Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjófnaður frá þjóðskáldi

Um daginn birti ég stutta tilvitnun í sérviskulega bók eftir Eyrbekkinginn Guðmund Haraldsson. Þar fer höfundur frjálslega um garða þegar hann eignar sér vísuna alkunnu:

Karlmanna þrá er vitum vér,
vefja svanna í fangi;
kvenmanns þráin einkum er,
að hana til þess langi.

Þó svo að vísan hafi virkað kunnuglega á mig þá kveikti ég ekki á að þarna er á ferðinni allbíræfinn þjófnaður. Það var enginn annar en þjóðskáldið Hannes Hafstein sem orti og árvökul augu lesenda kveiktu á þessu sem hér með er þakkað fyrir. Það er eiginlega ekki hægt annað en að dást að Guðmundi heitnum fyrir að reyna...


Ef við værum ekki gullmoli

Ótrúleg hugmynd en giska lífsseig að Icesave sé forsenda þess að ESB vilji okkur. Nú er óðum að koma í ljós að svo er ekki enda erum við ekkert annað en gullmoli fyrir hina auðlindaþyrstu, þröngu og gamallúnu Evrópu. Hún mun gleypa okkur ef hún getur, með eða án Icesave. En Icesavemálið hverfur ekki við það...
mbl.is ESB og Icesave aðskilin mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg vitleysa og óheillaverk útrásarflokka og útrásarforseta!

Ég hef hingað til litið svo að kosningaþátttaka sé borgaraleg skylda en ef það á að kjósa um Icesave er ég ekki viss með að mæta. Best væri að stjórnin drægi lögin til baka og semdi ný í kompaníi við stjórnarandstöðuna.

Icesave-samningarnir verða aldrei neitt annað en nauðasamningar sem stórveldi þvinga okkur til að gera og geta aldrei orðið ásættanlegir. En ef efnahagsþvinganir, ruslflokkur í lánafyrirgreiðslu og fleira slíkt meirihluta þjóðarinnar til að segja já í kosningum þá er óheillaverk Ólafs Ragnars Grímssonar og bankaflokkanna fullkomið. Segi þjóðin nei veit svosem enginn hversu lengi vont getur versnað.

Við innheimtu og endurupptöku málsins á friðvænlegri tímum getur það orðið Bretum og Hollendingum ótrúlega dýrmætt vopn að geta sagt; hvað eruðið að væla, þjóðin sjálf samþykkti þessa samninga...


mbl.is Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri bróðir á afmæli

Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Aaaatli, hann á afmæli í dag.

Atli_Kristin_Rosa_Bjossi_bjarni_BjarniSaem_BjarniH_feb1966
Þar eð mér er allsendis fyrirmunað að syngja verð ég að láta duga að blogga afmælisbarninu til heiðurs en Atli Vilhelm Harðarson bróðir minn er fimmtugur í dag. Hann er fæddur líkt og frelsarinn í fénaðarhúsum, að vísu ekki á Vesturbakkanum heldur í Tungunum sem er ekki neitt lakara. Nánar tiltekið á bænum Stóra-Fljóti þar sem heitir líka Reykholt. Hús þetta var byggt sem fjós en varð um tíma íbúðarhús manna og svo lengst af bernsku okkar bræðra hænsnahús og okkur þótti það alltaf til marks um einhvern óvirðuleika að Atli hefði fæðst í hænsnakofa. Það var ekki fyrr en við vorum komnir nokkuð á legg að húsinu var breytt í virðulega slökkvistöð og eins og við manninn mælt að um leið varð líka mikill uppgangur á Atla sem þá sem tók öll próf upp á tíu og er enn í mínum huga sá maður sem næst því kemst að vita allt.

Við bræður ólumst upp við Moggalestur frá blautu barnsbeini og höfum aldrei alveg beðið þess alveg bætur. En einmitt þessvegna þótti mér vænt um að okkar gamli Moggi skyldi birta stutta klausu í afmælisdálki sínum og svo vitnað sé í málgagnið þá gerir afmælisbarnið sér ekki dagamun enda alltof heimspekilega sinnaður til að sjá mun á afmælisárum sem enda á núllum og öðrum afmælisárum.

En semsagt, til hamingju.

(Mynd: Atli er hér lengst til vinstri og bloggarinn þessi skrýtni lengst til hægri en milli okkar amma okkar og afi í Hveragerði, Kristín systir í fangi ömmu, Bjarni Sæm. í fangi nafna síns og Bjössi blái milli foreldra sinna, en myndin er tekin á ættaróðalinu Bláfelli í Hveragerði. ) 


Hverju hafnaði ÓRG...

Það væri gaman að lifa ef Ólafur Ragnar hefði með ákvörðun sinni ákveðið að Íslendingar borgi alls ekki Icesave. Og enn skemmtilegra ef það væri einfaldlega ákvörðun hvers og eins og hvort hann tæki þátt í að borga bankarán Björgólfsfeðga í Hollandi og Bretlandi. Því miður er þetta ekki reyndin.

Með ákvörðun sinni hefur Ólafur einfaldlega ákveðið að Íslendingar eigi að borga Icesave en borga upphæðina einhvernveginn öðruvísi. Hvað sem múgsefjun líður var fráleitt af forsetanum að undirskrifa fyrstu Icesave-lögin en hafna svo þessum lögum nú. Vitaskuld er Icesave óréttmæt krafa öflugra nýlenduvelda en það er barnaskapur að ætla að bjóða heiminum öllum birginn. Samskonar barnaskapur og var stundaður af útrásarvíkingunum sem hugðust leggja heiminn að fótum sér. ÓRG hefur kannski verið of lengi í félagsskap slíkra manna.

Hér leika menn sér blygðunarlaust að alþjóðlegum og fjárhagslegum hagsmunum Íslands til þess að slá pólitískar keilur og í þeim leik er enginn munur á Ólafi og talsmönnum stjórnarandstöðunnar. Það er ekki víst að það verði léttbærara fyrir okkur mæta afarkostum Breta og Hollendinga í næstu umferð.

Líkurnar á að þetta verði til þess að við fáum miklu léttbærari Icesave-samninga eru einfaldlega hverfandi. Verði svo tökum við því öll fagnandi en ég efa stórlega að þetta sé klókt útspil.


Skrifar undir og...

Frétt Morgunblaðsins um blaðamannafund forsetans lýkur með þessum orðum:

Samkvæmd dagskrá forsetans í þessari viku átti hann að halda utan til Indlands á miðvikudag.

Nú er í fljótu bragði ekki að sjá að blaðamannafundur á þriðjudegi raski ferð til útlanda á miðvikudegi en því hefði eðlilegra verið að segja að forsetinn haldi utan á miðvikudag eða muni fara út á miðvikudag. 

Getur verið að blaðamenn sem oft vita meira en þeir mega skrifa viti eitthvað sem við vitum ekki? Til dæmis að orðrómur um að forsetinn skrifi undir og segi svo af sér eigi við einhver rök að styðjast. Nei, varla.

En allavega, ef forsetinn skrifar ekki undir þá veðja ég á að stjórnin afturkalli lögin og hefji nýjar samningaviðræður við Breta og Hollendinga.


mbl.is Blaðamannafundur í fyrramálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ver ekki óður

Frídagana hef ég notað til að raga í gegnum þúsundir af bókum sem fornbókabúðinni hafa áskotnast í vetur og fátt er skemmtilegra. Bækur eru fróðlegar en ekki síður skemmtilegar fyrir öll skrýtilegheitin sem þar er að finna. Í bókinni Amerísk ráð sem Margrét Jónsdóttir í Sundstræti 27 á Ísafirði gaf út árið 1922 er t.d. að finna aðferðir til að gera sitt eigið tannkrem, leiðbeiningar við undarlegustu uppákomum og ýmis læknisráð.

48. Krabbamein: Það eina, sem læknar þennan sjúkdóm er rafmagn; samt hefir það áunnið bata, sérstaklega við byrjun sjúkdómsins að taka: Hydrastís, Arsenicum, einn skammt kvölds og morgna og Ferrum Fosphoricum 1/2 tíma á undan máltíðum. 

Skyldi Landsvirkjun vita af þessu. Eða slökkviliðið hvað gera skuli við eldsvoða, bls. 56:

Hvernig flýja skal brennandi hús: Haf hugann fastan við, hvar dyrnar og stigarnir eru. Ver ekki uppstökkur eða óður. Haf eldspýtur ávalt við hendina, til að geta kveikt  - ef þarf. ...

Og er þá aðeins fátt eitt nefnt úr þessari góðu bók sem ráðleggur fólki einnig að taka inn Kalíum Phosphoricum við ímyndarveiki, þrautsýni og kvíða. En hvernig sem ég leitaði fann ég ekkert ráð við Icesave eða leiðinlegu bloggi en þetta með að vera ekki óður getur dugað við mörgu!


Takk takk takk ... og mont

Takk fyrir gamla árið sem var þrátt fyrir allt gott ár og skemmtilegt ár og ár eins og ár sem heita 2009 eiga að vera nema þá að maður sé í útlöndum þar sem eru líka ár og oft skipt um ár eins og hérna en helst óttaðist ég nú að þegar svona hart var í ári þá hefði enginn efni á áramótum og hér austanfjalls hefur heyrst af því að í einstöku afdölum hafi verið svo illt eftir allt æseivið sem safnaðist upp í skafla á bæjum að bændur höfðu ekki efni á neinu meiru en mánaðamótum og þar verður áfram búið við 2009 að minnsta kosti fram í þorra en almanök sótt um leið og fyllt er á þorrablótskútinn en það er nú það...

Semsagt, gleðilegt ár...

PS: Mont dagsins: Yngsti sonur minn, krílið Gunnlaugur sem er mér vaxinn yfir höfuð og visku lék í áramótaskaupinu einn af heimsku búðadrengjunum í stórmörkuðunum og við foreldrakornin sátum hér að rifna af monti. Hann var þessi sem benti konunni á að leita að kattatungum í kjötborðinu!


Þú hefur drýgt hór...

Ritstjóri AMX vandar mér ekki kveðjurnar fyrir þær sakir að vera honum ekki samstíga í Icesaveskruminu. Svarar reyndar engu efnislega en gerir mjög að því skóna að ég sé ekki marktækur þar sem ég hafi sagt af mér þingmennsku. Hvað má þá segja um þá menn sem gengið hafa ævilangt með þingmanninn í maganum og aldrei náð að komast svo langt þó mikið hafi verið reynt...

En þetta er alltaf skemmtilegt samt þegar farin er þessi sérstæða rökfærsluleið, svona eins og þegar við litlir sögðum einfaldlega pabbi minn er sterkari en pabbi þinn og þú ert með hor. Skemmtilegasta sagan af slíkum viðbrögðum er af frænda mínum í Grímsnesi sem sat innikróaður milli tveggja dætra sinna en sagði frekar en að játa sig sigraðan:

- Þegi þú Helga, þú hefur drýgt hór... Meira hér.


Mikið væri gott að trúa Mogganum...

Mikið væri nú gott að trúa Mogganum og stjórnarandstöðunni þegar kemur að Icesave.

Að Íslendingar geti gert miklu betri samninga um Icesave.

Að Alþingi geti einfaldlega sagt hvað eigi að standa í samningunum sem íslenska ríkisstjórnin fari svo og segi Bretum og Hollendingum -  sem væntanlega hneigja sig fyrir hinum göfugu eyjaskeggjum.

Að Steingrímur J. hafi vitaskuld sett illviljaða og lata kjána í samninganefndina og allir aðrir geti búið til betri samninganefndir og fengið betri niðurstöðu. 

Að það sé ekkert því til fyrirstöðu að fella nú Icesave og hleypa þar með stjórnarandstöðunni að samningaborðinu. Sömu flokkum og sköpuðu það ástand sem nú er unnið úr. Sjálfstæðisflokknum sem talar út og suður í málinu og lagði sjálfur drög að Icesave-samningum sem voru sínu verri en þeir vondu samningar sem nú liggja fyrir.

En mikil má Moggatrúin þá vera!

Morgunblaðið talar um vondan dag í sögu þingsins verði Icesave samþykkt. Það er enginn vafi á að þetta eru vondar skuldbindingar en það benda allar staðreyndir til að þetta sé samt það besta sem hægt er að gera í stöðunni. Það var möguleiki að taka fast á málinu í upphafi og neita að borga skuldir sem enda eru ekki okkar sem þjóðar heldur orðnar til vegna fárra fjárglæframanna. Þeim möguleika var klúðrað af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og það er miður. Þá voru lögð drög að þeirri leið sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki getað snúið frá nema valda þjóðinni enn þungbærari skaða en orðinn er.

Einn svartasti dagurinn í sögu þjóðarinnar hin seinni er þegar Alþingi var blekkt til að samþykkja skuldsetta yfirtöku á ríkisbönkunum. Þar og í EES samstarfinu liggur grunnur að ófarnaði þjóðarinnar nú og þeir sem að því verki stóðu hafa fráleitt gert hreint fyrir sínum dyrum. 

Þess í stað draga Mogginn og hans þingmenn fram að Ingibjörg Sólrún segi nú að kannski hafi hún nú ekki alveg meint þetta svona þegar hún var í embætti. Þetta eru hreint merkilega ómerkileg rök og mætti halda að Mogginn telji grínlaust að Icesave samningaviðræðurnar séu milli stjórnar- og stjórnarandstöðu. Reyndin er að þetta eru samningaviðræður við ríkisstjórnir sem beina trítilóðri reiði sinni að íslensku samninganefndinni og gæfu miklu meira en lítið fyrir hvað Ingibjörgu Sólrúnu finnst eftir á að hún hafi meint...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband