Að lofa upp í annarra ermi

Fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis tvíhenti á lofti gamalt vegaloforð í grein í Morgunblaðinu í vetur og var tilefnið skrif undirritaðs.

Nú hefur komið í ljós upp í hver ermi þau loforð voru gefin. Ríkissjóður ætlar ekki að ráðast í þessar vegbætur af vegafé heldur skulu Sunnlendingar sjálfir greiða aukalega fyrir vegi sína. Með hugmyndum um vegtolla boðar vinstri stjórnin meiri markaðs- og frjálshyggju í vegamálum heldur en við höfum áður heyrt um á þessum vettvangi, hérlendis. Eða hvernig á þá að fjármagna aðra vegi þar sem umferð er minni en samt mikil nauðsyn á vegbótum. Það er langt síðan landsmenn áttuðu sig á að það væri ekki farsælt ef í landinu eiga að gilda tvennskonar lög í senn.

Vegtollahugmyndin er líka fáheyrð ósvífni nú þegar bensínverð er í hæstu hæðum og tekjur ríkissjóðs af hverjum kílómetra sem ekinn er því meiri en nokkru sinni áður. Allar hugmyndir um það að nauðsynlegt sé að fjórfalda leiðina milli Reykjavíkur og Selfoss byggja á þeim hugmyndum að umferð fari stórlega vaxandi. Og voru þó mjög yfirdrifnar miðað við það sem aðrar og ríkari þjóðir telja fullkomlega ásættanlegt við mikið meiri umferð.

Við efnahagshrun og hækkandi olíuverð hefur dregið mjög úr umferð og notkun almenningssamgangna aukist að sama skapi. Útfrá umhverfissjónarmiðum er óskandi að aukning almenningssamgangna aukist frekar en hitt og ráð að stjórnvöld verji til þess fé frekar en fara í vegaframkvæmdir sem eru langt umfram þarfir og fjármagni svo þarfleysur sínar með ólíðandi gjaldtöku. Vegbætur á leiðinni milli Selfoss og Reykjavíkur eru fyrir löngu orðnar mjög aðkallandi en kostnaður af því að gera alla leiðina þrefalda og koma upp hjólastíg við hliðina eru brot af því sem það kostar að setja upp fjórfaldan veg. Slíkar úrbætur sem munu gera leið þessa mjög örugga taka líka aðeins brot af þeim tíma fjórföldun hlýtur að taka og langlundargeð okkar Sunnlendinga eftir hættuminni vegi er löngu þrotið.

(Birt í Dagskránni Selfossi 15. apríl 2010)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband