Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
Góðir dagar glæpona
18.8.2010 | 16:43
Sigurður Einarsson kominn til landsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hinn fullkomni og faglegi
12.8.2010 | 07:43
Gylfi Magnússon er í vægast sagt þröngri stöðu og varla sætt lengur. Það athyglisverðasta í þessu er kuskið sem komið er á hinn faglega.
Átrúnaðarfólk á bírókrat hafa lengi trúað að það væri hægt að finna vammlausa fagmenn til að stjórna landinu í staðin fyrir hina mikið misheppnuðu stjórnmálamenn. Gylfi Magnússon var svoleiðis maður, hylltur í búsáhaldabyltingunni sem hinn faglegi gagnrýnandi og síðan lyft í ráðherrastól án þess að fara í nokkru sinni í gegnum nálarauga kosninga.
Það sem gerir stjórnmálamenn öðrum ófullkomnari í augum almennings er að fólk þekkir þá svo vel. Nú höfum við fengið að kynnast faglegum stjórnmálamanni og hvað gerist. Hann er þá ófullkominn líka og áhöld um að hann segi alltaf satt.
Vond þessi veröld.
Upplýsti yfirmenn sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spennandi ráðstefna í Fljótunum
11.8.2010 | 09:26
Er enn líf í Hrútadal heitir spennandi ráðstefna í Ketilási í Fljótum næstkomandi laugardag, helguð skáldi sveitarinnar Guðrúnu Baldvinu Árnadóttur, Guðrúnu frá Lundi.
Sjálfur er ég enginn sérfræðingur í Guðrúnu og hefi raunar aldrei lesið mikið af rómönum af þessari gerð. Lærði ungur að þetta væru andleg neðanþindarfræði og utan hrings hjá alvöru bókamönnum. En þetta er auðvitað misskilningur, frekar karlrembulegur misskilningur. Til þess að verða viðræðuhæfur í Fljótunum gleypti ég því í mig þrjá ástarómana sem allir standa fyrir sínu, vitaskuld Dalalíf, síðan Brúðarkyrtilinn eftir Kristmann sem datt upp í hendurnar á mér í svo fallegu bandi að það var unun að hafa bókina í hendi. Síðast Önnu Kareninu eftir Tolstoi sem einhverjir móðgast kannski yfir að ég setji á þennan bekk - en þar á hann samt heima.
Á allra síðustu árum hefur komist í tísku að lýsa samfélaginu, sálarlífi og átökum mannlífsins með morðsögum og sumum tekist það mætavel. En það er ekkert verra að gera þetta sama með ástarsögum og ef vel tekst til þá eru þetta oft hinar læsilegustu bækur. Svo er um sögur Guðrúnar frá Lundi sem er á köflum mögnuð í nærfærni sinni, lýsingum á mannlífinu og snillingur í meðferð tungunnar.
Það eru vitaskuld allir velkomnir í Hrútadalinn - Ketilás - en nánar má lesa um ráðstefnu þessa hér.
Lýðræðisrök sem gilda ekki lengur
5.8.2010 | 11:15
Gunnlaugur Ingvarsson stórvinur minn og idol í barnabrekum uppi í Tungum forðum tíð leggur fyrir mig spurningu hér í bloggathugasemdum og vill að ég svari því á hvaða forsendum VG samþykkti að fara í ESB-umsóknarferli með Samfylkingunni, hvaða fyrirvarar voru samþykktir og svo framvegis. Sjá nánar hér og hér.
Ég var eins og fleiri félagar í VG afar ósáttur við þessa ákvörðun, taldi hana í hróplegri mótsögn við málflutning VG um langt árabil. Síðan hefi ég auðvitað eins og fleiri margoft hlustað á röksemdir þingmanna í þessu efni og bendi í þessu efni á þingumræðurnar (t.d. Steingrímur J. og Árni Þór) sem eru aðgengilegar hér á vefnum og grein Árna Þórs Sigurðssonar hér á Pressunni. Í þingræðu tók Árni Þór fram að eitt af skilyrðum Íslands hlyti að vera forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni en nú er ljóst að það stendur ekki til boða og af þeirri ástæðu einni sjálfhætt eins og sjávarútvegsráðherra hefur bent á.
Sterkustu rök Steingríms í þessu máli kristallast í eftirfarandi setningu:
Ef svo reynist að ríkur þingvilji standi til þess að fara í þessar viðræður og sömuleiðis að fyrir liggi vísbendingar um að meiri hluti þjóðarinnar sé þeirrar skoðunar að rétt sé að láta á þetta reyna þó svo að gjarnan í sömu skoðanakönnunum reynist helmingur eða meiri hluti jafnvel þjóðarinnar sem afstöðu tekur andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu þá er væntanlega bæði lýðræðislega og þingræðislega rétt að þetta sé gert, að meiri hlutinn ráði þar ferðinni. ... Hins vegar er það sjónarmið líka allútbreitt að það eigi einfaldlega að útkljá þetta mál og það telja bæði þeir sem eru því fylgjandi og einhverjir þeirra sem eru því andvígir að við göngum í Evrópusambandið að eftir sem áður þurfi að fá botn í málið og útkljá það. Ég held að það sjónarmið hafi færst í vöxt á undanförnum árum...
Þau rök að með þessu sé lýðræðinu best þjónað eru nú fallin um sjálft sig.
Það er í fyrsta lagi upplýst að þingmeirihlutinn var fenginn fram með hótunum og kúgun.
Í öðru lagi vegna þess að mikill meirihluti þjóðarinnar vill nú tafarlaust stöðva þetta ferli.
Í þriðja lagi vegna þess að sendimenn ESB hafa hvað eftir annað komið inn í lýðræðislega umræðu þjóðarinnar og telja sig aðila máls. Þar á bæ hefur þegar verið varið umtalsverðu fjármagni til áróðurs hér á landi fyrir ESB-aðild Íslands og mikið meira í farvatninu. Það er ekkert jafnvægi og ekkert lýðræði í umræðu þar sem annar málsaðili hefur bakvið sig skrifræðisbatterí milljóna manna en hinn ekkert nema berar lúkur grasrótarinnar.
Forvitnilegur bókakassi frá Guðmundi stúdent
4.8.2010 | 11:18
Smárit úr bókasafni Guðmundar á Kópsvatni bárust nýlega á Sunnlenska bókakaffið og hafa vakið athygli. Smárit fyrri tíðar og bæklingar voru oft ígildi bloggfærsla samtímans og eru mörg hin mestu fágæti í dag. Oft var upplag slíkra rita lítið en meiru réði þó að vegna smæðar þessara ritlinga lentu þeir með blöðum og tímaritum í ruslinu en varðveittust ekki líkt og bækur gera þó. Einstaka maður sýndi þá ræktarsemi að halda prentmáli þessu til haga, eftirkomendum til menningarauka og ánægju.
Einn þessara var fræðimaðurinn Guðmundur Jónsson á Kópsvatni í Hrunamannahreppi (1930-1989). Hann var sérstæður maður og afkastamikill safnari en fór í engu troðnar slóðir í lífinu. Eftir að kassanum með ritlingunum góðu var stillt upp hafa margir orðið til að spyrja um þennan bókamann. Hér verður tæpt á ævi hans og grúskað aðeins í kassanum góða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)