Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Alþingi fátækara

Alþingi Íslendinga er til muna fátækara nú eftir sviplegt fráfall Önfirðingsins einaroddursem í eina tíð var kallaður bjargvætturinn frá Flateyri. Á stuttu sumarþingi kynntist ég því hvernig Einar Oddur var einn þeirra manna sem gaf þinghaldinu öllu sterkan lit. Hans verður sárt saknað þar sem og annarsstaðar í samfélaginu. Fjölskyldu hans og vinum sendi ég mínar samúðarkveðjur.

(Myndin er af Morgunblaðsvefnum.)


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkleysi í kvótamálum

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur tekið þá ákvörðun að fylgja algerlega ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og færa þorskkvóta landsmanna í 130 þúsund tonn. Bakland ríkisstjórnarinnar sem er óvanalega sterkt um þessar mundir hefur lokið þar lofsorði á og talað um kjarkmikla ákvörðun. En er það réttmæt einkunn?

Lét Hafró hræða sig

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú farið með stjórn sjávarútvegsmála í 16 ár og á sama tíma hefur þorskstofninn verið í stöðugri afturför. Skýring vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar á þeirri þróun er að ekki hafi að fullu verið farið að þeirra ráðum. Veiði umfram ráðleggingar nemi milljón tonnum á nokkurra ára bili. Engu að síður er viðurkennt að veiði umfram ráðleggingar er miklu mun minni en var fyrir nokkrum áratugum og að veiðin í heild er aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem var. Ef sjávarútvegsráðherra hefði enn einu sinni skautað örlítið framúr Hafrannssóknarstofnun kallaði hann yfir sig þá hættu að fræðimenn þar hefðu getað sagt framan í þjóðina,- þarna sjáiði!!!

Það er frammi fyrir þessari mynd sem sjávarútvegsráðherra stóð og ég get einhvernveginn ekki lýst ákvarðanatöku hans sem kjarkmikilli. Menn geta auðvitað haft þá skoðun að hún hafi verið varfærin og jafnvel skynsamleg en það er erfitt að sæma hana sæmdarheitinu kjarkmikil. EINAR_K_GUDFINNSSON

Getur rústað samstöðu útgerðar og stjórnvalda

En hversvegna hefði yfir höfuð átt að taka einhverja aðra ákvörðun? Var einhver skynsemi í því að fara framyfir veitta ráðgjöf enn einn ganginn og var einhver leið til að réttlæta slíka ákvörðun? Svarið við báðum þessum spurningum er já en það þurfti kjark til að fylgja þeim niðurstöðum.

Í fyrsta lagi þá skapar 130 þúsund tonna kvótasetning í þorski þá hættu að ekki takist að veiða aðrar tegundir sem Hafrannssóknarstofnun telur samt óhætt að sækja í. Þetta á einkum við um ýsuna. Afleiðing af svo mikilli kvótaskerðingu getur því hæglega orðið til að auka brottkast og mótþróa sjómanna og útgerðar gagnvart kvótakerfinu. Hvað sem annars er sagt um íslenska kvótakerfið þá hefur náðst um það viðunandi sátt milli sjómanna og útgerðar annarsvegar og stjórnvalda hinsvegar. Það hefur oft verið lag að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar út í æsar án þess að stofna þeirri sátt í hættu og þá hefðu menn betur gert það. Í ár eru aftur á móti ekki staðan. Þær aðstæður gætu skapast að brottkast þorsks aukist til muna þegar útgerðir sem berjast fyrir lífi sínu reyna að ná á land kvóta annarra tegunda. Víða í Evrópu er ríkjandi mikil togstreita og allt að því stríðsástand milli útgerða og fiskveiðistjórnunar. Það er óskandi að slíkar aðstæður skapist ekki hér á landi.

Þar með tel ég mig hafa svarað fyrrihluta spurningarinnar. Það er að það eru ákveðin rök fyrir því að skerða þorskkvótann ekki eins mikið og Hafrannsóknarstofnun lagði til. Það er ekki Hafrannsóknarstofnunar að leggja pólitískt mat á það hversu langt er hægt að ganga í niðurskurði án þess að stefna fiskveiðistjórnuninni í hættu. Það er stjórnmálamanna að meta þau áhrif og með tilliti til þeirra töldum við Framsóknarmenn rétt að halda þorskkvótanum í 150 þúsund tonnum sem er nálægt þeirri tillögu sem Landssamtök útvegsmanna töldu ásættanlega.

Mótvægisaðgerðir með hvaladrápi

En þá að síðari lið spurningarinnar. Hefði verið einhver leið til að réttlæta slíka ákvörðun gagnvart þeim umhverfisverndarsjónarmiðum sem Hafrannsóknarstofnun talar fyrir. Hefði slík ofveiði ekki stefnt þorskstofninum í hættu. Að óbreyttu, jú. En ekki ef sjávarútvegsráðherra hefði sýnt þann kjark að heimila niðurskurð hvalastofnsins til mótvægis við meinta ofveiði. Það er óumdeilt að hvalurinn einn sér étur mun meira af þorski en sem nemur allri veiði þjóðarinnar, aðeins spurning um það hversu margfalt meiri hans afli er. Því er það aðeins reiknisdæmi fiskifræðinga hversu mörg stórhveli þyrfti að aflífa á móti hverju tonni sem veitt væri umfram ráðgjöf. En til þessa hefði sjávarútvegsráðherra þurft kjark.

Sjálfur er ég ekki í vafa um að slíkt hvaladráp væri mörkuðum okkar og orðspori léttvægt. Við erum hvort sem er að veiða hvali og hvort þeir eru fleiri eða færri breytir þá litlu. Vandræðalegast hefði ef til verið ef rétt er að ekki megi finna markaði fyrir hvalinn en þá mætti vel ræða þá hugmynd að drepa skepnur þessar á afmörkuðum svæðum án þess að flytja skrokka þeirra í land. Við fyrstu sýn kann þetta að þykja nokkuð róttæk hugmynd í þeirri fárkenndu umræðu sem er á móti hvalveiðum. Það er samt margt sem bendir til að útilokað sé að byggja þorskstofninn upp nema með stórauknum hvalveiðum enda voru bestu þorskveiðiár okkar Íslendinga einmitt þegar útlendingar höfðu nánast útrýmt hvalskepnum við landið. Svo langt skulum við þó aldrei ganga en hvalirnir falleg dýr og lífríkinu dýrmæt.

Um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar og raunverulegar mótvægisaðgerðir mun ég skrifa í næstu grein og vonast þá til að hafa um sinn rekið slyðruorð það af stjórnarandstöðunni sem Staksteinum Morgunblaðsins er annars tíðrætt um.

(Birtist í Morgunblaðinu í dag, 13. júlí 2007)

P.S Nokkuð var fjallað um þessa grein mína í fréttum RÚV í dag, fyrst í hádeginu þar sem reynt var að snúa út úr umræðu minni í þingsölum þar sem ég beindi orðum mínum til frjálslyndra og annarra sem vilja halda hér uppi óábyrgri fiskveiðistefnu - og síðan í ágætri frétt um kvöldið sem var reyndar líka birt á rúv-netinu og á fréttastofan þökk fyrir vandaða eftirfylgni málsins.


Björgvin G. biðlar til hægri arms Framsóknar

Stórveldisdraumar eru annað nafn á vanmetakennd og slíkir draumar hafa lengi einkennt vinstra litrófið á Íslandi. Og úr þeirri átt er sífellt von upphrópana. Nú síðast slær nýbakaður viðskiptaráðherra því fram í Morgunblaðinu að Samfylkingin geti haldið áfram að sameina stjórnmálaflokka og næst tekið Framsóknarflokkinn undir sinn verndarvæng. Og þar með komið á tveggja flokka kerfi á Íslandi. Og jæja.

Ég get svosem alveg skilið að Björgvini leiðist að vera Samfylkingarmaður í Hreppunum svo fágætir sem þeir eru þar efra en hélt einhvernveginn að ráðherrastóllinn svíaði það versta úr þeirri tilfinningu. Hef líka trú á að Björgvin eigi eftir að standa sig þar og þykir vænt um að hann stendur nú á móti einkavæðingarvitleysunni hjá hinum enskuskotna græna geysi sem vill eignast orkugeirann. Hver veit nema Gnúpverjanum Björgvini G. Sigurðssyni verði með tíð og tíma bara heimilt að ganga í Framsóknarflokkinn - og umsóknareyðublaðið ætti hann að finna á heimasíðu flokksins, http://www.framsokn.is/. mynd

En það er í þessum undarlegu fabúleringum tónn sem kemur mér á óvart hjá jafn vinstri sinnuðum og skynsömum manni og Björgvini G. Sigurðssyni. Tökum þetta aðeins fyrir á kratíska vísu í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi.

Hornsílisnafnið

Í fyrsta lagi þá hefur Samfylkingin ekki sameinað neina flokka á Íslandi. Stofnun hennar var nafnbreyting á gamla Alþýðuflokknum sem með strandhöggi í gamla Alþýðubandalagið sveigði sig örlítið til vinstri frá því sem var í tíð hægri krata á borð við Jón Baldvin og Gylfa Gísla. Um sama leyti var nafni Alþýðubandalagsins svo það heitir síðan Vinstri grænir. Þjóðvaki var dáinn þegar þessir atburðir urðu og sömuleiðis Kvennalistinn þannig að hvorugum þeim fjaðratætlum getur Samfylkingin skreytt sig. Í meira en mannsaldur hafa verið fjórir flokkar á Íslandi og margt sem bendir til að svo verði áfram. Reyndar hef ég að gamni mínu haldið því fram að flokkarnir hafi verið fjórir frá öndverðu í sögu þjóðarinnar og skrifað um það pistil en það er önnur saga.

Það hefur ætíð verið ákveðinn rembingur í nafngiftum vinstri flokka á Íslandi sem reyna með henni einni að sanna að þeir séu eitthvað annað en þeir eru. Flokkar alþýðunnar, sameiningarflokkar, bandalagsflokkar og nú síðast samfylking. Samfylking hverra. Nokkurra óánægðra Alþýðubandalagsmanna og Alþýðuflokksins gamla. Ekkert meira. Svolítið eins og með hornsílin sem syntu glöð um og sögðu keik,- hér syndum við fiskarnir.

 

Armur sem ekki er til!

Í öðru lagi,- skoðum aðeins hvað ráðherrann sjálfur segir um Framsóknarflokkinn á heimasíðu sinni, bjorgvin.is. Þar er skrifað um Framsóknarflokkinn í tveimur nýlegum greinum:

"Að mínu mati gæti þorri Framsóknar runnið saman við Samfylkingu ásamt ýmsum frjálslyndum félagshyggjuöflum í öðrum flokkum," segir í upphafi greinar sem skrifuð er nú í júlí og þar er í lokaorðum þessi setning: "Þá er ónefnd sú staðreynd að afar lítið ber í milli framsækinna Framsóknarmanna á mölinni og Samfylkingarfólks almennt. Heilt yfir fólk sem aðhyllist frjálslyndi í ríkisrekstri en sterka velferð og sanngjarna félagshyggju."

11. júní skrifar viðskiptaráðherra í kjölfar varaformannskjörs í Framsóknarflokknum: "Guðni stímir til vinstri. Frá Evrópu og frjálslyndri þéttbýlispólitík sem má kenna við Halldór og hægri ásinn. Um leið siglir hann frá möguleikum um fylgisaukningu á mölinni. Stefnan er tekin á sveitina þar sem flokkurinn stendur enn bærilega. Keppnin verður við Vinstri græna á næstu árum. Að endurheimta vígið í dreifbýlinu. Taka utan um kjósendur sem aðhyllast þjóðleg og varfærin viðhorf. Þá sem fylgja ríkulegum beinum stuðningi við landbúnað, höft á fullvinnslufrelsi og innflutning matvæla."

Ég er reyndar ekki að öllu leyti sammála þessari greiningu á Framsóknarflokknum og það stenst ekki alveg að Framsóknarflokkurinn muni sigla frá þéttbýlinu og um leið keppa við Vinstri græna sem eru aðallega með fylgi á mölinni fyrir sunnan.

En það athygilisverðasta er að Björgvin er að bjóða er, svo notuð séu hans eigin orð, að "hægri ás" Framsóknarflokksins renni inn í Samfylkinguna. Væntanlega meintur Evrópuarmur. Og armur sem ekki stendur heill með landbúnaðinum. Ég held reyndar að þessi tiltekni hægri ás sé hvergi til og kannski gildir um hann að sá á þar fund sem finnur, kratar eða aðrir. Hugmyndin um það að í Framsóknarflokknum hafi verið til sérstök frjálslynd hægri sinnuð Evrópusambands-þéttbýlislína sem glópamótvægi við hina gamalgrónu og jarðbundnu Framsóknarstefnu er í mínum huga ekkert annað en misskilningur. Kannski svo útbreiddur að hann hefur hreinlega kostað okkur þingsætin í Reykjavík en það er þá verkefni dagsins að leiðrétta þann misskilning.

Sjálfur hefi ég ekki efast um að Samfylkingin eigi á næstu árum eftir að sveigjast aftur inn á þá hægri stefnu sem einkenndi Alþýðuflokkinn um langt árabil. Ingibjörg Sólrún hefur boðað slíka stefnubreytingu oftar en einu sinni. Skilmerkilegast þegar hún skammaði flokksmenn fyrir að þeim væri ekki treystandi vegna vinstri öfga. En sú hægri stefna mun ekki færa Samfylkinguna nær Framsóknarflokknum nema síður sé.

Átakalínan í pólitíkinni

Í þriðja lagi og það er aðalatriði - það eru fleiri ásar í pólitíkinni en hægri og vinstri ásinn. Á gamla vinstri-hægriásnum eiga Framsókn og kratar vissulega nokkra samleið, t.d. þegar kemur að einkavæðingu ríkisfyrirtækja, umhverfisvernd og um sumt í utanríkismálum. En óvart eru þeir þar á sömu skoðun og allur meginþorri þjóðarinnar. Fylgja hófsamri meðalhófsreglu.

Þegar kemur að þeim málum sem virkileg átök eru um er enginn flokkur eins langt frá hinni heilbrigðu þjóðlegu Framsóknarhugsjón eins og hinn alþjóðlegi sósíaldemókratismi.

Þetta á við um byggðamálin, Evrópumálin, landbúnaðinn, þjóðræknina, menningarpólitíkina, utanríkispólitíkina, sveitarfélagapólitíkina og síðast en ekki síst jafnaðarstefnuna. Kratar aðhyllast jafnaðarstefnu fárra útvalinna. Þegar kemur að efnalitlum bændum eða alþýðufólki í hinum dreifðu byggðum sem á alla sína fjárhagslegu stöðu undir því að byggðin dafni ber meiri á ójafnaðarmennsku hjá hinum svokölluðu borgaralegu og frjálslyndu krötum þessa lands.

Ég hélt reyndar að hæstvirtur viðskiptaráðherra sem er úr sveit tilheyrði öðrum armi þessa flokks enda ættaður úr Alþýðubandalaginu sáluga en það verður að vera hans mál ef hann vill kvarða sig niður með hægri krötum landsins. Hægri krötum sem hafa lengstum verið mun lengra til hægri en grasrót Framsóknarflokksins.

(Birt í styttri útgáfu í Mbl. í síðustu viku.)


Skemmtileg en endaslepp hjólaferð!

Mótorhjólaferðin okkar Dakarmanna varð mér endaslepp. Við fórum semsagt austur á Egilsstaði aðfaranótt fimmtudags með hjólin á kerrum og lögðum upp þaðan á fimmtudag í dýrindis þoku og súld. Fórum Smjörvatnsheiðina til Vopnafjarðar og þaðan áfram eftir ævafornum línuvegi inn á Haugsöræfi þar sem við gistum fyrstu nóttina. Ferðin sóttist hægt sökum þoku.dakarferd_vopnafjordur 009

Næsta dag var farið áleiðis í Þistilfjörð með viðkomu í Vesturheiðarkofa á Tunguselsheiði. Rétt eftir að við lögðum upp þaðan lenti ég í þeim ósköpum að renna til í sleipri og blautri moldargötu. Um sama leyti var Frosti Þorkelsson að taka framúr mér enda hraðskreiður mjög og skipti nú engum togum að ég keyrði af afli á þennan austfirska kappa en eftir því man ég samt ekkert. Mér skilst að ég hafi legið meðvitundarlaus í nokkrar mínútur og var ansi ruglaður þegar ég raknaði úr rotinu. Hlaut við þetta skrámur í kringum vinstra auga án þess þó að skaða augað sjálft.

Guðmundur Smári kom einna fyrstur að og lýsti því fyrir mér í gær að senan sem blasti við hefði verið harla ókræsileg. Ég rotaður með hausinn kertan aftur og sá í bein ofan við auga. Frosti slapp ómeiddur og fór þegar til byggða að ná í sjúkrabíl sem kom um tveimur tímum síðar og skutlaði mér á Akureyri þar sem læknar stunduðu hannyrðir á andlitinu í drykklanga stund. Þar nyrðra var þjónusta öll hreint frábær og starfsfólk alúðlegt.

Daginn eftir fékk ég svo far suður með Guðmundi Smára hjólakappa sem yfirgaf föruneytið sólarhring áður en ferðalögum hinna lauk. Já og ég er núna með ljótara móti, liðlega tuttugu spor í frekar súrrelaísku mynstri í kringum augað. Og er í þessum töluðu orðum að tygja mig í Hveragerði þar sem ég vonast til að mamma geti saumað á.  mig augnlepp eins og Moshe Dayan síonisti var þekktastur fyrir. Það er skárra en haugur af hvítum og skítsæknum sárabindum.

Nú verða hjólamál tekin til endurskoðunar - þó svo að ég lofi engu með að hætta alveg að hjóla. Ég er í raun og veru að gera meira en ég get í félagsskap minna gömlu Dakarfélaga sem eru allir komnir á miklu léttari og hraðskreiðari hjól og eru líka miklu betur á sig komnir. Þegar sem erfiðast var í mýrunum skipti Guðmundur Tryggvi um hjól við mig og þá fann ég að þetta er eins og vera á fólksbíl í jeppaferð. Nógur tími til að hugsa um þetta næstu dagana því ég hjóla varla mikið með saumana í!

(Myndin er frá Eystri símakofanum á Haugsöræfum þar sem við náttuðum. Já og til skýringar þessir við erum semsagt Selfyssingarnir Guðmundur Tryggvi Ólafsson, Baldur Pálsson, Guðmundur Smári Ólafsson og ég en að austan komu einnig fjórir, semsagt Loftur Jónsson, Frosti Þorkelsson, Sveinn Hallgrímsson og norðmaðurinn Klás Smith. Betri ferðafélagar eru vandfundnir.)


Pólitísk og ábyrg tillaga um þorskveiðar

Framsóknarmenn hafa lagt til að þorskkvótinn verði lækkaður úr 193 þúsundum tonna í 150 þúsund. Tillöguna í heild má finna hér. Með henni er vissulega ekki gengið eins langt og ítrustu tillögur Hafrannsóknastofnunar gera ráð fyrir. market-trader-with-large-cod-i

Einhverjum kann að þykja sem svo að við séum að hjakka í því sama fari og gert hefur verið í 16 ár að fara þannig framúr ráðgjöfinni og að við séum þar með að gefa lítið fyrir vísindin. En það er ekki svo.

Það er oft munur á því hvað er skynsamlegast að gera og hvað er vísindalegast að gera. Ef við förum þá leið að skera niður í 130 þúsund tonn - sem ég er reyndar hræddur við að sjávarútvegsráðherra geri, þá getur það haft mjög slæm áhrif á vistkerfið. Undanfarin ár höfum unnið að því að minnka brottkast og margskonar villimennsku í kerfinu. Bærileg sátt hefur verið milli stjórnvalda og útgerðar. Og við höfum náð árangri. Á sama tíma eru ýmsar aðrar þjóðir - t.d. í Evrópu - þar sem fullkomið stríð virðist ríkja milli stjórnunarinnar og þeirra sem nytja hafið. Slíkt ástand gerir alla fiskveiðistjórnun afar erfiða og allt að því ómögulega.

Niðurskurður á þorski í 130 þúsund tonn þýðir það að við þurfum líka að skera ýsukvótann niður þó svo að ýsustofninn sé í reynd alveg talinn þola meiri veiði. Það væri einfaldlega ekki hægt að ná þeirri ýsu nema með ólöglegum þorskveiðum. Veiðum sem að einhverju leyti yrðu faldar með brottkasti.

Að þessu öllu athuguðu og einnig því að ekkert bendir til að stofninn þoli ekki sókn upp á 150 þúsund tonn. Þar má benda á að Norðuratlantshafsfiskveiðiráðið hefur lagt til að kvótinn verði 152 þúsund tonn. Tillaga okkar Framsóknarmanna er því ábyrg án þess þó að vera öfgafull.

Vonandi verður tillaga sjávarútvegsráðherra á svipuðum nótum.


Freðfiskar í sumarblíðunni!

Lífið er saltfiskur átti í eina tíð við og síðar freðfiskur eftir að sú tæknin kom til. Nútíminn með allri sinni tækni hefur svo fært okkur það heim að alltaf þarf færri og færri til að vinna þann fisk sem að landi berst. Sjávarútvegurinn er engu að síður undirstaða efnahagsins og nú syrtir að. Talið er að sjávarútvegsráðherra gefi út tölur um þorskkvóta næsta árs á morgun...

Sjálfur hef ég eytt stórum hluta helgarinnar og reyndar alls sumarsins í að tala við sjómenn, útgerðarmenn, fiskvinnslufólk og trúnaðarvini sem ég tek mark á - og mest talað um þorskinn. Hvað eigi að veiða mikið og hvernig eigi að bregðast við aflasamdrætti. sjomenn2

Hér syndum við fiskarnir...,- segir í máltæki um þá sem telja sig stærri en þeir eru og kannski finnst einhverjum sem þetta les að stjórnarandstöðuþingmaðurinn líti stórt á sig. Niðurlag þessa málsháttar er einmitt ... sögðu hornsílin. Gerum við í stjórnarandstöðunni nokkuð annað en að reka hornin í og er ekki einfalt að bíða eftir því hvað sjávarútvegsráðherra segir og segja svo bara eitthvað annað! Segja helst það sem sjómenn vilja heyra,- að það eigi bara að veiða sem mest.

En svo einfalt er þetta ekki. Stjórnarandstaða sem gerir aldrei ráð fyrir að komast að stjórnun landsins getur auðvitað sýnt slíka takta en það á ekki við um okkur Framsóknarmenn. Við höfum stjórnað þessu landi og þar með sjávarútveginum - Sjálfstæðismenn eru reyndar búnir að fara með það ráðuneyti í samfelld 16 ár núna. Við munum taka ábyrga afstöðu þegar kemur að þorskinum. Það þýðir ekki endilega að standa blint með Hafrannsóknarstofnun en það þýðir alltaf og skilyrðislaust að standa með heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar. Meira um þetta síðar - en við erum á fundum um þetta mál í allan dag og það er síst of mikið eins mikið og er í húfi fyrir sjávarbyggðir landsins.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband