Icesave og ESB

Fíflalegustu kosningum Íslandssögunnar er nú lokið með niðurstöðum sem engum koma á óvart og engu munu breyta. Allar hugmyndir um að heimsbyggðin hafi staðið á öndinni yfir kosningum þessum eru hluti af þeirri íslenskri mikilmennskubrjálsemi sem hefur leitt þjóð þessa í marga ófæruna.

Fyrir kosningar mátti ætla að einhverjir hér tryðu því í raun og veru að Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi, óvart undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, myndi nú á gamalsaldri beggja stýra einhverskonar heimsbyltingu alþýðunnar gegn fjármagnseigendum.

Í sama anda er sú bábylja að hin hetjulega barátta gegn Icesave-samningunum sé hluti af baráttu þjóðarinnar fyrir að standa utan ESB. Fátt er fjær sanni. Það er rétt að vinfengi Íslands við Bretland og Holland styrkist ekki eftir því sem Icesavedeilan dregst á langinn. En það vinfengi mun heldur engu skipta.

Ísland mun halda sjálfstæði sínu svo fremi að þjóðin nái að halda sjó í efnahagsmálum og samskiptum við aðrar þjóðir. Lausn Icesavedeilunnar er mikilvægur þáttur í að svo megi verða. Dragist mál þetta von úr viti er hætta á að efnahagsleg staða okkar veikist svo mikið að hin gömlu ESB-veldi eigi auðvelt með að gleypa hér landið og miðin.

Það ríkir stríð um sjálfstæði Íslands enda er þjóðin aldrei venjulegur þátttakandi í samstarfi ESB-þjóða. Til þess erum við of fámenn og alltof fjarlæg vettvangi. Við erum fyrst og fremst gómsætur auðlindabiti fyrir langsoltin og stöðnuð Evrópuríki og því veikari sem við verðum í samskiptum við þessar þjóðir því auðveldara er að sigra okkur.

Annað sem gæti orðið okkur ESB-andstæðingum mjög hættulegt er ef núverandi stjórnarandstaða kemst aftur til valda. Þá verða ESB-sinnar fljótir að ná undirtökum í bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og öll vígstaða okkar sjálfstæðissinna önnur en nú er.

Í reynd ríkir enginn ágreiningur meðal stjórnmálaflokka landsins um Icesavemálið. Þeir eru allir sem einn sammála um að leggja Icesave-klafann á herðar almennings. Það er settur upp sýndarágreiningur um vexti en í raun og veru eru menn bara ósammála um það hver eigi að vera í ráðherrastólnum þegar skrifað er undir.

Þessvegna voru kosningarnar síðastliðna helgi stærsta og dýrasta aprílgabb Íslandssögunnar. Og ekki einu sinni á réttum degi!

(Áður birt í Mbl. 11. mars 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Menn geta reynt að smækka þetta mál eins og þeir vilja. Tölurnar tala alltaf sínu máli. Veruleikin er sá að fyrirvaralaus ríkisábyrgð á allri upphæðinni án greiðsluþaks á 5,55% vöxtum setur efnahagslega framtíð þjóðarinnar í stórhættu.

Nú má svo sem vera að heimturnar verði í samræmi við mat skilanefndar Landsbankans, þ.e.a.s matið sem hún setti fram með miklum fyrirvörum en varð svo að hávísindalegu og traustu mati í meðförum Þórólfs Matt og hans líkra, og þá myndu einhverjir borgunarsinnar hlægja að okkur sem þykja samningarnir óásættanlegir. Rétt eins og einhver bjáninn sem keyrir glæfralega gæti hlegið að viðvörunum ef svo vill til að hann sleppur án þess að lenda í slysi.

Annars sé ég að þú gleypir hráan þann málflutning að  það sem standi á milli okkar og efnahagsbata sé þetta blessaða Icesave. Ég minni á að hann er ættaður úr smiðju sömu manna og sögðu að hér færi allt af stað við brottrekstur Davíðs Oddsonar og síðan við umsókn um ESB-aðild. Rökstuðningurinn er ekkert skýrari eða meira sannfærandi.

Hugsanlega er reyndar það versta af öllu slæmu við þetta langa Icesave-rifrildi að mönnum hefur tekist að berja því inn sem viðtekinni forsendu í umræðunni að AGS-áætlunin, með þeirri "strúktúrísku-aðlögun" (skemmdaverkastarfsemi á raunhagkerfinu) og risavöxnum lántökum sem henni fylgja, sé æskileg.

Höfuð ástæða þess að fólk heldur að sér höndum með fjárfestingar hér er að líkindum sú að við höfum ekki markað okkur neina skýra og sannfærandi áætlun um það hvernig við ætlum að vinna okkur út úr skuldavandanum. Ef við skrifum upp á ríkisvíxil af óþekktir stærðargráðu, bæði hvað varðar höfuðstól og greiðslubyrði, þá yrði það síst til að bæta ástandið.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 20:46

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Kosningarnar voru pólitískur loddaraskapur og rétt athugað að kjörsóknin sýndi hvað Íslendingar eru miklar hópsálir og sjálfgagnrýnislausir þegar kemur að því að verja "heiður" sinn. Hópsálin varði "útrásarvíkingana okkar" á sínum tíma einsog viðskipti væru handboltamót.

Ég er nú eiginlega sammála Bjarna í greiningu hans á ástandinu. Icesafe var séríslenskt fyrirbæri og það verður tekið þannig á því af "alþjóðasamfélaginu". ESB hefur enga ástæðu til að flækja stofnunum sínum í það mál. Formlega vill ESB að þetta verði leyst tvíhliða. Gerist eitthvað annað í "aðildarviðræðum" Íslands að ESB þá skal ég éta laugardagsnammið mitt aleinn.

Varðandi áhuga ESB á Íslandi og öllum gæðum þess og gögnum er fyrir mér ótvírætt enda telja fulltrúar ESB að þeir hafi mikið að bjóða á móti. Um það getum við svo lengi deilt hvort við höfum eftir því að slægjast og hvort við megu missa eitthvað á móti. En greining Bjarna á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn mun gera þegar og ef hann kemst í stjórn. Þá mun hann ekki taka "Ögmund hinn staðfasta" sér til fyrirmyndar. Líklega mun hann kokgleypa ESB áróðurinn og básúna hann yfir landslýðinn.

Segja að það sé það "eina rétta í stöðunni".

Þar sem ég er persónulega mengaður af ESB áróðri ætti ég að fagna slíkum mögulegum sinnaskiptum, en þá kemur upp í mér sama ógeðið og Steingrímur hefur tjáð að það verði að gera allt til að halda sjálfstæðisflokknum utan stjórnar. Bæði er að flokksformaðurinn BB er ekki maður djúpúðugur heldur beinlínis falskur og sennilega dekurbarn og fremur illa upp alinn. Ekki traustsins verður. Eftir höfðinu dansa limirnir.

Forysta okkar sem leiðir inngöngu í ESB verður að vera traust og falslaus. ( þetta er aumur puntur). Við gerum ekki samninga við ESB til að tryggja betri aðgang útgerðarmanna að miðum annara þjóða svo dæmi sé tekið. Samningana á að gera útfrá hagsmunum fólksins í landinu fyrst og fremst. Ef það er ekki hægt að selja okkur slíka samninga höfum við ekkert þangað að gera.

Það er kannski barnaskapur að maður geti varið þjóðleg gildi yfirleitt. Þau virðast geta breyst hratt í meðförum og eftir tísku. Aðalatriðið er að maður gleymi því ekki að lífið býr yfir mótsögnum og núna á barátta þjóðlegra gilda meira undir góðu bandalagi við Evrópu en að gera Ísland að fjármálamiðstöð fyrir heimsviðskipti með 8 álbræðslur. Að maður að tali nú ekki um að maður bíði þess að norðurpóllinn bráðni. Hvílík heimssýn.

Gísli Ingvarsson, 12.3.2010 kl. 22:32

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

hans,  þú reiknar með að það megi semja um eitthvað annað en að borga icesave - og átt þér þá engan fulltrúa á alþingi. ég get tekið ofan fyrir þessum sjónarmiðum því þau eru réttmæt en ekki að sama skapi raunhæf eftir afleiki gömlu ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks og samfylkingar.

Bjarni Harðarson, 13.3.2010 kl. 01:57

4 identicon

Eins og ég sé málið þá eru tveir kostir í stöðunni. Annar er að neita að borga án dómsúrskurðar. Það sem mælir með þeim kosti er að við slyppum að líkindum við að borga en það sem mælir gegn honum er að á meðan málið er útkljáð þá ríkir óvissa, bæði vegna mögulegra aðgerða af hálfu Breta og Hollendinga og vegna þess að það er ekki hægt að útiloka það með öllu að við töpuðum málinu. Hinn kosturinn er að semja.

Til þess að eitthvað mæli með samningakostinum þá þarf hann að eyða óvissu.

Þeir Icesave-samningar sem lágu fyrir eyða engri óvissu því ekkert er vitað með vissu um hver greiðslubyrði ríkisins kann að vera eða hvort það ræður við hana. Við tökum ábyrgð á allri upphæðinni og á vöxtum sem geta hæglega valdið því að skuldin verði stjórnlaus og setji ríkissjóð á hliðina. Þeir eru því ótækir. Við erum allt eins vel sett án samnings, eini munurinn felst í AGS láni sem lengir vissulega  í hengingarólinni en gæti líka orðið til að herða hana áður en yfir líkur.

Ég geri mér grein fyrir því að ef við gerum samning þá verður það á þeim forsendum að við "borgum Icesave" en það getur ansi margt verið á þeim forsendum. Allt frá því að Bretar og Hollendingar kaupi kröfu tryggingasjóðs fyrir sömu upphæð og þeir hafa lagt út yfir í að við öxlum þetta allt saman sem lán á markaðsvöxtum.

Til þess að Icesave samningur verði tækur, þ.e.a.s skárri en engin samningur, þarf að ganga frá málinu með einhverjum þeim hætti að greiðslubyrði ríkissjóðs verði fyrirsjáanleg. Það er hægt að gera með ýmsum hætti, s.s að Bretar og Hollendingar kaupi kröfuna fyrir ákveðna upphæð, með greiðsluþaki, með lágum vöxtum og lengingarákvæði o.s.frv.

Brusselviðmiðin opna á lausn af því tagi og það gera líka yfirlýsingar breskra ráðamanna eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna (hversu mikils virði sem þær kunna að vera). Það er mikilvægt að við sýnum að ef það á að keyra okkur í þrot þá förum við bara í þrot núna enda er það skárra en að fara í þrot seinna með enn stærri skuldir á bakinu, því sá hagvöxtur sem menn reikna með að þurfi til að standa undir erlendum skuldum verður ekki með Icesave-snjóhengjuna yfir okkur. Það byggir engin heilvita maður á snjóflóðasvæði.

Mér sýnist þú einblína á innanlandspólitíska þátt málsins og það með ansi kýnísk gleraugu á nefinu. Þetta mál er vissulega spunasirkus líka og full ástæða til að fylgjast vel með því hvernig stjórnmálastéttin heldur á því en það er líka brýnt viðfangsefni að koma málinu í öruggan og fyrirsjánalegann farveg. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 02:51

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Í mínum huga var þjóðaratkvæðagreiðslan ekki fíflaskapur þrátt fyrir að stjórnmálaflokkarnir (allir fjórir) hafi gert sitt besta til þess að eyðileggja hana.  Atkvæðagreiðslan var fyrir það fyrsta viðurkenning á málskotsrétti forseta og stórt skref áfram í lýðræðisþróun landsins.

Atkvæðagreiðslan hefði síðan verið mun markmeiri hefðu flokkarnir virt anda  stjórnarskránnar og viðurkennt það fyrir sjálfum sér að þar til þjóðaratkvæðagreiðslan hefði farið fram hefði hvorki löggjafar- né framkvæmdavald umboð í þessu tiltekna máli.  Það að virða ekki þann anda og djöflast áfram í að reyna að lenda betri samning fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna er það sem helst setti svartan blett á úrskurð æðsta valds þjóðarinnar.

Axel Þór Kolbeinsson, 13.3.2010 kl. 14:17

6 identicon

Heyr heyr Axel Þór, tek undir hver orð með þér í þessu. Fíflin og fjábjánarnir, sem Þránni er svo tíðrætt um,   eru í þessu máli þeir sem reyndu allt hvað af tók að koma í veg fyrir þessa atkvæðagreiðslu.

(IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 15:48

7 Smámynd: Smjerjarmur

Bjarni, þessi færsla er bara snilld. 

Smjerjarmur, 15.3.2010 kl. 16:36

8 identicon

The issue of whether Iceland should reimburse the United Kingdom and the Netherlands € 3.9bn lost by British and Dutch savers in Icesave collapse is a bilateral one, and it should not prevent EU leaders since their go-ahead at the end March for start EU accession negotiations Iceland, says Foreign Affairs Committee MEPs at a meeting with EU Enlargement Commission Štefan Füle late Monday. Some MEPs were skeptical about whether Jakarta really wants to join the EU.

"Icesave is bilateral file should not affect membership, "said a leading MEP Iceland, Cristian Dan Preada (EPP, RO). Parliament's "The ball is now in court, the Council, which could open negotiations before the end This month "(Ie the European Council of March 25 to 26), added Pat the Cope Gallagher, Chairman of the EP Delegation for relations with Switzerland, Iceland and Norway and European Economic Area (EEA).

1z0-007 scjp 1z0-146 dumps 70-270 latest dumps

erwinzeez (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband