og hvaða lönd tilheyra öðrum lögaðilum geta allir málsaðilar fallist á að litlu skiptir hvort úrlausn þessa máls lýkir árinu fyrr eða seinna. Framsóknarmenn hafa nú lagt fram hlutlausa tillögu um að lögin verði tekin til endurskoðunar. Á meðan sú endurskoðun fari fram verði staldrað við og ekki lýst frekari kröfum af hálfu ríkisins.
Hér er ekki slegið föstu hver niðurstaðan yrði úr slíkri endurskoðun. Ef þetta er einhverskonar stríð milli landlausra Íslendinga og landeigendaaðals ætti endurskoðun málsins að vera áhættulaus svo lítil sem ítök bænda og annarra landeigenda er í löggjafarsamkomu þjóðarinnar.
En ef að það er svo að þjóðlendulögin séu sá óskapnaður að þau standist engan vegin vandaða skoðun lögfræðinga og annarra sérfræðinga þá er ekki óeðlilegt að forstokkaðir þjóðnýtingarmenn, makráðir lögfræðingar og yfirgangssamir stjórnherrar standi nú saman um að ekki megi einu sinni líta upp í verkinu miðju.
(Grein þessi hefur ekki birst á prenti en efni hennar var hlutað niður í tvær smærri greinar sem birst hafa í Blaðinu í Reykjavík.)
Dakarferð lokið...
12.3.2007 | 14:36
Það besta við að fara til útlanda er að koma aftur heim í vinalegan hraglandann... Tilfinningin að koma út úr Leifsstöð er alltaf óborganleg. Þar skiptir líka máli að þrátt fyrir að gaman sé í ferðalögum eru flugstöðvar eitt það leiðinlegasta sem til er.
Frækilegri mótorhjólaferð Dakarklúbbsins lauk laust eftir miðnætti í gær en við höfðum þá kvatt Patrek bónda í Rósalundi 12 tímum fyrr. Misjafnlega lerkaðir eftir ævintýrin enda höfðu menn hlíft sér mismikið. Kapparnir sem með mér voru drógu hvergi af sér og entu ferðina á spyrnu við Svisslendingana en Svissarinn Andreas var þar fremstur og næstur honum héraðsbúinn Loftur ofurkappi og síðan Baldur Öræfingur.
Meira síðar...
Fjoll eins og konur og hjol sem fara voda hratt...
9.3.2007 | 15:24
Fjoll eru eins og konur. Her er eg i einu fallegasta fjalllendi frakklands og tad er svo sannarlega fallegt og strjalbylt og orginial og yfirleitt oborganlegt a allan hatt. Vid einstaka bae er sma tunskiki, svo sem dagslatta en sjaldan meir. Baendur bua her nokkrir med fe og adrir geitur. 'I baejartorpi sem hladid er 'i einn hlunk ur hoggnu grjoti i brattri hlid. Visitolubuid er mer sagt ad se 400 fjar til kets eda 100 geitur til osta. Hvorutveggi gengur sjalfali i fjollum tessum sem eru ha, brott, grytt og klaedd skogi. Og einmitt tessi klaedi fjallanna gera tau lik fjollum i Marokko, Svartfjallalandi, Himalaja, Spani, Kenya og yfirleitt ollum utlendum fjoll sem eg hefi sed. Einhvernveginn svolitid eins svipur yfir ollu tegar upp til haestu toppa renna barrtre af ymsu tagi, lauftre a einstoku belti... To ad trein seu fogur og fosturjordin her ekki su totrughypja sem vid stundum tolum um ad se heima er eg ad atta mig a tvi hvad tad er sem gerir islensku fjollin svo einstok og hrifandi fram yfir oll fjoll og jafnvel skemmtileg tau sem eru ekki hrifandi heldur h'alfgildings hreppafjoll...
Fjoll eru nefnilega eins og konur. Fogur 'i klaedum sinum en enn fegurri og skemmtilegri nakin. Margbrotin i tiskunni og mismunandi kj'olum en ennta fjolbreytilegri tegar kjolafargi tessu sleppir. Fyrir ta sem vilja ma reyndar halda afram med tessa likingu med fjollin og konurnar ut 'i eitt. Tau eru kollud drottningar og maedur og tvi fylgir alltaf olysanleg tilfinning ad komast upp a tau...
En he, he. Hv'i er 'eg ad skrifa um tetta sem tykist vera 'i Frans i hetjulegum hjolatur a torfaerutryllitaekjum... Tvi er flj'otsvarad ad svo for sem mig alltaf grunti fyrirfram ad fjallaferdir tessar yrdu mer of erfidar og vaeru aetladar meiri gorpum. Tilfellid er ad eg tilheyri motorhjolaklubbi tar sem mer lidst ad vera med tratt fyrir ad fara baedi haegar yfir og minna en allir adrir i felagsskapnum sem enda eru itrottagarpar, hlaupagikkir, kafarar, kraftajotnar og gud ma vita hvad. Sjalfur er eg hamingjusamlega vaxinn hjassi med triggja stafa tolu a badvoginni og vodvabyggingu 11 ara barns. En samt med olaeknandi torfaeruhjoladellu en ordinn i ofanalag ragur i teim ferdum af fenginni reynslu.
Tegar ferdalag tetta kom til tals var eg sk'ithraeddur um ad tad vaeri ekki 'a minu faeri en langadi svo mikid ad eg leyfdi Gudmuni Tryggva sem er enda hattsettur madur 'i stj'ornsyslunni og einn 'abyrgasti madur klubbsins ad skrokva tvi ad mer ad ferdin vaeri baedi aetlud fyrir byrjendur og lengra komna. Til tessa skilnings turfti ad beita s'erstakri tulkunarfraedi vid lestur baeklinga.
Gaerdagurinn byrjadi svo med fleygiferdum nidur snarbrattar urdir i stigum sem eg hefdi aldrei getad bodid dakarnum minum heima en nu var hjolid lettara og medfaerilegra. En um leid haettulegra midaldra manni og eftir fyrsta korterid helt eg ad eg hlyti bradum ad hniga nidur af treytu, hjartastoppi, hraedslu og ef tetta tygdi ekki ta skomm yfir kunnattuleysi. Vonir minar um ad i foruneytinu yrdu einhverjir utlenskir vidvaningar urdu ad engu tegar i ljos kom ad svisslendingarnir trir sem her keyra i sama holli eru trauttjalfadir keppnismenn...
En ta var astandid lika ordid svo slaemt ad tad gat ekki verra ordid. Og svo for landid adeins ad risa to eg vaeri langt i fra ad vera lidtaekur. Reyndar tvi alvanur i ollu sem l'ytur ad likamlegu atgervi og held ad tetta se hollt. Ekki to tad ad vera aumingi til skrokksins, tad er svosem hvorki hollt ne ohollt heldur hegomi. Tad sem er hollt er ad vera stundum aftastur, lelegastur og allra manna adhlatur i godum felaga hopi. Og tola tad med bros a vor. Sem var audvelt i gaer tvi umburdarlyndi dakarfelaga minna er takmarkalaust og Frakkarnir fengu borgad fyrir ad hafa mig med. Svisslendingar,= ju teim var kannski vorkunn en teir eru nu bara Svisslendingar!!!
Eftir tetta fyrsta korter skrattadist eg upp allar brekkur(1 og gil, aftastur en samt med og stundum svo treyttur og ad nidurlotum kominn tegar eg slakadi adeins a inni a malbikskoflunum ad eg helt ad hlyti ad hniga utaf. 'Eg het sjalfum mer tvi ad trauka ut daginn med tvi ad lofa sj'alfum mer tvi ad eg fengi fri ad morgni og steinsofnadi ormagna og hamingjusamur um kvoldid medan franskir hj'olabaendur og islensk karlmenni skutu a sig bjor og einhverju sterkara. Nuna er eg tvi a kaffihusa sluxi nidri i litlum bae sem heitir Nims, les Skugga vindsins og sotra kaffi...
'A morgun aetla eg ad fara eftir klungurslegum moldarslodum a nokkur kaflodin og avol fjoll en eg mun gera tad ad haetti sjentilmanna, haegt og mjuklega enda annad ekki saemandi manni sem ordin er su almenningseign ad hann opinberar hugarora sina a morgunbladsbloggi og beidir til kjosenda um meira en bara 'atta pr'osent...
1) Brekkuna Karlsdratt for eg vitaskuld ekki og enginn nema ofurmennid hogvaera Karl Hoffrits. Tar urdu teir fraendur af aett Saeumundsena og Baldur Oraefingur ad luta i gras og somuleidis Svissararnir allir nema einn. Brekka tessi var ognar brott og nadi langt upp fyrir efstu skogarrandir i landinu, hofst einhversstadar i 800 metra haed og lauk i 1000 en tangad upp sa enginn nema Karl og hann hefur ekki fengist til ad stadfesta sogur um ad tar uppi seu trollskessur aegilegar med magaskegg sem naer teim ad geirvortum, en tad ku satt...
Mennt er máttur - Framsóknarleg framtíðarsýn IV
7.3.2007 | 04:13
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.3.2007 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðleg alþjóðasýn - Framsóknarleg framtíðarsýn III
7.3.2007 | 04:05
Ég talaði um það hér í fyrri grein að Ísland væri afdalur og það er svo. En það er líka nafli alheimsins ef við viljum svo horfa. Við sem glímt höfum við rekstur fyrirtækja vitum að lykilatriði er að snúa sértækum aðstæðum upp í styrkleika. Breyta því sem kann að vera veikleiki í möguleika.
Það sama á við í rekstri okkar þjóðarbús og þó einkum og sér í lagi þegar kemur að alþjóðapólitík okkar. Við erum einir í ballarhafi, lengst frá öðrum þjóðum Evrópu og höfum orðið viðskila við þær flestar í þeirri samrunaþróun sem þar er nú efst á baugi. Mín skoðun er reyndar sú að sá viðskilnaður sé okkar gæfa en um það eru menn ekki sammála. Aðalatriði er þó að viðskilnaðurinn er staðreynd og við erum sér á báti. Spurningin er hvað gerum við með það.
Við getum eins og atvinnurekandi í uppgjöf hent öllu frá okkur og gengið hinu Evrópska skrifræði á hönd að fullu og öllu. Eftir það verður til lítils að vera í pólitík á Íslandi. Við getum fetað hina leiðina, litlir og sjálfstæðir. Og gáð hvaða möguleika það gefur okkur.
Þegar skyggnst er um bekki hinna alþjóðlegu viðskipta er nefnilega mjög líklegt að okkar bíði tækifæri sem sjálfstæð eyþjóð mitt á milli Evrópu og Ameríku. Og ekki bara það. Með opnun nýrra leiða í siglingum og flugi erum við einnig mitt á milli hins rísandi efnahagsveldis Asíu og hinna vestrænu þjóða. Þeirri stöðu geta fylgt ótrúlegir möguleikar.
Við eigum hér á Miðnesheiðinni vaxandi alþjóðaflugvöll og við hann heilt kauptún til ráðstöfunar. Það er mjög misráðið að ætla að koma því þorpi inn í íslenskt hagkerfi eins og hverju öðru stríðsgóssi. Við eigum að horfa á hina yfirgefnu herstöð sem möguleika til að skapa hér frísvæði fyrir alþjóðlega skiptistöð milli heimsálfa. Ef við svo sköpum alþjóðafyrirtækjum skilyrði til að setja upp starfsstöðvar hér á landi getur það orðið þeim mikilvægur hlekkur í markaðssetningu milli heimsálfa. Það þarf ekki að ræða hversu mikill ávinningur slíkt væri fyrir okkar eigið hagkerfi.
Það sem við getum einmitt smæðar okkar vegna boðið þessum fyrirtækjum umfram það sem þeim býðst í flestum eða öllum vestrænum löndum er einfalt og skilvirkt stjórnkerfi með stuttar boðleiðir. Til þess að svo megi verða er mikilvægt að við flækjumst ekki í net þess skrifræðis sem jafnan einkennir stórveldi, hvort sem er austan hafs eða vestan.
Þetta er sú þjóðlega alþjóðasýn sem okkur ber að tefla fram gegn trúarhita Evrópusinna. Og þessi mynd er því aðeins möguleg að við völd í landinu séu stjórnmálamenn sem ekki eru logandi hræddir við útlendinga.
Einstakir Öræfingar
6.3.2007 | 00:20
Brunaði af flokksþingi á laugardag austur í Öræfi þar sem ég hafði lofað að vera á Góugleði og fékk svo gistingu á Fagurhólsmýri. Þar á dóttir mín sitt annað heimili hjá afa sínum og ömmu og ekki að undra. Heimilið allt geislar af velvild, hlýju og sálbætandi rólyndi. Reyndar ekki bara Mýrin, eins og Öræfingar kalla bæ þennan yfirleitt til styttingar heldur Öræfin öll.
Á sunnudaginn fórum við Eva saman í heimsókn til frænda hennar á Kvískerjum. Þar búa einstakir höfðingjar og alþýðufræðimenn. Hefði viljað eyða þar meiri tíma en ég vonast til að geta hitt þessa karla aftur.
Atli Gíslason frambjóðandi var á staðnum þegar við Eva komum enda hafði hann gist í Öræfunum líka og var á Góuhófinu. Eitthvað barst talið að því hvernig smalamennskum hefði verið háttað, hvort farið væri gangandi eða ríðandi og Hálfdán svaraði af hógværð að hann hefði nú mest notað mótorhjól.
Eftir gott kaffispjall fékk ég svo að berja mótorhjólið augum sem hefur reyndar ekki verið gangsett í rúmt ár enda þeir bræður hættir öllum búrekstri og þarf svosem engan að undra, Hálfdán sem er þeirra yngstur sjötugur að aldri en Sigurður er 89 ára. Helgi heitir sá þriðji, liðlega áttræður held ég að ég hafi tekið rétt eftir og allir víðlesnir, viðræðugóðir og hógværir í tali og gætu þó frekar miklast af en margur sem það gerir...
Þjóðlendumálin tekin í gegn...
5.3.2007 | 10:05
Þjóðlenduályktun:
Markmið:
Að skapa sátt um eignarhald á landi.
Leiðir:
- Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn að fresti frekari framgangi þjóðlendumála á Íslandi og taki lög um þjóðlendur til endurskoðunar.
- Með frestun er átt við að ekki verði lýst kröfum í ný svæði á landinu en jafnframt leggur Framsóknarflokkurinn áherslu á að hraða málsmeðferð þeirra svæða þar sem ríkið hefur þegar lagt fram kröfur.
- Fjármálaráðuneyti og kröfunefnd þess að endurskoði kröfugerð sína þar sem mál standa yfir og leiti þar sátta við jarðeigendur. Þá leggja Framsóknarmenn áherslu á að ríkisvaldið uni úrskurði Óbyggðanefndar enda nefndin skipuð af ríkisstjórn landsins.
Fyrsta skref:
Flokksþingið leggur áherslu á að forysta flokksins tryggi máli þessu þinglega meðferð fyrir þinglausnir á komandi vori.
Greinargerð
Lög um Þjóðlendur voru samþykkt frá Alþingi 10. júní 1998. Síðan þá hafa þingmenn allra flokka marglýst því yfir að framkvæmd laganna hafi ekki verið með þeim hætti sem þeir bjuggust við né heldur ásættanleg gagnvart landeigendum og dreifbýli þessa lands.
Nægir í þessu að vitna til nýlegrar greinar sem varaformaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, skrifaði um málið í Morgunblaðinu 17. janúar sl. Þar segir m.a.:
Ég vil að bændur og jarðeigendur hafi það alveg klárt að Framsóknarflokkurinn og reyndar báðir stjórnarflokkarnir fóru ekki í þessa vegferð til að ná bújörðum af bændum, heldur til að treysta eignar- og afnotarétt jarðeigenda og bænda horft til framtíðar, samhliða því að tryggja þjóðareign á eigendalausu landi og landsvæðum.
(Guðni Ágústsson: Morgunblaðið 17. janúar 2007)
Þá bendir landbúnaðarráðherra á það í grein sinni að kröfugerð ríkisstjórnarinnar hafi harðnað og ástæða sé til að fara vel yfir þann þátt hvort breyta þurfi lögum:
Fagna ber nú áformum um stofnun landssamtaka jarðeigenda. Ríkisstjórnin er sammála um að ganga til samstarfs og viðræðna við þessi samtök sem og önnur sem hagsmuna eiga að gæta um lögin, málsmeðferðina og hvernig hægt sé að milda hörð og harðnandi vinnubrögð kröfugerðarinnar. Þar verður auðvitað að fara vel yfir þann þátt, hvort breyta þurfi lögunum.
(Guðni Ágústsson: Morgunblaðið 17. janúar 2007)
Sérfræðingar á sviði eignaréttar hafa margir talið að með lögum þessum sé vegið að grundvallarréttindum samfélagsins, eignarréttinum. Um þetta er vitaskuld ekki eining milli málsaðila en minnsti grunur um að eignaréttur í landinu standi höllum fæti kallar á að löggjafarþing þjóðarinnar taki málið til skoðunar. Ekki þarf að tíunda hér að helgi eignarréttarinnar er grundvöllur stjórnskipunar okkar og velmegunar. Í þriðja heims löndum og löndum sósíalismans er iðulega bent á það sem eina helstu orsök vanþróunar að eignarréttur er háður duttlungum ólýðræðislegra stjórnherra.
Þrátt fyrir alla þessa gagnrýni hefur framkvæmd laganna haldist óbreytt og raunar verið með hverju árinu gengið lengra í kröfugerð og áfrýjunum mála. Þannig voru heilar jarðir dæmdar af einkaaðilum í Öræfum og í Þingeyjarsýslum stefnir í harðvítug átök um eignir sem hafa til þessa verið þinglýstar bændajarðir og þeir greitt af þeim skatta og skyldur. Í nokkrum tilvikum hafa dómstólar dæmt af bændum og sveitarfélögum eignir sem ríkisvaldið það hafði sjálft selt við verði. Þannig hefur ríkisvaldið eignast með málssókn eignir sem það áður hafði þegið greiðslu fyrir.
Mjög deildar meiningar hafa frá upphafi verið um nauðsyn þjóðlendulaga. En jafnvel þó viðurkennd sé nauðsyn þess að skera úr um eignarhald á miðhálendi Íslands er ljóst að litlu skiptir hvort því verki lýkur nokkrum árum fyrr eða seinna. Hvergi í landinu standa þær deilur um nýtingu á meintum þjóðlendum að það kalli á sérstakan flýti þessa máls.
Núverandi lög gera með áorðnum breytingum frá árinu 2006 ráð fyrir að Óbyggðanefnd ljúki störfum árið 2011. Vafamál er að það markmið náist að óbreyttu þar sem aðeins er nú lokið vegferð um tæpan helming landsins á 8 árum.
Að þessu virtu og síðan fullyrðingum fjölmargra þingmanna úr öllum starfandi stjórnmálaflokkum landsins um að framkvæmd laganna sé ekki með þeim hætti sem þeir bjuggust við eða telja ásættanlegt, telur Framsóknarflokkurinn það skyldu Alþingis að endurskoða lög þessi og eftir atvikum önnur lög sem tengjast eignarrétti á landi áður en ráðist er að fleiri eignarlöndum í landinu.
Fjör í Framsókn...
2.3.2007 | 20:55
Það er bara reglulega gaman á flokksþingi. Ég þekki samt sjálfan mig nógu vel til þess að vita að fyrir fjórum árum og ég tala nú ekki um fyrir átta árum hefði ég aldrei haft eirð í mér til að sitja svona á fundum lon og don. Svona er nú gott að verða ráðsettur og bráðum miðaldra.
Við erum að rífast um kosningalög í grúbbustarfi og ég er hreint ekki viss um að ég hafi skoðun á málinu. Hneigist til að vera meira sammála Höskuldi frambjóðanda í því sem er verið að þrasa um þessa stundina en held mér til hlés. Mest til þess að tími verði til að tala um eitthvað sem skiptir máli eins og þjóðlendumál sem. Nú er verið að tala um verkefni sveitarfélaga...
Í gær skrifaði ég pistil um varðhunda valdsins en þorði ekki að birta hann strax og þessvegna datt hann inn núna eftir að aldraðir og varkárir (!) framsóknarmönn höfðu sagt mér að þetta væri mjög hófsamt.
Verstu varðhundar valdsins og íhaldið þess...
2.3.2007 | 20:53
Varðhundar valdsins eru víða, hér á landi eins og annarsstaðar. Þaðer hægt að vara sig á þeim ef þeir eru með bindi og vera tortrygginn ef þeir eru í einkennisbúningi. Staðan er miklu mun verri þegar maður mætir þeim inni á ritstjórnum fjölmiðla. Þar þrífast hinir verstu varðhundar íhaldsvaldsins.
Fyrir nokkrum dögum,- líklega eru þeir nú orðnir einir 20 en það er aukaatriði - var ég í sjónvarpsumræðu og hélt þar fram smá gagnrýni á Sólheima. Það var semsagt verið að tala um eftirlit með stofnunum og hin sorglegu Breiðavíkur og Byrgismál. Ég hafði þar á orði og við Össur vinur minn Skarphéðinsson vorum eins og svo oft algerlega sammála (!) að eftirliti með stofnunum á Íslandi væri stórlega ábótavant. Ég benti þar á að eftirlitsleysi á einu sviði leiddi oft af sér sukk og óreiðu á öðru og þannig væri mjög bagalegt hversu lélegt eftirlit væri yfirleitt með fjárreiðum sjálfseignastofnana á Íslandi. Gott dæmi um það væru Sólheimar í Grímsnesi en ég tók jafnframt fram að ég teldi alls ekki að þar hefðu átt sér stað ósæmilegir atburðir í líkingu við það sem var í Byrginu. En að þar væri engu að síður sukkað með fé og hefði lengi verið. Ríkisendurskoðun hefði margoft bent á vandamálið og gert um það stórar skýrslur en ekkert gerðist.
Og viti menn. Strax að kvöldi þessa dags sem var sunnudagur hringdi í mig blaðamaður og var mjög áhugasamur um þetta mál. Spurði margs og tíundaði ýmislegt sem hefur komið fram í fjölmiðlum en bætti við þeirri sorgarsögu sem er af núverandi þjónustusamningi sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra gerði. Það hefur semsagt komið í ljós að það ætlar enginn að hafa eftirlit með þeim samningi og ráðuneyti og svæðisráð vísa hvort á annað. Allt mjög áhugavert fannst blaðamanninum en þar sem klukkan var nú að ganga 10 þegar við töluðum saman fannst mér svosem ekkert skrýtið að ekkert kæmi um málið í blaðinu næsta morgun. Þetta gat beðið einn dag!
Og síðdegis þennan mánudag hringdi annar blaðamaður í mig frá öðru blaði og hafði einnig mikinn áhuga á þessum ummælum mínum og virtist í ofan á lag vera búinn að vinna talsvert mikla heimavinnu í málinu. Var vel að sér í sorgarsögu Sólheima undanfarin ár og áratugi. Ég gaf þessum blaðamanni sömu upplýsingar og tók jafnframt fram að reyndar hefði annað blað einnig spurt mig um málið. Og síðan ekki söguna meir.
Næstu daga fylgdist ég aðeins með þessum tveimur blöðum eins og ég svosem gjarnan geri en aldrei var minnst á Sólheima. Tilviljanir? Varla tvær í röð! Ómerkilegt mál! Varla heldur í þeirri gúrku sem var lengstum í febrúar. Ég er einfaldlega sannfærður um að varðhundar vesturbæjaríhaldsins hafa kippt hér í spotta enda allsstaðar nálægir.
Er ég þá orðinn vænisjúkur útaf áralangri baráttu fyrir úrbótum á Sólheimum þar sem sjálfkjörin og æviráðin hirð hefur hróflað upp 10.000 fermetrum af steinsteypu á kostnað ríkisins. Og er samt aldrei með meira en sína 40 skjólstæðinga og sinnir þeim ekki nema í meðallagi vel!
Það má kalla það hvað sem er. Ég held að ég sé samt ekkert verr haldinn af þessu máli en sumir þeir félagsmálaráðherrar undanfarinna ára sem reyndu hér á árum að hnika til málum en ráku sig allsstaðar á vegg. Og það vita allir hver á þennan vegg, hverrar ættar hann er. Össur Skarphéðinsson og aðrir eðalkratar geta gegn betri samvisku kennt framsókn um ófarir sem þeir vita að eru varðar af íhaldinu lon og don.
Hreðjatak hins hákristilega vesturbæjaríhalds á samfélaginu er nefnilega svo yfirgengilegt að við þorum varla einu sinni að tala um það. Og þegar vinstri sinnaðir bestvisserar þurfa að fá útrás fyrir reiði sína finnst þeim betra að sparka í Framsókn,- það er vissara að styggja ekki íhaldið ef það yrði dömufrí eftir næstu kosningar! Hvergi er kjarkur til að tala um alvöru vinstri stjórn.
Og innan okkar góða Framsóknarflokks gætir stundum um of einhvers samblands af tryggð og meinleysi sem líður samstarfsflokki okkar alltof alltof alltof mikið...