Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hinn fullkomni og faglegi
12.8.2010 | 07:43
Gylfi Magnússon er í vægast sagt þröngri stöðu og varla sætt lengur. Það athyglisverðasta í þessu er kuskið sem komið er á hinn faglega.
Átrúnaðarfólk á bírókrat hafa lengi trúað að það væri hægt að finna vammlausa fagmenn til að stjórna landinu í staðin fyrir hina mikið misheppnuðu stjórnmálamenn. Gylfi Magnússon var svoleiðis maður, hylltur í búsáhaldabyltingunni sem hinn faglegi gagnrýnandi og síðan lyft í ráðherrastól án þess að fara í nokkru sinni í gegnum nálarauga kosninga.
Það sem gerir stjórnmálamenn öðrum ófullkomnari í augum almennings er að fólk þekkir þá svo vel. Nú höfum við fengið að kynnast faglegum stjórnmálamanni og hvað gerist. Hann er þá ófullkominn líka og áhöld um að hann segi alltaf satt.
Vond þessi veröld.
Upplýsti yfirmenn sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spennandi ráðstefna í Fljótunum
11.8.2010 | 09:26
Er enn líf í Hrútadal heitir spennandi ráðstefna í Ketilási í Fljótum næstkomandi laugardag, helguð skáldi sveitarinnar Guðrúnu Baldvinu Árnadóttur, Guðrúnu frá Lundi.
Sjálfur er ég enginn sérfræðingur í Guðrúnu og hefi raunar aldrei lesið mikið af rómönum af þessari gerð. Lærði ungur að þetta væru andleg neðanþindarfræði og utan hrings hjá alvöru bókamönnum. En þetta er auðvitað misskilningur, frekar karlrembulegur misskilningur. Til þess að verða viðræðuhæfur í Fljótunum gleypti ég því í mig þrjá ástarómana sem allir standa fyrir sínu, vitaskuld Dalalíf, síðan Brúðarkyrtilinn eftir Kristmann sem datt upp í hendurnar á mér í svo fallegu bandi að það var unun að hafa bókina í hendi. Síðast Önnu Kareninu eftir Tolstoi sem einhverjir móðgast kannski yfir að ég setji á þennan bekk - en þar á hann samt heima.
Á allra síðustu árum hefur komist í tísku að lýsa samfélaginu, sálarlífi og átökum mannlífsins með morðsögum og sumum tekist það mætavel. En það er ekkert verra að gera þetta sama með ástarsögum og ef vel tekst til þá eru þetta oft hinar læsilegustu bækur. Svo er um sögur Guðrúnar frá Lundi sem er á köflum mögnuð í nærfærni sinni, lýsingum á mannlífinu og snillingur í meðferð tungunnar.
Það eru vitaskuld allir velkomnir í Hrútadalinn - Ketilás - en nánar má lesa um ráðstefnu þessa hér.
Lýðræðisrök sem gilda ekki lengur
5.8.2010 | 11:15
Gunnlaugur Ingvarsson stórvinur minn og idol í barnabrekum uppi í Tungum forðum tíð leggur fyrir mig spurningu hér í bloggathugasemdum og vill að ég svari því á hvaða forsendum VG samþykkti að fara í ESB-umsóknarferli með Samfylkingunni, hvaða fyrirvarar voru samþykktir og svo framvegis. Sjá nánar hér og hér.
Ég var eins og fleiri félagar í VG afar ósáttur við þessa ákvörðun, taldi hana í hróplegri mótsögn við málflutning VG um langt árabil. Síðan hefi ég auðvitað eins og fleiri margoft hlustað á röksemdir þingmanna í þessu efni og bendi í þessu efni á þingumræðurnar (t.d. Steingrímur J. og Árni Þór) sem eru aðgengilegar hér á vefnum og grein Árna Þórs Sigurðssonar hér á Pressunni. Í þingræðu tók Árni Þór fram að eitt af skilyrðum Íslands hlyti að vera forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni en nú er ljóst að það stendur ekki til boða og af þeirri ástæðu einni sjálfhætt eins og sjávarútvegsráðherra hefur bent á.
Sterkustu rök Steingríms í þessu máli kristallast í eftirfarandi setningu:
Ef svo reynist að ríkur þingvilji standi til þess að fara í þessar viðræður og sömuleiðis að fyrir liggi vísbendingar um að meiri hluti þjóðarinnar sé þeirrar skoðunar að rétt sé að láta á þetta reyna þó svo að gjarnan í sömu skoðanakönnunum reynist helmingur eða meiri hluti jafnvel þjóðarinnar sem afstöðu tekur andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu þá er væntanlega bæði lýðræðislega og þingræðislega rétt að þetta sé gert, að meiri hlutinn ráði þar ferðinni. ... Hins vegar er það sjónarmið líka allútbreitt að það eigi einfaldlega að útkljá þetta mál og það telja bæði þeir sem eru því fylgjandi og einhverjir þeirra sem eru því andvígir að við göngum í Evrópusambandið að eftir sem áður þurfi að fá botn í málið og útkljá það. Ég held að það sjónarmið hafi færst í vöxt á undanförnum árum...
Þau rök að með þessu sé lýðræðinu best þjónað eru nú fallin um sjálft sig.
Það er í fyrsta lagi upplýst að þingmeirihlutinn var fenginn fram með hótunum og kúgun.
Í öðru lagi vegna þess að mikill meirihluti þjóðarinnar vill nú tafarlaust stöðva þetta ferli.
Í þriðja lagi vegna þess að sendimenn ESB hafa hvað eftir annað komið inn í lýðræðislega umræðu þjóðarinnar og telja sig aðila máls. Þar á bæ hefur þegar verið varið umtalsverðu fjármagni til áróðurs hér á landi fyrir ESB-aðild Íslands og mikið meira í farvatninu. Það er ekkert jafnvægi og ekkert lýðræði í umræðu þar sem annar málsaðili hefur bakvið sig skrifræðisbatterí milljóna manna en hinn ekkert nema berar lúkur grasrótarinnar.
Forvitnilegur bókakassi frá Guðmundi stúdent
4.8.2010 | 11:18
Smárit úr bókasafni Guðmundar á Kópsvatni bárust nýlega á Sunnlenska bókakaffið og hafa vakið athygli. Smárit fyrri tíðar og bæklingar voru oft ígildi bloggfærsla samtímans og eru mörg hin mestu fágæti í dag. Oft var upplag slíkra rita lítið en meiru réði þó að vegna smæðar þessara ritlinga lentu þeir með blöðum og tímaritum í ruslinu en varðveittust ekki líkt og bækur gera þó. Einstaka maður sýndi þá ræktarsemi að halda prentmáli þessu til haga, eftirkomendum til menningarauka og ánægju.
Einn þessara var fræðimaðurinn Guðmundur Jónsson á Kópsvatni í Hrunamannahreppi (1930-1989). Hann var sérstæður maður og afkastamikill safnari en fór í engu troðnar slóðir í lífinu. Eftir að kassanum með ritlingunum góðu var stillt upp hafa margir orðið til að spyrja um þennan bókamann. Hér verður tæpt á ævi hans og grúskað aðeins í kassanum góða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Afhverju ekki lýðræðislegar kosningar um ESB?
24.7.2010 | 10:38
Andstaða við ESB-aðild fer vaxandi með þjóðinni og þeirri kröfu er nú mjög á lofti haldið að draga eigi umsókn Íslands að ESB til baka. En af hverju? Afhverju er ekki óhætt að láta reyna á umsóknarferlið svo þjóðin geti fellt aðildarsamning í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu? Enn og aftur spyrja margir, af hverju má ekki láta á það reyna hvað er í boði?
Er ekki eðlilegast að samningur liggi fyrir og svo hefjist hið lýðræðislega ferli aðildarsinna og fullveldissinna þar sem tekist yrði á um hylli almennings. Rætt hefur verið um að frá fullbúnum samningi líði að minnsta kosti sex mánuðir fram að kosningum og á þeim tíma geta báðir aðilar kynnt málstað sinn. Heimssýn, sem eru þverpólitísk samtök allra sem eru á móti aðild væru þar annarsvegar. Samtökin hafa ef vel gengur yfir 8 milljónum að ráða á ári. Kannski fá þau svo aukalega nokkur hundruð þúsund af fjárlögum.
Hinsvegar væru upplýsingaskrifstofur ESB á Íslandi. Sambandið hefur þegar úthlutað sjálfu sér fjórum milljörðum til verkefnisins að flytja íslensku þjóðinni boðskap sinn og sveigja hana til hlýðni. Þau fara reyndar fram á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur leggi sér til annað eins í sama verkefni, samtals verða þar komnir 8 milljarðar.
Yrði þetta ekki fullkomnlega jafn leikur og sanngjarn í þágu lýðræðisins? Ef svo ólíklega færi að 8 milljarðar ESB duga ekki til að mola niður sveitalega andstöðu Íslendinga má alltaf kjósa aftur!
(Áður birt í Mbl.)
Baráttan gegn endurheimt landgæða
22.7.2010 | 21:08
Hlaðið hér á Sólbakka er á góðri leið með að gróa upp. Einhver sagði mér að malbika það en það kemur ekki til greina, malbik er ljótt. Þess í stað keypti ég mér meterslangan sígarettukveikjara í Ellingsen í dag og hef notið sumarblíðunnar við að svíða arfa, gras og njóla ofan í rót.
Með því slepp ég við eiturnotkun en hvort þetta er umhverfisvænt veit ég ekki. Því þegar að er gáð er hér hafin mjög markviss barátta gegn endurheimt landgæða sem er í sjálfsánu ferli hér í hlaðinu.
Kannski ætti ég bara að lofa því að gróa upp og á endanum fengi ég landgræðsluverðlaun...
Declare Independence
20.7.2010 | 08:09
Björk Guðmundsdóttir á þakkir skildar fyrir framtakið og ekki í fyrsta skipti sem ég tek ofan fyrir þessari listakonu. Skemmst er að minnast þess þegar hún studdi sjálfstæðisbaráttu Tíbeta og uppskar reiði kínverja.Hún var eiginlega að segja það sama við okkur í dag, Declare Independence!
Ætli Reykjanesíhaldið og ESB-kratarna langi ekki ósköp nú að geta gert eins og þeir gulu að banna svona stelpuskott...
Björk: Rannsóknarnefnd um Magma málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lýðræðiskrafan í ESB málinu
17.7.2010 | 11:00
Við skyndilegt fall krónunnar og hrun bankanna óx þeirri kröfu ásmegin meðal þjóðarinnar að sækja ætti um aðild að ESB. Þó svo að vilji til aðildar hafi ekki verið meirihlutaskoðun þá voru á tímabilum á árabilinu frá 2006-2009 meirihlutafylgi fyrir því að láta reyna á hvað fengist út úr aðildarviðræðum.
Allan þann tíma vöruðum við andstæðingar ESB aðildar við því að slíkar könnunarviðræður væru ekki í boði. Allmargir ESB-andstæðingar voru þó til í að láta undan kröfum aðildarsinna, sumpart til þess að þjóna lýðræðinu og sumpart sem málamiðlum í refskák stjórnmálanna. Eftir kosningarnar 2009 var þessi krafa og vígstaða ESB-sinna í landinu sterkari en nokkru sinni.
Nú ári eftir að Alþingi samþykkti aðildarviðræður hefur það komið rækilega fram að hér eru ekki hlutlausar viðræður á ferðinni heldur aðlögunarferli þar sem ESB leggur þegar til atlögu og ítaka í íslensku stjórnkerfi án þess að þjóðin hafi verið spurð. Á sama tíma er peningum ausið til áróðurs fyrir málstað stórveldisins.
Íslenska þjóðin er mjög meðvituð um þetta og nú hefur mjög skipt um í fylgi við hinar svokölluðu aðildarviðræður. Aukinn meirihluti Íslendinga eða um 2/3 hlutar þjóðarinnar vill hætta viðræðunum þegar í stað.
Aðildarsinnar hafa nú komið fram í blöðum og lagt áherslu á að halda verði ferlinu áfram til þess að leiða það til lykta. Það er rétt að ljúka verður málinu með einhverjum hætti og þar kemur margt til greina. Það er ljóst að aðlögunarferlið mun kosta okkur milljarða og hafa veruleg og ólýðræðisleg áhrif á íslenska stjórnsýslu.
Rétt eins og það voru ákveðin lýðræðisrök fyrir því að fara í viðræður vorið 2009 þá er lýðræðisleg krafa í loftinu nú sem stjórnvöld verða að koma á móts við. Það geta þau gert með því að draga umsóknina til baka en þau geta líka vísað þessu máli til þings og eftir atvikum þjóðar í almennri atkvæðagreiðslu.
En það er fráleitt að halda áfram að ausa hundruðum milljóna í verkefni sem aukinn meirihluti þjóðarinnar leggst nú hart gegn. Enginn lýðræðislega þenkjandi stjórnmálamaður getur réttlætt það við þessar aðstæður að gera ekki neitt við þessa sterku kröfu almennings.
(Áður birt í Morgunblaðinu 15. júlí 2010)Játningar Össurar
15.7.2010 | 10:36
Stærsta míta ESB-sinna hefur verið að Ísland geti náð góðum samningum um fiskimiðin. Að ávinningar okkar í landhelgisdeilum við Evrópu haldi sér. Nú hefur Össur bakkað, hann játar að þetta sé "very difficult." Þetta er fyrsta skrefið að því undirbúa þjóðina undir að kyngja því að láta fiskimiðin af hendi.
Um hvað er þá deilt. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur þegar sagt að það eigi að hætta þessum viðræðum og nú viðurkennir Össur að hann sé búinn að tapa í okkar stærsta hagsmunamáli.
Vituð þér enn, eða hvað!
Kína markaður fyrir fisk og ferðaþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mætum öll
13.7.2010 | 22:24
Mætum öll á Austurvöll, blá, græn og rauð. Rekum flóttann og ESB-óværuna af okkur.
Útifundur gegn ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |