Tónskáldið brillerar
22.7.2011 | 10:51
Tónskáldið hér á Sólbakka brillerar um þessar mundir. Hún er staðartónskáld í Skálholti og dvelur þar langdvölum en við kötturinn erum einir hér á Sólbakka.
Á morgun, laugardaginn 23. júlí verður frumflutt eftir hana verkið Þangað sem árnar renna munu þær alltaf renna.
Tónleikarnir hefjast klukkan þrjú en klukkutíma áður verður staðartónskáldið Elín með fyrirlestur um tónsmíðar sínar í Skálholtsskóla.
Það er öllum opið og ókeypis aðgangur á bæði fyrirlestur og tónleika.
Brauðbakstur við 37 gráður
19.7.2011 | 21:22
Það er sagt, að Hannes stutti hefði í æsku verið í sjálfsmennsku með móður sinni og haft lítið af mat, en þó minna eldsneyti. Höfðu þá fátæklingar þessir ekki önnur ráð til þess að geta borðað brauðbita, en að sitja á því, svo að það harðnaði lítið eitt. Þegar sulturinn tók að sverfa að þeim, átti konan að hafa sagt: Heldurðu þessi sé ekki fullsetin, Hannes minn? Eða ef hann varð fyrri til: Heldurðu þesi sé ekki fullsetin, manna?
(Gömul kynni, Ingunn Jónsdóttir, 1946)
Nú er spurt, hvað ætli brauð sé lengi að bakast við 37 gráðu hita?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Magatónlist í dómkirkju
15.7.2011 | 08:42
Sat í gærkvöldi magnaða tónleika í Skálholtsdómkirkju þar sem slagverksleikarinn Lucie Antunes frá París lék tónverk á hin ýmsu hljóðfæri.
Og ekki verra að eitt besta stykkið var frumflutningur á verkinu Saman eftir Elínu mína og vakti mikla hrifningu.
Tónleikunum lauk svo með slagverki sem listakonan lék með lófum á nakið hold sitt, einkum maga en einnig, hár, eyru og aðra líkamsparta.
Undir morgun hlotnaðist mér svo að keyra Lucie og kaþólska prestinn Steinbjart á flugvöll í sól og dalalæðu sem gerir lífið bæði töfrandi og dularfullt.
Þeir sem misstu af tónleikunum geta hlustað á brot hér.
Af hverju ekki rekstrartrygging?
12.7.2011 | 22:02
Stórhættulegur æðibunugangur við Múlakvísl er ekki gáfulegur. Og ekki heldur háværar kröfur um að Ögmundur reddi brú á stundinni. Þegar fyrirtæki verða fyrir rekstrarstöðvun vegna bruna eða annars sem tryggingafélög ná yfir þá bæta tryggingar rekstrartap.
Nú nær sjálfsagt engir tryggingasamningar yfir það rekstrartap sem ferðaþjónustuaðilar í Skaftafellssýslum verða fyrir en þá er eðlilegast að gera þá kröfu að samfélagið bæti mönnum tjónið sem þeir verða fyrir í minnkandi umferð um háannatímann. Vertíð ferðaþjónustu úti á landi er stutt og auðvitað er tap manna á svæðinu bagalegt. Það gæti jafnvel riðið einhverjum að fullu.
En ég furða mig á afhverju menn gera ekki einfaldlega kröfu að ríkið komi til móts við þetta tap sem er vitaskuld hægt að reikna út rétt eins og tryggingafélög reikna út tap af rekstrarstöðvun við venjulegri aðstæður.
Illvilji og refsigleði
6.7.2011 | 11:28
Ógæfukona sunnan úr Eystrasalti bar út barn sitt og verður samkvæmt fréttum sett í einangrun!
Á 19. öld var fátækum vinnukonum sem báru út börn sín vissulega refsað en ég held að enginn þá hafi haft hugmyndaflug eða leiðindi til að setja þær í einangrun - sem er líklega verri refsing en nokkur vandarhögg.
Og lögreglan í mínum heimabæ er sögð á krísufundi vegna þess að ekki tókst að koma Páli á Veiðisafninu í gæsluvarðhald. Ég veit ekki afhverju, er ekki örugglega runnið af manninum!
Bæði þessi mál eru sorgleg, hvort með sínum hætti. Páll hefur af miklum myndarskap byggt upp fallegt og vel gert safn en er jafnframt einn okkar sem ekki klæðir vel að drekka vín.
Báðum verður lögum samkvæmt að refsa en skemmtilegra væri að finna í samfélaginu samkennd og siðlegt umburðarlyndi en allan þá refsigleði, illvilja og dómhörku sem einkennir umræðuna hér í netheimum.
Hin borgaralega firring
5.7.2011 | 20:13
Hin borgaralega firring nútímans birtist okkur.
Staðfesting þess að hið nútímalega iðnsamfélag er trunta.
Fær ekki bætur fyrir að hjálpa vinnufélaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvar eru lýðræðissinnarnir?
4.7.2011 | 17:15
Ein rökin fyrir ESB viðræðunum, m.a. frá talsmönnum viðræðnanna innan VG, hefur verið hin lýðræðislega krafa um að þjóðin fengi að kjósa um samning og sjá hvað er í pakkanum. Nú er alltaf að koma betur og betur í ljós að það er ekkert í pakkanum, ekki einu sinni undanþága frá sameiginlegri fiskveiðistjórnun. Þessvegna er eðlilegt að mikill meirihluti vilji núna hætta þessari vitleysu og verja fé og slagkrafti hins opinberra til annarra og gáfulegri verkefna.
Hagfræðingar eru póstmódernískir listamenn
22.6.2011 | 20:48
Á sínum tíma leituðu arkitektar eftir inngöngu í samtök listamanna hér á landi. Um málið varð mikið þras uns rithöfundurinn Jónas stýrimaður kvað upp úr með að auðvitað væru íslenskir arkitekar listamenn því ekki væru þeir arkitektar. Og arkitekt fengu viðurkenningu.
Mér datt þetta í hug þegar ég heyrði í hádeginu að hagfræðingar hefðu reiknað út að það mætti bæta kjör alþýðunnar með hækkun á matarskatti.
Það er tímabært að menn hætti að hnjóða í hagfræðinga fyrir það þeir skuli ekki frekar en aðrir vera neinir hagfræðingar enda augljóst að þeir eru fyrst og fremst skáld eða öllu heldur póstmódernískir listamenn.
Sterk málsvörn fyrir Geir...
22.6.2011 | 11:30
Geir H. Haarde hefur fengið mikilvægan liðsmann í baráttu fyrir því sjónarmiði að ráðslag stjórnvalda í hruninu skuli ekki koma til kasta dómstóla.
Lýður Guðmundsson (Exista, Kaupþing, Sparisjóðirnir, VÍS og fleira og fleira), skrifar harðorða grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann heldur því fram að rannsóknir hér eftir hrun séu nornaveiðar þar sem alltof margir blásaklausir menn hafi nú réttarstöðu grunaðra. Og telur að ákæran á Geir sé hluti af þeim.
Hvað sem mönnum finnst um ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra þá blasir við að ef fallið yrði frá henni er rökrétt að falla þá einnig frá velflestum rannsóknum á svokölluðum útrásarvíkingunum og þeirra sendisveinum.
Var þetta ekki bara allt saman þessum Lehman að kenna?
Berlín er best borga og ævintýri hennar engu lík
19.6.2011 | 21:22
Berlín hefur hér með verið útnefnd best borga í Evrópu og vonum framar að það verði því hengi hefi ég þar átt góðu að mæta.
En Trapant safari sem þar er nú boðið uppá við Checkpoint Charlie er slík lífsreynsla, slík menningarleg og andleg endurnýjun, slík upphefð að ekkert tekur slíkri fram nema ef vera skyldi að eiga sinn eigin Trapant.
Vitaskuld er díalektíska tvískipting mannheima margvísleg en mestu varðar að heiminum deila saman þeir sem átt hafa og elskað sinn Trapant og þeir sem hafa það ekki. Milli þessara hópa er regindjúp.
Sjálfur er ég svo ríkur að hafa átt tvo Trapanta og aldrei náð mér til fulls af þeirri bitru afturför að þurfa síðan að aka vestrænum og japönskum auðvaldskerrum sem eru ómarkvissar, sálarlausar, heimskar og jafnast í fegurð á við silfurskottur.
Það varð mér því opinberum þegar konan mín nefndu í framhjáhlaupi okkar næstsíðasta dag að hér væri rekið fyrirtæki sem byði upp á Trapantsafari um borgina. Allt hér originalt, reykurinn, lyktin, hægindin, reisnin og hvarvetna sem við ókum var okkur veifað og af okkur teknar óteljandi filmur og ljósmyndir.
Þar sem við Elín ókum meðfram trjágöngum Unden den Linden og skynjaði ég sterkt hvernig líf Prússakeisara hefur verið þar sem hann líkt og ég veifaði mannfjöldanum, ók sínum gullvagni framhjá hestakerrum sem hafa orkað á allt umhverfið jafn hversdagslegar og ljótar eins og tjöruglansandi BMW bílar þeir sem ekki voguðu sér svo mikið sem nálægt okkar 7 bíla Trapantlest.
Fyrst og fremst fann ég til vorkunnar með lýðnum sem var svikinn um allt og þar á meðal að sitja í bifreið sem gefur þér raunveruleg tengsl við landið sem ekið er um, snertingu við steina, sand, grös og vinda himinsins. Í Trapant skynjar hver maður ferðalag með nýrri merkingu sem gefur kosti hinnar hefðbundnu bílferðar en er samt eins og gönguferð. Meðan ég veifaði varð veraldarvön konan mín aftur eins og ung jómfrú, roðnaði upp að hársrótum við það eitt að sitja slíka reisu og fól andlit í höndum sér. Lífið var fullkomið.