Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
Talaði dómsmálaráðherra af sér!?
8.7.2008 | 16:59
"Það verður að skoða réttarstöðu hvers og eins sem kemur hingað til landsins og taka afstöðu til hennar," sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í samtali við Mbl.is í dag aðspurður um málefni flóttamannsins Paul Ramses og annarra sem snúið er við hér á punktinum. Þetta er athyglisverð yfirlýsing í ljósi þess að það er einmitt þetta sem við sem stóðum við dómsmálaráðuneytið í hádeginu erum að fara fram á - að stjórnvöld skoði hvert mál í stað þess að heimfæra öll möguleg tilvik óskoðuð upp á Dyflinarsamninginn. Kannski verður Björn bara með okkur utan við Dómsmálaráðuneytið í hádeginu á morgun.
Eftirfarandi birtist eftir mig um málið í Morgunblaðinu í dag:
Íslandi lokað Afríkumönnum | ||
Árið 1982 aðstoðaði ég félaga minn frá Nígeríu við að fá atvinnu og atvinnuleyfi á Íslandi. Þetta var dáldið staut í símanum og bréfaskriftum en allt saman framkvæmanlegt. Anthony vinnufélagi minn úr uppvaski við Rauða Hafið kom til Íslands og vann hér um misserisskeið í fiski austur á landi og farnaðist vel. Liðlega 20 árum síðar var ég spurður hvort ég kynni ekki enn á þessi vélabrögð kerfisins og gæti hjálpað ungum Kenyamanni. Hann hafði þá þá dvalið hér sem einhverskonar skipitnemi og vildi framlengja dvöl sína enda bauðst honum vinna í Reykjavík. Það er fljótsagt að við sem þá knúðum dyra fyrir Paul Ramses komum víðast að þeim læstum og mest fyrir það að ekki var fullvíst nema einhver annar innan Evrópska efnahagssvæðisins kærði sig um vinnu þá sem Keníamaður þessi var þá ráðinn til. Gilti þá einu þó pizzasalinn hefði gert heiðarlegar tilraunir til að auglýsa starfið laust á alþjóðlegum vefsvæðum,- í þeim efnum voru eyðublöðin aldrei rétt út fyllt. Miskunnarlausir hreppaflutningar Í liðinni viku gerðist það svo að sami maður var kominn aftur til Íslands og nú eftir ofsóknir í heimalandi sínu. Í millitíðinni hefur hann bæði tekið þátt í stjórnmálum og starfað með íslenskum hjálparsamtökum í heimalandi sínu. Og aðstoðað Íslendinga sem heimsótt hafa Kenýa. Síðan Paul kom til Íslands í vetur hefur hann beðið hér afgreiðslu síns erindis í liðlega hálft ár. Svarið sem hann fær er fyrirvaralítil handtaka íslenskrar lögreglu. Áður en við er litið hefur ungum manni verið stíað frá konu og nýfæddu barni og hann fluttur í ítalskar fangabúðir. Næst liggur fyrir að móðirin og barn verði send til Svíþjóðar. Kannski geta Svíar svo sent barnið aftur til Íslands til fósturs enda ku það fætt í okkar landi. Harðneskja þessara hreppaflutninga er algjör og öllum sem að honum koma til vansa. Sérreglur hörundsdökkra?! Þau svör kerfiskalla að svokallaður Dyflingarsamningur kveði á um að íslensk stjórnvöld séu knúin til mannréttindabrota af þessu tagi byggja á útúrsnúningi. Okkur er vitaskuld heimilt að senda pólitíska flóttamenn til þess lands sem þeir komu frá en það er ekkert sem skyldar okkur til þess. Forstjóri útlendingastofnunar kom fram í sjónvarpi á föstudagskvöld og bar þar brigður á að umræddur maður hefði tengsl við Ísland. Þær dylgjur sýndu hvernig embættishroki getur skorið á tengsl einstaklinga við raunveruleikann. Sami forstjóri gerði í löngu máli grein fyrir tengslum Pauls við lögbrot þar sem barnsmóðir hans hefði ekki fyllilegar heimildir fyrir veru sinni hér á landi. Síðan hvenær tókum við upp þá réttarreglu að menn beri ábyrgð á hugsanlegum lögbrotum eiginkonu sinnar. Kannski á sú réttarregla aðeins við þegar hörundsdökkir menn eiga í hlut. Þá er ljóst að hin mikilvæga meðalhófsregla réttarfarsins (sbr. 12. gr. Stjórnsýslulaga ) hefur verið brotnar þegar beitt er handtöku í máli þar sem einföld og vinsamleg tilmæli hefðu gert sama gagn og verið við hæfi. Enn læðist að þeim sem á horfa að hér sé um að ræða framkomu sem embættisvaldið hefði hikað við að bjóða hvítum manni! Gott er að vera vanhæfur Sá maður sem ber pólitíska ábyrgð á málinu, Björn Bjarnason ber því nú við að hann geti ekki tjáð sig um efnisatriði þess þar sem þá verði hann vanhæfur til að úrskurða ef svo færi að nokkur maður vildi kæra úrskurð Útlendingastofnunar. Með sömu viðbáru getur ráðherra í raun alltaf komið sér undan því að tjá sig um málefni síns ráðuneytis. Viðbáran er haldlaus því vitaskuld er það enginn héraðsbrestur þó annar ráðherra verði að úrskurða í deilumáli. Hitt er mikill brestur í lýðræðinu ef ráðherra notar sér mögulegt og hugsanlegt vanhæfi til að skjóta sér undan pólitísktri ábyrgð. Í upphafi þessarar greinar minntist ég á komu Nígeríumannsins Anthony til Íslands fyrir aldarfjórðungi. Þá voru hörundsdökkir menn enn fásénir á Íslandi og sumum varð jafnvel á að kalla þennan vin minn blámann sem okkur báðum þótti kímilegt. En ekki man ég nokkursstaðar eftir að þessum félaga mínum þá hafi verið sýnd lakari gestrisni en öðrum. Í þeim efnum boðar fautaskapur stjórnvalda nú mikla stefnubreytingu og afturför. |
Í söknuði eftir Kirkjulækjar-Jóni
6.7.2008 | 00:30
(Minningargrein um Jón Ólafsson 1955-2008)
reyr, stör sem rósir væna
rreiknar hann jafnfánýtt.
(Allt eins og blómstrið eina eftir síra Hallgrím, niðurlag þriðja vers þar sem sagt er frá hinum slynga sláttumanni.)
Jón á Kirkjulæk var reyr sterkur og rós væn en samt fallinn langt um aldur fram. Að honum er eftirsjá í héraði og mikill mannskaði. Líf okkar sem eftir sitjum litlausara að hafa hann ekki með okkur.
Kirkjulækjarbóndinn var allt í senn, athafnamaður, listamaður og lífskúnstner af besta tagi. Hraðkvæður og öllum fremri þegar kom að hinni fornu kvæðamannaíþrótt. Gat þar kveðið bæði ljúflega og ekki síður á slíkri útopnu og hljómstyrk að til fádæma heyrði. Í list sinni færði þessi afkomandi Bólu Hjálmars okkur langt aftur í aldir. Það sem var okkur framandi og í besta falli kunnugt af bók eða æfðri dagskrá í sjónvarpi var Jóni sjálfsögð veröld frá blautu barnsbeini. Í fjölskyldu Maríu móður hans hafði þráðurinn aldrei slitnað og þess sáust merki. Þau mæðgin sem oft komu fram saman stóðu hér föstum fótum í íslenskri menningu án nokkurrar tilgerðar. Kveðskapur þeirra Maríu og Jóns myndaði þannig eðlilegt framhald þess að vel mannsaldri fyrr hafði María farið ung stúlka með föður sínum, Jóni Lárussyni og skemmt með rímnastemmum í Reykjavík og víðar.
Þegar leið á kvöld átti Jón til að lauma hendinni í vasa eftir svartri stílabók sem hann sjálfur nefndi því óvirðulega nafni, klámskinnu. En þrátt fyrir nafnið geymdi bók þessi marga góðgripi skáldsins á Kirkjulæk, óborganlega bragi um kímileg atvik, smellnar tækifærisvísur og auðvitað á köflum vísur sem best var að bíða með fram í myrkur. En jafnvel í kersknis- og afmorskveðskap skein í gegn gæska skáldsins og jákvæðni öðru fremur.
Jón á Kirkjulæk var fjarri því einhamur og líklega sá vina minna sem sómt hefði sér jafn vel á hvaða öld sem er Íslandssögunnar. Nútímalegur en samt afbragð torfhleðslumaður og smiður. Hraustmenni, sagnamaður og náttúrubarn. Einstakt ljúfmenni en gat verið fastur fyrir. Athafnamaður sem ekki spurði alltaf að verkalaunum en mat fremur verkið og gildi þess. Kaffihús hans og Ingu, Kaffi Langbrók ber þessu vitni og ekki síður Meyjarhofið sem vitnar um síkvikan áhuga á íslenskri menningu og endurreisn menningararfsins.
Það er trautt að lýsa minningum og laglausum manni varla fært að lýsa stemmusöng Jóns á Kirkjulæk. Hann var þeim ógleymanlegur sem heyrðu. Fyrir hinum sem hvorugt þekktu, manninn eða stemmukveðskap hans standa verkin í túni Kirkjulækjar sem og mannvænleg börn listamannsins. Um leið og ég votta þeim og Ingu mína dýpstu samúð þakka ég samfylgdina og það ríkidæmi sem er í minningunni um góðan dreng og félaga.
(Birt í Mbl. á útfarardag sl. föstudag. Myndin er frá Sigurði Boga Sævarssyni af Jóni og fjölskyldu.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frábær goslokahátíð - og frelsi til gestrisni
4.7.2008 | 10:09
Eyjamenn sem gátu stöðvað heilt eldgos og grafið bæinn undan geta fullvel mætt þeim erfiðleikum sem nú mæta samfélaginu hér úti.
Eitthvað á þessum nótum mæltist skörulegum bæjarstjóra Vestmannaeyinga í ágætri hátíðarræðu við upphaf goslokahátíðar hér í gær. Um kvöldið voru svo frábærir tónleikar með meistara Megasi í troðfullri Höll.
Annars hefur mál Kenýamanns sem vísað fruntalega úr landi í gær tekið drjúgt af tíma mínum í gær og í dag. Eftir því sem ég frétti meira um málið - bæði af fjölmiðlum og símtölum við þá sem vit hafa málinu - verður það óskiljanlegra og skammarlegra fyrir okkur Íslendinga. Það er sorglegt til þess að vita að ein ríkasta þjóð í heimi brjóti með þessum hætti mannréttindi og hundsi eðlilega gestrisni af nirfilshætti einum og kreddufestu embættismanna.
Næst skilst mér að til standi að veita barni hans fæddu hér á landi og konu sömu meðferð. Og rökin; jú alþjóðasamningar segja að við eigum að haga okkur svona. Fullvalda hvað? Dettur einhverjum í hug að trúa því að alþjóðasamningar banni okkur að skoða mál þessa fólks og skerði frelsi okkar til að sýna því eðlilega gestrisni og mannréttindi!
(Æi myndinni er hnuplað frá gömlum vinnufélaga, Árna Sæberg - vona að þú fyrirgefir mér Árni. Stóra myndin er tekin af vef Eyjafrétta. )
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ekki fréttir eða Matthildur endurvakin
2.7.2008 | 23:00
Í fréttum er þetta helst; Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra vill ganga í Evrópusambandið og telur það brýnt.
Einhvernveginn svona hófst fréttatími RÚV í dag klukkan fjegur og ég varð að klípa mig í hendina til að vera viss um að mig væri ekki bara að dreyma misheppnaða Matthildi eða Ekkifréttatíma Hauks Haukssonar. Hvernig getur annað eins verið frétt - og það í fjórtánda sinn frá valdatöku ríkisstjórnarinnar. Björgvin í Skarði er ekki í vinnunni heldur liggur í marineruðum evrópudraumum.
Eina fréttin í þessu er kannski að fréttastofa RÚV lætur ráðherra nota hljóðnemann til skeytasendinga. Ef að Björgvin G. vill gera Geir Haarde pirraðri en hann þó er þá getur hann bara notað síma eins og annað fólk.
Þetta var sannkölluð ekkifrétt...
Atvinnulífið klessukeyrt
1.7.2008 | 15:36
Hefi undanfarið rætt við nokkra smákapítalista. Atvinnurekendur sem eru svo algengir hér á landi, bæði í borg og sveit. Menn sem halda sjálfum sér og tveimur til tíu öðrum uppi með rekstri sínum. Það var sama sagan allsstaðar. Erfiðleikar og vanskil.
Einn þessara var að skila kennitölu fyrirtækisins. Reiknaði með að tapa íbúðarhúsinu þar með og verða persónulega gerður upp. Allir glímdu við það sama. Vaxtakostnaður er að sliga reksturinn. Ástandið er orðið eins og það verst varð undir lok síðustu óstjórnar á 20. öldinni þegar vextir og laun og voru víða á pari.
Manngerður harmleikur
Allt í einu skynjaði ég hið pólitíska karp liðins vetrar sem part af mannlegum og líka manngerðum harmleik þeirra sem síst skyldi. Ég brá mér í blaðamannsbuxurnar:
Það er verið að hjálpa bönkunum en það ætlar enginn að hjálpa okkur," sagði spengilegur grafískur hönnuður fyrir sunnan sem hefur lagt nótt við dag að byggja upp fyrirtækið og ekki sólundað.
Auðvitað fór þjóðin á neyslufyllerí en það er seint í rassinn gripið að ætla að rassskella hana núna þegar það er afstaðið. Og þær rassskellingar verða aðeins til þess að gera lendinguna ennþá harkalegri en vera þyrfti," sagði bílstjóri sem er jafnvel farinn að harka svart til að forðast gjaldþrot...
Við sáum samt ótrúlega sölu núna í vetur þegar allir héldu að það væri komin kreppa," sagði tölvukaupmaður. Það var ekki fyrr en eftir á sem ég áttaði mig á því að þetta var fólk að hamstra því það vissi að gengið myndi falla hressilega. Og það hafði rétt fyrir sér. Stundum er eins og almenningur viti betur hvað er framundan heldur en ráðherrarnir sem hafa núna spáð því mánuðum saman að þetta sé allt að lagast. Það er sko öðru nær."
Gjaldþrotin draga úr verðbólgu!
Þetta er rétt að byrja og það vita það allir," sagði bóndi einn við mig og hefur áhyggjur af skuldsettum sveitungum. Lánin hafa hækkað mikið vegna gengislækkunar. Það var kannski óhjákvæmilegt en þegar ofan á það er skellt vaxtaokri þá er staðan vísvitandi gerð vonlaus."
Auðvitað fer verðbólgan á endanum niður með þessum vinnubrögðum en það verður þegar menn fara að selja birgðirnar á undirverði og gjaldþrotahrinan kemst í algleyming," segir maður sem best allra minna kunningja stendur undir nafngiftinni braskari, en strangheiðarlegur. Sumarútsölurnar fara nú í gang fyrr en nokkru sinni og þegar þær duga ekki fara menn á hausinn. Þá verða heilu lagerarnir seldir á slikk og það er auðvitað aðferð til að ná niður verðbólgu. Og kannski er hún ekkert verri en sú að halda verðbólgunni niðri með sífellt hækkandi gengi eins og gert var allt síðasta kjörtímabil. En aðferðirnar eru líka báðar mjög heimskulegar og hættulegar atvinnulífinu. Þá var einblínt á ágæti útrásarinnar en nú á að refsa þjóðinni fyrir neysluæði og það er gert þó að það þýði fjöldagjaldþrot."
Óþolandi raus!?
Þessi smjörklípuaðferð að leita nú að sökudólgum þess að hafa keyrt niður gengi krónunnar er bara blaður til þess að beina athyglinni frá því sem máli skiptir. Auðvitað sveiflar viðskiptaheimurinn krónunni eftir sínum hagsmunum og hann gerir það líka við miklu stærri gjaldmiðla. Hagfræðingar segja að allir gjaldmiðlar sveiflist raunar eftir viðskiptum kauphalla. Og það er allt í lagi. Ef það er einhver sökudólgur í þessu þá er það Seðlabankinn sem í mörg ár hélt hér uppi alltof háu gengi og lét útflutningsatvinnuvegina þannig niðurgreiða verðbólguna. Það er mjög alvarleg árás á undirstöðu þjóðarbúsins," sagði pulsusali með meiru og fór mikinn.
Svona halda þeir áfram að rausa daglangt þessir vinir mínir og það sem gerir þá algerlega óþolandi - er að þeir algerlega rétt fyrir sér.
(Birt í 24 stundum sl. laugardag)