Og hér í Árborg er auðvitað allt í steik!?

Bærinn er á hausnum, á Selfossi er ekkert við að vera, hér eru hvorki hjólastígar né reiðleiðir, vegurinn hingað er lífshættulegur og einn umferðartappi, verktakafyrirtækin öll á hausnum og allt í kringum okkur hálfbyggð draugahverfi. Atvinnuleysið er meira en nokkru sinni áður og á ströndinni berjast ferðaþjónustufyrirtækin í bökkum. Er ég að gleyma einhverju, jú, sundlaugin er lokuð á helgidögum og það er verið að ala múkkann í fuglafriðlandinu.

Einhvernveginn þannig hljómar söngur sem við heyrum alltof oft í okkar ágæta sveitarfélagi. Og víst er það svo að verkefni næstu ára eru ærin. En það er mikill bölmóður þegar talað er á þá lund að hér sé allt í steik. Staðreyndir tala allt öðru máli. Staða bæjarfélagsins er viðunandi miðað við hamfarir liðinna frjálshyggjuára og öfundsverð í samanburði við mörg sambærileg sveitarfélög. Við erum einfaldlega ekki á lista Eftirlitsnefndar um fjárhag sveitarfélaga og ekkert sem bendir til að við lendum þar.

Það er óvíða eins gott að vera fyrir bæði hestamenn og hjólhestamenn. Vissulega þarf enn úrbætur í þessum málum, einkanlega hvað varðar leiðir fyrir hestamenn suður fyrir bæinn og þar grillir sem betur fer í lausnir. Það eru óvíða ef nokkursstaðar á landsbyggðinni eins góðir hjólreiðastígar en vitaskuld þarf að efna afar gamalt og dýrmætt loforð fyrri framboða um hjólaleiðir milli kauptúnanna í sveitarfélaginu.

Vegbætur eru sömuleiðis í farvatninu. Staðreyndin er samt sú að þegar talað er um umferðarhnúta á Ölfusárbrú og slysahættu á Hellisheiðarvegi hættir okkur til að grípa í ýkjustílinn. Miðað við þær kröfur sem gerðar eru í nágrannalöndum okkar, hvort sem er í Evrópu eða Ameríku þá teljast vegirnir hér engan veginn alvarlega ofsetnir og umferðarhnútar í miðbænum okkar og á brúnni eru örfáir á árinu. Með nýrri Ölfusárbrú léttum við mikið á umferðinni og sömuleiðis eru vegbætur í Ölfusi og Hellisheiði á teikniborðinu.

Á Selfossi er ekkert við að vera, er viðkvæði margra. Þetta er einfaldlega rangt enda eru örfáir bæir á landsbyggðinni sem búa að jafn mikilli umferð og viðskiptum ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra. Hingað sækja menn margháttaða þjónustu sem er enda hlutverk bæjarins og allt í kring eru svo vinsælir áningarstaðir. Það er Selfoss sem sem nýtur góðs af þeirri umferð sem náttúruperlur Suðurlands draga til sín. Vitaskuld er brýnt að byggja einnig upp afþreyingu í bænum við ána. Undirritaður hefur sjálfur reynslu af slíkum rekstri þar sem er Sunnlenska bókakaffið og ég tel að í þessum efnum eigi einkaframtakið í bænum mikið óunnið. Þar getur hvatning bæjarstjórnar skipt miklu.

Það er dæmigert fyrir málefnafátækt minnihluta bæjarstjórnar að gera lokun Sundhallar Selfoss á opinberum helgidögum að kosningamáli. Síðast þegar opið var sumardaginn fyrsta komu um 40 ferðalangar á staðinn auk fastagesta! Óhróður manna um fuglafriðlandið er langt utan þess raunveruleika sem við aðdáendur Flóagaflshverfisins þekkjum.

Atvinnuleysi, gjaldþrot verktaka og hin hálfköruðu hverfi umhverfis þéttbýlið eru alvarleg verkefni í kjölfar frjálshyggjutímans og þau kalla á viðbrögð. En bölmóðurinn mun engu skila. Til þess að ná árangri þurfum að við að hafa jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi. Þannig getum við lyft grettistaki og gert gott sveitarfélag ennþá betra.

Gerum það.

(Birt í Sunnlenska 13. maí 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Selfoss er flottur bær.. hefði vel getað hugsað mér að setjast þar ef ísland væri land sem búandi væri í.

Óskar Þorkelsson, 16.5.2010 kl. 11:22

2 identicon

Vinstri Grænir eru búnir að halda um valdataumana hér í Árborg í 4 ár því hafa þeir ekki komið hlutunum í lag það er von að þú takir til varna fyrir 1 og 10 sæti listans

En hvaða hverfi verður heimsótt fyrir þessar kosningar Mjólkurbúshverfið var heimsótt fyrir síðustu kosningar og bankað uppá og gefin loforð hvaða hverfi næst ??

kjósandi (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 11:59

3 identicon

Það kveður nú við svolítið annan tón hjá þér en oddvita listans í grein í Dagskránni. Af orðum hennar mátti skilja að lítið sem ekkert væri gert til að njóta góðs af þeirri umferð sem er í gegn um Selfoss.

En - minni á að ef laun bæjarstjóra væru lækkuð um 10% í viðbót við þá lækkun sem varð, væri hægt að hafa sundlaugina opna allt árið miðað við þá útreiknnga sem lagðir voru fyrir bæjarstjórn. Bæjarstjórinn á Akranesi er með 750 þús á mánuði en bæjarstjóri Árborgar er með 1100 þúsund. Er þetta ekki ofrausn?

Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 12:07

4 identicon

Á Selfossi er geysileg jarðskjálftahætta. Það nægir mér til að vilja ekki búa þar.

Talli (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 14:16

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

Það er rétt að við erum á virku skjálftasvæði en nú eftir að Suðurlandsskjálftarnir tveir eru búnir, 2000 og 2008 þá er skjálftahættan meiri vestast á Suðurlandi, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. En slíku verður að taka af æðruleysi.

Bjarni Harðarson, 16.5.2010 kl. 16:38

6 identicon

Því miður virðist Eyþór Arnalds lítið hafa fram að færa annað en óyfirlýstan vilja sinn til þess að nota velgengni í bæjarstjórnarkosningum í Árborg til þess verða þingmaður fyrir Suðurland. Hann rekur því kosningabaráttuna á skítkasti og undirróðri en það lærði hann af lestri bóka um Karl Rove og aðferðir hans. Ég vil ekki trúa því fyrr en í fulla hnefana að Árborgarbúar ætli að veita honum óskorað umboð til þess að leggja sína dauðu hönd á byggðarlagið.

Sjón (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 16:47

7 identicon

Ekki hef ég orðið var við skítkast frá Eyþóri hann hefur verið málefnalegur í sínum málflutningi en það vottar fyrir skítkasti frá VG og fl í garð Eyþórs

Kjósandi (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 17:09

8 identicon

Kjósandi: Stóra skarfahræsmálið er dæmi um fátæklegan málflutning þessa manns sem á enga hugsjón aðra en persónulegan frama sinn. Þótt kastið væri máttleysislegt og drægi stutt var sá hugur sem fylgdi málinu miður hreinn.

Sjón (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 19:29

9 identicon

Skemmtileg grein hjá þér, Bjarni.

En, þú gleymir helvítis sóðaskapnum sem hér er landlægur. Hér líðst drasl og skran söfnun - jafnvel á lóðum í eigu sveitarfélagsins. Götur eru hálfkaraðar þó nánast þurfi að fara í annála til að sjá hver gatnagerðargjöldin voru - svo langt er síðan þau voru greidd.

Samt hafa hinir meintu umhverfisvinir í VG - en reyndar er umhverfisvernd þess flokks meira í ætt við kverúlantagang og sérvisku heldur en virðingu fyrir umhverfinu - setið hér við völd ásamt með vistvænum krötum.

Ég græt reyndar minnst svik Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í umhverfismálum. Það er hitt; hin sósíalíska sýn sem ég syrgi efndirnar við. Mér er meira virði að menn hafi í sig að éta en að þeir hafi "blátunnur" til að henda í umbúðunum utanaf því sem þeir höfðu aldrei efni á að kaupa.

Guðmundur Brynjólsson (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 19:34

10 identicon

Sjón

Ekki finnst mér vera faglega staðið að málum með því að dreifa hræjum um svæðið sem dregur fyrst og fremst að vargfugl og þarf ekki fuglafræðing til að sjá það .En ekki veit ég hvort hræ maðurinn er fuglafræðingur en hann getur tekið myndir hann ætti bara að snúa sér alfarið að myndatökum þar er hann á heimavelli

Kjósandi (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 20:09

11 identicon

Kjósandi: Árborg er ríkur staður að eiga tvo slíka afburðamenn, Eyþór Arnalds og þig, sem eru fróðari um fuglavernd en sá maður sem hefur staðið vaktina í friðlandinu lengur og betur en þið báðir til samans. Mig grunar að um vit ykkar á öðrum málum sé líkt farið. Enda þarf maður svo sem ekki að kunna neitt nema að níða skóinn niður af öðrum þegar göslast er áfram í valdagræðgi og sérhygli. Nenni ég svo ekki að karpa lengur við þig um skarfahræin, þú mátt eiga það þjóðþrifamál með Eyþóri.

Sjón (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband